Talað út um sjálfsagða hluti

Ég eignaðist bók um daginn, sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það hvað hún er góð... og svolítið öðruvísi en aðrar bækur. Hún heitir Talað út og er eftir Jónínu Leósdóttur, blaðamann, rithöfund, leikskáld og fleira. Bókin samanstendur af stuttum pistlum, hugleiðingum Jónínu um lífið og tilveruna og hún er alveg ótrúlega næm á að finna umfjöllunarefni. Ég hef verið að treina bókina og lesið einn og einn pistil, því hver og einn vekur mann til umhugsunar. 

Dæmi um nöfn á pistlunum eru: Ósýnilegt fólk, Miðaldra konur hverfa, Að skipta um skoðun, Frestunarárátta, Gerendur og "verendur", Jólastress, Hópsálir og einfarar... Alls eru 46 ólíkar hugleiðingar í bókinni og maður kannast einhvern vegin við þetta allt saman þótt maður hafi ekki hugsað út í hlutina á sömu nótum og Jónína. Nýtt sjónarhorn er alltaf hollt. 

Í gærkvöldi las ég hugleiðingu sem Jónína kallar Sjálfsagðir hlutir. Þar leggur hún út frá öllu því sem við göngum að í lífinu og lítum á sem sjálfsagða hluti; rennandi vatn, heitt og kalt, hreina loftið á Íslandi, góða heilsu og sitthvað í þeim dúr. 

Þessi hugleiðing hitti mig beint í hjartastað í umræðunni um virkjanir, náttúru, álver og fleira sem tröllríður íslensku þjóðfélagi um þessar mundir. Við tökum því sem sjálfsögðum hlut að geta andað að okkur sæmilega ómenguðu lofti, notið óspilltrar náttúru, haft rafmagn og ómælt, hreint, rennandi vatn og sjaldan hugsum við út í fortíðina eða framtíðina. Hvað forfeður okkar og formæður þurftu að leggja á sig til að við gætum haft það svona gott. Hvað verður um afkomendur okkar ef við göngum svo á auðlindirnar að ekkert verður eftir handa þeim. Við hugsum bara um nútíðina og skyndigróðann. 

Þær áætlanir sem eru á teikniborðinu núna um að virkja nánast alla orku sem í boði er og reisa álver, olíuhreinsunarstöðvar eða önnur stóriðjumannvirki vítt og breitt um landið verða æ fáránlegri þegar hugsað er lengra fram í tímann. Allt eru þetta skammtímaviðhorf og skyndilausnir sem taka ekkert tillit til búsetuskilyrða í landinu til frambúðar. Engin álver, engar virkjanir eða önnur stóriðja endist lengur en í nokkra áratugi.  

Talið er að fyrirhuguð Bitruvirkjun endist í allt að 40 ár, hún á aðeins að framleiða rafmagn, ekki heitt vatn, og nýtingin verður að hámarki 12-15%. Eyðileggingin á ósnortinni, unaðslegri náttúruperlu yrði óafturkræf. Þetta á við svo ótrúlega margt en samt á að æða áfram, horfa hvorki til hægri né vinstri og alls ekki fram á við. Fyrir nú utan það hvað þetta er mikill óþarfi. Við þurfum ekki á þessu að halda, að minnsta kosti ekki Suðvesturlandið. Hvaða hagsmunir ráða ferðinni? Ekki mínir og afkomenda minna, það er ljóst. 

Næst ætla ég að lesa kaflann Jólastress í bókinni hennar Jónínu - það eru jú jól fram undan eina ferðina enn. Eins og það er ótrúlega stutt síðan síðast. En væntanlega verður minna mál en oft áður að velja jólagjafir þetta árið því þessi bók verður í nokkrum jólapökkum frá mér í ár og notuð til tækifærisgjafa líka. Það er gott og þarft að láta ýta svona við sér eins og hugleiðingar Jónínu gera svo um munar og þær má lesa aftur og aftur... sem eru alltaf meðmæli með bókum. Vonandi er Jónína ekki búin að tala alveg út svo ég fái fleiri hugleiðingar að ári.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Bókin er flott, ætla að blogga um hana líka á næstunni.  Fékk mig til að hugsa og það gerist ekki á hverjum degi, því miður

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.11.2007 kl. 12:01

2 identicon

Greinilega bók sem ég fíla. Þarf að ná mér í þessa lesningu.

Annars gerðist dálítið skondið þegar ég las þessa færslu frá þér. Allt í einu þegar ég var í miðju kafi að lesa skaut upp í kollinn: Þarna er bogmaðurinn Lára Hanna að skrifa. var alveg viss um að ég myndi stjörnumerkið rétt og hugsaði með mér að þessi kraftur sem þú leggur í náttúruverndarbaráttuna og hvað hann er einlægur og kemur mikið frá hjartanu væri týpískt fyrir eldhugana eins og ég þekki þá í bogmannsmerkinu. Varð auðvitað hrikalega spennt að vita hvort ég myndi rétt og fór í Íslendingabókina ... og bingó - but ofcourse - ég mundi rétt. Ég var sæmilega montin af sjálfri mér að muna þetta eftir 30 og eitthvað ár  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband