12.8.2009
Hver stjórnar Íslandi?
Stundum verð ég svo reið að ég tek meðvitaða ákvörðun um að halda mér saman þar til mér rennur reiðin. En nú tókst það ekki. Ég hef nokkrum sinnum nefnt embættismannakerfið og stjórnsýsluna, síðast hér. Kallaði kerfið fimmta valdið í þessum pistli og held að það sé réttnefni. Sagt er að það sé handónýtt apparat, gjörspillt og þar ríki klíkuskapur og eiginhagsmunagæsla. Sem ég sit hér og horfi og hlusta á Kastljósið fæ ég hroll og mér verður æ ljósara að þau eru mörg, ríkin í ríkinu. Þau eru líka æði skuggaleg og hafa á sér sterkan blæ leyniklúbba þar sem klíkubræður hygla sér og sínum. Og ég spyr: Hver stjórnar Íslandi? Margir fullyrða að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórni hér öllu. En ég fæ ekki betur séð en að skilanefndir bankanna, sem sýsla með aleigu og fjöregg þjóðarinnar, séu forhertasta valdið og fari sínu fram hvað sem hver segir. Ætlar enginn að taka í taumana? Hefur enginn kjark til að fylgja eftir loforðum um opna stjórnsýslu, gagnsæi og heiðarleika?
Frétt á Eyjunni 12. ágúst 2009 - tilvísun í Vísi.is
Fyrirspurnin og svar ráðherra á Alþingi í dag
Þessi frétt birtist á Eyjunni í gær
Gunnar Andersen, forstjóri FME kom í Kastljósviðtal í gærkvöldi og var ekki sammála okkur hinum um, að skilanefndirnar væru að lítilsvirða ákvarðanir FME. Gunnar virtist ekkert hafa við vinnubrögð skilanefndanna að athuga. Ég næ því ekki. Það er ekki traustvekjandi að þeir sem hafa með uppgjör bankanna að gera séu tengdir og skyldir bæði inn í gömlu bankanna og fyrirtæki útrásardólga.
Gunnar Andersen, forstjóri FME, í Kastljósi 11. ágúst 2009
Rætt var við Pál Eyjólfsson, stærðfræðing og fyrrverandi starfsmann Landsbankans í Lúxemborg í Íslandi í dag 14. júlí. Páll var myrkur í máli og sagði m.a.: "Mér finnst eins og þeir hafi ákveðið að setja þetta í þrot og reyna að hirða eins mikinn pening úr þessu og þeir gátu með að skrifa tíma og taka ráðgjafaþóknanir." Þetta skyldi þó aldrei eiga við skilanefndir bankanna á Íslandi líka? Nóg hafa þær kostað þjóðina og þóknanir nefndarmanna ekkert slor. Feitur biti handa vinum, vandamönnum, klíkubræðrum og hvað... flokkssystkinum? Hvaða stjórnmálaflokkum tengist þetta fólk. Þetta angar allt af sukki og spillingu sem við vonuðum að heyrði fortíðinni til en virðist ekki hafa farið langt.
Ísland í dag 14. júlí 2009 - Páll Eyjólfsson
Í Kastljósi í kvöld tók Helgi Seljan saman fróðlegar upplýsingar um skilanefndir bankanna og fólkið í þeim - fyrri störf, tengsl og sitthvað í þeim dúr. Þetta er hrollvekjandi. Bendi einnig á skrif Ólafs Arnarsonar á Pressunni, hann hefur fjallað talsvert um skilanefndirnar.
Kastljós 12. ágúst 2009 - Úttekt á skilanefndum
Þessu ótengt - og þó ekki. Ég ætla ekki að segja neinum hvað fór í gegnum huga minn þegar ég sá þessa frétt á Stöð 2 í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)