Páskahugvekja í Íslendingasagnastíl með goðafræðiívafi

Hún er hádramatísk, páskahugvekjan í ár. Klassísk minni sem prýða Biblíuna, Íslendingasögurnar, goðafræðina og spennusögur ýmislegar skjóta upp kollinum. Bakarar eru hengdir fyrir smiði, krossfestingar njóta vaxandi vinsælda (enda páskar), vegið er grimmt úr launsátri, öldungar tala í óráðnum gátum og vita lengra en nef þeirra nær, safnað er liði og fylkingar berjast að Sturlunga sið. Sjálfskipaðir Gissurar, Kolbeinar, Sturlur, Sighvatar og Eyjólfar ofsar eru stokknir á svið og nú bíður lesandinn/áhorfandinn þess hverjir liggja í valnum að bardaga loknum. Og hvernig unnið verður úr lyktum hans.

"Þau tíðkast hin breiðu spjótin," sagði Atli Ásmundsson þegar Þorbjörn öxnamegin rak hann í gegn með fjaðraspjótinu í Grettis sögu. Gera má ráð fyrir að nú sé spjótum af ýmsum breiddum veifað í Valhöll af miklum móð. Að einhverjir liggi að lokum í valnum eða hverfi alblóðugir af orrustuvellinum og mæli djarflega af munni fram: "Þær tíðkast hinar breiðu axlirnar". Á baki þeirra hangir skilti hvar stendur skýrum stöfum: "To be continued..."

Þannig var nefnilega til forna að Óðinn safnaði þeim sem dóu í bardaga til bústaðar síns, Valhallar. Þeir börðust síðan á Iðavelli á daginn en á kvöldin átu þeir kjöt af geltinum Sæhrímni og drukku mjöð úr spenum geitarinnar Heiðrúnar. Ef ég man rétt þótti þetta eftirsóknarvert hlutskipti í þá daga.

En nú um stundir er athæfi þetta kallað "að græða á daginn og grilla á kvöldin" og hefur verið afar vinsælt hjá vissum hópi þjóðarinnar. Ef heldur sem horfir snarfækkar í þeim hópi dag frá degi eftir því sem ljóstrað er upp um blekkingarnar, hverja á fætur annarri.

Þetta voru fyrstu kaflar páskahugvekjunnar 2009. Bætt verður við eftir því sem fram vindur sögunni. Miðað við efnistök hugvekjunnar má búast við að sumarsmellurinn í ár fjalli um styrki til einstakra frambjóðenda í öllum flokkum, jafnt í prófkjörum, alþingis- og sveitastjórnarkosningum undanfarinna ára. Við bíðum spennt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þú setur þessa speki HHG í alveg nýtt og spennandi samhegni með því að flétta henni svona saman við fornsögur og norræna goðafræði Nú, og er þessi samanburður ekki fullkomlega eðlilegur? m.a. þegar nútímanafngiftin útrásarvíkingur er höfð í huga. Víkingarnir sem urðu einherjar í Valhöll eftir dauðann stóðu jú í bardögum til að græða og miðað við það sem segir í Snorra-Eddu um að þeir hafi nærst á galtarkjöti að kvöldi þá er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir að það hafi verið grillað.

Niðurstaðan er sem sagt sú að víkingar, sem voru í flestum tilvikum gráðugir og ofbeldisfullir, á öllum tímum hafa einbeitt sér að því að græða á daginn og grilla á kvöldin. Mér finnst reyndar ljóst að sumir þeirra sem gista Valhöll í dag hafi grillað í sér toppstykkið og siðferðiskenndina á meðan þeir stóðu yfir gasgrillunum og biðu þess að kvöldmáltíðin glóðaðist mátulega

Nú er bara að vona að siðferðiskennd kjósenda sem hugðust exxa við Déið í komandi kosningum sé ekki jafn grilluð!

Es: Ég má til að bæta því við að mér finnst liggja í augum uppi að það er rík ástæða til að skoða Kjartan Gunnarsson sérstaklega vel. Það er kannski ljótt að segja það en ég held að peðunum verði fórnað fyrir kóngana en það mætti líka fylgjast með því hvað verður um þau eins og Andra Óttarsson.

Að lokum: Takk fyrir þessa samantekt!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.4.2009 kl. 00:20

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

„Óðinn setti lög í landi sínu, þau er gengit höfðu fyrr með Ásum. Svá setti hann, at alla dauða menn skyldi brenna ok bera á bál með þeim eign þeirra; sagði hann svá, at með þvílíkum auðæfum skyldi hverr koma til Valhallar, sem hann hafði á bál; þess skyldi hann ok njóta, er hann sjálfr hafði í jörð grafit: en öskuna skyldi bera út á sjá eða grafa niðr í jörð.“ (8. Lagasetning Óðins, úr Ynglingasögu)

Emil Hannes Valgeirsson, 11.4.2009 kl. 00:53

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það er aldrei að vita nema að reyfarakenndar ársskýrslur stjórnmálaflokkanna verði útgefnar og á metsölulistum í sumar. Ég leyfi mér að benda á eigin færslu um einkennilega háan rekstarkostnað Samfylkingarinnar árið 2007 þó svo að það sé heldur óspennandi miðað við suma aðra flokka árið þar á undan.

Sigurður Hrellir, 11.4.2009 kl. 02:04

4 identicon

Er þetta páskahugvekja eða páskahrollvekja?

Sonja (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 02:20

5 identicon

Lára Hanna, Þú ert engum lík. Þessi samantekt þín er betri en nokkur fréttastofa gæti gefið.

Já, fyrst hrundi Ísland og auðvitað fylgir flokkurinn sem olli hruninu með. Svona smá bónus.

Good Riddance, eins og þeir segja á ensku. 

Fylgjumst spennt með framhaldinu, skítabotninum verður greinilega seint náð.

Spillingin algjör....

Kærar þakkir fyrir að halda vöku okkar allra,

Aðdáandi fyrir Vestan

DoraB (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 03:28

6 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Svo er að sjá að "Búsáhaldabylting" hafi eitthvað truflað "Græðum á daginn, grillum á kvöldin" lífsformið!

Kjartan Pétur Sigurðsson, 11.4.2009 kl. 09:04

7 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Flott umfjöllun ... gallsúrt ástand 

„Ef þú vilt vera þjófur - skaltu hlusta vel á mig. Steldu nógu miklu og þá semja þeir við þig. Sá sem stelur litlu, skilur ekki baun, í hvernig kerfið virkar og að lokum lendir inná Litla Hraun“ ljóðlína úr lagi af nýjum diski sem við erum að leggja lokahönd á Mannakorn.

Pálmi Gunnarsson, 11.4.2009 kl. 15:36

8 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Ekki eru allar ferðir til fjár, sagði bóndinn á leiðinni í fjósið.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 11.4.2009 kl. 22:09

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Góð pæling Lára Hanna.

Gleðilega páska kæra bloggvinkona - njóttu hátíðanna.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.4.2009 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband