Friðhelgi heimilanna

Staksteinar Morgunblaðsins 4. júlí 2009Ég fékk tölvupóst frá vinkonu minni í morgun. Hún hafði verið að lesa Staksteina Morgunblaðsins. Henni fannst undarlegt að staksteinahöfundur skyldi gagnrýna fólk fyrir að skvetta málningu á hús auðmanna og segja: "En heimili fólks eru friðhelg. Og þau eiga ekki að vera vettvangur mótmæla af neinu tagi." Þessir sömu auðmenn hafa hins vegar svipt fjölmarga heimilum sínum af ótrúlegri ófyrirleitni og steypt öðrum heimilum í þvílíkt skuldafen að þeim eru allar bjargir bannaðar. Engin leið er að segja til um hvernig ótal heimilum mun reiða af í framtíðinni með þann skuldabagga á bakinu sem íslensku þjóðinni hefur verið skenktur... af téðum auðmönnum. Hvar er friðhelgi heimila þessa fólks? Verður tekið tillit til friðhelgi heimila þessara fjölskyldna þegar þær verða bornar út vegna skulda auðjöfranna? Ætli Staksteinn dagsins hafi íhugað það?

Staksteinn þessi segir ennfremur: "Það er glæpsamlegt að ráðast að heimilum fólks. Friðhelgi heimilisins er grundvallaratriði í samfélagi okkar." En miðað við hamfarir undanfarinna mánaða eru bara sum heimili friðhelg, önnur ekki. Sumir rétthærri en aðrir. Ef ræða á um grundvallaratriði í samfélagi okkar ættum við kannski að byrja á að ræða um réttlætið

Annar vinsæll frasi hjá þeim, sem verja útrásardólga, bankamenn og aðra auðjöfra er að höfða til tilfinninga fólks um fjölskylduna. Konurnar og börnin. "Hafa ætti í huga að einstaklingarnir, sem um ræðir, eiga flestir fjölskyldu, maka og börn, sem ekkert hafa til saka unnið og enga ábyrgð bera," segir Staksteinn. Það sagði Hannes Smárason líka í yfirlýsingu sinni frá 24. júní sem sjá má hér. Hannes segir þar: "...Engu að síður er nauðsynlegt að vanda umfjöllun um viðkvæm mál og fara hægt í að kynda undir galdrabrennurnar því að í öllum tilvikum eru börn og fjölskyldur sem tengjast viðkomandi aðilum." 

Í þessu samhengi velti ég fyrir mér hvort Hannes Smárason og aðrir hans líkar hafi íhugað afleiðingar gjörða sinna fyrir fjölskyldur sínar áður en þeir frömdu þá gjörninga sem gerðu þá að auðjöfrum á kostnað almennings á Íslandi. Áður en þeir, vitandi vits, ryksuguðu fé út úr bönkum og fyrirtækjum sem jafnvel hafði tekið marga áratugi að byggja upp og þeim tókst að rústa á örfáum árum. Ég spyr líka hvort dópsalar og -smyglarar, ofbeldismenn, nauðgarar, ótíndir þjófar og aðrir glæpamenn eigi ekki líka fjölskyldur sem þarf að taka tillit til. Geta þeir höfðað til meðaumkvunar á sama hátt? Eða allar fjölskyldurnar sem þetta fólk hefur lagt í rúst með gjörðum sínum. Hvað með þær? Verðskulda þær ekki að tekið sé tillit til þeirra? Bera þær einhverja ábyrgð?

Það þarf enginn að segja mér að eiginkonur auðmannanna hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera. Og einhverjar að minnsta kosti tekið þátt í því, þótt ekki væri nema að eyða peningunum til dæmis í ofurlúxusferðir eins og þessar á meðan Ísland brennur. Ef eitthvað bærist í höfði þessara kvenna vita þær, að eyðslueyririnn var illa fengið fé. Lánsfé sem íslenska þjóðin þarf að borga. Ég held líka að eiginkonurnar þurfi að hafa verið ansi meðvitundarlausar til að vita ekki að verið var að skrifa á þær eignir og nota nöfn þeirra í vafasömum tilgangi. Eins og t.d. þegar Sigurjón Þ. Árnason notaði nöfn mágkonu sinnar og eiginkonu til að komast yfir Landsbankabenzinn sinn eins og sagt var frá í DV 16. júní sl

Og það þarf enginn að segja mér að eiginkonur þessara manna hafi ekki vitað af því sem Lóa Pind Aldísardóttir lýsir hér - og tekið fullan þátt í því. Eigum við að vorkenna þessu fólki? Þótt ég myndi aldrei skvetta málningu á neins manns hús held ég samt að ég hafi ekki geð í mér til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

....jafnvel hvarflar að manni að þeir skýli sér á bak við konur og börn - hetjurnar........

Hrönn Sigurðardóttir, 4.7.2009 kl. 23:32

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Góð, enn eina ferðina.....og Hrönn líka.

Sigrún Jónsdóttir, 4.7.2009 kl. 23:42

3 Smámynd: Eygló

Heldur þykir mér þetta fegraðir titlar á þjófum og glæpamönnum:

"...  fyrrverandi framámanna í íslenzku viðskiptalífi ..."

Verðmæti barnssálanna fer e.t.v. eftir auðæfum feðranna?

Eygló, 5.7.2009 kl. 00:05

4 identicon

Ég veit að þetta hljómar sem þráhyggja, Lára. En allir þeir sem enn borga á þriðja tug þúsunda fyrir áskrift á ári að Morgunblaðinu trúa því og treysta að líkt og mjólkin sé blað dagsins hreint og hollt. Á blogginu skrifa menn bókstaflega um "upprisu Davíðs". Veit fólk ekki að blað sem birtir slíkt drottingarviðtal við mann sem var við æðstu völd á mörgum póstum í tvo áratugi og að öllum líkindum hefur skaðað þjóðina meir en Gissur jarl. Ætla menn enn að draga þýðlega BLaðið úr póstkassanum hvern morgun og lesa um "glæpsamlegar árásir á heimili manna? Sjálfur hef ég ekki verið með áskrift af blaðinu frá 1985 og kemst ágætlega af. Þarf stundum að spyrja eins og þegar Hjörtur J. ærist yfir einhveri grein sem styður aðildarviðræður við ESB. Er líklegast farinn að hljóma eins og Catu gamli: Ceteram censeo Morgunblaðið delectam esse.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 00:19

5 Smámynd: Bergur Thorberg

Sammála kæru vinir........ er ekki kominn tími til að tengja......????

Bergur Thorberg, 5.7.2009 kl. 01:42

6 identicon

Hvað er að kvarta? Stendur nýi ritstjórinn sig ekki,  Baugsforstjórinn fyrrum? Var hann ekki ráðin á ákveðnum forsendum og er hann ekki að standa sig bara bærilega?

Er hann ekki gæinn sem slapp við rannsóknina, þegar Jón Ásgeir og þeir voru teknir á beinið hjá Skattrannsóknastjóra Íslands og Davíðs? Var hann til þess geymdur fyrir þetta??????  Kann einhver samhengið í þessari sögu? 

Oli (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 02:51

7 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Ég sé ekki betur en að bankar og fjármögnunarfyrirtæki af ýmsum toga rukki og hamist á skuldurum sem aldrei fyrr. Það þykir ekkert tiltökumál að hrúga kostnaði frá innheimtulögfræðingum ofan á kröfur til fólks sem missti alla undirstöðu og atvinnu við bankahrunið. Það er nú öll friðhelgin sem heimilum landsins er sýnd. 

Ólafur Eiríksson, 5.7.2009 kl. 03:59

8 identicon

Já það er Ókei að ganga á heimili almúgans en ekki þessara auðmanna sem fela sig bakvið EHF, þetta lið virðist skorta

alla sóma og heiðurstilfiningu. Þeir höfðu átt að hugsa meira um börnin sín en að græða meira og meira peninga..

Jóhannes (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 06:24

9 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Nú ætla ég ekki að verja þessa útrásarvíkinga en að réttlæta skemmdarverk á húsum þeirra finnst mér fráleitt. Er það næst réttlætanlegt að ráðast á þá og meiða líkamlega. Trúi ekki á dómstóla götunnar. Lára Hanna hvað ef einhverjum finnst þú ganga of langt, ert þú þá orðin réttlætanlegt skotmark? Við eigum að hafa lög sem ná yfir þá glæpi sem framdir hafa verið og þá er bara spurningin um hversu hratt er hægt að vinna til þess að dæma þá sem til þess hafa unnið.

Sigurður Þorsteinsson, 5.7.2009 kl. 09:59

10 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Það sem þú ert að bera saman þarna eru beinar og óbeinar árásair á friðhelgi heimilanna.

Þó svo að ég verði eflaust síðasti maðurinn til þess að verja gjörðir útrásarvíkinganna en ég leyfi mér stórlega að efast um að það hafi verið á aðalatriði á dagskrá Hannesar Smárasonar eða einhverra annarra að standa í þessu öllu saman með það að markmiði að knésetja Gunnu Jóns í Æsufellinu og setja hana og hennar fjölskyldu á götuna.

Magnús V. Skúlason, 5.7.2009 kl. 10:19

11 identicon

Mjög góð grein Lára Hanna. Og þú þarna Sigurður Þorsteinsson. Lestu grein Láru aftur, en þú virðist ekki hafa skilið hana, þó ekki mjög krefjandi. Hún skrifar um friðhelgi heimila, sem hægt er að brjóta og saurga á fleiri vegu en með málningu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 10:21

12 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Við verðum að finna lögin sem eiga við auðgunar glæpi af verstu tegund einsog Hannes Smárason og hinir nótar hans stóðu fyrir. Ef lögin vantar verður að setja ný lög sem tryggja að slíkt gerist aldrei aftur. Það verður að hundelta þetta fólk einog um eiturlyfjasmyglara sé að ræða. Enda valda þeir meira tjóni en slíkir af því að þeir fá að leika lausum hala sem eiturlyfja skúrkarnir fá ekki. Skipulögð glæpastarfsemi sem tók yfir banka og fjölmiðla og rændu bankana í skjóli viðskiptaleyndar. Aldrei aftur má viðskiptaleynd fela glæpi gegn þjóðfélaginu.Okkur var talin trú um fram á síðasta dag að þetta væru einkabankar og sem slíkir algerlega úr lögum við samfélagið og þar með bærum veið heldur enga ábyrgð á þeim. Það hefur síðan reynst heldur betur fjarri sanni. Allt þeirra verður að gera upptækt til ríkissjóðs til luktar skuldum sem þeir stofnuðu til. Setja þarf á fót 'Simon Wiesenthal-stofnun' sem gefur þeim ekki grið sem undan flýja þar sem þeir eiga eftir ólifað. Vitorðsmenn þar með talda lögfæðinga og endurskoðendur verður að taka sömu tökum og aðeins gefa grið ef þeir geta leitt til fellandi dóma geng höfuðpaurunum. Ef við gerum þessi mál ekki upp af einurð og hörku byggða á réttlætiskennd fórnarlambanna munum við missa sjálsfvirðinguna sem ég hélt að væri okkur svo dýrmæt. Réttlæti er að leiðrétta. Ég vil heldur takast á við að gengið sé 'stundum full langt' í réttlætinu en að því verði ekki beitt. Sennilega þarf þrennt til að ná utanum réttlætiskröfuna: Sérstakur saksóknari, Sérstakur dómstóll sem dæmir eftir sérstakri löggjöf á borð við 'hryðjuverkalöggjöf'. Landslög sem hafa bara hingað til náð að dómfella innbrotsþjófa og bókhaldsfalsara í kirkjusóknum og minniháttar þingnefndum ræður ekki við glæpi á þessum skala. Gleymum því. Verði ekkert að gert hljóta að koma upp skipulagðir eða óskipulagðir hópar fólks sem lætur sér ekki nægja að svetta málningu á heimili skúrkanna. Ábyrgðin er ríkisvaldsins að uppgjörið fari fram eftir leikreglum sem siðaðar manneskjur kjósa. Þá gætum við aftur fengið respekt meðal viðskiptaþjóða okkar. (ég fékk smá bakþanka hvort rétt sé að setja fram skoðanir einog hér að ofan enda kannski ekki alveg í mínum karakter amk hingað til en kannski er ég farinn að breytast og fleiri sem áður lifðu í sómakæru afskiptaleysi smáborgarans).

Gísli Ingvarsson, 5.7.2009 kl. 10:26

13 identicon

Þetta er mjög gott innlegg hjá þér Lára, orð í tíma töluð. Ég vona innilega að réttlæti nái til þessa víkinga sem og skósveina og lögmanna þeirra. En við megum ekki beita ofbeldi gagnvart einum eða neinum, þá föllum við niður á sama plan og þeir. En ég játa að ég græt það þurrum tárum þó einhver máli húsin þeirra rauð eða skeri á dekk á silfurlitiðum Range Rover. Barnaskapur, en ...

Bjarni Júlíusson (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 10:29

14 Smámynd: Heiða B. Heiðars

"beinar og óbeinar árásir"....kræst.... eru engin takmörk fyrir því hvað fólk getur verið hallærislegt inni í pappakassanum sínum!

Ég gef ekki eyri í friðhelgi einkalífs þessara manna. Á meðan ég sé lítinn sem engan pólitískan vilja til taka þessa náunga í karphúsið þá heldur þetta áfram... og ég mun hvetja til þess

takk Lára Hanna

Heiða B. Heiðars, 5.7.2009 kl. 10:54

15 identicon

Staksteinar eiga efaust líka við hús Björgólfs sem líka var slett á málningu. Hins vegar er varla hægt að tala um það sem heimili þeirra, búa ekki þar. Og eiga Staksteinar líka við þessar þrjár húseignir Hannesar í Boston? Eru börn hans og familja þar?

Dísa (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 11:21

16 identicon

Lára Hanna.

Takk fyrir frábæra grein. Nú bíður maður bara eftir að bæði tíma og peningum lögreglu verði varið í rannsókn á þessu málingarslettumáli. Því miður hefur það alltaf verið þannig að þeir sem fremja hvítflibbaglæpi hafa alltaf sloppið og með sama seinagangi í dómskerfinu verður örugglega sama uppá teningnum núna. Ég tek sérstaklega undir með þér Lára með eiginkonurnar, það þarf enginn að segja mér að þær hafi ekki vitað hvað var um að vera og hvert stefndi Allvega komu peningar sér vel þar sem annað staðar. Og Gísli það á ekki að gefa þessum mönnum neinn grið frekar en eiturlyfjasölum því eins og þú sagðir, þessir menn ganga enn lausir og það sem meira er, litlar sem engar eignir hafa verið gerðar upptækar.

Lára ég les þig oft, finnst þú yfirleitt skrifa góðar greinar og þessi er í betri kantinum, haltu áfram á sömu braut

Guðrún Óladóttir

Guðrún Óladóttir (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 11:35

17 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Eftirfarandi má lesa hér:
http://www.heimilin.is/varnarthing/ 

,,Könnun sem framkvæmd var meðal félagsmanna í samtökunum í byrjun júní sýnir að afgerandi meirihluti félagsmanna er ekki að ná endum saman. Meirihluti, eða 61% félagsmanna er ekki að ná endum saman með tekjum sínum, er annað hvort að gjaldþrota eða á leið þangað, safnar skuldum eða að ganga á sparifé sitt.  Jafnframt kemur fram að hlutfallslega fleiri, eða 85% þeirra sem eru með gengistryggð lán eru ekki að ná endum saman.  Ætla má að þessi staða endurspegli þokkalega stöðuna í samfélaginu (sjá nánar meðfylgjandi).Alls 44% félagsmanna telja frekar eða mjög litlar líkur á því að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar næstu sex mánuði.  Svarendur með erlend lán og blönduð lán telja síður líkur á því að þeir geti geti staðið við skuldbindingar sínar, eða alls 51% þeirra sem eru eingöngu með erlend lán og 52% þeirra sem eru með blönduð lán telja að þeir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar á næstu sex mánuðum.

Í opnum spurningum kemur fram að fólk er farið að neita sér um ýmsar nauðsynjar og er þar helst nefnt tannlækningar, en einnig tómstundir og afþreying af ýmsum toga fyrir hvoru tveggja börnin sem fullorðna í heimili. Einnig eru margir sem nefna lyf og læknaþjónustu, ferðalög, bensín, gjafir, fatnað, skó, gleraugu og viðhald húsnæðis svo eitthvað sé nefnt."

Einnig má lesa athugasemdir HH við niðurstöður Seðlabankans og tillögur HH í Velferðarvakt félagsmálaráðuneytisins.

Að endingu hvet ég landsmenn alla til að skrá sig í Hagsmunasamtök heimilanna.

Þórður Björn Sigurðsson, 5.7.2009 kl. 11:40

18 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sammála þér Lára og öllum þeim sem ljá máls á sömu skoðun. Við eigum ætíð að virða friðhelgi heimilanna og láta fremur lögregluna og dómstólana um að heimsækja grunaða sakamenn.

Í vetur þegar við kröfðumst afsagnar vissra ráðamanna t.d. Davíðs Oddssonar, þá voru heimili þeirra látin í friði. Við eigum að vera stolt af því að þó svo okkur hafi ekki líkað þessir menn, þá var friðhelgi heimila þeirra virt.

Sá sem hyggst svívirða þennan rétt, tekur á sig meiri ábyrgð en ella sem hann e.t.v. gerir sér ekki grein fyrir. Með því er hann að ráðast almennt gegn þessum rétti sem allir eiga að njóta.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 5.7.2009 kl. 11:52

19 Smámynd: Sigurður Hrellir

Fyrir nokkrum dögum heyrði ég athyglisverða frásögn konu sem hefur búið á Fjölnisveginum í næsta nágrenni við Hannes og eignarhaldsfélagið hans. Hún sagði að í öðrum garðinum hafi staðið alfriðað tré sem fyrri eigandi hússins hafði reynt að fá leyfi til að skera af örfáar greinar. Honum var synjað um þetta leyfi af borgaryfirvöldum og við það sat.

Eftir að Hannes og eignarhaldsfélagið hans keyptu húsið var hins vegar tréið sagað niður án þess að fá leyfti til þess. Auk þess var brotinn niður steyptur garður á lóðarmörkunum sem einnig var friðaður án þess að Hannes hirti um að fá leyfi yfirvalda til þess.

Í ljósi þess að fyrirtæki tengd Hannesi greiddu fúlgur fjár í sjóði ákveðinna stjórnmálaflokka og einstakra frambjóðenda er freistandi að draga þá ályktun að þetta hafi verið kaup kaups - Hannes taldi sig hafa greitt fyrir leyfisveitinguna.

Sigurður Hrellir, 5.7.2009 kl. 12:16

20 identicon

Takk fyrir frábæra grein Lára Hanna. Ég tek líka undir orð Gísla hér að ofan, hér ætti að koma á fót eins konar "Simon Wiesenthal"-stofnun sem nær til landráðamannanna hvar sem þeir í heiminum halda sig. Ég er líka sammála því að hér verður að setja sérstakan dómstól sem dæmir í þessum málum þegar þar að kemur. Ég get ekki séð Jón Steinar Gunnlaugsson o.fl. dæma í þessum málum.

Að lokum: Valtýr Sigurðsson þarf að fara í leyfi NÚNA:

Kolla (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 13:01

21 identicon

Ef væntanlegir dómar fullnægja ekki réttlætiskennd almennings mun dómstóll götunnar laga það sem upp á vantar.

Kolla (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 13:04

22 identicon

 Kærleikurinn er ekki fólgin í að: stela, svíkja, ljúga og blekkja!

Óður til kærleikans, 13. kafli Fyrra Korintubréfs, 4.-8. vers:Kærleikurinn er eigi meinbæginn. Kærleikurinn gjörir ekkert illmannlega. Eigiblæs hann sig upp, eigi stærir hann sig. Eigi leitar hann þess hvað hans er. Eigiverður hann til ills egndur, hann hugsar ekki vondslegt. Eigi fagnar hann yfirranglætinu, en fagnar sannleikanum. Hann umber alla hluti, hann trúir öllu,hann vonar allt, hann umlíður alla hluti. Kærleikurinn hann doðnar aldri þóttspádómurinn hjaðni og tungumálunum sloti og skynseminni linni. Úr Oddstestamenti -  Oddur Gottskálksson 

Helga Björk Magnúsd. Grétudóttir (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 14:01

23 Smámynd: Þ.Jónsson

Maður furðar sig eiginlega á að ekki hafi verið gripið til rótækari aðgerða. Engar íkveikjur, engir mannsbanar. Aðeins málning, og menn gera það að einhverju máli. Vissulega eru það eignaspjöll en hvað eru ekki eignaspjöll? Hvað eru helgispjöll? Hvers virði eru mannslíf á móti nokkrum lítrum að vatnsmálningu?

Kveðja ÞJ

Þ.Jónsson, 5.7.2009 kl. 14:35

24 identicon

Með græðgi hafa þessir útrásaraumingjar dæmt börn sín og maka til útlegðar og jafnvel barnabörn,ekki er það sök almennings í þessu landi en mér finnst of lítið gert úr hlutverki pólitíkusana í þessu máli og allra þeirra manna sem áttu að standa vaktina en gerðu ekki því þeir þáðu mútur frá þjófunum.Ég vill losna við allt þetta lið og ef dómstólar geta ekki dæmt þessa glæpamenn vegna þess að glæpamennirnir eiga dómstólana þá á dómstóll götunar að dæma þá og ekki sýna þeim neina miskun.ÞAÐ ÞARF AÐ STOFNA SVONA DÓMSTÓL!!!!!

jakob (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 15:17

25 identicon

Ég var einmitt að hugsa það sama um Hannes Smárason með friðhelgi heimilisins, að honum finnist allt í lagi að svíkja og pretta, en svo má ekki hrófla við honum vegna friðhelgi heimilisins. Hann hefði betur átt að hugsa um afleiðingar gjörða sinna áður en hann gerði það sem hann gerði. Einnig var góð samantektin hjá henni Lóu Pind Jensdóttur

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 20:23

26 identicon

Ég er nú alveg hissa að ekki skuli vera búið að skvetta meiri málningu á þessi heimili auðvaldsspekúlanta. Ég hef ekki aldurinn með mér í svona aðgerðir en ég styð þær  heilshugar, og vona að einhver opni reikn. svo ég geti lagt fram skerf til málningakaupa.  Nú er mál að þessir spekúlantar fari að finna fyrir hvernig litið er á þá hér á landi og víðar.

J.þ.A (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 21:22

27 identicon

Háttvirtir örykjar og eldri borgarar!
       Eftirfarandi heilsíðuauglýsing birtist í Morgunblaðinu í dag, sunnudaginn 5. júlí 2009, (Gæti verið í Fréttablaðinu á morgun).
 - Vinsamlega takið auglýsinguna úr blaðinu og komið henni niður á Austurvöll á morgun, eða næstu daga!
  • Aðgerðarhópur Háttvirtra Örykja, efnir til friðsamlegra mótmæla á Austurvelli, mánudaginn, 6. júlí eftir hádegi kl: 14:00.
  • Ætlunin er að hengja eftirfarandi auglýsingu í hundraðavís, upp á þvottasnúrur á Austurvelli og festa með þvottaklemmum, sem verða á staðnum.
  • Einnig er ekki úr vegi að hengja sitthvað fleira á þvottasnúruna t.d ljóð og sokka ofl. allt eftir hugmyndaflugi, hvers og eins.
Aðgerðarhópur Háttvirtra Örykja.

Helga Björk Magnúsd. Grétudóttir (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 00:52

28 Smámynd: Dúa

Enn og aftur er fólk eða bera saman epli og appelsínur. Það er ekki hægt að leggja það að jöfnu að fólk missi heimili sín vegna fjárskuldbindinga sem hækkuðu upp úr öllu valdi að hluta til vegna gjörða ákveðinna manna og því að fólk ráðist beint að heimili fólks og skemmi þau.

Við höfum lög og dómstóla í þessu landi. Við erum ennþá réttarríki. Reiði getur ekki réttlætt að almenningur taki lögin í sínar hendur. Ef að það er almenn stemmning fyrir því að skemma heimili manna sem fólk er reitt út í, þá hef ég verulegar áhyggjur af því sem mun gerast. Hvar dregur dómstóll götunnar mörkin? Má lemja þetta fólk? Eiginkonurnar pottþétt skv. færslunni. Ofbeldi og eyðilegging skilar engu.

Við þurfum ekki að vorkenna neinum en við þurfum heldur ekki að leggja blessun okkar yfir skemmdarverk og lögbrot.

Ég held að fólk ætti aðeins að slaka á og anda inn og út áður en það lofsamar svona.

Og Heiða þú ert að hvetja til lögbrota með kommenti þínu og það eitt og sér er refsivert.

Dúa, 6.7.2009 kl. 01:24

29 identicon

Það verður ekkert gert við þetta fólk sem búið er að svipta bæði land og þjóð ærunni.  Eini möguleikinn sem almenningur á í stöðunni er að sýna yfirvöldum hvað á að gera við alvöru glæpamenn. (Lalli Johns) er of smátækur til að vera með í þessarri grúppu.  Mála bæði hús og bíla, merkja þetta fólk rækilega í bak og fyrir.  Svo helst það hrökklist úr landinu og sjáist aldrei aftur.

J.þ.A (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 04:51

30 identicon

Ágætu bloggarar

Styttingur (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 23:12

31 identicon

Ég leyfi mér að efast um að nokkrir sem í umboði okkar starfa núna og áður hafi raunverulegan áhuga á að draga menn og konur til ábyrgðar í þessu máli. Hinir svokölluðu útrásarvíkingar skuldsettu þjóðina og eftirlitsstofnanir og seðlabankinn vissu af því. Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde fóru í víking til þyrla ryki í augu erlendra stjórnvalda og sparifjáreigenda Icsave vitandi að allt væri að fara til helvítis. Það tókst þó ekki. Það hefur margoft komið fram að búið var að vara þau við. Meira að segja voru evrópskir blaðamenn búnir að benda á þetta og greina frá tortólareikningum og fleiru. Ekkert var gert til að afstýra þessu.

Styttingur (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 23:14

32 Smámynd: Héðinn Björnsson

Lögin hafa ekkert siðferðislegt gildi þegar þau verja stuld auðmanna en setja fátæklinga í fangelsi fyrir smábrot. Ég tel mig því ekki bundinnn af þeim og hvet til lögbrota hvort sem það er lögbrot í sjálfu sér. Það er hinsvegar betra að taka af þessum mönnum eignirnar í almenningsfjárnámi en að vera að henda í þær málningu.

Réttlætið finnum við á götunni, ekki dómstólum.

Héðinn Björnsson, 7.7.2009 kl. 11:04

33 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Snýst þetta ekki um það hvar púðrinu er eytt?? Er það ekki undarlegt að staksteinapenninn skuli dífa penna sínum í blek til að verja heimili brotamannanna á meðan stórum hluta heimila almennings blæðir? Alltof mörgum blæðir út. Efnahagsástandið hefur líka ýmsar óheillavænlegar hliðarverkanir svo sem: hjónaskilnaði og sambandsslit, aukin vanda vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu allra aldurshópa, aukna glæpatíðni auk þess sem ofbeldi eykst og verður alvarlegra.

Ég reikna með að það ástand sem ríkir á alltof mörgum heimilum í landinu vegna gjörða þeirra sem ullu núverandi ástandi eigi eftir að hafa miklu verri áhrif á miklu fleiri mannssálir en einstaka rauð málningarsletta á hús sem standa auð hvort eð er. Auðmennirnir eru nefnilega flestir flúnir úr landi. Þeir hafa nefnilega efni á því. Annað en margir þeirra sem þeir rændu!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.7.2009 kl. 18:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband