30.8.2009
Með kveðju frá Bakkabræðrum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.8.2009
Lýðræðisleg rökræða og gagnrýnin hugsun
Ég sé að orð mín í síðustu færslu um að þjóðin sé kannski ekki nógu þroskuð og skynsöm til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu hafa farið fyrir brjóstið á einhverjum. En setjið þau í samhengi við það sem ég segi aðeins seinna um hvernig ástatt er fyrir þjóðarsálinni. Þessi hugleiðing mín á ekkert skylt við "þið eruð ekki þjóðin" né heldur vil ég gera lítið úr lýðræðinu. Langt í frá. Ég bíð spennt eftir efndum um stjórnlagaþing, nýja stjórnarskrá og virkara lýðræði.
Ég veit ekki hvort ég get útskýrt almennilega hvað ég á við og þar spilar ýmislegt inn í. Ég heyrði sagt eða datt sjálfri í hug um daginn að "þar sem tveir Íslendingar koma saman, þar er ágreiningur". Gott og vel - við erum fólk með miklar og sterkar skoðanir. En hvaðan koma þessar skoðanir? Hafa þær mótast og styrkst í framhaldi af upplýsingum og rökræðum? Hafa þær myndast í framhaldi af öflugum fréttaflutningi, góðum upplýsingum og útskýringum á flóknum fyrirbærum svo allir skilji? Höfum við þær skoðanir af því einhver einstaklingur eða hópur sem við tilheyrum hefur þær? Höfum við mótað skoðanir okkar út frá eigin hagsmunum, flokkshagsmunum eða samfélagslegum hagsmunum? Höfum við þessar skoðanir af því einhver leiðtogi sem við dýrkum sagði okkur að hafa þær? Höfum við þær "bara af því bara"? Fleiri möguleika mætti eflaust tíunda.
Umræðan í þjóðfélaginu hefur ekki verið beysin undanfarin ár og áratugi. Það vita allir sem vilja vita. Hér hefur ríkt þöggun, bæði meðal almennings og fjölmiðla. Ekki mátti fjalla um viss mál af því valdhöfum hugnaðist það ekki. Ekki mátti segja sannleikann um viss mál af því eigendum fjölmiðla þóknaðist það ekki. Fólki var (og er?) refsað harkalega ef það sagði eitthvað sem kom stjórnvöldum (yfirmönnum, flokki o.s.frv.) illa eða gekk gegn stefnu þeirra. Hér var hræðsluþjóðfélag og enn eimir töluvert eftir af því. Netmiðlar og blogg hafa þó opnað umræðuna mjög og upplýsingastreymið er orðið meira og hraðara en nokkru sinni. Vonandi til frambúðar.
Það eru einkum skoðanakannanir og niðurstöður þeirra undanfarið sem hafa valdið mér heilabrotum. Og reyndar líka að hluta úrslit kosninganna í vor. Ég hélt fyrir kosningar að nokkuð ljóst væri hverjir og hvað olli hruninu. Engu að síður fengu "hrunflokkarnir" ótrúlega mikið fylgi þótt ekki hafi þeir náð meirihluta. Fjölmargir kjósendur virðast halda með "sínum flokki" eins og fótboltaliði - gjörsamlega burtséð frá því hvaða stefnu flokkurinn hefur, hverjir eru þar í forystu, hvaða fortíð bæði menn og málefni hafa og hvaða framtíð þeir sjá fyrir sér. Ég hef þekkt fólk árum og áratugum saman sem kýs sinn flokk jafnvel þótt það sé hundóánægt bæði með fólkið og stefnuna. En að kjósa hann ekki væru einhvers konar drottinsvik. Þetta skelfir mig.
Það er þetta allt sem ég á við þegar ég tala um að þjóðin sé ekki nógu þroskuð og skynsöm til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um mál eins og t.d. Icesave. Það er svo stórt og flókið og afleiðingar þess - hvort sem um er að ræða að hafna samningnum eða samþykkja hann - eru svo gríðarlegar að ég leyfi mér að efast um að við gerum okkur almennt grein fyrir því. Erum við nógu upplýst um lagatæknileg atriði, alþjóðasamninga, EES-vinkilinn og ýmsar aðrar hliðar samningsins til að taka afstöðu? Hverjir hafa verið mest áberandi í umræðunni og hvaða hagsmuni hafa þeir aðilar haft að leiðarljósi? Eiginhagsmuni, flokkshagsmuni eða afdrif íslensks samfélags? Hvernig stendur á því að þeir sem upphaflega skrifuðu upp á ábyrgðina hafna henni nú? Flokkspólitískar skotgrafir og lýðskrum eða einlæg sannfæring? Hverjir hafa verið fremstir í flokki og stýrt umræðunni um Icesave, haft hæst og því kannski náð til flestra? Hvernig er fréttamat fjölmiðla og hverjir hafa náð eyrum þeirra - og þar með þjóðarinnar? Maður spyr sig...
Ísland er ungt lýðveldi og fróðir menn segja að hér hafi lýðræðisleg rökræða og gagnrýnin hugsun aldrei fengið að þroskast sem skyldi. Flokkspólitískir- og eiginhagsmunir "elítunnar" og peningaaflanna hafi ráðið mestu um þróun umræðunnar og enn eru þeir hagsmunir firnasterkir. En fólk er farið að sjá þetta og skynja. Umræðan í vetur hefur borið þess merki. Æ fleiri hafa fengið tækifæri til að taka þátt í umræðu um aðskiljanlegustu mál, einkum í gegnum bloggið og netmiðlana. En stundum er þó ansi stutt í upphrópanir, ofstæki, flokkspólitíska sleggjudóma og rökþrot. Sumir halda því fram að þeir sem ekki eru hagfræðimenntaðir eigi ekki að tjá sig um eða hafa skoðanir á efnahagsmálum eins og hér sést. Þetta er dæmi um hættulega skoðanakúgun þar sem þess er krafist að "faglegur bakgrunnur" verði að vera til staðar til að geta tjáð sig um mál af skynsemi og gert lítið úr skoðunum þeirra sem ekki hafa þann bakgrunn. Ég er ekki hagfræðingur, stjórnmálafræðingur eða guðfræðingur og hef ekki faglegan bakgrunn í þeim fræðum. Má ég þá ekki tjá mig um eða hafa skoðun á efnahagsmálum, stjórnmálum eða trúmálum?
Ef ég ætti að kjósa um Icesave-samninginn í nánustu framtíð væri ég í vandræðum. Þó hef ég fylgst nokkuð vel með umræðunni þótt ég hafi ekki blandað mér í hana. Ég hef ekki ennþá hugmynd um hvað það myndi þýða fyrir framtíð okkar ef ég samþykkti hann - né heldur ef ég hafnaði honum. Á okkur öllum hafa dunið misvísandi upplýsingar og afar ólíkar skoðanir. Og við vitum ekki ennþá hvort allar upplýsingar hafa komið fram - hvort einhverju er enn haldið leyndu. Ennþá, tæpu ári eftir hrunið, erum við sár og reið. Við höfum ekki ennþá séð glitta í réttlæti og nær daglega fáum við fréttir af þjófnaði, misnotkun, spillingu, siðleysi og óréttlæti. Ekki hefur verið hróflað við þeim sem bera ábyrgð á Icesave - eða hruninu yfirleitt. "Af hverju eigum við að gjalda gjörða þeirra," spyrjum við réttilega og reiðin magnast með hverjum deginum. Mér líður a.m.k. þannig og eflaust ansi mörgum.
Við erum þjóð í uppnámi. Að mörgu leyti stöndum við nú í rústum samfélags sem afar okkar og ömmur, langafar og langömmur og aðrir forfeður þræluðu sér út til að byggja upp. Flestum sárnar hvernig farið hefur verið með samfélag sem var að mörgu leyti mjög gott þótt á því hafi verið stórir gallar - en hefði getað orðið enn betra ef öðruvísi hefði verið staðið að málum. Ef annars konar "trúarbrögð" og annað fólk hefði ráðið för. Ef stakkur hefði verið sniðinn eftir vexti. En svo fór sem fór og ég horfi með hryllingi á allt of marga hugsa og framkvæma eins og ekkert hafi í skorist og sjálfsagt sé að halda áfram á sömu braut. Sjáið bara Magma og HS Orku málið.
En kannski á þetta með þroskann og skynsemina aðeins við um sjálfa mig, ekki aðra. Ef ég hef sært einhverja með þessum orðum biðst ég afsökunar. En ég mæli með hlustun á þessi viðtöl hér að neðan til frekari áréttingar meiningum mínum.
Vilhjálmur Árnason í Silfri Egils 9. nóvember 2008
Páll Skúlason hjá Evu Maríu á RÚV 28. desember 2008
Viðtal við Vilhjálm Árnason á kosningavef RÚV í byrjun apríl
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)