Framtíð lýðræðis og fjölmiðlarnir

Ævar Kjartansson - Ljósm.: Örlygur HnefillÞátturinn Framtíð lýðræðis er nú fjórða sumarið í röð á Rás 1 í umsjón hins góðkunna útvarpsmanns Ævars Kjartanssonar og Ágústs Þórs Árnasonar, lektors við Háskólann á Akureyri. Í sumar hafa efnistök þáttarins eðlilega litast mjög af hruninu, aðdraganda þess og afleiðingum. Ég var að enda við að hlusta á þáttinn frá í morgun sem var jafnfrábær og hinir. Ævar og Ágúst Þór fá til sín einn viðmælanda í hverjum þætti og að öllum öðrum eðalútvarpsþáttum ólöstuðum er innihald þessara þátta með því málefnalegasta í útvarpi.

Ég þekki af eigin reynslu hvernig þeir Ævar og Ágúst Þór Ágúst Þór Árnasonvinna, því ég var hjá þeim í einum þættinum. Mér fannst allsendis fráleitt að ég ætti nokkurt erindi í þennan þátt þegar Ágúst Þór hringdi í mig í maí. Hló bara í símann og sagði furðu lostin: "ÉG?!" Ég hafði hlustað á nokkra þætti undanfarin sumur og sá engan flöt á því að ég hefði neitt til málanna að leggja. En ég lét sannfærast og þegar við settumst niður í stúdíói í Efstaleitinu með ferðagræjurnar hans Ævars hafði ég þann vara á að ég gæti örugglega ekki talað í þær 50 mínútur sem þátturinn stæði yfir. Svo hófst notalegt spjall við þá félaga um hinn nýja vettvang skoðanaskipta sem netið og bloggið er og þátt þess vettvangs í framtíð lýðræðisins. Fyrr en varir voru mínúturnar 50 liðnar, það var svo gaman að tala við þá. Og ég sem átti svo margt eftir ósagt! Þegar þættinum var útvarpað 19. júlí og ég hlustaði á hann fannst mér ég alls ekki hafa svarað nægilega vel, einkum tveimur eða þremur spurningum Ágústs Þórs. Bæti kannski úr því seinna en hengi þáttinn neðst í færsluna.

Gestur þeirra í morgun var Jón Ólafsson, heimspekiprófessor. Hann var Jón Ólafsson, heimspekingur alveg frábær. Kom víða við og talaði meðal annars um skotgrafarhernað stjórnmálamanna. Jón sagði t.d.: "Kannski er ég bara svona bjartsýnn, en ég held að það sé meiri tilfinning fyrir þessari nauðsyn að pólitík sé ekki bara hanaslagur þar sem hlakkar í andstæðingnum yfir ákvörðun sem hann veit að á eftir að koma þeim sem tekur hana illa - jafnvel þó að það sé líka mjög slæmt fyrir þjóðina að svo sé. Þarna erum við að sjá, að mínu mati, breytingu á pólitískum kúltúr." Ég er bæði sammála og ósammála þessari fullyrðingu Jóns. Ég held að tilfinningin fyrir þessari nauðsyn sé vissulega mjög mikil hjá almenningi, en minni hjá þeim sem hafa verið fastir á klafa flokkanna - og eru enn. Bæði stjórnmálamönnum og helstu áhangendum trúarkenninga þeirra. En vonandi leiðir tíminn í ljós að Jón hafi rétt fyrir sér.

Í síðasta hluta þáttarins talaði Jón um fjölmiðlana - skort á fagmennsku í fjölmiðlum, hlutverk þeirra í fortíð, nútíð og framtíð - og hvernig þeir hafa spilað með í hanaslag stjórnmálamanna. Og hræðsluna. Hvort sem maður tekur undir skoðanir Jóns eða ekki er þetta mjög umhugsunarverð umræða. Ég klippti þann kafla úr þættinum og hengi við hér neðst í færslunni. Þátturinn allur er hér. Mér finnst að allir fjölmiðlamenn eigi að hlusta sérstaklega á þennan kafla viðtalsins - helst allt viðtalið svo ekki sé minnst á alla þætti þeirra félaga um Framtíð lýðræðis. Rifjum líka upp viðtal Egils í Silfrinu við þennan sama Jón Ólafsson frá 18. janúar sl.

Jón Ólafsson í Silfri Egils 18. janúar 2009

 

Svo er hægt að hlusta á þættina Framtíð lýðræðis aftur í tímann á hlaðvarpi RÚV hér.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Draumar og veruleiki

Í umræðunni um sölu auðlindanna og einkavæðingu grunnstoða þjóðfélagsins verður mér æði oft hugsað til viðtalsins við spekinginn hér að neðan. Draumar hans rættust rækilega - eða a.m.k. stór hluti þeirra. Við glímum við veruleikann eftir frjálshyggju- og einkavæðingarsukkið, sitjum eftir með brostnar vonir og þungar áhyggjur af börnunum okkar og barnabörnunum. Við verðum að átta okkur á því að enn eimir eftir af þessum trúarbrögðum og það töluvert. Látum þá ekki hirða af okkur orkuauðlindirnar líka. Aldrei.

Ísland í dag 13. september 2007

Ég lék mér svolítið með viðtalið og birti í pistli 25. mars, mánuði fyrir kosningar, til að sýna mótsagnirnar. Við vitum öll hvað var gert, hverjir voru þar í fararbroddi og hvaða afleiðingar það hafði. Það þýðir ekkert að reyna að blekkja okkur lengur. Eða hvað? Viljum við að það fari eins fyrir orkuauðlindunum okkar og bönkunum? Ég efast ekki eitt augnablik um að illa fari ef þær verða afhentar einkaaðilum - á silfurfati, fyrir slikk og jafnvel með kúluláni.

 
 ***********************************************
Magma vill kúlulán - Fréttablaðið 22.8.09

Bloggfærslur 23. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband