Óvönduð vinnubrögð eru óviðunandi

Enn er bent á óvönduð vinnubrögð VSÓ ráðgjafafyrirtækisins, sem í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur sá um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar. Í þetta sinn er það Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Líffræðistofnun Háskóla Íslands, sem segir ófagra sögu. Það segja mér fróðir menn að hún sé þungavigtarmanneskja á sínu sviði. Áður hafði annar prófessor við HÍ, Gísli Már Gíslason, sagt frá því að upplýsingum hafi vísvitandi verið haldið leyndum við gerð frummatsskýrslunnar eins og sjá má hér.


Þóra Ellen segir meðal annars að Hengilssvæðið sé talið næstverðmætasta útivistarsvæðið á suðvesturhorninu á eftir Þingvöllum og mikilvægt hefði verið að gera matið yfir sumartímann. Það er auðvitað rökrétt í ljósi þess hve svæðið er hátt yfir sjávarmáli þótt það njóti sín engu að síður frábærlega vel á fallegum vetrardögum, þó að á ólíkan hátt sé.

Þetta næstverðmætasta útivistarsvæði á suðvesturhorninu á eftir Þingvöllum vilja Orkuveita Reykjavíkur og sveitarstjórn Ölfuss eyðileggja, gjörsamlega að ástæðulausu. Hvernig sem reynt er að réttlæta virkjun á þessu svæði hlýtur niðurstaðan alltaf að vera sú að hún er fullkomlega óþörf. Hvað ætli íbúum á þessu svæði finnist um málið ef þeir íhuga það í þessu samhengi - hvort sem þeir hafa séð þetta náttúrudjásn eða ekki?

Athugasemdir við frummatskýrsluna voru 678 samkvæmt lokatölum frá Skipulagsstofnun en þar skeikar þó sem nemur því, að þær athugasemdir sem undirritaðar voru af fleiri en einum voru aðeins metnar sem ein athugasemd. Eins og fram kemur hér var sú athugasemd undirrituð af 11 manns og fleiri voru víst þannig. Því má auðveldlega álykta að athugasemdirnar - talið í einstaklingum - hafi verið 700 eða fleiri.

Það þarf ekki að leggjast í tímafrekt grúsk eða vera mikill spekingur til að sjá að virkjanaframkvæmdir á þessu svæði eru út í hött og allir hagsmunaaðilar sem að málinu koma hafa lagst gegn hvers konar framkvæmdum þar.

Síðan kemur í ljós að matið á umhverfisáhrifum, sem unnið er af aðalframkvæmdar- og hagsmunaaðilanum og ætlað er að réttlæta virkjanaframkvæmdirnar, er illa unnið, illa kynnt, upplýsingar og gögn falin, sveitarfélaginu greiddar mútur til að flýta framkvæmdum og tryggja vildarvináttu og metfjöldi athugasemda og mótmæla berst við framkvæmdinni.

Hvernig er annað hægt en að hætta við... þótt ekki sé nema í ljósi þess að Ísland á að heita lýðræðisríki?

Fréttabladid_191107


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veistu Lára Hanna: Ég er eiginlega gjörsamlega hætt að trúa því að staðið sé heiðarlega að málum hér og í svo mörgu þar sem vegast á hagsmuni almennings versus hagsmunir fyrirtækja. Hvert dæmið rekur annað nú síðustu árin þar sem í ljós kemur þegar grannt er skoðað að aðilar sem eiga að vera umsýsluaðilar með hagsmunum okkar almennings ganga hreinlega erinda fyrirtækja eða láta þau múta sér. Ég er komin á þá skoðun að hér sé þvílík bullandi spilling að það hálfa væri nóg. Hún er í orkumálum, hún er í einkavæðingarmálum, hún er í skipulagsmálum og svona mætti áfram telja. Og hún er ekki hvað síst virk á sveitarstjórnarstiginu. Það er sorglegt til þess að vita að orkufyrirtæki, örfáir auðmenn, byggingaverktakar og aðrir slíkir geti valsað um inni í stjórnkerfinu og kippt í spotta hér og annan þar, boðið gull og græna skóga, jafnvel boðist sjálfir til að sjá um framkvæmdir á hinu og þessu í undirbúningsferlum til að tryggja að þeir geti örugglega verið báðum megin borðs  - Arrrggg  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 09:09

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Því miður hefurðu alveg rétt fyrir þér, Anna. Við erum svo sinnulaus að við látum þetta alltaf yfir okkur ganga og engum dettur í hug að segja af sér embættum eða axla ábyrgð.

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.11.2007 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband