Framtíð lýðræðis og fjölmiðlarnir

Ævar Kjartansson - Ljósm.: Örlygur HnefillÞátturinn Framtíð lýðræðis er nú fjórða sumarið í röð á Rás 1 í umsjón hins góðkunna útvarpsmanns Ævars Kjartanssonar og Ágústs Þórs Árnasonar, lektors við Háskólann á Akureyri. Í sumar hafa efnistök þáttarins eðlilega litast mjög af hruninu, aðdraganda þess og afleiðingum. Ég var að enda við að hlusta á þáttinn frá í morgun sem var jafnfrábær og hinir. Ævar og Ágúst Þór fá til sín einn viðmælanda í hverjum þætti og að öllum öðrum eðalútvarpsþáttum ólöstuðum er innihald þessara þátta með því málefnalegasta í útvarpi.

Ég þekki af eigin reynslu hvernig þeir Ævar og Ágúst Þór Ágúst Þór Árnasonvinna, því ég var hjá þeim í einum þættinum. Mér fannst allsendis fráleitt að ég ætti nokkurt erindi í þennan þátt þegar Ágúst Þór hringdi í mig í maí. Hló bara í símann og sagði furðu lostin: "ÉG?!" Ég hafði hlustað á nokkra þætti undanfarin sumur og sá engan flöt á því að ég hefði neitt til málanna að leggja. En ég lét sannfærast og þegar við settumst niður í stúdíói í Efstaleitinu með ferðagræjurnar hans Ævars hafði ég þann vara á að ég gæti örugglega ekki talað í þær 50 mínútur sem þátturinn stæði yfir. Svo hófst notalegt spjall við þá félaga um hinn nýja vettvang skoðanaskipta sem netið og bloggið er og þátt þess vettvangs í framtíð lýðræðisins. Fyrr en varir voru mínúturnar 50 liðnar, það var svo gaman að tala við þá. Og ég sem átti svo margt eftir ósagt! Þegar þættinum var útvarpað 19. júlí og ég hlustaði á hann fannst mér ég alls ekki hafa svarað nægilega vel, einkum tveimur eða þremur spurningum Ágústs Þórs. Bæti kannski úr því seinna en hengi þáttinn neðst í færsluna.

Gestur þeirra í morgun var Jón Ólafsson, heimspekiprófessor. Hann var Jón Ólafsson, heimspekingur alveg frábær. Kom víða við og talaði meðal annars um skotgrafarhernað stjórnmálamanna. Jón sagði t.d.: "Kannski er ég bara svona bjartsýnn, en ég held að það sé meiri tilfinning fyrir þessari nauðsyn að pólitík sé ekki bara hanaslagur þar sem hlakkar í andstæðingnum yfir ákvörðun sem hann veit að á eftir að koma þeim sem tekur hana illa - jafnvel þó að það sé líka mjög slæmt fyrir þjóðina að svo sé. Þarna erum við að sjá, að mínu mati, breytingu á pólitískum kúltúr." Ég er bæði sammála og ósammála þessari fullyrðingu Jóns. Ég held að tilfinningin fyrir þessari nauðsyn sé vissulega mjög mikil hjá almenningi, en minni hjá þeim sem hafa verið fastir á klafa flokkanna - og eru enn. Bæði stjórnmálamönnum og helstu áhangendum trúarkenninga þeirra. En vonandi leiðir tíminn í ljós að Jón hafi rétt fyrir sér.

Í síðasta hluta þáttarins talaði Jón um fjölmiðlana - skort á fagmennsku í fjölmiðlum, hlutverk þeirra í fortíð, nútíð og framtíð - og hvernig þeir hafa spilað með í hanaslag stjórnmálamanna. Og hræðsluna. Hvort sem maður tekur undir skoðanir Jóns eða ekki er þetta mjög umhugsunarverð umræða. Ég klippti þann kafla úr þættinum og hengi við hér neðst í færslunni. Þátturinn allur er hér. Mér finnst að allir fjölmiðlamenn eigi að hlusta sérstaklega á þennan kafla viðtalsins - helst allt viðtalið svo ekki sé minnst á alla þætti þeirra félaga um Framtíð lýðræðis. Rifjum líka upp viðtal Egils í Silfrinu við þennan sama Jón Ólafsson frá 18. janúar sl.

Jón Ólafsson í Silfri Egils 18. janúar 2009

 

Svo er hægt að hlusta á þættina Framtíð lýðræðis aftur í tímann á hlaðvarpi RÚV hér.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

er myndin af Ævari fótósjoppuð? gráleikinn í skegginu er svo óraunverulegur

Brjánn Guðjónsson, 23.8.2009 kl. 16:19

2 identicon

Aldrei er of oft hamrað á þessu tvennu, lýðræði, tjáningarfrelsi. Samtvinnað, samtengt, algjörlega háð hvort öðru. Langar að benda á viðtal við Milos Forman leikstjóra í Morgunblaðinu í dag. Þar talar hann meðal annars um pendúl-tilhneiginguna eða öfgasveiflurnar sem einkenna svo margt. Þetta er áhugavert þegar maður skoðar fortíðina og íhugar framtíðina. En annað fannst mér ekki síður áhugavert.
Það sem haft er eftir honum rímar svo vel við það sem þú ert að tala um. "Frjálsir fjölmiðlar og tjáningarfrelsi er mikilvægasta uppfinning lýðræðisins".  Og, "En maður má aldrei missa vonina. Og maður verður að berjast gegn glópskunni. Það vinnst aldrei fullnaðarsigur, en ef við hættum að berjast, þá hefur glópskan betur. Eina leiðin til að berjast gegn henni eru frjálsir fjölmiðlar og tjáningarfrelsi. Svo lengi sem við höfum tjáningarfrelsið held ég að við séum hólpin."

Solveig (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 00:37

3 identicon

 Ég hef gert margar tilraunir til að einbeita mér að því að hlusta á þátt Ævars. Ofar en ekki gefst ég upp. Tilgerðarlegt orðaval hans og inngangur að efni þáttarins ber þess merki að hann tali blaðalaust ( ekki með undirbúin texta). Af því leiðir að framsögnin er hæg og sundurlaus og drafandi. Nú les ég að undirbúningur han sé enginn. Aðeins boðaðir til viðtals einstaklingar og svo bara hljóðritað og spjallað fram og til baka !!! Ég hef aldrei skilið hversvegna Ævar Kjartansson hefur einhverja sjálkrafa áskrift að störfum á Rás Eitt. Þættirnir eru ekki vel gerðir en vegna margra ágætra viðmælanda rætis úr þættinu oftar en ekki. Rám rödd Ævars og drafandi talandi er ekki mjög áheyrilegt útvarpsefni.

BJARNI D JONSSON (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband