Rökstuddur grunur um glæpi?

Kompássmaðurinn Kristinn Hrafnsson byrjaði sumarafleysinguna með trukki á RÚV í kvöld. Hann fjallaði um myrkraverkin sem framin voru hjá Kaupþingi dagana áður en bankinn var yfirtekinn - og þau eru vægast sagt svakaleg. Kristinn boðaði framhald næstu kvöld og vísaði í síðuna WikiLeaks.

Fjallað var um lán Landsbankans til fyrirtækja sem tengd eru eigendum hans hér og hér. Nú var það Kaupþing - og sukkið... maður minn! Þetta er það sem við erum að borga fyrir - og þetta líka. Og fleira og fleira.

Fréttir RÚV - Kristinn Hrafnsson - 31. júlí 2009

Kristinn segir í fréttinni að lán Kaupþings til 11 fyrirtækja í Existu-hópnum, að Skiptum meðtöldum, séu upp á rúmlega 300 milljarða króna að núvirði. Bara þau lán eru tæpur helmingur af Icesave-skuldinni. Sjáið þetta bara. Upphæðir eru í milljónum evra og gengið er rétt um 180 krónur.

Lánabók Kaupþings - Exista

Í glæruskjalinu sem fjallað er um og kallað er "Meeting of the Board of Directors - Annual Large Exposure Reporting" er bara fjallað um lán frá 45 milljónum evra, sem mér reiknast til að séu 8,1 milljarður króna. Þetta er ótrúlegt skjal og þar kennir ýmissa grasa. Ég hengi það hér neðst í færsluna ef fólk vill taka þátt í að rjúfa þá vernd sem bankaleynd veitir þessum mönnum. Ég skora á alla bloggara og netmiðla að birta þetta - þá hafa þeir nóg að gera í lögsóknunum, blessaðir.

Skoðið þetta vandlega með reiknivél við hönd til að fá íslensku upphæðirnar. Hvað varð um alla þessa peninga? Hvernig stendur á að ekki er búið að frysta, kyrrsetja, haldleggja... hvað sem við köllum þann gjörning að hirða af þeim það sem þeir stálu og ætla að láta okkur borga. Í lögum nr. 88/2008 - gr. 68 og 88 - er fjallað um slíkt og þar er vísað í lög nr. 31/1990 sem beinlínis fjalla um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Hér er tilvitnun í gr. 68 og 88 í fyrrnefndu lögunum:

Lög nr. 88/2008 - gr. 88

Hrunstjórnin gerði ekkert í þessum málum í haust - EKKERT. Hugsið ykkur ef sú stjórn hefði haft döngun í sér til að frysta allt strax og hindra öll stór viðskipti. Værum við í annarri stöðu í dag? Hefði þessu fólki tekist að mjólka bankana og fjárhirslur þjóðarinnar eins og raun virðist bera vitni? Munið þið eftir þegar Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra "til nokkurra daga" rétt áður en bankinn féll? Það eru 90 milljarðar íslenskra króna á núvirði. Einn sjöundi hluti Icesave. Hvað varð um þá peninga í ljósi þessara Kaupþingslána og meintra undanskota stærstu eigenda í skattaskúmaskot?

Er ekki kominn tími á gjalddaga?

Stöð 2 og RÚV 28. júlí 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 31. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband