17.9.2009
Hver seldi Ísland?
Hvað þarf til að vekja íslenskan almenning til vitundar um að verið er að selja okkur í ánauð? Þetta er engin dramatísering - bara svellkaldur veruleiki, því miður. Í síðasta pistli benti ég á mynd sem sýnd var á RÚV í gærkvöldi - Afsökunarbeiðni efnahagsböðuls. Ég viðurkenni fúslega að tárin trilluðu niður kinnarnar þegar ég horfði á myndina og nokkuð lengi á eftir. Einmitt það sem þar var lýst er að gerast hér. Nákvæmlega þetta. Ég verð með ónotatilfinninguna enn um sinn. Og maður spurði sig: Hve mikið fékk Óskar borgað? Var Hönnu Birnu hótað? Hvað með síðustu ríkisstjórn? Valgerði, Halldór, Davíð og þau öll? Getur verið að eilífar frestanir AGS núna stafi af því að Jóhanna og Steingrímur neiti að spila með? Hvað veit maður? Enginn segir okkur neitt. Hver seldi Ísland?
Afsökunarbeiðni efnahagsböðuls
Fyrri hluti
Seinni hluti
Hér eru nokkrar athugasemdir við síðustu færslu þar sem ég vakti athygli á sýningu myndarinnar:
Það var fróðleg fréttin sem birtist í hádegisfréttum RUV. Þar var haft eftir Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra Alcoa, að þeir þyrftu tryggingu fyrir því að fá orku fyrir 350.000 tonna álver.
Þetta þýðir óútfylltan tékka til Alcoa, um aðgang að orkuauðlindum sem ná frá Þeistareykjum og til Herðubreiðar og Skjálfandafljóts.
Má finna samsvörun í tali forstjórans og því sem kemur fram í myndinni?
____________________
Stórkapítallinn í BNA hefur áorkað meira til sósíalismans en kenningar Marxista og annara sósíalista samanlagt. Misskipting auðs er að sjálfssögðu helsta vandamál heimsins í dag og undanhald millistéttarinnar endar með einhverskonar uppgjöri þjóðfélagshópa í öllum samfélögum.
Menn eins og John Perkins lýsa þessu mjög vel og þarf fólk að hlusta á hann með opnum huga.
Saga t.d. Suður Ameríku er að öllu leyti sorgleg þar sem hún tengist imperíalisma BNA svo náið. Því hvers vegna ættu innfæddir íbúar þessara svæða að njóta góðs af auðlindum landsins?
Þetta er í raun sáraeinfalt en vandamálið er að maður þarf að hugsa um þetta eins og maður sé staddur í James Bond mynd. Maður á oft einfaldlega erfitt með að trúa að 'siðmenntaðir' íbúar, 'siðmenntaðra' landa hegði sér á þennan hátt.
____________________
Fyrsti hluti láns AGS til okkar fór á reikning í banka í New York og það stemmir við það sem Perkins segir í Játningunum.
Öll efnahagsaðstoð við Austur Tímor fór inn á banka í USA og bókstaflega ekkert skilaði sér þangað. Það stemmir við það sem Perkins segir.
Uppbyggingin í Indónesíu eftir flóðbylgjuna byggðist á aðstoð" sem fólst í því að Bandarísk fyrirtæki fengu pening til að byggja hótel og koma upp túristagildrum þar sem þorp innfæddra stóðu. Það stemmir við Perkins.
____________________
Það er vonandi að ráðamenn og almenningur fari að tengja varðandi bolabrögð AGS hér og svo þessa útsölu auðlindanna, sem dulin er með því að við eigum auðlindirnar, en njótum einskis af þeim. Með hjáleiðum, klókindum og skúffufyrirtækjum er farið á snið við lög og reglur á meðan menn í öllum flokkum draga lappirnar í lagasetningum og stjórnarskrárbreytingum til að tryggja okkur yfirráðin.
Menn mega líka spyrja sig hvort það veki ekki spurningar að yfirmaður AGS (governor) á Bretlandi, var á tímum hryðjuverkalaganna og er enn enginn annar en Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta. Hringir það virkilega engum bjöllum? Hringir það engum bjöllum að AGS skuli ekki svo mikið sem hafa okkur á dagskrá fyrr en við höfum gengið frá ICESAVE? Þeir sem gáfu það opinberlega út að þeir væru aðeins ráðgefandi og að málið væri "none of their business". Nú merja þeir líftóruna úr okkur með að teygja gjaldeyrishöftin á langinn um leið og þeir halda aftur af neyðarláni sínu.
Og af hverju samanstendur þetta neyðarlán? Í nóvember í fyrra lofaði frú Kristin Halvorssen um 100 milljarða láni til okkar, frá Norðmönnum, sem þing þeirra samþykki. AGS stígur inn í ferlið og stöðvar það. Norðmenn samþykkja að breyta láninu þannig að það verði hluti af lánapakka AGS. Þeir lánuðu svo AGS 600 milljarða, svo þeir gætu lánað okkur. Sama gerðist með Rússalánið. AGS, stöðvaði bæði þessi lán, svo þeir sætu einir að kverkatakinu. Það sem hefur gerst í Suður-Ameríku og víðar í þróunarlöndum er að gerast hér, en þeir hafa bara tekið upp betur duldar og sívílíseraðri aðferðir til að ná sama marki.
Menn skulu ekki gleyma að AGS er að 51% í eigu USA, eða réttara sagt Federal reserve/Wall Street, sem er ekki meira federal en federal express, heldur hreint og klárt tæki auðhringa til að komast yfir auðlindir (resources).
Þótt vilji þjóða sé fyrir hendi að hjálpa okkur í þessari kreppu, þá er það AGS, sem kemur í veg fyrir það með klókindum, eða jafnvel hótunum. Allt skal fara í gegnum þá. They call the shots here.
Það sem Ísland á að gera, ef svo ólíklega vill til að Bretar og Hollendingar fallist ekki á fyrirvara okkar, er að vísa málinu fyrir dómstóla og í beinu framhaldi af því að henda AGS út og taka slaginn sjálf. Það er raunar nóg fyrir fólk að lesa um sjóðinn á wikipedia (sértaklega seinni hlutann) til að sjá hvað þessi glæpahringur stendur fyrir.
Verið á útkikki eftir böðlum og sjakölum. Ekki vera of viss um að þeir séu endilega útlendingar.
Fólk skyldi svo hafa í huga þegar minnst er á hina hugumprúðu útlendinga, sem eru að koma hingað til að "aðstoða við uppbyggingu orkufreks iðnaðar" að það er aðeins annað orð yfir arðrán. Það skal enginn halda að það séu þeir, sem virki og búi í haginn fyrir þetta. Það erum við. Enn höfum við ekkert annað upp úr álvæðingunni haft en botnlausar skuldir og gjaldþrota Landsvirkjun og það er algerlega ljóst að við getum reiknað það í öldum, hvenær það yrði að veruleika. Þótt hvert einasta andskotans kílówatt yrði virkjað fyrir þessar samsteypur, og álver byggð til að fullnýta það, þá myndi það skapa störf fyrir 2% þjóðarinnar.
Það er verið að éta ykkur með húð og hári og máltíðin hefur verið talsvert lengi í ofninum.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (68)