Hver er þessi Guðjón?

Hann stóð vaktina fyrir okkur og með okkur í allan fyrravetur. Lék eitt aðalhlutverkið í andófi fjöldans gegn ástandinu, spillingunni, stjórnvöldum og öllu því sem á okkur brann. Við stóluðum á hann - og hann brást okkur aldrei. Hann studdi okkur og gaf okkur von. Var vakandi og sofandi yfir mannréttindum okkar og tjáningarfrelsinu sem hefur blómstrað sem aldrei fyrr eftir hrunið mikla. Hann gerði þetta allt í sjálfboðavinnu. Var launalaus allan tímann. Það veit ég, því ég kynntist honum vel í baráttunni fyrir betra samfélagi. Og þess vegna veit ég að nú þarf hann á okkur að halda. Nú er komið að okkur að styðja hann. Við klikkum ekki á því, er það?

Hörður Torfason, sá mikli baráttumaður og fánaberi mannréttinda, heldur sína 33. hausttónleika í Borgarleikhúsinu annað kvöld, þriðjudagskvöld. Ég hef farið nokkrum sinnum á tónleikana hans og þeir eru alltaf bráðskemmtileg upplifun - sambland af tónlist og leiklist. Frábærlega útfærð tjáning. Stórskemmtilegir textar og grípandi músík.

Ég hef verið að leita að fjölmiðlaumfjöllun um tónleikana, en það eina sem ég fann var viðtal við Hörð á Morgunvaktinni á fimmtudaginn. Þetta hefur komið mér svolítið á óvart, einkum í ljósi þess hve stóru hlutverki hann gegndi í búsáhaldabyltingunni í vetur, aðdraganda hennar og í hve mikilli þakkarskuld þjóðin stendur við Hörð Torfason. Til samanburðar þarf Bubbi bara að prumpa og kvarta um dýrtíð og er þá umsvifalaust í viðtölum í  öllum fjölmiðlum. Mér datt í hug hvort þetta væri hluti af þögguninni en trúi því bara ekki upp á fjölmiðlafólkið. Það hlýtur að hafa eitthvert frumkvæði og sjálfstæði. Engu að síður - maður spyr sig...

En hvað sem því líður - sjáumst í Borgarleikhúsinu annað kvöld, þriðjudagskvöld klukkan 20! Miðar fást hér og í Borgarleikhúsinu.

 
Ég hef glímt við þessa spurningu áratugum saman: Hver er þessi Guðjón? Getur einhver svarað því?
 
 

Lag: Hörður Torfason, Ljóð: Þórarinn Eldjárn

Guðjón lifir enn í okkar vonum
enginn getur flúið skugga hans.
Þér er sæmst að halla þér að honum
hann er gróin sál þíns föðurlands.
Þig stoðar lítt með gulli og glysi að skarta
þú ert sjálfur Guðjón innst í hjarta.

 Ungan léstu sverta þig og svíkja
þú sást ei þá hve margt er blekking tál.
Á fúnu hripi rak þig milli ríkja
hver rakki fékk að snuðr'í þinni sál.
Drjúptu höfði því að það er meinið
þú ert sjálfur Guðjón innvið beinið.

Þannig varstu hrakinn land úr landi
lítilsigldur fóli, aumur, smár.
En nú er burtu villa þín og vandi
þú viknar hrærður, fellir gleðitár.
Þótt illur sért er síst of seint þig iðri
þú ert sjálfur Guðjón undir niðri.

 Brátt mun skína í Guðjón gegnum tárin
gróður lífsins vex úr þeirri mold.
Einhverntíma seinna gróa sárin
er svik við Guðjón brenndu íslenskt hold.
Senn mun koma sá er hlýtur völdin
þú ert sjálfur Guðjón bakvið tjöldin.

Hörður Torfa - Hausttónleikar 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 7. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband