Er þetta kóngablæti?

Ég er hér enn sjálf. Geir H. Haarde hefur ekki ennþá tekið við þessari síðu til að skrifa söguútgáfu þeirra Davíðs og ekki vitað hvenær það verður. Ætli ég noti þá ekki tækifærið og birti meira efni eftir sjálfa mig á meðan færi gefst. Skrifa mína eigin sögu.

Íslensk fjallasala - Andrés 1999 - Lesbók Morgunblaðisins 10. apríl 1999

Mér finnst umræðan um ráðningu Davíðs Oddssonar í stól ritstjóra Morgunblaðsins svolítið undarleg. Sumir eru fullir umburðarlyndis og finnst rétt að "gefa honum séns" og "leyfa honum að sanna sig". Sjá lítið sem ekkert athugavert við ráðninguna og segja að Davíð beri ekki einn ábyrgð á hruninu. Líkja henni saman við ráðningu Þorsteins Pálssonar sem ritstjóra Fréttablaðsins. Segja að eigendur Morgunblaðsins ráði því hvern þeir láti ritstýra blaðinu - og svo framvegis. Er aðdáun sumra á Davíð Oddssyni einhvers konar kóngablæti? Arfur frá liðinni tíð? Maður spyr sig...

Íslendingar hafa gefið Davíð Oddssyni sénsa í rúm 30 ár - endalausa sénsa. Hann hefur alltaf þegið laun sín frá skattborgurum. Fyrst sem skrifstofu- og framkvæmdastjóri Sjúkrasamlagsins frá 1976, síðan borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og að lokum seðlabankastjóri. Davíð hefur alltaf stjórnað því sem hann vill og farið fram af hörku. Hann innleiddi hér hræðsluþjóðfélag þar sem mönnum var refsað fyrir að vera ósammála honum, stofnanir lagðar niður ef þær reiknuðu gegn vilja hans, mönnum vísað úr nefndum fyrir smásagnaskrif sem hugnuðust honum ekki. Ótalmargt fleira mætti nefna og lesendur geta bætt við í athugasemdum.

Davíð Oddsson gerði íslenska þjóð ábyrga fyrir innrásinni í Írak 2003 og hörmungunum þar sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Það var vægast sagt  umdeildur gjörningur og þar kom Davíð rækilega aftan að þjóðinni. Sumir hafa kallað hann stríðsglæpamann síðan. Þá sem ekki voru sáttir við áframhaldandi þátttöku í svokallaðri "endurhæfingu" Bandaríkjamanna í Írak kallaði Davíð afturhaldskommatitti í frægri ræðu á Alþingi. Þar talaði hann ekki bara niður til eins flokks, heldur stórs hluta þjóðarinnar sem hafði alla tíð verið andsnúinn veru Íslands á stríðslistanum. Það var og er stíll Davíðs að niðurlægja þá sem ekki eru á sömu skoðun og hann, hæðast að þeim og ljúga upp á þá - í þeim tilgangi að upphefja sjálfan sig.

Verjendur Davíðs og verka hans í íslensku samfélagi hamra gjarnan á því að hann sé ekki einn ábyrgur fyrir hruninu. Það er enginn að segja það. Mjög margir eru ábyrgir. En óumdeilanlegt er að Davíð Oddsson lék eitt af aðalhlutverkunum í frjálshyggju- og einkavinavæðingunni, sem og  aðdraganda hrunsins og fyrstu viðbrögðum við því. Sú staðreynd að fleiri voru þar að verki gerir ábyrgð hans engu minni. Að þessu leyti er ógerlegt að bera ráðningu Davíðs til Moggans nú saman við ráðningu Þorsteins Pálssonar til Fréttablaðsins. Þorsteinn var aldrei sami áhrifavaldur og Davíð í íslensku samfélagi og hafði hætt beinum afskiptum af pólitík mörgum árum áður en hann settist í ritstjórastól. Davíð hélt hins vegar bæði FLokknum og þjóðinni í járnkrumlum einvaldsins fram á síðasta dag og harðneitaði að sleppa.

Davíð Oddsson er ekki bara "einhver maður" og Morgunblaðið er ekki bara "eitthvert blað". Þó að til sanns vegar megi færa að eigendur blaðsins "megi ráða og reka þá sem þeim sýnist" er lágmarkskurteisi gagnvart þjóð sem liggur í blóði sínu í ræsi kreppunnar að ráða ekki manninn sem í huga þjóðarinnar er holdgervingur hrunsins. Það er lágmarkskrafa að fjölmiðlar axli samfélagslega ábyrgð og hjálpi þjóðinni að rísa á fætur í stað þess að hleypa í valdastól aftur manni, sem á eftir að henda sprengjum inn í samfélag sem þegar hefur verið sprengt í loft upp.

Við þekkjum Davíð Oddsson. Hann hefur fengið að margsanna sig í 30 ár. Við þekkjum eiturtunguna, ofsann, hrokann, ráðríkið og valdafíknina. Ég sé enga ástæðu til að gefa honum fleiri sénsa til að sanna sig enn frekar. Mig grunar að hlutverk Davíðs sem ritstjóri Morgunblaðsins verði að stýra stríði gegn vilja þjóðarinnar. Stríði gegn endurheimt þjóðarinnar á auðlindum til sjós og lands. Stríði gegn þeim vilja meirihlutans að halda grunnstoðum þjóðfélagsins í þjóðareigu. Enda fjallaði annar leiðari fyrsta blaðsins undir hans stjórn um ágæti einkasjúkrahúsa.

Stríð sjálfstæðismanna er hafið. Það sést á ýmsum vígstöðvum, ekki bara í ráðningu ritstjórans. Látum ekki blekkjast, þeir ætla að ná aftur völdum og við vitum hvað það þýðir. Við erum velflest fórnarlömb þessa fólks. Neitum að kyssa vöndinn.



Bloggfærslur 26. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband