21.3.2008
Bankar, vandræði, vextir og önnur óáran
Þann 24. febrúar sl. kom gestur í Silfur Egils sem vakti gríðarlega athygli og margt var rætt og ritað um málflutning hans, meðal annars mikið hér á Moggablogginu. Maður þessi heitir Andrés Magnússon og Egill kynnti hann sem lækni. Andrés hefur skrifað greinar í blöð um íslensku bankana, okurvexti þeirra og fleira því tengt - og það á mannamáli.
Ég hafði samband við Egil um daginn og hann veitti mér leyfi til að birta efni úr þáttunum sínum. Hafi hann þökk fyrir það. Upphaflega hafði ég ætlað að skrifa viðtalið niður, en það reyndist allt of viðamikið og tímafrekt verk, svo ég tek á það ráð að birta það hér sem myndband. Ég held að ekki veiti af að rifja svona viðtöl upp reglulega til að halda okkur öllum við efnið - einkum í því árferði sem nú ríkir en var ekki skollið á af þunga þegar Andrés var í Silfrinu.
Ýmsar spurningar vakna nú þegar allir keppast við að mála skrattann á vegginn og heimsendaspár birtast úti um víðan völl. Ég viðurkenni fúslega að ég get engan veginn hent reiður á því hvað er rétt og hvað rangt í umræðunni um efnahagsmálin núna - einn segir þetta, annar hitt og allir þykjast hafa rétt fyrir sér. Skilaboðin eru svo misvísandi að ég veit ekki mitt rjúkandi ráð. Mig grunar að ég sé ekki ein um það. Ég lýsi hér með eftir einhverjum sem veit hvað hann er að tala um eins og Andrés virðist gera í þessum þætti og getur útskýrt fyrir mér orsakir og afleiðingar - á mannamáli. Sá aðili verður að vera algjörlega óháður bönkum og öðrum lánastofnunum, stóriðju og gróðafyrirtækjum. Ég tek ekkert mark á slíkum hagsmunaaðilum sem hugsa ekki um annað en að bera af sjálfum sér sakir og haga seglum eftir sínum græðgisvindi.
En eitt veit ég: Staða bankanna nú er ekki almenningi á Íslandi að kenna. Hann hefur goldið keisaranum það sem keisarans er - og gott betur. Ekki líður á löngu þar til bankarnir geta endurskoðað lágu húsnæðisvextina sem buðust í upphafi húsnæðislánabólunnar og þá verða ennþá fleiri í enn verri málum en nú. Ríkisstjórnin, stjórnvaldið sem almenningur á að geta treyst, þegir þunnu hljóði og neitar að gera nokkurn skapaðan hlut. Hvað er þá til ráða?
Viðbót: Ég má til með að benda á þessa grein sem ég rakst á í gærkvöldi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 22.3.2008 kl. 16:23 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta Lára Hanna. Við Íslendingar þurfum að greiða hækkun olíuverðs erlendis umsvifalaust hér heima en lækkun lætur á sér standa, þegar þannig árar. Þegar gengi krónunnar breytist er strax búið að breyta verði á öllum innfluttum varningi. M.ö.o. við erum í alþjóðlegu umhverfi, að því er virðist á flestum sviðum nema hvað lán varðar. Okurvextir og verðtrygging sem á sér líklega enga hliðstæðu. Það er reyndar nánast sama hvar gripið er niður.... við erum á einhvern ótrúlegan hátt búin að klúðra íslensku efnahagslífi þannig að fádæmi er. Höfðum alla burði til að hafa það gott en það stefnir í að allur almenningur þurfi verulega að endurskoða sín mál og minnka við sig. Það er hins vegar kannski of seint, því torsótt getur reynst að selja eignir. Græðgi bítur mann í rassinn.
Anna Einarsdóttir, 21.3.2008 kl. 09:41
Ég tek undir óskir þínar um að hlutlausir fagmenn greini stöðuna og láti okkur vita. Ég vantreysti greiningardeildum bankanna og fasteignasölum, ég vantreysti forstjórum fyrirtækja og ég vantreysti þeim sem lofa einu í dag en efna það ekki á morgun þegar þeir eru í færum til þess.
Hverjir eru eftir?
Ég hlustaði á Andrés lækni í Silfrinu um daginn og mér fannst hann ekki segja neitt miklu meira en ég hef hugsað (án þess þó að hafa borgað af húsnæðisláni í Noregi) og fullt af fólki í kringum mig hefur gert sér grein fyrir. Hann sagði það bara æsingalaust og á skýru mannamáli. Og nú finnst mér tímabært að menn fari að hlusta á stöðuna og laga ástandið. Það getur ekki hver einstaklingur heima hjá sér, það þarf stærri aðgerðir.
Berglind Steinsdóttir, 21.3.2008 kl. 09:52
Ætli alþingismenn viti af þessu?...eða er þeim skísama um Íslendinga?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.3.2008 kl. 10:08
Eitt er mér ofarlega í huga - Ríkissjónvarpið, fjölmiðill í eigu þjóðarinnar ætti að sinna skyldu sinni og ekki seinna en strax og setja í gang faglega gerða fréttaskýringaþætti um fjármálastarfsemina í þessu landi. Sé fyrir mér 5-6 þætti, sem sýndir yrðu á einni viku á besta sýningartíma. Ef þeir gera þetta ekki, þá legg ég til að almenningur hætti að borga afnotagjöldin. Allir sem einn!
Ásgeir Kristinn Lárusson, 21.3.2008 kl. 12:07
Hvar var fólkið fyrir 8 árum þegar ósköpin byrjuðu ? Á eyðslufylleríi ? Hvar eru samlegðaráhrifin þegar Búnaðarbankinn var keyptur inn í Kaupþing fyrir spottprís ? Þá fékk ég t.d. áminningu frá útvarpsstjóra fyrir að tala um þjófnað á eigum almennings. Ég sýndi fram á það að blekkingar voru við kaupin svo alvarleg að ekki var hjá komist að sjá þær en þá kom Valgerður og sagði að þetta hefði allt verið eðlilegt. Hún er enn á þingi!! Almenningur er eins og blindur þegar kemur að ráðamönnum og nennir ekki að setja sig inn í afkomutölur og uppgjör, eignatengsl né annað er snýr að gjöfulum auðmönnum þessa lands. þetta eru goð í augum flestra. Þreytandi en satt.
Jónína Benediktsdóttir, 21.3.2008 kl. 12:13
Tek undir það sem kemur hér fram hjá Jónínu ... hvað voru Íslendingar að hugsa þegar útsalan á ríkiseignum fór í gang. Það er ekki mynd af Finni uppá vegg hjá mér frekar en öðrum pólitískum skálkum svo mikið er víst. Hinsvegar finnst mér staðan sorgleg því það verða víst afkomendur okkar sem þurfa að taka slaginn.
Pálmi Gunnarsson, 21.3.2008 kl. 12:44
Talandi um Kaupþing og aðkomu þeirra (og bankanna) að byggingarsukki síðustu ára í samvinnu með t.d. bæjaryfirvöldum Kópavogs. HÉR
Ásgeir Kristinn Lárusson, 21.3.2008 kl. 13:16
Nú sá ég að Vilhjálmur Bjarnason og einnig Reynir Traustason á DV, voru að velta því upp hvort þessi skyndilega kreppa sem er að skella á, sé vegna þess að bankarnir ætli sér að sýna fram á aukinn gengishagnað, nokkuð sem kæmi manni ekkert á óvart eftir aðför þeirra að ÍLS. Maður veltir því fyrir sér hvort einhver sannleikur sé í þessu og svo hvort þetta sé ekki yfirgengilega siðlaust og glæpsamlegt ef satt reynist.
Einnig virkar þetta á mig sem Enron-legt, að í stað þess að hækka rafmagnið í Kaliforníu til að sýna fram á betri ársfjórðung líkt og Enron gerði, þá felli bankarnir einfaldlega krónuna til að sýna betri afkomu. Ef svo er, þá er talsvert rotið í Danmörku og ekki þá fréttaflutningur um siðferði og stöðu íslenskra bankamanna.
Hérna er svo pistill Reynis Trausta þar sem hann minnist á þetta:
http://www.dv.is/skrafadogskrifad/lesa/6568
og fréttin þar sem Vilhjálmur Bjarna reifar þetta.
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item197524/
AK-72, 21.3.2008 kl. 13:36
Takk fyrir þetta, bráðnaauðsynlegt að skoða viðtalið til að minna sig á.
Annars veit ég heldur hvorki upp né niður.
Jenný Anna Baldursdóttir, 21.3.2008 kl. 13:44
Varðandi hlutlausar upplýsingar, þá veit ég um einn mann sem er menntaður upplýsingagreinir (data analyse ) ásamt fleiri tiltlum. Hann heitir Jóhannes Björn Lúðvíksson og heldur úti vefsíðunni vald.org þar sem hann hefur verið að fjalla mikið um kapítalisman á undanförnum árum. Þetta er feikilega vönduð síða og greinilegt að hann leggur mikla vinnu í hana. Hann er núna búsettur þar vestra.
Skrítið að fjölmiðlar hér á landi skuli ekki hafa leitað ráða og álits til hans í gegnum tíðina, í staðin fyrir að vera endalaust að spyrja forsvarsmenn greiningadeilda bankana sem koma oft með sömu pólitísku svörinn
Reyndar tók Egill viðtal við hann fyrir nokkrum árum síðan og má sjá það hér http://vald.org/greinar/041205/silfur_egils.wmv
Það að renna niður síðuna hjá honum er oft á tíðum hrollvekjandi þegar maður sér að margt af því sem hann er að tala um hefur ræst í dag.
Og framtíðnn virðist vera ekki nógu björt fyrir kapítalisman.....
Sjá www.vald.org
gfs (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 15:47
Jónas.is segir...
21.03.2008
Fullveldis-kreppan
Eftir páska mun fólk átta sig. Þegar dýrtíðin leikur lausum hala, skulum við muna, að við erum ekki í Evrópusambandinu. Við höfum eigin krónu og eigin seðlabanka. Við höfum okkar eigin tök á efnahagsmálum og við höfum okkar eigin okurvexti. Og sjálfstæði okkar felst í að þýða lög og reglur Evrópu yfir á íslenzku. Gerið ykkur í hugarlund, hvernig ástandið væri, ef hér ríkti evra og engin verðbólga. Ef Seðlabankinn hefði verið afskaffaður og ríkisstjórnin hefði ekki þau tök á efnahagsmálum, sem hún er sögð hafa sem fullvalda ríkisstjórn. Það væri himnaríki, engin fullveldis-kreppa.
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.3.2008 kl. 16:23
Takk fyrir þetta Lára.
Í þessu sem mörgu öðru finnst mér almenningur hafa látið hafa sig að fíflum. Við erum sjálf engu betri en peningaliðið, meginþorri almennings hefur ginið við auðfengnu lánsfé og lifað langt um efni fram. Í krafti þess hefur verið hægt að halda uppi okurvöxtum.
Seint ætla ég að kenna alþýðunni um núverandi kreppu en við spilum með. Þrátt fyrir brunaútsölu ríkiseigna og spillingu í þeim málum sem öðrum (stöðuveitingum sem dæmi) ratar exið í kjörklefanum iðulega á sama stað.
Hugarfarið í þessu landi hefur seinustu árin að miklu leiti gengið út á að maka sinn eiginn krók og líf margra snúist um að beita sem mestum klækjabrögðum til þess. Þeir ríku hafa orðið ríkari og fátæku orðið fátækari. Búast má við að í efnahagsástandið sem nú er framundan verði þessar sveiflu ýktari.
Tek undir ósk um vandaðan fréttaskýringaþátt. Svo virðist sem fjölmiðlamenn annað hvort skorti þekkingu eða þor til að fjalla af viti um þessi mál.
Kristjana Bjarnadóttir, 21.3.2008 kl. 16:26
Takk Lára. Góður pistill og fín áminning.
Hrannar Baldursson, 21.3.2008 kl. 20:42
Ég horfði á þennan þátt tvisvar, fyrst um daginn og svo aftur um kvöldið þegar Silfrið var endurtekið. Ég fór svo og skoðaði greiðslusögu íbúðalánsins míns og komst að því að það passaði allt sem hann sagði um okrið sem við, almenningur, búum við í íslenska bankakerfinu. Einhvers staðar sá ég að Andrés væri búin að reyna fá grein birta í Mogga lengi um þetta en hún hefði ekki enn verið birt. Greinin var aftur á móti á einhverjum vef, man ekki hvaða en ég las hana þar stuttu eftir þáttinn.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 23:29
já Anna Ólafsdóttir...þótt ég sjái myntkörfuna mína hækka um 40% síðan um áramót (vegna ónýtrar krónu) er ég samt þakklát fyrir að þurfa ekki að vera í verðtryggingu...ímyndið ykkur verðbólguna, sem fylgir?? 20% verðbólga í júlí...og legst bara óná lánin plús vextir? Hvurslags "stjórnun" er þetta?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.3.2008 kl. 00:10
Takk fyrir góðan pistil!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 22.3.2008 kl. 00:31
Þú óskar eftir útskýringu. Bankarnar hafa jú hingað til getað fengið lán á góðum kjörum erlendis ástæðan fyrir því að ekki hefur verið hægt að bjóða okkur þau er verðbólgan.
Hér hefur verið mikil þensla á síðustu árum sem hefur einkennst að framleiðsluaukningu í framleiðslugreinum eins og byggingariðnaði og framleiðslu á áli. Kaupmáttur vissra aðila sem höfðu tekjur af þessu jókst og þá jókst framboð eftir ýmsum vörum, þegar framleiðsluaukninginn í ýmsum greinum var orðinn mikil náði eftirspurning ekki að fylgja eftir með ýmsar lúksusvörur og þá gerist það að verð er hækkað. Þar sem ég veit ekki hve mikið þið vitið kemur hér dæmi
Dæmi um þetta er ef einn bíll er til í samfélagi og kostar 2.000.000, Einn maður hefur efni á honum en á aðeins nákvæmlega 2.000.000 en svo vinnur annar í lottói 4 millur. Báðir vilja bílinn og eru til í að borga eftir kaupmætti fyrir hann. Annar þeirra getur borgað mun meira fyrir hann eða 4.000.000 millur.
Annað dæmi um ástæðu verðbólgu. Tvö fyirirtæki eru í sveitarfélagi, sjávarútvegsfyrirtæki og búð. Nú verður framleiðsluaukning um 20% í sjávarútvegi vegna betri tækjakostar. Þeir sem vinna hjá báðum fyrirtækjum eru með 100.000 en nú er útgerðinn búinn að auka tekjur sýnar um 20%, starfsmennirnir geta því krafist hærri launa sem nema 20% og fengið 120.000. Allir í útgerðinni sáttir enda allir komnir með 20% hærri tekjur. En nú vilja verslunarmenn líka fá 20% hækkun gallinn er bara sá að þer hefur ekki orðið framleiðsluaukning. Félag verslunarmanna er þó sterkt og mun þess vegna ná fram 20% launahækkun. Þetta veldur því að verslunareigendur munu neiðast til að hækka vöruverð í verslunum sýnum um 20% til að fá sömu tekjur í sinn vasa og fyrir. Þessi vöruhækkun mun síðan valda verðbólgu, sem veldur því að þeir sem náðu raunverulegri framleiðsluaukningu munu gjalda fyrir í hækkandi vöruverði
Okey þá er búið að skýra verðbólguna en afhverju skiptir hún bankana máli. Ástæðan skýrir hærri vexti hér á landi en erlendis. Jú bankinn vill geta keypt það sama fyrir penningin sem það lánar þér. Ef þú færð 2.000.000 kr lán til eins árs og kaupir þér bíl vill bankinn að lámarki geta keypt eins bíl að ári liðnu því annars hefði hann tapað á láninu því kaupmáttur bankans hefði minnkað.
Verðbólgan er sem sagt vandamálið en í þenslu er verðbólga alltaf fylgifiskur
Arnar (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 00:45
Mín Kæra Lára Hanna!
Ekki ætla ég nú að svara stórum spurningum þínum um peningakerfið og það þótt ég viti nú sumt og sé til þess menntaður fyrir mörgum árum auk þess að vera frændi Jónínu Ben. haha, en get þó bent á afbragðsmann sem lengi hefur haft það fyrir starfa og hugsjón að auka meðvitund almennings á fjármálum sínum.
Á ég þar við Ingólf H. Ingólfsson sem í mörg ár hefur m.a. kynnt sitt ágæta veltukerfi í fjármálum og hefur haldið úti vefsvæðinu spara.is.
Kíktu á hann ef þú hefur ekki gert það áður.
Og svo bara gleðilega páska mín elskulega!
Magnús Geir Guðmundsson, 22.3.2008 kl. 02:49
Kærar þakkir fyrir innlit og athugasemdir, öllsömul. Ég á eftir að athuga betur skýringar þínar, Arnar. En ég var að skoða blöðin og rakst á þessa grein. Við fyrsta lestur fannst mér hún sláandi. Hvað finnst ykkur?
Lára Hanna Einarsdóttir, 22.3.2008 kl. 02:51
Ég tek undir þetta Lára Hanna, ég er búinn að halda því fram undanfarið að þessu ástandi hér er handstýrt og afsakað með einhverjum húnsæðislánum og bankagjaldþroti í BNA, þegar bankinn góði fór í þrot var gengið á Íslandi búið að vera í frjálsu falli í um 4 tíma.
Góða skemmtun yfir leiknum á morgun ég missi af honum svo þú verður bara að fluta hann á.
Gleðilega Páska.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 22.3.2008 kl. 14:10
Takk fyrir mjög góðan og gagnlegan pistil Lára Hanna
Ágúst H Bjarnason, 22.3.2008 kl. 20:21
Flottur pistill, eins og venjulega er ég alveg sammála þér og gleðilega páska.
Steingerður Steinarsdóttir, 22.3.2008 kl. 20:24
Kærar þakkir fyrir fínan pistil, Lára mín. Gleðilega hátíð.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 22.3.2008 kl. 21:04
Lára Hanna, ég las þessa grein og mér finnst að valið um aðgerðir sé nú í höndum ríkisstjórnarinnar. Seðalabankinn hefur sýnt sigg andlit, svo kannski gerist EKKERT?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.3.2008 kl. 22:41
Góð grein hjá þér eins og alltaf. Ég hef bent á það og geri það aftur að ég held að atburðarrás síðustu viku eigi heima hjá fjármálaeftirlitinu þetta var heimatilbúið af einhverjum hvötum. Það er jú eitt sem við getum gert til að sporna við verðbólgunni það er að hætta að versla það vinnur gegn verðbólgu og er svipað og fólk gerði i kreppunni í Asiu. Eitt enn það heyrist lítið um það hjér á netinu að ekki hafa olíufélögin lækkað olíuna þó að verð hafi fallið úti. Við þurfum sterkari neytendasamtök og harðari stefnu í að berjast á móti þessu en gleymum því ekki að þá þurfum við að taka þátt í þvi með neyslu og lána aðhaldi
Jón Aðalsteinn Jónsson, 23.3.2008 kl. 12:23
Ég segi bara, við búum við bóluhagkerfi bæði hér á Íslandi og erlendis sem erfitt er að átta sig á, meira get ég ekki orðið að liði í þessari umræðu. Gleðilega páska.
Emil Hannes Valgeirsson, 23.3.2008 kl. 17:19
Ég tek undir með Jónínu og Pálma í aths. nr. 5 og 6 - þjóðin er sofandi. Hún lætur ráðamenn aldrei gjalda gjörða sinna, tengir ekki eða er búin að gleyma þegar í kjörklefann er komið. Ég hef aldrei getað skilið þennan sofandahátt.
Hvet alla til að lesa pistilinn sem Ásgeir tengir á í aths. nr. 7 og slóðirnar sem AK-72 bendir á í nr. 8. Þetta er fróðleg lesning og varð til þess að ég hugsaði með mér: Næstu kosningar, sem verða bæjar- og sveitastjórnarkosningar árið 2010, eru fyrstu kosningarnar síðan bloggið varð svona útbreitt, vinsælt og aðgengilegt. Skyldi eitthvað breytast við það, að kjósendur geti flett upp í hinum og þessum pistlum, rifjað upp og rætt atburði kjörtímabilsins? Mun fólk muna betur hvað fór úrskeiðis og hversu oft það hét að kjósa aldrei aftur "þessa andskota"? Sjáum til, það kemur að þessu.
Ábending gfs í aths. nr. 10 um Jóhannes Björn er allrar athygli verð. Ég minnist þess að hafa lesið fróðlega bók eftir hann fyrir lifandis löngu sem hét Falið vald. Skrif hans eru greinilega úthugsuð og á köflum hrollvekjandi. Greiningardeildir bankanna hafa ekkert í svona fólk.
Ef ég skil Arnar rétt er hann sammála mér með það, að bygging álvera, virkjana og olíuhreinsistöðva sé ekki lausnin á efnahagsvanda þjóðarinnar - nema síður sé. Slíkar framkvæmdir auka alltaf á þensluna. Nú er kominn tími til að draga saman seglin um tíma og sjá hvað setur. Jafnvel að taka umræðuna um ESB alvarlega og skoða hana ofan í kjölinn.
Þjóðin hefur lifað um efni fram undanfarin ár, bæði hið opinbera og einkaaðilar. Slík óráðsía gengur ekki til lengdar og við erum ekkert of góð til að neita okkur um lúxusinn. Stjórnvöld eiga að ganga á undan með góðu fordæmi - en er þeim treystandi? Eins og sumir ráðherrar og aðrir valdamenn hafa talað undanfarið er ég ekkert allt of bjartsýn... því miður.
Lára Hanna Einarsdóttir, 23.3.2008 kl. 23:41
Lönd hafa mismunandi vexti.
Hér var lánsfjárhöft og skortu í til 2001.
Hann segir að vextir séu 3 sinnum dýrari í Noregi, það er ekki rétt heitir helmingi hærri.
Segir stýrivexti notaða til að réttlæta háa vexti, þetta virkar nú þannig að seðlabankinn hækkar vexti til að minnka útlán sem minkar eftirspurn sem minkar verðbólgu. Ef ég er Banki HF og get fengið 13,75% á reikning hjá seðlabanka eða lánað einhverjum á 10%vöxtum, hvort geri ég? einfalt 13,75% er hærra en 10%.
Húsnæði er helmingi ódýrara hér en í Osló, það er af því að kerfið okkar telur húsnæðishækkanir sem verðbólgu og þess vegna getum við ekki haft jafn lága vexti og í Noregi miðað við sömu laun.
Sá sem kaupir húsnæði, veit hvað hann getur borgað á mánuði ef það eru 4% getur hann keypt fyrir 40mill = 1,6m á ári 133.333 á mánuði, 23þ í vaxtabætur fyrir hjón og eftir situr 110þ. 55þ á hvern fullorðinn af 150þúss eftir skatt minnst.
Skil ekki hvað fólk er að væla.
Johnny Bravo, 24.3.2008 kl. 09:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.