25.11.2007
Bloggað um blogg og bloggara
Nú ætla ég að víkja frá upprunalegum tilgangi þessarar síðu og tala um allt annað.
Hvaða orð er þetta eiginlega? Blogg. Við tókum það gagnrýnislítið úr ensku og bættum einu g-i á endann til að laga orðið betur að íslensku - aðallega framburðinum, held ég. Eitthvað hefur verið reynt að finna íslenskt orð yfir fyrirbærið en ekkert náð að festa sig í sessi, tilraunirnar verið of máttlausar og komið of seint. Orðið er líklega komið til að vera.
Enska orðið "blog" er stytting á orðinu "weblog" eða "vefdagbók" sem gefur til kynna upphaflegt eðli bloggsins, þ.e. dagbók á vefnum, gjarnan um persónulega hluti eins og er náttúra dagbóka. Ef einhver hefur áhuga er nánari útskýring á orðinu hér og það eru ekki ýkja mörg ár síðan orðið, eða öllu heldur framkvæmdin sjálf, bloggið, varð nógu þekkt til að fara í orðabækur.
Ég er sein til með sumt og uppgötvaði ekki bloggið fyrr en fyrir um ári síðan. Áður hafði ég lesið pistla Egils Helgasonar reglulega og þar kynntist ég fyrst bloggi þegar hann harðneitaði að skrif hans teldust blogg. Nú bloggar hann grimmt og mér finnst Kári hinn ungi afskaplega skemmtilegur krakki. Það verður gaman að fylgjast með þroskasögu hans úr fjarlægð. Vonandi heldur Egill áfram að blogga.
Einhvern veginn beit ég það í mig að ég hefði ekkert gaman af að lesa blogg, enda þekkti ég enga bloggara og þar sem þetta áttu að vera persónulegar dagbækur var ég ekki ginnkeypt fyrir að hnýsast í einkalíf annarra. Mér kemur einkalíf fólks ekkert við, einkum og sér í lagi ókunnugra.
Svo tóku tvær vinkonur mínar upp á því að blogga. Önnur var í námi erlendis og ég vildi fylgjast með henni og hin er einfaldlega með skemmtilegri konum sem ég þekki - svo ég fór að lesa blogg. Reyndar voru þær - og eru enn - afspyrnulatar við þetta en ég var dottin í bloggið. Ekki man ég nákvæmlega hvernig þetta vatt upp á sig, en fyrir tæpu ári var ég búin að búa til sérstaka bloggmöppu í bókamerkin hjá mér og hún fylltist af slóðum á bloggara. Og ég uppgötvaði að ég var alls ekki að hnýsast í einkalíf fólks, bloggið er miklu víðtækara en svo og gjarnan bráðskemmtilegt, áhugaverðar umræður og lífleg skoðanaskipti í gangi.
Þetta er fyrsti bloggarinn sem fór í möppuna hjá vinkonum mínum tveimur og syni annarrar. Ég þekkti konuna af afspurn og hún er algjör snillingur í að gera hversdagslega atburði skemmtilega og spennandi. Maður brosir eftir hvern lestur.
Þessi varð fljótlega skyldulesning. Hún hefur skrautlegan stíl, myndrænan og bráðfyndinn, en hún er líka einlæg og hefur með eindæmum ríka réttlætiskennd.
Svo er það þessi sem segir svo dásamlega frá. Nánast allt sem frá henni kemur hefur snert mig á einhvern hátt og kennt mér eitthvað nýtt um hluti sem ég hef aldrei kynnst af eigin raun.
Þessar tvær eiga örugglega báðar eftir að skrifa bækur, mjög ólíkar bækur. Ég verð fyrst til að kaupa bækurnar þeirra og hlakka til að lesa þær.
Þessi varð fljótlega algjört möst. Hún er flott kona og áhugaverð þótt oft sé ég ósammála henni.
Enn ein góð vinkona mín bloggar, en stopult þó. Hún er ein af þessum ódrepandi hugsjónamanneskjum sem er óþreytandi við að benda á bæði það sem betur má fara og sem vel er gert.
Skólabróðir minn er orðinn duglegur bloggari. Hann er frábær ljósmyndari, birtir flottar myndir á blogginu sínu og setur fram skemmtilegar hugmyndir sem hann fær í bunkum.
Þessi er gamall vinnufélagi og mér finnst alltaf gott að lesa bloggið hans. Honum er einkar lagið að blanda saman hlutum í skrifum sínum, er einstaklega vel máli farinn og segir skemmtilega frá.
Vin minn frá unglingsárum fann ég og var búin að lesa bloggið hans lengi áður en ég gaf mig fram við hann. Mér virðist hann ennþá vera svolítið dyntóttur eftir alla þessa áratugi en það verður áhugavert að kynnast honum aftur.
Þessi er líka gamall vinnufélagi og nýbyrjaður að blogga. Hann er með yndislegri mönnum og bloggið hans eftir því. Hann segir þannig frá, að fyrr en varir er maður kominn á staðinn og sér atburðina ljóslifandi fyrir sér. Skrifin hans virka á mig eins og prósaljóð. Hann á að skrifa ljóðabækur.
Svo er það þessi náungi. Ég varð fyrst vör við hann á athugasemdum annarra bloggara og var hikandi við að skoða skrifin hans af því myndin sem hann notaði var svo skrýtin (hann er reyndar nýbúinn að bæta úr því). En ég lét vaða og sá ekki eftir því. Hann kryfur lífið og tilveruna, trú, trúfrelsi, trúleysi, andann og alheiminn almennt alveg sérlega vel. Það eina sem angrar mig við bloggið hans er, að hann er með ljósa stafi á dökkum bakgrunni - og það get ég ekki lesið, sjónin mín er bara þannig. Svo ég þarf alltaf að hafa heilmikið fyrir honum - afrita færslurnar hans inn á Word-skjal, sverta letrið og stækka það. Stundum þarf ég marga daga til að melta skrifin, liggja yfir þeim og lesa oft. Maður tekur misvel við. En ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma verið alvarlega ósammála honum.
Þá eru það tveir kollegar mínir í þýðingunum, háðfuglinn og lati bloggarinn, frábær listakona þess síðarnefnda, leiðsögukonan, bókabéusinn, veðurfræðingurinn, eldhuginn, tölvu- og ættfræðingurinn, uppáhaldssöngvarinn, skemmtilegi pælarinn, fallega Stígamótakonan, maður frænku minnar, líklega systir Gyðu bekkjarsystur, þessi og þessi standa með okkur í baráttunni, glæsilega nágrannakona mín, sagnfræðingurinn og tölvunördinn, og fleiri og fleiri og fleiri. Listinn er endalaus.
Ég hafði aldrei ætlað mér að blogga sjálf, láta mér bara nægja að lesa blogg annarra. En nauðsyn braut lög og vegna sérstaks baráttumáls, sem dylst engum sem les fyrri færslur, lét ég slag standa og byrjaði 1. nóvember. Hvort ég held áfram þegar baráttumálið verður útkljáð veit ég ekki, það verður tíminn að leiða í ljós. Ég hef verið hikandi og feimin við að afla mér bloggvina, en þó gert heiðarlegar tilraunir því ég lærði smátt og smátt hvað það er þægilegt að fylgjast með skrifum þeirra sem eru á bloggvinalistanum. Ég hef líka verið allt of ódugleg við að skrifa athugasemdir en líka gert heiðarlegar tilraunir þar. En þetta kemur í rólegheitunum.
Aðalatvinna mín felst í því, að sitja fyrir framan tölvuna í vinnuherberginu heima og þýða misgott sjónvarpsefni. Þetta er einmanalegt starf, engir vinnufélagar, engin skemmtileg kaffistofa til að spjalla við fólk og stundum er hápunktur dagsins að setja í þvottavél, fara út með ruslið eða skreppa í eitthvert samráðsfélagsheimilið, Hagkaup, Bónus, Krónuna eða Nóatún. Þá er gott að geta kíkt á kunningjana á blogginu og athugað hvað er á seyði á þeim vettvangi.
Þættirnir hans Gísla Einarssonar, Út og suður, voru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Hann var naskur að finna áhugvert fólk víða um land og eftir hvern einasta þátt fékk ég sömu tilfinninguna: Þetta eru hinar sönnu hetjur Íslands. Liðið á síðum tímarita eins og Séð og heyrt, auðjöfrarnir og glansgengið hefur ekkert í þær.
Sama finnst mér um bloggarana, þeir eru líka alvörufólk.
Athugasemdir
Þetta er alveg frábær færsla og mér er heiður af að þú skulir nefna mig til. Ég fer hjá mér. Edda er systir Gyðu. Það get ég staðfest. Byrjaði sjálf að blogga í lok febrúar og fram að þeim tíma hafði ég ekki lesið blogg. Í blogginu opnast nýr heimur.
Takk og góða nótt
Jenný Anna Baldursdóttir, 25.11.2007 kl. 01:00
Þumlar upp! :-)
Einar Indriðason, 25.11.2007 kl. 01:05
Blogg = Vinna :)
Kjartan Pétur Sigurðsson, 25.11.2007 kl. 01:31
Frábær pistinn, Lára Hanna. Ég las hvert einast orð og skoðaði hvern einasta link. Mér hefur oft dottið í hug að skrifa um bloggin sem ég skoða reglulega, mörg þeirra eru þau sömu og þú linkar í, en nú þarf ég þess ekki.
Sæmundur Bjarnason, 25.11.2007 kl. 01:45
Úps, þar fór það. Ég hefði átt að lesa þetta yfir. Pistinn á auðvitað að vera pistill. Sorrý.
Sæmundur Bjarnason, 25.11.2007 kl. 01:48
Afskaplega skemmtilegur pistill hjá þér og vel skrifaður.
En vegna pistilsins hér á undan um virkjanir á Hellisheiði, þá svamlar Ólafur Áki í forarpytti órökstuddra fyllyrðinga. Mig undrar ekki að svar þitt hafi verið harðorðað, það er því miður ekki annað hægt þegar svara á jafnómálefnalegu og fullyrðingaglöðu fólki og Ólafur Áki er.
Hann fullyrðir að það sé "vegna virkjana að ferðaþjónustan blómstrar á mörgum stöðum". Það hefur aldrei verið gerð könnun á Íslandi um aðdráttarafl virkjana á ferðamenn.
Til eru margar tegundir ferðamennsku, m.a. heilsuferðamennska, söguferðamennska, náttúruferðamennska. Ísland á prýðilega möguleika á að gera sig gildandi í þessum tegundum ferðaþjónustu ef menn eins og Ólafur Áki fá ekki að vaða uppi með virkjanir sem eyðileggja forsendur þess að hægt sé að reka hér heilsu-, sögu- og náttúruferðaþjónustu.
Haldi áfram sem horfir þá verður áður óþekkt tegund ferðaþjónustu það sem helst mun vera hægt að stunda hér og það má kalla hana stóriðjutengda ferðaþjónustu. Vilja Íslendingar það?! Svari nú hver fyrir sig.
Fréttamaðurinn hefur orðrétt eftir Ólafi Áka: " Jafnt og þétt (mun) síga undan stoðum atvinnulífs Ölfusinga (sic) og eitthvað verði að koma á móti skerðingu aflaheimilda." Hvernig á að eiga vitrænar og málefnalegar samræður við menn sem haga máli sínu á þennan hátt?: hver fullyrðingin eftir aðra, engin rök. Nei, mér virðist að Ólafur Áki sé ekki að biðja um að eiga samtal við andstæðinga sína heldur sé hann að segja þeim að skipta sér ekki af því sem hann ætlar að ráða.
Helga (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 02:57
Mér heyrist og sýnist þú vera orðin hörku-bloggari. Enda er aldrei um neitt hálfkák að ræða hjá þér.
Svo er það hitt með hann Ólaf Áka, hver mannseskja á jú rétt á að hafa sina skoðun. En fólk sem gegnir opinberum störfum svo ég tali nú ekki um það fólk sem er kosið af almenningi, verður að vera málefnalegt og kunna að hlusta.
Þórunn (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 18:11
Jenný - ég sem reyndi að hemja orðfærið og taka ekki of djúpt í árinni. Sagði til dæmis ekki óborganleg um þig. Mig grunaði þetta með Eddu, takk fyrir að staðfesta það og já - bloggið er skemmtilegt en mikið djö... er það tímafrekt!
Nú kíki ég á Einar.
Ég veit, Kjartan. Blogg er bæði mikil vinna og það getur verið hluti af vinnunni eins og hjá þér.
Sæmi - þú getur alveg skrifað um þetta líka, það var ekki meiningin að taka af þér ómakið.
Helga og Þórunn - Ólafur Áki er í opinberri stöðu og með ótrúlega mikil völd miðað við stærð sveitarfélagsins og atkvæðin sem hann hefur á bak viði sig. Hann hefur vissulega rétt á að hafa sína skoðun en í þessari stöðu getur hann ekki leyft sér að tala eins og hann hefur gert og ákveða hlutina fyrirfram.
Nei, Þórunn... ég er ekki orðin hörku-bloggari, ég held ekki. Verð kannski aldrei, þetta er svo tímafrekt. En hver veit nema ég hætti að senda allan hóppóstinn sem ég hef verið svo dugleg við og fari að setja upplýsingarnar og allt sem í póstunum hefur verið hingað á bloggið - og svo getur fólk bara borið sig eftir björginni ef það hefur áhuga.
Ég verð að pæla í þessu.
Lára Hanna Einarsdóttir, 25.11.2007 kl. 19:07
Takk fyrir mig Lára mín. Já það er spurning með orðið bloggari. Er ekki of seint að breyta úr þessu? Og í hvað? Kveðja
Eyþór Árnason, 25.11.2007 kl. 22:19
Mikið svakalega var gaman að lesa þetta. Og bara svo þú vitir það, - það var alveg ótrúlega gaman að uppgötva þig í athugasemdakerfinu mínu En nú er ég búin að uppgötva enn fleiri nýja bloggara eftir að hafa lesið þessa færslu. Vind mér í að kynnast þeim nánar - Takk og haltu áfram að blogga, endilega haltu áfram að blogga, ekki láta þér detta í hug að hætta - plís
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 23:49
Ég er nú ekki lítið upp með mér að vera í þessum ágæta félagsskap. Því miður hef ég verið óduglegur að skrifa sjálfur síðustu daga.
Lára Hanna á hrós skilið fyrir mikið og óeigingjarnt starf á síðustu vikum. Niður með Ólaf Áka og svoleiðis pakk!
Sigurður Hrellir, 26.11.2007 kl. 00:59
Mér hættir líka til að blogga um blogg sjálfum, sjálfhverjan bloggara í sinni sönnustu mynd, en ég geri það ekki eins vel & þú gerðir þarna. Mitt 'blogg' kalla ég nú mína skrafskjóðu, en það skilja nú öngvir mína íslensku, þó að margir bloggvinir mínir séu nú nauðalíkir þínum.
Ég er nú heldur ekki sammála honum Ólafi Áka um sumt í pólitík, en ég kalla hann nú ekki pakk heldur, enda fáa menn í persónu þekki ég nú heilsteyptari í sínu. Enda eru börnin hans & börnin mín náfrænkur & frændur.
Hann á enda alveg inni hjá mér fyrir okkar kynni að ég kjósi að verja hann fyrir það.
Vænti nú að þú eigir nú gæsku í þínu hjarta til að fyrirgefa mér þá skoðun mína.
En flott færsla hjá þér, væri kátur með þína bloggvináttu líka.
Steingrímur Helgason, 26.11.2007 kl. 01:27
Ég hlýt að hafa verið drukkinn, allavega með svefn- fyrir framan og klukkan gengin langt fram yfir miðnætti. Maður ætti ekki að hella sér út í pólitískt skítkast um miðjar nætur eins og dæmin sanna.
Sigurður Hrellir, 26.11.2007 kl. 08:30
Lati bloggarinn hlýtur að verða að kvitta fyrir innlitið - og þakka fyrir að vera nefndur til sögunnar þrátt fyrir vesaldóminn. Og já, hann játar á sig þá sök að tuða ekki daglega - en heldur þó úti tveimur bloggsíðum og er auk þess prófarkalesari á þeirri þriðju, þannig að skepnunni er þó ekki alls varnað.
Matthías hinn lati
Ár & síð, 26.11.2007 kl. 09:49
Jæja Lára mín Hanna, víst ertu orðin bloggari! Og eins og þín var von og vísa þá er ekkert um hálfkveðnar vísur! Frábærir pistlar um virkjanamálin á Hellisheiði og bloggið. Ég er handviss um að það verða önnur og fleiri mál sem koma upp í dagsins önn sem þú tekur afstöðu til. Þannig að þitt blogg er komið til að vera. 'Eg er hin ánægðasta með það. En varðandi bloggin þá hef ég verið að velta vöngum yfir þessu nýja samskiptaformi. Nú eru allir hættir að fara í heimsóknir og kíkja í kaffi. enginn hefur tíma til þess í önn daganna. Þess vegna er svo ágætt að geta "hitt" fólk á blogginu. Suma (ókunnuga)er maður farinn að nauðaþekkja og þeir bæta og auka lífsgæði manns. Aðra þekkir maður í verunni og á við þá samskipti eins og þessi hér. Bloggið hefur allavega verið mér gleðigjafi og einnig upplýsingaveita. Takk fyrir að minnast á mig og líka að skamma mig svolítið fyrir bloggletina! kveðja 'Asa Björk
Ása Björk (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 20:12
Maður er náttúrulega alveg miður sín að vera ekki nefndur til sögunnar. Kannski á eftir að koma í ljós hvort ég standi undir væntingum. En annars er plokk mín tillaga varðandi heiti á bloggið, samanber plokkfiskur. Menn plokka það áhugaverðasta úr tilverunni og setja á netið. Hljómar nógu líkt enska upprunalega orðinu til að geta náð fótfestu.
Emil Hannes Valgeirsson, 26.11.2007 kl. 23:39
Emil... það er óþarfi að vera miður sín... þú ert náttúrulega einn af þessum "...og fleiri og fleiri og fleiri." Einhvers staðar verður maður að draga mörkin, en mikið var myndin flott hjá þér af Lækjargötu 2. Mér líst æ betur á plokkið sem ég íhuga það lengur.
Ása Björk... þú áttir skammirnar skildar fyrir bloggletina, og ég sé ekki að þú sért neitt að taka þig á.
Matti lati... þú ert hörkuduglegur, en þegar þú bloggar þá er gaman.
Sigurður... í ljósi umræðna um blogg Össurar klukkan 2 eftir miðnætti og aðdróttunum í hans garð ætti kannski enginn að blogga eftir miðnætti, svei mér þá.
Steingrímur... loksins tók einhver hanskann upp fyrir sveitarstjórann, ekki veitir af. En persónan Ólafur Áki er sjálfsagt prýðismaður og frændi, hér er verið að gagnrýna sveitarstjórann Ólaf Áka og framgöngu hans í vissum málum sem fjölmörgum þykir afar gagnrýnisverð. Þú kippir þér vonandi ekkert mikið upp við það.
Anna... það var ekki síður skemmtilegt að vera uppgötvuð. Á dauða mínum átti ég von... og allt það. Við ættum að hittast einhvern tíma þegar þú kemur suður og rifja upp gamlar minningar. Nóg er af þeim.
Eyþór... ég bendi á athugasemd Emils nr. 16 um plokkið. Því meira sem ég velti þessu fyrir mér því betur líst mér á tillögu Emils. Hvort það er svo of seint að breyta skal ósagt látið, það kemur ekki í ljós nema láta reyna á það. Hver vill byrja? Einhver?
Lára Hanna Einarsdóttir, 27.11.2007 kl. 22:24
Ég held að blogg sé orðið svo fast í málinu að því verði ekki skipt út. Mér finnst annars merkilegt hve margir reyna að finna annað orð fyrir það.
Gísli Ásgeirsson (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 22:46
Af hverju ekki að blokka? Og blokkarar myndu segja ,blokkið mitt' eða ,blokkin mín'. Þá er hægt að rífast um kyn orðsins. Ritstífla á Netinu yrði þá að blokkerast (t.d. letiblokkarar ). Þótt orðið þýði líka annað er varla hætta á misskilningi, frekar möguleikar á orðaleikjum.
Ár & síð, 27.11.2007 kl. 22:50
Blessaður, Gísli... gaman að sjá þig hér. Þetta er alveg hárrétt hjá þér, blogginu verður sjálfsagt ekki skipt út héðan af. En mér finnst mjög gaman að því hve margir reyna að finna annað orð yfir það og ég vil túlka slíkar tilraunir sem einlægan áhuga á íslenskri tungu og vilja til að finna íslensk orð yfir erlend hugtök. Það er alltaf jákvætt, jafnvel þótt það takist ekki.
Lára Hanna Einarsdóttir, 27.11.2007 kl. 22:53
Þakka þér fyrir að taka mig með í þennan góða félagsskap.
Heidi Strand, 27.11.2007 kl. 23:26
Ég held ég haldi mig við bloggið. En það er gaman að skoða aðra möguleika. Vinur minn nefndi skrafa . Að skrafa við tölvuna og bloggvini sína? Skrafa við skýin = fimbulfamba.
Eyþór Árnason, 28.11.2007 kl. 00:40
Ég fann ekki málfræðilega úttekt á orðinu blogg og því verður þessi samantekt að duga.
Hér er blogg, um blogg, frá bloggi til bloggs.
Hér eru blogg, um blogg, frá bloggum, til blogga.
Bloggari, bloggarar,
bloggheimur, bloggmúgur,
blogglíf
bloggferill
bloggleti
bloggskrif
tepokablogg
aumingjablogg
moggablogg
sjúkdómsblogg
stjórnmálablogg
femínistablogg
bloggdauði…
Eflaust eru til fleiri orð en þessi...
Gísli Ásgeirsson (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 08:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.