Enn ein athugasemdin

Ferðaþjónustufyrirtækið Íslandsflakkarar, eða Iceland Rovers, eru meðal þeirra sem bjóða upp á ferðir um Hengilssvæðið. Þeir eiga því ríkra hagsmuna að gæta varðandi það, að þessari náttúruperlu verði ekki fórnað fyrir háværa og mengandi virkjun. Íslandsflakkarar sendu Skipulagsstofnun mjög ítarlega athugasemd þar sem farið er yfir frummatsskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur kafla fyrir kafla og lið fyrir lið. Gagnrýni þeirra beinist að fjölmörgum þáttum skýrslunnar. Bréf þeirra Íslandsflakkara er of langt og ítarlegt til að birta það allt hér svo ég set aðeins inn upphafið, niðurstöðuna og stakar setningar innan úr sem vekja til umhugsunar.

En ég tek fram, eins og ég gerði um umsögn Umhverfisstofnunar hér, að nauðsynlegt er að lesa athugasemdina í heild sinni til að fá samfellu og samhengi í hana. Þeir sem hafa áhuga á því fá örugglega góðar móttökur hjá Íslandsflökkurum eins og ég þegar ég falaðist eftir athugasemd þeirra til birtingar á útdrætti úr henni.

Íslandsflakkarar leggjast alfarið gegn því að reist verði virkjun á Bitru. Út frá legu virkjunarinnar og borplana sem og annarra mannvirkja er ljóst að áhrif á útivist og ferðaþjónustu eru veruleg og teljum við hjá Íslandsflökkurum að ekki verði við annað unað en að yfirvöld hafni alfarið virkjuninni og skilgreini svæðið til nota fyrir ferðaþjónustu og almenning, enda hefur verið gengið verulega á Hengilssvæðið nú þegar af Orkuveitu Reykjavíkur... 

...Bygging nýrra álvera eða stækkun eldri vera, gengur þvert á hagsmuni ferðaþjónustunnar sem og annarra atvinnugreina auk þess sem stóriðja almennt fellur afar illa að þeirri ímynd náttúrfegurðar og hreinleika sem notuð er til að laða ferðamenn til landsins.  Það hefur því stórkostlega neikvæð samfélagsleg áhrif að okkar mati að reisa slíkar verksmiðjur og orkuver til að framleiða rafmagn til þeirra...

...í skýrslunni virðist sem þekking á orkuforða svæðisins sé ansi gloppótt, og orð eins og “líklega” og “sennilega” benda til þess að ekki hafi verið gefin nægur tími til rannsókna. Væri betra að menn flýttu sér hægt þegar eyðaleggja náttúrlegt svæði sem jafnast á við það sem best gerist í öðrum löndum sem geta státað af álíka náttúrufyrirbærum sem heitum hverum...

...Í kafla 7.2.2 kemur fram að svæðið er á náttúruminjaskrá og að forsendur fyrir slíkri skráningu séu “STÓRBROTIÐ LANDSLAG OG AÐ SVÆÐIÐ SÉ FJÖLBREYTT AÐ JARÐFRÆÐILEGRI GERÐ, M.A. JARÐHITI”. Þetta er einmitt það sem gerir svæðið  afar áhugavert til útivistar fyrir heimamenn og erlenda gesti...

... svæðið er á heimsmælikvarða og án efa með allra flottustu og fjölbreytilegustu hverasvæðum á Íslandi og þar að auki liggur svæðið í bakgarði fjölmennustu sveitafélaga á landinu...

...svæðið breytist úr náttúrulegu í manngert og ómögulegt verður fyrir framkvæmdaaðila að gera mannvirki af þessari stærðargráðu ósýnileg þrátt fyrir góðan frágang. Svæðið í heild breytist og upplifun þeirra sem ferðast um svæðið verður aldrei sú sama og í ósnortnu landi...

...Bitruvirkjunar er hvorki í sátt við umhverfi né samfélag.  Ljóst er að Bitruvirkjun er umdeild og að verulegir hagsmunaárekstrar eru við nýtingu ferðaþjónustu og útivistarfólks á svæðinu...

...Hér virðist því vera á ferðinni einhverskonar skilningsleysi á hugtakinu sjálfbær þróun sem eðlilegt væri að OR aflaði sér upplýsingar um áður en lengra er haldið...

 
...Við spyrjum því hvort það sé alveg öruggt að það gerist ekki og hvort tryggt sé að ekki berist óæskileg efni í Þingvallavatn? Hafa nægilegar rannsóknir farið fram?...

...Við bendum í þessu sambandi á lokahluta kaflans (22.5 - Áhrif framkvæmdar á landslag) þar sem fram kemur að mannvirki Bitruvirkjunar muni valda “talsverðum neikvæðum áhrifum á upplifun landslags á svæði sem í dag hefur ákveðið gildi og nýtur sérstöðu vegna þess að þar eru fá og lítt áberandi mannvirki. Ferðalangar sem í dag aka um veginn inn á Bitru koma skyndilega inn í litskrúðugt og fjölbreytt landslag og útsýni sem teygir sig yfir til Þingvallavatns og á góðum degi allt til Langjökuls. Þrátt fyrir núverandi vegsummerki af mannavöldum nokkrir staðir á svæðinu enn að geyma óvænta upplifun og þá tilfinningu að ekki hafi margir komið inn á þetta svæði”...

...Við teljum áhrifin marktæk á “svæðis-, lands- og heimsvísu”, þau eru til langs tíma og óafturkræf, þau breyta einkennum umhverfisþáttar verulega og rýra verndargildi umhverfisþáttar verulega...

...Það er okkar mat að hávaðamengun sé “VERULEG” á framkvæmdatíma og “TALSVERД til “VERULEG” eftir að framkvæmdum lýkur og bendum m.a. á að bora þarf nýjar holur með reglulegu millibili á starfstíma virkjunarinnar með tilheyrandi blæstri og hávaða...

...Í frummatsskýrslu er ekki vitnað í neinar rannsóknir á viðhorfum ferðamanna í skipulögðum ferðum og almennt virðist skorta allar aðrar rannsóknir en viðhorfskönnun sem gerð var á meðal ferðþjónustuaðila.  Er þetta talsverður ljóður á frumatsskýrslunni, þar sem mikilvægar upplýsingar um möguleika svæðisins í ferðaþjónustu, með og án virkjunar, vantar algjörlega hérna...

...Það er nokkuð hvimleitt þegar það er talað er um að álíka margir séu fylgjandi og andvígir virkjun þegar tölurnar sýna að heldur fleiri eru móti en með. Hvetjum við til þess að þessi vinnubrögð séu ekki viðhöfð og orðalag ekki notað til að draga úr eða deyfa niðurstöðu óhagkvæmrar tölfræði...

...Skortur á rannsóknum vegna útivistar og ferðaþjónustu var gagnrýndur af Samtökum ferðaþjónustunnar, undirrituðum og fleiri aðilum með athugasemdum við matsáætlun og er enn full ástæða til að fara fram á frekari rannsóknir...

...Íslandsflakkarar fara fram á raunverulegar rannsóknir á afstöðu útivistarfólks og almennings til virkjunar á Bitru sem og mati á möguleikum svæðisins í ferðaþjónustu með og án virkjunar. Skortur á gögnum og rannsóknum gerir það að veigamikil atriði vantar í kafla 29 (Ferðaþjónusta og útivist) og er það okkar mat að þessum þætti umhverfismatsins sé verulega ábótavant...

...Þrátt fyrir minnkun framkvæmdasvæðis þá eru áhrif á ferðaþjónustu veruleg. Missi erlendir ferðamenn áhuga á svæðinu og færi sig um set er skaðinn verulegur og hæpið annað en að niðurstaðan sé “VERULEG”... 

Niðurstaða:

Íslandsflakkarar telja að áhrif Bitruvirkjunar á útivist og ferðaþjónustu séu “VERULEG” vegna breytinga á landslagi, röskunar og hávaðamengunar í nágrenni vinsælla gönguleiða og náttúruperlna. Við leggjumst gegn framkvæmdinni og óskum að svæðið verði tekið frá fyrir ferðamennsku og útivist.  Ekkert annað háhitasvæði, sem er jafn fjölbreytt og þetta, er jafn stutt frá Reykjavík og uppsveitum Suðurlands og jafnstutt frá þjóðvegi 1 auk þess sem svæðið í heild sinni, í austanverðum Henglinum, er einstaklega fallegt og fjölbreytilegt á heimsvísu.

Að auki virðist mikill asi á framkvæmdaraðila, sem enn er í mikilli óvissu um stærð og ástand jarðhitageymisins sökum skamms bor- og vinnslutíma á svæðinu. Íslandsflakkarar geta ekki með nokkru móti séð hvernig hægt er að fullyrða að áhrif framkvæmdarinnar á jarðhitageyminn séu óveruleg þegar jafn lítið er vitað um hann. Jafnframt er ljóst að framkvæmdaraðili getur ekki með góðu móti fullyrt að vinnsla orkunnar sé sjálfbær þar sem fram kemur að hún er “ágeng”.

Auk þess bendum við á mikla umræðu um nýja tækni sem betur nýtir jarðhita en nú er þannig að ef nýta á svæðið mætti hugsanlega innan fárra ára fá jafnmikla orku án þess að ganga jafn nærri svæðinu og nú er áætlað.

Af þessu verður ekki annað ráðið en að rétt sé að hafna virkjun á Bitru eða a.m.k. fresta henni um óákveðinn tíma, því 10 til 20 ár í bið geta gjörbylt þeirri tækni sem nú er til staðar í bormálum og orkuöflun og ef fram heldur sem horfir verður komin tækni þar sem hægt verður að nýta jarðhitann á svæðinu án þess að fara inn á svæðið sjálft með borplön og stöðvarhús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Flott samantekt hjá þér Lára og greinilega mikil og vönduð vinna lögð í þetta hjá þér sem endranær.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 17.11.2007 kl. 04:22

2 identicon

Flottur pistill. Keep up the good work! (eða er ekki dagur íslenskrar tungu örugglega búinn???, sorrý - mikið að gera, dagarnir renna saman í eitt)

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 15:01

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir innleggin, bæði tvö. Ég mun birta hér fleiri athugasemdir eftir því sem þær berast.
Og jú, Anna...  hann er búinn svo þér er óhætt að sletta svolítið. Ég kannast við þetta þegar mikið er að gera - þá er ekki alltaf auðvelt að gæta tungu sinnar...

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.11.2007 kl. 01:35

4 Smámynd: Bergur Thorberg

Góðar línur. Hvaðan er myndin á forsíðunni?

kv. Bergur Thorberg

Bergur Thorberg, 18.11.2007 kl. 17:06

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk, Bergur...  fleiri línur væntanlegar.
Myndin er frá Dverghömrum, einstöku náttúrufyrirbæri á Síðu, rétt fyrir austan Kirkjubæjarklaustur.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.11.2007 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband