12.3.2008
Svikamyllan á Suðurnesjum
Það er hreint með ólíkindum að hlusta á málflutning Árna Sigfússonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, þessa dagana og vikurnar. Hann slær um sig með stórkarlalegum yfirlýsingum um fyrirhugað álver í Helguvík, framkvæmdaleyfi, útboð og fleira án þess að nokkur innistæða sé fyrir kokhreystinni. Það vantar bara upp á að sjá hann með skóflu í hönd að taka fyrstu stunguna með glott á vör.
Staðreyndin er nefnilega sú að lausir endar eru enn svo margir og svo gríðarlega mikilvægir, að það er fullkomið ábyrgðarleysi og sóun á skattpeningum íbúa Reykjanesbæjar og Garðs að stinga skóflu í svörð eins og staðan er. Þótt Árni segi þeim ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir er sannleikurinn engu að síður sá, að enn sem komið er hlýtur framkvæmdin að teljast fullkomlega óraunhæf. Stundum er sagt að hlutirnir séu "talaðir niður" en í þessu tilfelli er verið að "tala upp", þ.e. láta líta út eins og allt sé í lagi þótt álversmenn á Suðurnesjum séu með allt niðrum sig.
Lítum nánar á málið.
Í fréttum í gær kom fram að búið væri að samþykkja nauðsynlegt deiliskipulag, bæði í Garði og Reykjanesbæ, til að framkvæmdir gætu hafist við að reisa álverið í Helguvík. Gott og vel. En varla er nú skynsamlegt að reisa álver án þess að hafa tryggt sér tilskylda orku. Til að hægt sé að reka skepnuna þarf gríðarlega mikla orku og hana þarf að flytja frá viðkomandi virkjunum. Ekki nema lítið brot af nauðsynlegri orku fæst úr virkjunum á Reykjanesi. Af þeim 260 MW sem talin eru upp í töflu Skipulagsstofnunar um "líklegustu virkjunarkosti Hitaveitu Suðurnesja" eru líklega að minnsta kosti um 115 MW óraunhæf sökum umdeildra orkuflutninga og/eða andstöðu við markmið Suðurlinda, sem er að nýta orkuna heima í héraði. Raunhæf orkuöflun í héraði er því í besta falli 145 MW - en til að keyra skrímslið þarf 435 MW. Eftir er þá að afla 290 MW - sem er nákvæmlega tvöfalt það magn sem Reyknesingar geta sjálfir skenkt sér í álverið.
Álversfíklar Suðurnesja hyggjast þá leita á náðir Reykvíkinga með orkuöflun og þiggja orku frá Orkuveitu Reykjavíkur, einkum úr virkjunum sem hvorki er búið að veita leyfi fyrir né byrjað að reisa. Þar er fyrst að nefna Bitruvirkjun sem rísa myndi á Ölkelduhálsi, skammt fyrir norðan Hellisheiði. Gríðarleg andstaða er gegn þeirri virkjun, bæði meðal almennings, fjölmargra borgarfulltrúa í Reykjavík og þingmanna. Ölkelduháls og umhverfi hans er náttúruperla sem væri glæpur að hrófla við.
Í því sambandi er vert að nefna, að í viðtali í 24 stundum 16. febrúar sl. sagði Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður stjórnar OR: "Ég mun ekki styðja neitt sem ógnar Ölkelduhálsi og Klambragili og þessum mjög svo mikilvægu útivistar- og fræðslusvæðum." Á forsíðu Fréttablaðsins 22. febrúar sl. sagði forstjóri OR að fyrirtækið selji ansi mikla orku til álvera og ekki sé heppilegt að hafa öll eggin í sömu körfu. Í áformum Norðuráls er gengið út frá því, að 175 MW fáist frá OR en aðeins hefur verið samið um 100 MW. Ef marka má orð forstjóra OR verður ekki samið um meira á þeim bænum.
Gríðarlega umdeildir orkuflutningar í gegnum mörg sveitarfélög gera alla orku á Hengilssvæðinu að óraunhæfum valkosti fyrir álver í Helguvík. Mörg þessara sveitarfélaga hafa þegar lýst því yfir að engar háspennulínur verði lagðar í þeirra landi.
Ég hef áður skrifað um þann reginmisskilning sem sífellt er hamrað á, að jarðgufu- eða jarðvarmavirkjanir séu hrein og mengunarlaus orkuöflun. Nú þegar hefur brennisteinsvetnismengun frá Hellisheiðarvirkjun einni farið yfir hættumörk á höfuðborgarsvæðinu. Verði af fleiri virkjunum á Hengilssvæðinu og Hellisheiði eykst sú mengun til mikilla muna. Fram hefur komið, m.a. í Speglinum á Rás 1 þann 7. nóvember sl. að ef Bitru- og Hverahlíðarvirkjanir bætist við verði losun brennisteinsvetnis frá þessum þremur virkjunum orðin ríflega FIMMFALT meiri en öll náttúruleg losun brennisteinsvetnis frá jarðvarmasvæðum landsins. Langtímaáhrif á heilsu fólks eru ekki þekkt svo þarna væri rennt staurblint í sjóinn og jafnvel tekin óviðunandi áhætta með líf og heilsu íbúa á suðvesturhorni landsins.
Í þessum sama Spegli, þar sem rætt er við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, kemur einnig fram að óæskilegt sé að beina ferðafólki inn á þessi svæði ef virkjanirnar verða að veruleika. Þorsteinn segir að þessi mikla losun brennisteinsvetnis fari ekki saman við ferðamennsku með tilliti til mögulegra áhrifa á heilsufar fólks. Og sama er sagt gilda um náttúruna og fólkið - langtímaáhrif mengunarinnar eru ekki kunn. Þetta ættu að vera fullkomlega nægjanleg rök gegn þeirri fullyrðingu virkjana- og álversfíkla að allt sé þetta nú gert í fullri sátt við umhverfið, því hvað er umhverfi annað en náttúran og fólkið sem vill njóta hennar?
Sem sagt - Árni Sigfússon og félagar ætla samt að byrja að reisa álver og æða áfram með frekju og yfirgangi, enda þótt þeir séu langt í frá búnir að tryggja sér þá orku sem til þarf til að reka það. Væntanlega er þeim líka slétt sama um þótt þeir stefni mögulega heilsu ríflega helmings landsmanna í hættu með brennisteinsvetnismengun og leggi ósnortnar náttúruperlur í rúst. Í mínum huga heitir þetta glæpsamlegt athæfi óforsjálla manna, sem eins og sannir fíklar hugsa ekki um neitt nema fix dagsins í dag og skyndigróðann á kostnað bæði okkar og komandi kynslóða.
Árni Sigfússon hefur oft lýst því yfir í fjölmiðlum að álver í Helguvík sé lífsspursmál fyrir Suðurnesjamenn því það vanti svo sárlega störf eftir að herinn fór. Þetta er bull sem mjög auðvelt er að hrekja. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er í lágmarki og þar, eins og á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið flutt inn erlent vinnuafl í stórum stíl því heimamenn anna ekki þeim störfum sem í boði eru. Fram kom í frétt 4. mars sl. að samkvæmt samantekt Hagstofunnar hafi íbúum fjölgað mest á Suðurnesjum af öllum landshlutum í fyrra. Ekki bendir það beinlínis til að erfitt sé að fá vinnu við hæfi á svæðinu.
Það er nóg annað um að vera á Suðurnesjum. Eins og fram kom í grein eftir Berg Sigurðsson, framkvæmdastjóra Landverndar, í Morgunblaðinu 23. febrúar sl. drýpur smjör af hverju strái á Suðurnesjum. Hann nefnir t.d. 200 störf tengd nýju hóteli við Bláa lónið, 90 störf við fyrirhugaða kísilverksmiðju, nokkur hundruð störf til að þjónusta hið nýja háskólasamfélag á flugvallarsvæðinu, 150 störf við netþjónabú auk 60-70 nýrra starfa á ári í tengslum við aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli. Bergur telur að fjöldi þessara starfa samsvari starfsmannafjölda u.þ.b. þriggja ávera.
Árni hefur nú gert sér grein fyrir því að hjalið um skort á störfum og atvinnuleysi er ósannfærandi þvættingur. Hann veit sem er að ekki þýðir að ljúga þessu lengur og er nýlega búinn að skipta um plötu á fóninum. Nú heitir þetta "að skapa vel launuð störf", eins og hann sagði í viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær. Aldrei hef ég heyrt minnst á að almennt starfsfólk álvera sé hátekjufólk. Það er að minnsta kosti ekki talið upp með skattakóngum og -drottningum landsins. Ja... kannski forstjórarnir. Aukið menntunarstig íslensku þjóðarinnar hefur aukinheldur leitt til þess að fæstir geta hugsað sér að eyða vinnuævinni í álveri, hvað þá að þar sé framtíð barna okkar og barnabarna.
Hverjir halda menn að starfi við að reisa álverin og virkjanirnar? Eru það vel launuðu störfin handa Suðurnesjamönnum og öðrum Íslendingum? Ef marka má framkvæmdir undanfarinna ára verða fluttir inn erlendir farandverkamenn í þúsundatali til að vinna við byggingarframkvæmdirnar við misjafnar undirtektir heimamanna. Þessir verkamenn búa við óviðunandi aðbúnað eins og margoft hefur komið fram, þar sem þeim er hrúgað saman í hesthús eða iðnaðarhúsnæði eins og sauðfé og ekki hirt um annað en að kreista út úr þeim sem mesta vinnu fyrir ómannsæmandi laun. Þetta er ekkert annað en nútíma þrælahald sem við ættum að skammast okkar fyrir.
Ég gæti haldið endalaust áfram að tína til alls konar atriði sem hanga í lausu lofti og eru ókláruð en VERÐA að vera í lagi áður en hafist er handa við að reisa álver í Helguvík. Umhverfisráðherra á til dæmis eftir að úrskurða um kæru Landverndar þar sem farið er fram á heildstætt umhverfismat á áhrifum álvers í Helguvík. Þetta þýðir einfaldlega að Landvernd fer fram á að öll framkvæmdin verði metin í einu lagi - allar tengdar framkvæmdir metnar sem ein heild - virkjanir, raflínur og álver. Slíkt heildarmat ætti vitaskuld að vera sjálfsagt og eðlilegt, því allt hangir þetta saman og myndar órjúfanlega heild.
Norðurál hefur ekki fengið úthlutað mengunarkvóta eða losunarheimild fyrir álver í Helguvík, við eigum hann ekki aflögu. Nóg mengum við samt og erum næstum búin með kvótann sem okkur er heimilaður. Getur "hreina, græna Ísland" vera þekkt fyrir að menga andrúmsloftið svo gríðarlega að það þurfi að kaupa mengunarkvóta til viðbótar við þann sem við höfum? Hvaða áhrif ætli það hefði á sívaxandi ferðaþjónustu sem dælir peningum inn í þjóðarbúið?
Annan álíka pistil mætti skrifa um efnahagsleg áhrif framkvæmdarinnar. Um þann þátt berast mjög misvísandi skilaboð þar sem ljóst er að stóriðjusinnar ætla að tala yfir okkur kreppu - ef ekki verði reist nokkur álver og helst olíuhreinsistöð líka. Sú hlið á málinu er rannsóknarefni út af fyrir sig sem ég fer ekki út í hér.
Niðurstaða:
Starfsleyfi fyrir álver í Helguvík liggur ekki fyrir. Breytt skipulag allra þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli liggur ekki fyrir. Leyfi þeirra til orkuflutnings og lagningar háspennulína liggur ekki fyrir. Losunarheimild liggur ekki fyrir. Starfa við álver er ekki þörf, hvorki við byggingu né rekstur. Úrskurður um umhverfismat virkjana og heildarmat álversframkvæmda liggur ekki fyrir.
Æðibunugangur Árna Sigfússonar og Norðuráls er óskiljanlegur í ljósi þess að nánast ekkert af því sem til þarf er í höfn. Menn eru með allt niðrum sig, næstum allt er óklárt. Hver er þá tilgangurinn með þessu háværa gaspri? Af hverju láta fréttamenn Árna komast upp með bullið án þess að upplýsa sannleikann um á hve miklum brauðfótum yfirlýsingagleðin stendur? Hér er verið að blekkja almenning á svívirðilegan hátt, láta fólk halda að allt sé klárt, ekkert til fyrirstöðu, bara kýla á þetta þótt engin nauðsynleg leyfi eða heimildir séu fyrir hendi. Svo þegar byrjað er að framkvæma verður sagt: "Það er of seint að snúa við!" Þá verður beitt óbærilegum þrýstingi til að fá hlutina í gegn og helst á hraða ljóssins sem gerir öðrum hagsmunaaðilum ókleift að láta rödd sína heyrast í öllum gauraganginum. Ef orðið "stjórnsýsluofbeldi" er til á það prýðilega við hér.
Er það þetta sem kallað er "klækjastjórnmál"? Ég veit það ekki, en hitt veit ég að það er óbærileg skítalykt af þessu máli. Það er blekkingarleikur og svikamylla í gangi á Suðurnesjum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 15.3.2008 kl. 15:35 | Facebook
Athugasemdir
Ekki er ég "Álversfíkill" eins og greinarhöfundur uppnefnir okkur sem viljum stóran og góðan atvinnuveitanda á okkar svæði. Álver er hátækniiðnaður sem skapar verðmæti og vel launuð störf. Mengunin er ekki svo ýkja mikil og fórnarkostnaður fyrir meiri hagsmuni en minni. Merkilegt hvað umhverfisverndar sinnar eru gjarnir að uppnefna okkur hin sem viljum nýta auðlindir landsins, virkja og nýta þær. Ég hlýt því að vera Álversfíkill í huga greinarhöfundar, þannig verður þá að vera.
Höfundur talar digurbarkarlega um svikamyllu og skítalykt og setur sig á háan hest. Hér fyrir sunnan vill bara meginþorri fólksins fá inn öflugan vinnuveitanda sem eykur á hagsæld svæðisins. Mín kynni af Norðurál eru góð, þetta er flott fyrirtæki sem vill reisa verksmiðju sem mengar mun minna en sambærilegar verksmiðjur út í heimi, sem eru t.d knúnar áfram af kolum. Það er í lagi hjá umhverfissinnum enda samræmi í þeirra málflutningi lítið sem ekkert.
"Aldrei hef ég heyrt minnst á að almennt starfsfólk álvera sé hátekjufólk. Það er að minnsta kosti ekki talið upp með skattakóngum og -drottningum landsins. Ja... kannski forstjórarnir. Aukið menntunarstig íslensku þjóðarinnar hefur aukinheldur leitt til þess að fæstir geta hugsað sér að eyða vinnuævinni í álveri, hvað þá að þar sé framtíð barna okkar og barnabarna"
Fæstir geta hugsað sér að eyða vinnuævinni í Álveri!! Hvaða hroki er þetta í þér kona. Þekki nokkra sem starfa í Straumsvík, hafa gert lengi og una vel við sitt. Þetta er ekki verra en hvað annað. Það lesa ekki allir bókina og vel launuð verkamannastörf vaxa ekki á trjánum. Svo eru stjórnenda, verkfræði störf og fl. sem tengjast Álverum.
Annars geislar af þér beiskjan í garð Álvera, mikil heift en rökin gegn Álverinu eru veikburða. Það er mitt mat.
Álver í Helguvík og á Bakka. Það er bara hið besta mál.
Örvar Þór Kristjánsson, 12.3.2008 kl. 17:12
Takk fyrir þetta. Það er með eindæmum hvað álversfíklarnir fara mikinn og í mínum huga eru þetta veikir einstaklingar og einnig er það raunarlegt að lesa komment einsog hjá Örvari hér fyrir ofan. Hans helsta áhugamál virðist reyndar, samkvæmt bloggsíðu hans, vera það, hvort Liverpool verði enskur meistari. Íslenskir fjölmiðla fá líka hjá mér falleinkunn fyrir algeran slugshátt og getuleysi...
Ásgeir Kristinn Lárusson, 12.3.2008 kl. 17:52
ha !! er álver hátækniiðnaður Örvar ?? síðan hvenær ? Þetta er málmiðnaður og þungaiðnaður alls ekki hátækniiðnaður og skapar alls ekki mörg hálaunastörf fyrir hámenntað fólk.. dæmi um hátækniiðnað á íslandi. MAREL.
Óskar Þorkelsson, 12.3.2008 kl. 18:12
Maður veit ekki alveg hvað maður á að segja þegar maður fer yfir þessa röksemdarfærslu sem þú hefur í frammi. Annað hvort hefur þú hreinlega ekki kynnt þér málið,eða þú velur að tala þvert á það sem þú veist nú þegar. En eins og segir Allt er leyfilegt í stríði og ástum. Fyrir það fyrsta þá er talsvert langt síðan að nauðsynleg orka var tryggð. Það var gert með samningum við bæði OR og HS. þannig að það ætti ekki að vera vandamálið. Hitt er sem mér finnst skrýtið og það er þessi umræða þín um Gufuaflsvirkjanir. Við vitum bæði að hreinasta form til að framleiða rafmagn eru vatnsaflsvirkjanir,en erum líka bæði sammála um að þar skuli náttúran fá að njóta vafans.og gæta þess að virkja ekki um of. þá er spurning nú þegar við erum sammála um þetta eigum við nú algerlega að hætta allri frekari rafmagnsframleiðslu og ímynda okkur að sú fórn sé í þágu þess að frekari loftlagsbreytingar eigi sér ekki stað. Heldur þú að Kínverjar og aðrar þær þjóðir hætti þá að spýta út eiturgufunum úr sínum raforkuverum. Ég held ekki. Okkar framlag til þessara mála á náttúrulega að vera að reyna að hafa áhrif í þá átt að minnka koltvisyringslosunina og það gerum við best með því að taka að okkur framleiðslu innan skynsamlegra marka á því sem krefst mikillar orku.Hér höfum við sterka mengunarlöggjöf og sem betur fer líka heilbrigða skynsemi
Hannes Friðriksson , 12.3.2008 kl. 18:13
Sæl, Lára Hanna
Vinsamlega skírðu skýrðu nánari frá losun gróðurhúsaloftegundum á þessum þáttum.
Og markfeldisáhrifum þessu miða við álver ath. þetta eru liðir í þjónustu geiranum.
Og meðallaun í álverum og menntunarstig starfsmanna.
Án fordóma í garð starfsmanna í álverum.
,,Það er nóg annað um að vera á Suðurnesjum. Eins og fram kom í grein eftir Berg Sigurðsson, framkvæmdastjóra Landverndar, í Morgunblaðinu 23. febrúar sl. drýpur smjör af hverju strái á Suðurnesjum. Hann nefnir t.d. 200 störf tengd nýju hóteli við Bláa lónið, 90 störf við fyrirhugaða kísilverksmiðju, nokkur hundruð störf til að þjónusta hið nýja háskólasamfélag á flugvallarsvæðinu, 150 störf við netþjónabú auk 60-70 nýrra starfa á ári í tengslum við aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli.”
Kv, Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 12.3.2008 kl. 18:13
Sæl, Lára Hanna.
Bíð eftir svari, bíð eftir sannleikar um þessi mál og það sem rétt og satt er.
Kv, Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 12.3.2008 kl. 19:29
Örvar Þór: Þú mátt taka til þín titilinn álversfíkill ef þú telur þig tilheyra þeim hópi manna. Þar er ég að vísa í þá sem vilja helst álver í hvern vog og flóa á landinu með tilheyrandi fórn náttúrunnar og sjá enga aðra lausn á atvinnumálum Íslendinga. Þetta er mjög hávær minnihlutahópur sem ég hef mikla skömm á.
Álver er ekki hátækniiðnaður eins og Óskar bendir á. Álver eru frumvinnsla málma. Víst geta verið nokkur hátæknistörf við tölvustjórnun kera eða eitthvað því um líkt, en í heildarmyndinni vega þau ekki þungt.
Það hefur lengi verið vitað að álver menga töluvert og m.a. þess vegna þurfa þau losunarkvóta. Fórnarkostnaður álvers í Helguvík nær til alls suðvesturlands þar sem 2/3 hlutar þjóðarinnar búa og er gríðarlegur. Þú getur lesið nánar um hann í fyrri færslum mínum ef þú vilt kynna þér þann rökstuðning. Hér er því verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, ekki öfugt.
Hagsæld Suðurnesja fer ekki fram hjá neinum. Þar er allt á fullu, fjölmörg störf í boði fyrir vinnufúsar hendur - svo mörg að erlenda farandverkamenn þarf til að vinna þau - og enn fleiri í farvatninu eins og ég get um í pistlinum.
Ef það er hroki að halda því fram að fæstir vilji eyða ævinni í álveri þá verður svo að vera. Þetta er mín upplifun, mín skoðun, mín tilfinning. Ég þekki engan sem langar að vinna í álveri og hef aldrei þekkt. Svo einfalt er það og ég tala út frá mínum eigin skoðunum. og reynslu hvað svo sem öðrum finnst um það.
Ég ber enga beiskju í garð álvera heldur er ég reið þeim mönnum sem beita öllum brögðum, hagræða sannleikanum, valta yfir reglur, hunsa siðferði, góða stjórnsýsluhætti og áhrif á efnahag lands og þjóðar til að vera hampað og hljóta pólitíska athygli út á fullkomlega óþarfar framkvæmdir sem stuðla að eyðileggingu náttúru Íslands.
Það má ekki líta eingöngu á "rökin gegn álverinu", Örvar Þór. Fólk verður að skoða málið í samhengi og horfa á heildarmyndina. Álver í Helguvík kostar mikil náttúruspjöll og alls konar mengun á þéttbýlasta stað landsins. Fram hjá því er einfaldlega ekki hægt að horfa, svo einfalt er það.
Og það þýðir ekkert að segja "Álver í Helguvík og á Bakka". Ef þú fylgist eitthvað með fréttum þá veistu að það verður álver í Helguvík EÐA á Bakka.
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.3.2008 kl. 20:30
Flott og ýtarleg samantekt hjá þér Lára. Mér finnst verst í þessari umræðu hvað margir virðast vera blindir á það hversu mikils virði ósnortin íslensk náttúra er og sjá bara gildi hennar í megawöttum og terawattstundum (eða hvað sem þetta kallast). Helguvík telst kannski ekki vera nein náttúruperla en það sama gildir ekki um Reykjanesskagann, sem er mjög merkilegt svæði, þó ekki væri nema bara útfrá jarðfræðinni og eldvirkninni. Einu sinni var talað um Reykjanesfólksvang, en menn með álversglampa í augum sjá engin tækifæri í svoleiðis löguðu lengur - gefur ekki nógu mikinn pening. Það sama gerist á Vestfjörðum þar sem átti að vera stóriðjulaus landshluti. En um leið og mönnum er boðið þar upp á olíuhreinsistöð, sem er stóriðja af óhreinustu gerð, þá grípur menn olíuæði og góðu áformin hverfa.
Emil Hannes Valgeirsson, 12.3.2008 kl. 20:46
Hannes: Ég þurfti ekki að líta mikið í kringum mig á bloggsíðu þinni til að sjá að þú ert einn þeirra sem vilt virkja allt sem virkjanlegt er á Íslandi. Það finnst mér arfavitlaus og óábyrg pólitík, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og ekki sýna mikla umhyggju fyrir framtíðinni og afkomendum okkar sem nú lifum - oh enn síður heilbrigða skynsemi sem þú nefnir sjálfur í lok athugasemdarinnar.
Strax í byrjun heldurðu því fram að ég hafi hreinlega ekki kynnt mér málið. Þú hefur greinilega ekki haft fyrir því að lesa fyrri færslur mínar hér á þessu bloggi. Þá hefðirðu ekki sagt þetta. Ég hef kynnt mér málið mjög vel og þekki orðið flestallar hliðar þess bærilega. Álverssinnar hunsa hins vegar algjörlega þá hlið sem snýr að orkuöflun og orkuflutningi og halda að hægt sé að skella bara niður einu stykki álveri í Helguvík og engum komi það neitt við nema þeim. Hlutirnir ganga bara ekki þannig fyrir sig og eru mun flóknari en svo.
Þú segir líka að nauðsynleg orka sé tryggð. Það er alrangt eins og þú sérð ef þú lest betur pistilinn minn og hefur fylgst með fréttum af málinu. Viljayfirlýsingar eru ekki það sama og samningar og OR getur ekki lofað orku úr virkjunum sem ekki er búið að fá heimildir til að reisa, en þær eru forsendan fyrir því að unnt sé að tryggja næga orku til álvers í Helguvík. Og OR eða Landsnet geta ekki lofað orkuflutningi í gegnum sveitarfélög sem vilja ekki háspennulínur yfir hlaðvarpann hjá sér.
Veistu það, Hannes... við getum virkjað hverja sprænu og hvern hver á Íslandi til að framleiða "hreina" orku sem okkar framlag í loftslagsmálum. Það breytir nákvæmlega engu um orkuþörf veraldar og Kínverjar og aðrir eiga eftir að reisa nákvæmlega jafnmörg kolaorkuver því þeim heldur áfram að fjölga með ævintýralegum hraða hvað sem virkjunum á Íslandi líður.
Þá finnst mér nú skynsamlegra að reyna að halda í óspillta náttúru sem verður æ sjaldséðari um allan heim. Það er miklu jákvæðara framlag til loftslagsmála heldur en álver eða olíuhreinsistöðvar.
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.3.2008 kl. 20:56
Ég tek heilshugar undir sjónarmið þín í þessu máli Lára Hanna.
Ég verð alltaf jafndöpur þegar ég sé þennan háværa minnihlutahóp dásama stóriðju sem allsherjar lausn í atvinnumálum. Hvað átti aftur að gerast á Austfjörðum, ÖLLUM Austfjörðum þegar álver kæmi á Reyðarfjörð? Jú, það átti að stöðva fólksflóttann úr fjórðungnum af því að nú áttu allir að hafa trygga vinnu, svo fína vinnu, hálaunaða hátæknivinnu. Hver er svo raunin? Jú, fólksfækkun á Austurlandi. Af hverju vildi þetta fólk frekar flytja heldur en að fá fínu álversvinnuna?
Aðalástæðan fyrir sókn erlendra álrisa í álversuppbyggingu á Íslandi er ekki bara ódýr raforka heldur líka það að verið er að loka fyrir möguleikann á svona mengandi stóriðju í öðrum löndum sem vilja taka ábyrgt á mengunarvandanum.
Það hafa margir stigið fram hér á landi og reiknað og borið saman arðsemina annars vegar af því að byggja upp atvinnustarfsemi í kringum álver og hins vegar kringum ferðaiðnaðinn. Ferðaþjónustan hefur haft betur í þeim fréttum sem ég hef séð af slíkum útreikningum.
Ég vil ekki að einhverjir (í meirihluta karlmenn) ráðskist með framtíð barnanna minna og eyðileggi hverja náttúrperluna á fætur annarri með stórvirkjunum og stóriðjum. Það er mál að linni, Fórnin er orðin alltof stór, t.d. með óafturkræfu náttúruhryðjuverki við Kárahnjúkavirkjun.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 21:13
Sæll, Sigurjón Vigfússon. Mér þykir þú æði óþolinmóður í bið þinni eftir svörum frá mér. Ég þurfti að elda og borða og sinna ýmsu á heimilinu - auk þess að svara þeim sem á undan þér skrifuðu. En hér er ég nú og skal gera mitt besta.
Ég skil ekki alveg hvað þú átt við með fyrstu spurningunni - að skýra frá losun gróðurhúsalofttegunda. Allir vita að álver menga og því þarf losunarheimildir fyrir þeirra losun. Jarðvarma- og jarðgufuvirkjanir eru ekki í þeim flokki, enda talaði ég þar um brennisteinsvetni sem er ekki gróðurhúsalofttegund, en mengun engu að síður. Í pistlinum vitnaði ég í viðtal við sérfræðing sem rætt var við í Speglinum í nóvember sl. Ég á viðtalið ef þú vilt fá það hjá mér og kynna þér málið betur.
Hvað viltu að ég segi um margfeldisáhrif? Þau eru alltaf einhver en aldrei eins mikil og álverssinnar halda fram eins og hefur sýnt sig fyrir austan. Allt hefur margfeldisáhrif, ég held engu öðru fram. Öll störfin sem ég nefndi í pistlinum og eru fyrirsjáanleg á Suðurnesjum hafa líka margfeldisáhrif.
Ég hef engar tölur um meðallaun í álverum, fékk þau ekki uppgefin þegar ég spurðist fyrir því slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir fótum almennings. Ég reikna hins vegar með því að launin þar séu þokkaleg þegar vaktaálag er reiknað inn í dæmið, annað væri fáránlegt. En ekkert endilega hærri en við ýmis önnur störf, t.d. þeim sem ég nefndi hér á undan. Og ekki er langt síðan ég las að um það bil 10% starfsmanna álvera sé svokallað "menntafólk" í hefðbundnum skilningi þess orðs, sem er ekki endilega minn skilningur. Enn aðrir starfsmenn fara á hin ýmsu námskeið og sérhæfa sig jafnvel á sínu sviði innan álversins og það er hið besta mál.
Sigurjón... ég hef enga fordóma gagnvart starfsfólki í neinni atvinnugrein. Ég var alin þannig upp að það sé sama hvað fólk gerir - ef það er heiðarlegt og sinnir sínu af alúð og samviskusemi. Ég hef haft þann boðskap foreldra minna í heiðri hingað til og hyggst gera hér eftir.
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.3.2008 kl. 21:14
Guðlaugur, Ásgeir, Óskar, Emil og Anna - kærar þakkir fyrir ykkar ljómandi góðu innlegg. Ég hef ekki orku í að skrifa meira í kvöld, held ég...
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.3.2008 kl. 21:16
Takk fyrir flotta grein, Lára Hanna.
Heidi Strand, 12.3.2008 kl. 21:17
Takk fyrir að halda okkur við efnið.
Kristjana Bjarnadóttir, 12.3.2008 kl. 22:21
Góð grein.
Hólmdís Hjartardóttir, 12.3.2008 kl. 22:23
Ásgeir Kristinn:
Hvaða máli skiptir hvort mitt helsta áhugamál er Liverpool eða eitthvað annað? Þú lýsir ansi miklum fordómum og fávisku með þessum orðum þínum. Ég blogga ekki lengur, en svara oft eins og á þessari ágætu síðu. Við erum á öndverðum meiði en það er óþarfi að vera með dónaskap og ef þér finnst ég vera veikur fyrir að deila ekki þinni skoðun þá er það þitt vandamál. Mér finnst bara þessi athugasemd gera lítið úr þér og hálf barnaleg. Ég hef bara þessa skoðun, ekkert flóknara en það. Vinn mína vinnu, starfa í félagstörfum þess á milli og sé fyrir fjölskyldunni. Heill á líkama og sál og við hestaheilsu amk ennþá. Ætla nú ekki að fara að dæma þig útfrá þinni heimasíðu enda þekki ég þig ekki neitt. Af skrifunum að dæma ertu umhverfisverndarsinni, ekki fíkill sem betur fer. Álversfíkill er niðrandi og vanhugsað sett fram bæði hjá þér og greinarhöfundi.
Lára finnur til með þeim sem vilja virkja og nýta orkuauðlindir. Óþarfi samt hjá henni að fara í sandkassann. Við deilum ekki sömu skoðunum og það er eðlilegt.
Það eru þó ekki sárafáir einstaklingar sem vilja virkja og fleiri Álver. Það er slatti af fólki.
Lára ert þú með Álversframkvæmdum á Bakka?
Þú ert góður penni og greinilega vel lærð á bókina. Það er ég líka og tek ofan fyrir þér varðandi skrifin og hugsjónina. Ég er þér bara innilega ósammála, lít alls ekki á Reykjanesskagann sem náttúruperlu. Alls ekki. Vil virkja, nýta.
Það eru bara margar skoðanir um þetta mál, þeir sem ég þekkja fyrir sunnan vilja Álver í Helguvík og helst á Bakka líka... horfi á fréttir Lára og veit að það er sagt, bara pláss fyrir annað. Hver veit, kannski fáum við álfíklarnir tvö
Örvar Þór Kristjánsson, 12.3.2008 kl. 22:42
Takk fyrir frábæra og upplýsandi grein Lára Hanna. Þetta var akkúrat það sem mig vantaði.
Jenný Anna Baldursdóttir, 12.3.2008 kl. 22:51
Takk fyrir greinina Lára.
Sveinn Atli Gunnarsson, 12.3.2008 kl. 23:11
Lára Hanna... Takk kærlega fyrir þessa grein. Hún *vonandi* hefur eitthvað vægi í alla ál-(rugl)-umræðuna.
Einar Indriðason, 12.3.2008 kl. 23:42
Þakka þér fyrir þetta. Löngu búinn að lesa þetta, en alltaf bætast athugasemdir við. Enda hitnar í fólki þegar vel og skilmerkilega er haldið á málum. það þarf að kæfa þetta í fæðingu og þar tekst þér vel upp, en kannski er þetta bara ímynduð ólétta hjá Árna Sigfússyni (svona eins og hjá Þórbergi, svo maður blandi saman tveimur óskyldum málum). Ég ætla rétt að vona það. Fyrir ykkur hin sjá: http://herbja.blog.is/blog/herbja/entry/471754/#comment1163619
takk aftur, Hermann
Hermann (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 23:46
Mér finnst alltaf jafn merkilegt að lesa svona greinar sem byggjast á sovét hugsun um stofnun og rekstur fyrirtækja.
Fyrirtækið Norðurál vill reisa Álver í Helguvík og sveitarfélöginn hafa veitt framkvæmdaleyfi.
Sveitarfélöginn og Norðurál starfa samkvæmt lögum, og ef einstaka Þingmönnum og Umhverfisráðherra líkar ekki löginn, er þeirra valdið til að flytja breytingatillögur á Alþingi, og fá lögunum breitt.
Vilji Norðurál hefja framkvæmdir á morgun er þeim það frjálst og hið besta mál, þeirra eru peningarnir og þeim er frjálst að ráðstafa þeim innan ramma laga og reglugerða, þetta er svona einfalt.
Sé fólk óánægt með þróun atvinnulífsins og stefnu stjórnvalda, er um að gera að snúa sér til þess flokks eða fulltrúa sem fólk kaus í síðustu kosningum, og tjá viðkomandi óánægðu sýna, þannig virkar lýðræðið.
Fallega hugsað samt að hafa áhyggjur af framtíðar orkuöflun, hluthöfum hlýnar örugglega um hjartaræturnar, þegar fólk sýnir rekstrarafkomu og framtíðar stækkunum svona mikla umhyggju.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 13.3.2008 kl. 00:05
Flott færsla hjá þér, Lára Hanna, og upplýsandi.
Jens Guð, 13.3.2008 kl. 00:05
Frábær grein Lára Hanna. Takk fyrir kærlega. Maður fer nú bara að prísa sig sælan með að hafa ekki setið uppi með Árna S. hér í Ráðhúsi Rvk.
Sigurður Hrellir, 13.3.2008 kl. 00:08
"Þetta er mjög hávær minnihlutahópur sem ég hef mikla skömm á."
"Álversfíklar Suðurnesja........."
"Ef það er hroki að halda því fram að fæstir vilji eyða ævinni í álveri þá verður svo að vera. Þetta er mín upplifun, mín skoðun, mín tilfinning. Ég þekki engan sem langar að vinna í álveri og hef aldrei þekkt. Svo einfalt er það og ég tala út frá mínum eigin skoðunum. og reynslu hvað svo sem öðrum finnst um það."
Mér finnst þú tala allhressilega niður til þeirra þúsunda sem starfa í áliðnaði og störfum því tengt.
Þú heldur því fram enginn vilji vinna í álveri. Mér er eiginlega bara spurn. Hversu margir foreldrar vinna hina og þessa vinnu.. ekki endilega vegna þess að þeim langar til þess heldur til þess að sjá sér og sínum farborða.
Hvað finnst þér þá um sjómennina sem starfa á mengandi frystitogurum og vinna við að nýta fiskauðlindina? Mánuðum saman í burtu frá fjölskyldum sínum til að afla tekna.
Ég upplifi skrif þín sem menntahroka af verstu gerð í garð þeirra sem vinna almenn verkamannastörf í hverskonar iðnaði. Verkamannastörf sem krefjast oft sérhæfingar og mikillar verkreynslu.
Jón H. Eiríksson (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 03:54
Lára Hanna, þeir verða margir hræddir "litlu kallarnir", sé ég, þegar þeir hitta fyrir konu eins og þig, sem talar af viti, fágun, og kurteisi. - Og þeir verða enn hræddari, þegar þeir fatta, að þú talar af þekkingu, - og skelfingu lostnir verða þeir, er þeir uppgötva að þú talar af virðingu, um landið þitt, að þú myndar þér skoðun með velferð lands og þjóðar í huga. En hugsar ekki bara um hvað þú færð fyrir þinn snúð. Það er of mikið fyrir "litla kalla" sem finnst þeir vera nafli alheimsins, og buddan þeirra, umheimurinn. - Að þegar þú talar, verður belgingur þeirra, alltaf hljómminni, og minni, og endar loks í sífri, eintóna væli. Þegar þú talar svona eins og þú gerir í þessum pistli er ég svo stolt af því að vera kynsystir þín, að ég verð að segja þér frá því, um leið og ég þakka þér kærlega fyrir frábæra grein.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 13.3.2008 kl. 04:26
Þeir voru langt komnir með Kárahnjúkavirkjun áður en búið var að ganga frá öllum leyfum fyrir álverið á Reyðarfirði.
Þakka þér fyrir þennan pistil, Þú ert yndisleg!
Árni Gunnarsson, 13.3.2008 kl. 07:16
Þessi grein segir allt sem segja þarf. Hvað svo sem "fíklar" sprikla.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 08:58
Lilja er stolt kynsystir. Ég tek þó undir með henni að þú ert flottur penni og greinilega klár kona. Þér er annt um umhverfið þitt, það er mér líka. Við erum á öndverðum meiði þó og ber slatta á milli. Ég er þó sammála með menntahrokann, þú verður að passa þig á því. Það passar ekki ef þú vilt fá virðingu fólks.
Svo varðandi þessa litlu kalla sem Lilja talar um þá dæmir það sig sjálft og er lant fyrir utan efnið. En batnandi konu er best að lifa
Örvar Þór Kristjánsson, 13.3.2008 kl. 09:26
Frábær grein!
Haltu áfram að beita pennanum í þágu þessa málefna, ekki veitir af
Sæunn (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 09:36
Takk fyrir gott og fræðandi innlegg Lára Hanna.
Þú lýsir afskaplega vel þeim vanhugsuðu og illa ígrunduðu vinnubrögðum sem álverssinnar viðhafa í þessu máli. Það er langt í frá að það sé búið að ganga frá orkuöflun fyrir áfanga 2 og þá síður flutning þeirrar orku til Helguvíkur. Mjög ólíklegt að umhverfismat fáist fyrir landlínum um öll Suðurnes með tilheyrandi sjónmengun. Þeir fullyrðar að HS sé búin að lofa vissu magni orku til álversins. Nú er málum þannig háttað að nýstofnað félag Suðurlindir sem er í eigu Hafnafjarðar, Grindavíkur og Voga munu tæpast hleypa HS í þau virkjunarsvæði sem suðurlindir ráða yfir þannig að hvar á að virkja? Þessi vinnubrögð öll eru óneitanlega farin að líkjast klúðri Árna Sigfússonar og félaga varðandi Geysi Green Energy og þau mál öll sömul og virðast þeir kumpánar ekki hafa lært neitt af þeirri endaleysu.
Þessutan hefur mér og reyndar vonandi fleirum fundist ekkert sérstaklega skynsamlegt að vera með öll eggin í sömu körfunni eins og málshátturinn segir. Væri ekki nær að huga að öðrum kostum varðandi nýtingu raforku heldur en bara álver. Hvaða áhrif myndi það hafa á þjóðarbúskapinn ef tækniforsendur breyttust þannig að ál myndi hrapa í verði og framleiðsta dragast saman. Hmm er ekki annars verið að tala um væntanlega heimskreppu þessutan? Þessa dagana! Er ekki komið nóg í bili af fjárfestingarfyllerí og gegnarlausu sukki með tilheyrandi hávaxtastefnu og skuldasúpu fyrir almenning og fyrirtæki landsins. Hvernig væri að hugsa sinn gang!!!
Takk enn og aftur fyrir góða grein.
Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 10:11
Árni Sigfússon bæjarstjóri lagði álvershugmyndirnar fram á íbúafundum í öllum hverfum Reykjanesbæjar og gerði álverið að baráttumáli Sjálfstæðisflokksins í síðustu bæjarstjórnarkosningunum Sjálfstæðisflokkurinn fékk 57% atkvæða og því brautargengi í málinu.Auk þess hafa verið gerðar tvær skoðanakannanir í bæjarfélaginu þar sem fram kemur 76% stuðningur við álver. Þessar niðurstöður sýna vilja reyknesbæinga í málinu og því unnið út frá því. Árni Sigfússon hefur unnið ötullega í málinu og hrós skilið fyrir það.
Umhverfisvæn orkunýting
Mengunarþættir álvera hafa að sjálfsögðu verið í umræðunni og þegar sá þáttur er skoðaður menga álver minna en bílafloti íslensku þjóðarinnar. Umhverfisvæn orka á Íslandi leiðir af sér litla mengun. Ef öll áform um álver á Íslandi verða að veruleika verður ársframleiðsla áls um 1,6 milljón tonna og losun koltvísýring c.a. 2,5 milljónir tonna. Eitt álver í Ástralíu sem knúið er áfram með kolum og framleiðir 250 þúsund tonn losar 3,7 milljónir tonna af koltvísýringi á ári.
Sjónrænir þættir
Hvað varðar sjónmengun, þá er hönnun álversins í Helguvík unnið í sátt við umhverfið. Uppgröfturinn mun verða nýttur í manir með gróðri í umhverfi álversins. Með þessu mun aðeins sjást í útblástursrör álversins. Einnig verður það málað með þeim hætti að það falli vel inn í umhverfið. Sjónrænu áhrifin eru því mjög takmörkuð.
Fjöllbreytt atvinnulíf
Hvað varðar atvinnulífið þá er veruleg þörf álveri í Helguvík. Hvernig ætlum við að mæta því áfalli sem við urðum fyrir þegar Varnarliðið fór? Ríflega 700 manns misstu þar lífviðurværið. Við getum ekki bara stólað á að allir fái vinnu á Flugstöðvarsvæðinu. Atvinnulífið á Suðurnesjum þarf að vera fjölbreytt og ekki má leggja allt sitt á einn póst hvað þetta varðar. Uppbyggingin á Suðurnesjum er hröð og fólksfjölgun með besta móti. Við verðum að hafa fjölþætta atvinnumöguleika á svæðinu til að laða að nýja íbúa. Það er sérstakt að sjá fólk sem býr ekki á Suðurnesjum tjá sig um atvinnumálin hérna. Atvinnulífið er einsleitt og hér er 2,7% atvinnuleysi. Álver mun veita mikinn stöðugleika í atvinnulífið. Suðurnesin er láglaunasvæði og launin í álver eru kannski ekki til að koma fólki á einhvern metlista um hæstu launin, en launin í álverinu verða á milli 300 og 400 þúsund fyrir einstaklinga sem ekki hafa lokið háskólanámi. Gagnaverið mun að sjálfssögðu skapa störf á meðan byggingu stendur en það eru ekki mörg störf í sjálfu gagnaverinu eftir að það er komið í gang. Sjómennska og fiskvinnslustörf einkenndi atvinnulífið á Suðurnesjum um árabil, það er þverrandi starfsgrein og samdrátturinn hefur verið verulegur. Varnarliðið skapaði fjölmörg störf eins allir vita, sem eru störf sem eru glötuð. Það er tímabært að Suðurnesin fái festu í atvinnumálin. Það er einkennilegt að staðfesta það að engin vilji vinna í álveri af því að einhver þekkir engan sem vill vinna í slíkri verksmiðju. Þetta snýst ekkert bara um það að vinna á gólfinu í álveri. Álverið bíður upp á 400 störf, en afleitt störf verða 1,5 þannig að við erum að tala um fjölbreytt störf við flestra hæfi.
Ég segi bara að ef Þórunn umhverfisráðherra og Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra ætla sér að stöðva framkvæmdir þá verður gaman að vera frambjóðandi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í næstu alþingiskosningum og koma til Suðurnesja í leit af stuðningi !
Árni Árnason (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 10:13
Bö!
Sigurður Þór Guðjónsson, 13.3.2008 kl. 10:49
Lára Hanna góð og tímabær skrif hjá þér og endilega haltu áfram að skrifa um þessi mál. þessi umræða er nauðsynleg því ekki má verða einræða um þessi mál. Ég verð alltaf svo döpur þegar álver ber á góma. Álverið eða skrímslið á Reyðarfirði varð mér næstum ofviða á að horfa síðasliðið sumar. Þvílík sjónmengun í fallegum firði. Mig hryllir við tilhugsuninni um eitt slíkt hér við túnfótinn.
María Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 11:45
Stórgóð grein hjá þér að vanda Lára Hanna ... "Litlu kallarnir" fara alveg á límingunum og reyna allt til að hysja upp um sig þegar þeir fatta í hverju þeir eru lentir.
Annars eru þetta stórkostlegar aðstæður sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar vill bjóða gestum okkar á fyrsta degi á Íslandi, mengunarspúandi verksmiðjur og rafmagnslínur svo langt sem augað eygir. Svo á maður að reyna að segja ferðamönnunum að þeir séu komnir til hreinasta lands í heimi þar sem náttúran sé óspillt !!!!!
Já ...
Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 12:22
Mikið rosalega hvað sumir eru sjálfhverfir eins og Árni Árnason hér að framann. Ég held að flestum sé skítsama um það hvort reist verði álver í Helguvík eða ekki. Málið snýst um það að til þess að reka ferlíkið þarf rafmagn. Þetta rafmagn þarf að búa til annað hvort með gufu eða vatnsafli og þar liggur hundurinn grafinn. Til þess að Árni fái rafmagn fyrir álverið sitt í Helguvík þarf að eyðileggja náttúruperlur annars staðar en á Reykjanesi til dæmis á Ölkelduhálsi eða við neðrihluta Þjórsár. Álver í Helguvík er því ekkert and******* einkamál suðurnesjamanna.
Annars flott grein hjá þér Lára Hanna eins og flest það sem þú skrifar um.
Bestu kveðjur
Gunnar Jónsson (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 19:02
Einu sinni var hipp og kúl að koma til Kef. suðupott tónlistar og gleði, ekki verra að vera í bransanum og komast inní litlu Ameríku til að spila fyrir Kanann, drekka bannvöru í lítratali og stúta nokkrum Hömmurum. Nú er herinn á bak og burt sem mér finnst alveg einstaklega ánægjulegt fyrir íslenskt samfélag. Ný störf orðin til í stað þjónustustarfa fyrir erlendan her og starfsemi sú sem nú er farin í gang á hersvæðinu byggir á allt öðrum og traustari grunni en hermangið. Einu sinni bauð Magnús Eiríksson tónskáld mér í bíltúr um Reykjanesið. Ég maldaði í móinn og spurði hvort við gætum ekki fundið okkur eitthvað viturlegar að gera en skoða hraungjótur og svartan sand. Magnús vildi meina að Reykanesið væri mun merkilegra svæði en haldið væri á lofti og hann kom mér svo sannarlega í skilning um það þennan skemmtilega dag, þvílík náttúra. Þetta varð sú fyrsta af ótalmörgum ferðum sem ég hef farið um nesið sem mér finnst í dag eitt merkilegasta svæði landsins. Ég trúi því að það sama muni hundruðum þúsunda ferðamanna á komandi árum finnast. Eitt er alveg kristaltært í mínum huga - svæðið þarf ekki álver. Reyndar er það mín skoðun að við þurfum yfir höfuð ekki fleiri slík, nóg er komið. Við erum í þeirri fínu stöðu að geta framleitt nokkuð magn af orku í framtíðinni og hana skyldi aldrei framar setja á útsölu og hana skyldi fyrst og síðast nýta í þágu umhverfisvænna atvinnugreina.
Pálmi Gunnarsson, 13.3.2008 kl. 21:21
Izz, ég sem að byrjaði að koma á bloggeríið þitt bara til að rífast við þig smotterí um minn tengdafrænskap.
Þú er alveg búin að eyðileggja það fyrir mér fyrir nokkrum færslum síðan, en þessi finnst mér nú samt vera þín albesta síðan ég datt hérna inn.
Þú setur þetta málefnalega fram, & að mér finnst rökstyður þitt mál vel, þó að ég sé nú ekki alveg máske til að láta grafa mig undir einni vinstri grænni torfu með þér.
Mótmælendur enda bara hljóða í hljóði með sínum óhljóðum.
Steingrímur Helgason, 14.3.2008 kl. 01:06
Framkvæmdir hófust í morgun. Það verður ekki komið í veg fyrir þetta úr þessu? Ríkisstjórnin hefur gefið blessun sína yfir þetta þrátt fyrir nokkra "veika hlekki" sem styðja ekki við sitt lið. Þá ber að setja á bekkinn.
Örvar Þór Kristjánsson, 14.3.2008 kl. 10:53
Flott grein hjá þér Lára eins og þín er von og vísa. Það verður ekki að þér skafið að áhugi þinn smitar út frá sér og fínt að fólk setjist aðeins niður og spá í hvaða stefnu við Íslendingar eigum að taka í þessum stóriðjumálum. Það er eins og það hafi farið fram hjá sumum að það liggur ekki svona mikið á. Við erum smáþjóð og höfum nóg af tækifærum til að spila úr án þess að þurfa alltaf að stökkva á einfaldasta kostinn. Það hlýtur að vera hægt að búa hér án þess að þurfa endalaust að vera að graf fyrir nýjum húsgrunnum fyrir stærri og meiri álver.
Spurning um að fara að skoða betur hvaða aðilar hafa svona gríðarlega hagsmuni af því að reisa öll þessi álver og alla þessa stóriðju?
Kjartan Pétur Sigurðsson, 14.3.2008 kl. 11:37
Sæl Lára mín. Þú átt heiður skilinn fyrir baráttu þína í umhverfismálum. Fáir hafa sett sig jafn vel inn í þessi mál og þú og því þykir mér skjóta skökku við þegar þú ert vænd um þekkingarleysi á þessum málaflokki. "Sannleikanum er hver sárreiðastur" segi ég nú bara við þá sem gala hæst hér í athugasemdafærslunum. Innistaðan er oft ekki í samræmi við gjallandann. Það þekki ég mætavel af öðrum vettvangi. Greinin þín er hreint alveg frábær og þér til sóma. Þú átt marga aðdáendur og stuðningsmenn i þessari baráttu.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 14.3.2008 kl. 12:48
Flott grein hjá þér Lára.
Vegna þessarar miklu atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum þá mætti færa veiðiheimildir til Vestfjarða frá Suðurnesjum. Það mundi verða mótvægis aðgerð í verki.
Þórður Runólfsson, 14.3.2008 kl. 13:57
Hafðu ljúfa helgi
Brynja skordal, 15.3.2008 kl. 10:27
Kærar þakkir fyrir að varpa ljósi á þetta mál - hjálpumst að að dreifa færslunni svo að sem flestir sjái hana!
Petra Mazetti (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 10:50
Ég var búin að skrifa langa athugasemd með svörum og skýringum, en ákvað svo að úr yrði ný færsla sem birtist innan skamms. Ég þakka kærlega fyrir innlitin og athugasemdirnar. Það er ómetanlegt að fá allan þennan stuðning og líka að fá tækifæri til að leiðrétta misskilninginn sem fram kemur hjá sumum.
Lára Hanna Einarsdóttir, 15.3.2008 kl. 14:00
Þetta er fín grein hjá þér. Las reyndar seinni greinina þína á undan þessari. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að eins og staðið hefur verið að framkvæmdinni ljúki henni í raun við gerð og fullnustu undirbúningsframkvæmdanna. Ekki liggur fyrir hvort að verksmiðjan fái starfsleyfi og verð ég að ætla að þeir sem eiga fyrirtækið séu ekki svo vitlausir að hefja smíði nýs álvers án þess að það liggi fyrir að hægt verði að framleiða ál.
Hagbarður, 16.3.2008 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.