Hátíð kristni eða sólstöðuhátíð

Vetrarsólstöður (eða vetrarsólhvörf) eru á tímabilinu 20. - 23. desember.  Breytileiki dagsetningarinnar mun fyrst og fremst stafa af hlaupársdögum en oft er einfaldlega miðað við 21. desember í daglegu tali.  Á vetrarsólstöðum er dagurinn stystur, síðan fer hann að lengja smátt og smátt og það grillir í vorið handan við sjóndeildarhringinn þótt erfiðir og jafnvel hundleiðinlegir vetrarmánuðir séu fram undan.  Hér er skemmtileg umfjöllun Almanaks Háskóla Íslands um hænufetið, en ein merking orðsins er einmitt lenging sólargangsins dag frá degi eftir vetrarsólstöður.

Sumum líkar myrkrið vel, öðrum illa, mörgum er slétt sama um það.  Myrkrið í umhverfinu má auðveldlega lýsa upp en þeir eru verr settir sem upplifa myrkur í sálartetrinu líka.  En hver hefur líklega sinn háttinn á að eiga við það eins og annað.

Kannski væri öllum hollt að setja ytra myrkrið sem við upplifum í samhengi við söguna.  Ísland hefur verið byggt í rúm 1100 ár.  Við höfum haft rafmagn í tæp 100 ár.  Það er um 9% af þeim tíma sem landið hefur verið í byggð.  Vetrarmyrkrið sem við búum við í raflýstri veröld nútímans hefði líklega verið sem sólbjartur sumardagur í augum forfeðra okkar.  Við erum lánsöm og okkur ber að þakka þeim sem byggðu þetta land og þraukuðu í kulda og myrkri með því að bera tilhlýðilega virðingu fyrir sögunni í víðasta skilningi þess orðs.

Forfeður okkar, frumbyggjar Íslands, vissu hvað um var að vera í náttúrunni á þessum árstíma og héldu hátíð sem síðar breyttist í kristna jólahátíð.  Það er svo sem sama hvaðan gott kemur og upplagt að gleðjast í skammdeginu og fagna hækkandi sól, hvað sem við köllum þessa ágætu hátíð.

Gleðileg jól, njótum sólstöðuhátíðarinnar.


Við skulum ekki vetri kvíða

Við skulum ekki vetri kvíða,
vænn er hann á milli hríða.
Skreyttur sínum fannafeldi,
fölu rósum, stjörnueldi
dokar hann við dyrastaf.
Ekkert er á foldu fegra,
fagurhreinna, yndislegra
en nótt við nyrzta haf.

Við skulum ekki vetri kvíða,
vorið kemur innan tíða.
Undan fargi ísaþagnar
eyjan græna rís og fagnar,
líkt og barn, sem lengi svaf.
Kviknar landsins ljósa vaka.
Ljóð og söngva undir taka
himinn, jörð og haf.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.  Síðustu ljóð, 1966.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta er allt mjög merkilegt, vetrarsólstöðurnar hafa örugglega haft mikla þýðingu í myrkrinu til forna. Ég var einmitt að skrifa dálítið um þetta frá ákveðnu sjónarhorni, en bíð með birtingu til 22. desember.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.12.2007 kl. 13:48

2 Smámynd: Mofi

Gaman að vita hvenær almennt fólk hætti að halda upp á vetrarsólstöður og aðeins upp á fæðingu frelsarans. Mér finnst eins og mörgum íslendinginum meira vænt um sinn heiðna sið en um kristni jafnvel þótt að landið er búið að vera mjög kristið í mörg hundruð ár sem sést vel á okkar helstu þjóðarskáldum.

Mofi, 19.12.2007 kl. 17:59

3 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Gleðileg jól og takk fyrir skemmtilegt bloggár :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 22.12.2007 kl. 01:18

4 Smámynd: Einar Indriðason

Gleðileg jól, og gott nýtt ár :-)

Einar Indriðason, 22.12.2007 kl. 21:58

5 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Gleðileg jól og takk fyrir skemmtunina á árinu sem er að líða. Megi komandi bloggár verða farsælt.

Steingerður Steinarsdóttir, 23.12.2007 kl. 09:53

6 identicon

Elsku Lára Hanna. Innlitskvitt að norðan til að óska þér gleðilegra jóla. Hafðu það sem allra best þarna í útlöndum (mér skilst að þú sért þar yfir jólin). Takk fyrir að deila með okkur þessu fallega ljóði 

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 23.12.2007 kl. 21:10

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir stutta en afskaplega gefandi bloggvináttu á árinu.  Ég gef mér að hún eigi eftir að lengjast í annan endann.  Gleðileg jól til þín og þinna og láttu þér ekki verða kallt í þokunni.  Muhahahahahaha

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.12.2007 kl. 23:06

8 Smámynd: Eyþór Árnason

Gleðileg jól Lára Hanna mín og takk fyrir blogginnlitin.

Eyþór Árnason, 26.12.2007 kl. 02:01

9 Smámynd: Heidi Strand

Gleðilega rest. Ég vona að þú hafir það gott þarna úti í þokunni.
Þökk fyrir ánægjuleg samskipti á árinu. Bestu kveðjur til ykkar beggja frá okkur.

Heidi Strand, 26.12.2007 kl. 23:02

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Gleðilegt ár Lára Hanna og takk fyrir bloggsamskiptin á árinu sem er að líða. Bestu kveðjur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 31.12.2007 kl. 15:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband