Friðhelgi heimilanna

Staksteinar Morgunblaðsins 4. júlí 2009Ég fékk tölvupóst frá vinkonu minni í morgun. Hún hafði verið að lesa Staksteina Morgunblaðsins. Henni fannst undarlegt að staksteinahöfundur skyldi gagnrýna fólk fyrir að skvetta málningu á hús auðmanna og segja: "En heimili fólks eru friðhelg. Og þau eiga ekki að vera vettvangur mótmæla af neinu tagi." Þessir sömu auðmenn hafa hins vegar svipt fjölmarga heimilum sínum af ótrúlegri ófyrirleitni og steypt öðrum heimilum í þvílíkt skuldafen að þeim eru allar bjargir bannaðar. Engin leið er að segja til um hvernig ótal heimilum mun reiða af í framtíðinni með þann skuldabagga á bakinu sem íslensku þjóðinni hefur verið skenktur... af téðum auðmönnum. Hvar er friðhelgi heimila þessa fólks? Verður tekið tillit til friðhelgi heimila þessara fjölskyldna þegar þær verða bornar út vegna skulda auðjöfranna? Ætli Staksteinn dagsins hafi íhugað það?

Staksteinn þessi segir ennfremur: "Það er glæpsamlegt að ráðast að heimilum fólks. Friðhelgi heimilisins er grundvallaratriði í samfélagi okkar." En miðað við hamfarir undanfarinna mánaða eru bara sum heimili friðhelg, önnur ekki. Sumir rétthærri en aðrir. Ef ræða á um grundvallaratriði í samfélagi okkar ættum við kannski að byrja á að ræða um réttlætið

Annar vinsæll frasi hjá þeim, sem verja útrásardólga, bankamenn og aðra auðjöfra er að höfða til tilfinninga fólks um fjölskylduna. Konurnar og börnin. "Hafa ætti í huga að einstaklingarnir, sem um ræðir, eiga flestir fjölskyldu, maka og börn, sem ekkert hafa til saka unnið og enga ábyrgð bera," segir Staksteinn. Það sagði Hannes Smárason líka í yfirlýsingu sinni frá 24. júní sem sjá má hér. Hannes segir þar: "...Engu að síður er nauðsynlegt að vanda umfjöllun um viðkvæm mál og fara hægt í að kynda undir galdrabrennurnar því að í öllum tilvikum eru börn og fjölskyldur sem tengjast viðkomandi aðilum." 

Í þessu samhengi velti ég fyrir mér hvort Hannes Smárason og aðrir hans líkar hafi íhugað afleiðingar gjörða sinna fyrir fjölskyldur sínar áður en þeir frömdu þá gjörninga sem gerðu þá að auðjöfrum á kostnað almennings á Íslandi. Áður en þeir, vitandi vits, ryksuguðu fé út úr bönkum og fyrirtækjum sem jafnvel hafði tekið marga áratugi að byggja upp og þeim tókst að rústa á örfáum árum. Ég spyr líka hvort dópsalar og -smyglarar, ofbeldismenn, nauðgarar, ótíndir þjófar og aðrir glæpamenn eigi ekki líka fjölskyldur sem þarf að taka tillit til. Geta þeir höfðað til meðaumkvunar á sama hátt? Eða allar fjölskyldurnar sem þetta fólk hefur lagt í rúst með gjörðum sínum. Hvað með þær? Verðskulda þær ekki að tekið sé tillit til þeirra? Bera þær einhverja ábyrgð?

Það þarf enginn að segja mér að eiginkonur auðmannanna hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera. Og einhverjar að minnsta kosti tekið þátt í því, þótt ekki væri nema að eyða peningunum til dæmis í ofurlúxusferðir eins og þessar á meðan Ísland brennur. Ef eitthvað bærist í höfði þessara kvenna vita þær, að eyðslueyririnn var illa fengið fé. Lánsfé sem íslenska þjóðin þarf að borga. Ég held líka að eiginkonurnar þurfi að hafa verið ansi meðvitundarlausar til að vita ekki að verið var að skrifa á þær eignir og nota nöfn þeirra í vafasömum tilgangi. Eins og t.d. þegar Sigurjón Þ. Árnason notaði nöfn mágkonu sinnar og eiginkonu til að komast yfir Landsbankabenzinn sinn eins og sagt var frá í DV 16. júní sl

Og það þarf enginn að segja mér að eiginkonur þessara manna hafi ekki vitað af því sem Lóa Pind Aldísardóttir lýsir hér - og tekið fullan þátt í því. Eigum við að vorkenna þessu fólki? Þótt ég myndi aldrei skvetta málningu á neins manns hús held ég samt að ég hafi ekki geð í mér til þess.


Bloggfærslur 4. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband