Bréf til Láru - frá Hveragerði

DjúpagilsfossÉg skrifaði um Hveragerði í síðasta pistli. Um að verið væri að stofna lífsgæðum og heilsu Hvergerðinga og annarra íbúa Suðvesturlands í hættu með því að dæla eiturefninu brennisteinsvetni út í andrúmsloftið í áður óþekktu magni í þágu virkjana og stóriðju. Eins og ég nefndi í pistlinum var minnst á fjölmargt annað á fundinum í Hveragerði - brennisteinsvetnismengun er aðeins eitt af mörgum atriðum sem spurt var um og gerðar athugasemdir við. Viðbrögðin við pistlinum hafa verið mikil og enn og aftur hef ég fengið tölvupóst og upphringingar frá óttaslegnu fólki sem líst ekki á blikuna.

Í dag fékk ég svo tölvupóst frá Hvergerðingi sem var á íbúafundinum á mánudagskvöldið. Hann sendi einnig fallegar myndir af fossum sem prýða  útivistarsvæðið ofan Hveragerðis, hann kallar þá fossana okkar. Ég sá ástæðu til að biðja hann um leyfi til að birta skrifin og myndirnar því hér kemur svo glögglega í ljós hve almenningur er mótfallinn því að láta hrekja sig í burtu frá náttúrunni, þangað sem fólk hefur árum og áratugum saman leitað sér hvíldar og skjóls frá amstri hvunndagsins til að endurnæra sál og líkama.

En hér er bréfið:

Heil og sæl Lára Hanna, Ármann Ægir Magnússon heiti ég og hef átt heima í Hveragerði lengi.         Djúpagilsfoss í þurrkatíð

Ég var á fundinum með OR í Grunnskóla Hveragerðis á dögunum. Á fundinum kom ég inn á vistkerfi Varmár. Hún er dragá sem getur orðið mjög lítil og heit en vaxið gífurlega í vorleysingum og rigningum.

Vármá mynda aðallega fjórar smærri ár, þ.e. Sauðá, Grændalsá, Reykjadalsá og sú lengsta, Hengladalaá.
Þær tvær síðastnefndu eru líklega vatnsmestar. Í Hengladalaá fyrir ofan Svartagljúfursfoss er urriði og lífverur sem hann nærist á, á meðan lækur rennur.

Í Djúpagili er Reykjadalsáin á um tveggja kílómetra kafla en þar er urriði sem er þar á milli fossana Fossdalafoss og Djúpagilsfoss hann lifir oft í ótrúlega litlu vatni og heitu. Urriðinn í þessum ám gengur niður árnar en kemst ekki upp fossana.

Þetta varnakerfi er stór hluti af vatna- og lífkerfi Ölfusfora. Í öllum ánum fjórum hefur verið straumönd sem fer með unga sína niður árnar þegar líður á sumarið.

FossdalafossÉg reyndi að spyrja um rannsóknir og þekkingu OR á þessum hlutum á fyrrnefndum fundi. Það kom í ljós að talsmaður OR, Ingólfur Hrólfsson, vissi ekkert um þetta og taldi sig ekki sjá að slys við framkvæmdirnar gætu breytt lífkerfinu. Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður OR, taldi að klórslysið sem varð í vetur þegar Varmáin var yfir meðallagi að vatnsmagni, væri það sem við Hvergerðingar þyrftum að varast.

Ég hef gengið oft um þetta svæði og tel mig þekkja það afar vel. Ég er sannfærður um að klórslysið er bara brotabrot af því sem Bitruvirkjun getur valdið, eða hefur nú þegar valdið á þessu svæði. Varmáin er okkur Hvergerðingum afar kær og því höfum við varið hundruðum milljóna í að hreinsa hana og verja.

Ég veit ekki til að Sveitafélagið Ölfus hafi varið krónu til að verja þetta mikla vatnakerfi okkar heldur leyft byggðakjarna sem notast við venjulegar rotþrær, fremur en að tengjast og taka þátt í hreinsistöð og verndarstarfi okkar.
 
Foss í Hengladalaá
Ég er ekki menntaður líffræðingur eða vatnalíffræðingur. Ég held að það sé afar brýnt að kalla eftir raunverulegum rannsóknum fræðimanna á þessu sviði. Rannsóknir sem Ingólfur minntist á voru rannsóknir á grunnvatnsstraumum sem náðu frá þessu svæði allt til Esju og Reykjaness. Það sjá það allir sem vilja að þetta geta ekki talist nákvæmar rannsóknir á vatnafari eða vistkerfi umhverfis Bitruvirkjun, Varmá eða áhrif á Ölfusforir. Ég er undrandi á að ekki hafi komið fram slíkar rannsóknir sem hljóta að vera til í einhverjum mæli. Ef ekki, þá hefur orðið slys á svæðinu nú þegar.
 

Ég hef gengið oft eftir þessum ám og um virkjanasvæði Bitru. Það verður að segjast eins og er að vegna allra framkvæmdanna á Hellisheiði hefur varla verið vært á svæðinu alla daga vikunnar, því hefur ferðum mínum á svæðið fækkað.
 

Ég sendi þér nokkrar myndir af fossunum okkar. Þetta eru Reykjafoss, Fossdalafoss, Djúpagilsfoss, Djúpagilsfoss í þurrkatíð og foss neðarlega í Hengladalaá. Þar fyrir innan er Svartagljúfursfoss.

Með kærri þökk fyrir baráttu þína, Lára Hanna.
Nú þurfa allir að leggjast á árarnar.

Ármann Ægir Magnússon,
íbúi í Hveragerði

Já, nú þurfa svo sannarlega allir að leggjast á árarnar og hindra þann gjörning sem fyrirhugaður er með Bitruvirkjun. Í öðrum pósti sem Ármann Ægir sendi mér segist hann ekki vera á móti öllum virkjunum, en að þarna sé ekki verið að virkja rétt. Ég er heldur ekki á móti öllum virkjunum. Eins og ég sagði í þessum pistli er skynsamleg og hófstillt nýting auðlinda nauðsynleg.

En það er alls ekki sama hvar virkjað er, hvernig, til hvers og hverju er fórnað í þágu hverra.


Reykjafoss


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þetta.  Fræðandi lestur.

Jenný Anna Baldursdóttir, 26.4.2008 kl. 23:49

2 Smámynd: Heiða  Þórðar

Takk - takk - takk....og ekki síst gleðilegt sumar.

Heiða Þórðar, 27.4.2008 kl. 00:11

3 Smámynd: Gosi

Langar aðeins að bæta við þetta, ég rk augun í þetta á http://is.wikipedia.org/wiki/Brennisteinsvetni

Brennisteinsvetni eða vetnissúlfíð (H2S), er litlaus eitruð gastegund. Megn lykt er af brennisteinsvetni þó magn þess sé lítið í andrúmsloftinu, það er brennisteinsvetni sem veldur lykt af fúleggjum og jöklafýlu sem gjarnan fylgir hlaupum í jökulsám. Lyktin hverfur hins vegar þegar styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti eykst og það verður lífshættulegt. Það eykur einnig á hættu að brennisteinsvetni er þyngra en andrúmsloftið og getur því lagst í dældir eða safnast fyrir í botnum á geymum og tönkum.

Er ekki umhverfi Hellisheiðavirkjunar fólkvangur? Var bara hugsa um hvað gæti gerst ef maður væri í göngutúr og settist í eina lautina og hún væri full af þessum óþvera? Gæti maður bara ekki hreinlega drepist?

kveðja Gosi

Gosi, 27.4.2008 kl. 00:13

4 Smámynd: Bumba

Styð þig heils hugar Lára Hanna.Með beztu kveðju.

Bumba, 27.4.2008 kl. 00:36

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góð ábending.. ég vissi þetta td ekki.

Óskar Þorkelsson, 27.4.2008 kl. 00:51

6 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég tel mig skynja hvernig Ármanni er innanbrjósts því sjálfum finnst mér á mig ráðist. Bæjarstjórnin í Ölfusi, Ólafur Áki og co., ætlar sér að vaða á skítugum skóm yfir einstakt svæði á náttúruminjaskrá með því að breyta því í iðnaðarsvæði. Hér á sem sagt að fórna meiri hagsmunum fyrir minni - taka stundarhagsmuni fram fyrir langtímahagsmuni - láta staðbundna hagsmuni ganga fyrir þjóðarhagsmunum.

Skoðun mín á bæjarstjórninni í Ölfusi er óprenthæf! 

Sigurður Hrellir, 27.4.2008 kl. 00:52

7 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þakka þér fyrir enn einn fræðandi pistilinn, Lára Hanna. -  Þessi pistill gefur mér svör við spurningu, sem legið hefur á vörum mínum, en ég, ekki getað fengið svör við, fyrr en nú. Takk enn og aftur. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 27.4.2008 kl. 01:35

8 Smámynd: Tiger

Það er yndislegt að vita af því að það eru sannarlega til margir Íslendingar sem eru meðvitaðir um náttúruauðlindir okkar og sem hafa áhyggjur af auðlindunum. Við megum aldrei gleyma okkur á verðinum, enda þá voðinn vís. Það eru svo margir fallegir staðir, fossar, ár og fleira sem ekki mega glatast í iðnaðarbrölti nútímans.

Ég er svo mikið sammála þér með þetta sem þú lætur falla í lok pistils þíns um að:

"skynsamleg og hófstillt nýting auðlinda nauðsynleg. En það er alls ekki sama hvar virkjað er, hvernig, til hvers og hverju er fórnað í þágu hverra.

Þakka kærlega fyrir mig hérna, þetta var virkilega fræðandi pistill sem gagn og gaman var að renna yfir!

Tiger, 27.4.2008 kl. 04:25

9 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk fyrir pistilinn bæði tvö. Á að skipuleggja fjölmennar gönguferðir um svæðið í sumar, þar sem fólk verður upplýst um fyrirhugaðar framkvæmdir og afleiðingar þeirra?

Ásgeir Kristinn Lárusson, 27.4.2008 kl. 11:17

10 identicon

Akkurat! Allir að leggjast á árarnar!!!! Frestur til að gera athugasemd við aðalskipulagsbreytingu (úr útivistarsvæði í iðnaðarsvæði við Bitru) rennur út 13. maí!! Öllum er heimilt að gera athugasemd - ekki einungis íbúar sveitarfélagsins. Upplýsingar á www.hengill.nu 

Og þetta er ekki það sem verið var að gera athugasemd við í hasut - þá var það í sambandi við umhverfismatið!

Kannski hafa fleiri lesið greinina eftir Eirík Hjálmarsson og Jakob Sigurð Friðriksson í Fréttablaðinu sl. föstudag þar sem er verið lýsa Bitruvirkjun og það hvað OR hefur gert til að draga úr áhrifum hennar. Í mínum huga er þessi grein bara til þess að fegra gjörningin og fá fólk til þess að halda að sé bara í fína lagi, menn koma ekki til með að taka eftir virkjuninni og alveg óþarfi að gera athugasemd!

Petra Mazetti (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 11:26

11 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Lára Hanna:Hjartans þakklæti fyrir uppfræðsluna og alla þína vinnu.

Eva Benjamínsdóttir, 27.4.2008 kl. 16:56

12 identicon

Takk fyrir góða pistla og gleðilegt sumar.

Maður hefur það á tilfinningunni að OR vilji vaða áfram í blindri virkjannagleði í stað þess að staldra við og fá öll spil uppá borðið ... það er nú ekki eins og þetta svæði og orkan sem þar býr sé að fara eitthvað, nú eða tíminn að renna út. 
Eða vita þeir eitthvað sem við vitum ekki ???

Kveðja,
Örvar 

Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 17:30

13 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Mikið er gaman að sjá að hugsandi fólk er alls staðar að finna.

Steingerður Steinarsdóttir, 27.4.2008 kl. 18:57

14 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Takk.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 27.4.2008 kl. 21:14

15 identicon

Tek undir með Sigurði Hrelli. Skoðanir mínar á sveitastjórn Ölfuss og sveitastjóranum eru ekki prenthæfar. 500 milljónir frá OR til að liðka fyrir skipulagsbreytingum og framkvæmdaleyfum hlýtur að brjóta í bága við sveitasjórnarlög varðandi hæfi sveitastjórnarmanna. Stóriðja er það eina sem menn sjá í Ölfusi því nóg er landið eða hvað. Heyrði frá Gróu á Leiti að nú sé sveitastjórinn búinn að lofa svo mörgum fyrirtækjum lóðum að hann er að verða uppiskroppa með landsvæði undir frekari iðnaðaruppbyggingu. Hann sækist því eftir meira svæði norðan við byggðina sem er í eigu landgræðslu ríkisins áður sandgræðslu ríkisins. Vona svo sannarlega að umhverfisráðherra hafni þessu ef rétt er því annars er komið fordæmi fyrir frekari sölu landgræðslujarða annars staðar og hugsanlega hægir þá aðeins á stóriðjuvændinu í Ölfusinu.

Gunnar Jónasson (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 21:41

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Afhverju þessar myndir af fossunum með færslunni? Eiga þær að auka á dramatíkina? Ekki hverfa þessir fossar ef það verður virkjað, er það?

Mér finnst reyndar lítið á þessu bréfi að græða, því eins og maðurinn segir sjálfur, þá hefur hann ekki hundsvit á þessum hlutum. En hann hefur labbað þarna víða, það er ljóst. Það síðasta sem ég myndi gera, af fenginni reynslu af náttúruverndarsinnum, væri að hlusta á hræðsluáróður frá þeim um að lífi og limum fólks sé stefnt í hættu með Bitruvirkjun. Til slíks mats eru ofstækislausir aðilar betur fallnir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.4.2008 kl. 21:42

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Og þið segist ekki á móti öllum virkjunum. Hvaða fyrirhugaðri virkjun ert þú ekki á móti Lára Hanna? Einhverri músarmiguvirkjun sem engu máli skiptir?

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.4.2008 kl. 21:44

18 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Gunnar - Hvað er ofstæki í þessum málum? - Er ekki þetta tal um músarmiguvirkjun eitthvað í ætt við ofstæki?

Haraldur Bjarnason, 27.4.2008 kl. 22:08

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ekkert ofstæki Haraldur, bara spurning

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.4.2008 kl. 22:11

20 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Langaði bara að vita það. - Mér finnst nefnilega full þörf fyrir þá umræðu sem Lára Hanna vekur hér og ekki síst fyrir þennan fróðleik. Innlegg gamals félaga, Ármanns Ægis, er góð viðbót. Það er engin ástæða til að gera lítið úr þessu með einhverju bulli um ofstæki og hræðsluáróður. Ekki get ég heldur séð hverjir í fljótu bragði þeir eru þessir ofstækislausu, sem þú vitnar til Gunnar.

Haraldur Bjarnason, 27.4.2008 kl. 22:24

21 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir innlit og komment sem komin eru. Velkominn á bloggið, Gosi... ég leit til þín og sá að þú ert nýbyrjaður að blogga. Kannski þess vegna varstu ekki búinn að lesa síðustu færsluna mína á undan þessari þar sem ég vitna einmitt í það sama og þú í Wikipediu...    Ég skal ekki segja hvað nákvæmlega myndi gerast ef þú gengir um virkjanasvæðin og settist í lautir, en ljóst er að brennisteinsvetnið safnast fyrir í lautum, dældum, skorum og skotum og það er mjög óheilnæmt að koma nálægt því í svona ónáttúrlegu magni.

Ég veit nákvæmlega hvað þið eigið við, Siggi Hrellir og Gunnar Jónasson. Ég á eftir að fjalla um það mál.

Gaman að sjá þig hér, Tigercopper... komdu fljótt aftur.

Það væri vissulega gaman að skipuleggja gönguferðir um svæðið í sumar, Ásgeir. Tekurðu framkvæmdina að þér? 

Gunnar minn Th...  þú ert greindur piltur og ég átti ekki von á svona tali frá þér. Lastu ekki pistilinn? Ef þú hefðir lesið hann hefðirðu ekki þurft að spyrja af hverju fossamyndirnar fylgdu. Þeir prýða nefnilega landslagið sem verið er að fjalla um. Og Ármann Ægir sagði ekki "að hann hefði ekki hundsvit á þessum hlutum". Hann sagðist ekki vera menntaður líffræðingur eða vatnalíffræðingur. Það þýðir alls ekki að hann hafi ekki vit á því sem hann sér í kringum sig og hefur ef til vill lesið sér til um. Það þarf nefnilega ekki að vera hámenntaður til að skilja og skynja náttúruna. Frægustu dæmin um það eru bræðurnir á Kvískerjum (ég held að einn eða tveir séu enn á lífi) sem voru mjög virtir náttúrufræðingar meðal leikra og lærðra þrátt fyrir að vera ekki menntaðir í þeim fræðum.

Mér heyrist að þú hafir heldur ekki hlustað á sérfræðing Umhverfisstofnunar og lækninn í Spegilsviðtölunum í tónlistarspilaranum. Þar eru tveir ofstækislausir, afar varkárir sérfræðingar að lýsa þeirri hættu sem heilsu og lífi fólks stafar af miklum útblæstri brennisteinsvetnis út í umhverfið. Ég hef allt mitt vit frá svona fólki og læt allt ofstæki eiga sig.

Þú hefur heldur ekki haft fyrir því að lesa fyrri skrif mín hér á blogginu, Gunnar Th. Þá hefðirðu kannski áttað þig á að ég hef ekki minnst orði á Hverahlíðarvirkjun sem er fyrirhuguð um leið og Bitruvirkjun. Gæti það mögulega stafað af því að ég sé ekki á móti henni þar sem hún myndi ekki eyðileggja jafn gríðarlega fallega og verðmæta náttúru og Bitruvirkjun? Pældu í því.

Og eins og Haraldur bendir réttilega á...  gættu þín á ofstækishugtakinu, það er vandmeðfarið.

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.4.2008 kl. 22:24

22 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Annað sem ég má til með að benda þér á, Gunnar Th., í tengslum við myndirnar af fossunum. Fossar þessir eru í ánum sem Ármann Ægir nefnir í bréfinu sínu. Hann er að segja frá urriðanum, öndunum og lífverunum sem eiga tilveru sína undir því að árnar verði ekki mengaðar með eitruðu brennisteinsvetni.

Hann er að benda á, að það er ekki bara mannfólkið sem er í hættu heldur líka dýrin. Fattarðu?

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.4.2008 kl. 22:36

23 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, ég fatta Lára Hanna og nei, ég hef ekki lesið alla pistla þína.  

 Vissulega fallegir fossar á myndunum, eins og þúsundir annara svipaðra á landinu, en verða sem sagt ekki fyrir sjónrænum skaða. Ég tek undir orð Haraldar að full þörf er á umræðunni, en mér líst illa á að henni sé stjórnað frá einni hlið.

Þið spyrjið áleitinna spurninga og sjáið sjálf um svörin, allt mun fara á versta veg og klórslysið í vetur er samkvæmt þeim "peanuts" miðað við brennisteinsvetnismengunina. Heilsu fólks í heilu sveitarfélagi er ógnað o.s.frv.

Ég á bara svo erfitt með að trúa því að virkjunaraðilar tefli lífi fólks í tvísýnu með framkvæmdunum. Einnig væri afar slæmt ef lífríki ánna væri raskað með mengun, tek heils hugar undir það. En á öxl minni situr lítill heiðarlegur spekingur (sumir hafa engil á annarri öxlinni og púka á hinni)og hvíslar í eyrað á mér að virkjunaraðilarnir viti meira en þið gefið í skyn.

En að sjálfsögðu slæst ég í ykkar hóp varðandi Bitruvirkjun, ef þið hafið rétt fyrir ykkur varðandi brennisteininsvetnið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.4.2008 kl. 23:32

24 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Gunnar... hlustaðu á Spegilsviðtölin í tónlistarspilaranum og íhugaðu hvað þessir tveir menn eru að segja. Þar kemur mjög greinilega fram hve hættulegt brennisteinsvetni í miklu magni getur verið heilsu manna. Og enn eru langtímaáhrifin ekki nægilega vel þekkt til að réttlætanlegt sé að tefla í tvísýnu.

Og við, sem vorum á fundinum í Hveragerði á mánudagskvöldið, erum ekki að fara með neitt fleipur. Þar var fulltrúi frá Orkuveitu Reykjavíkur sem sagði - og svaraði spurningum um málið - að engar borholur verða hreinsaðar á framkvæmdartímanum, sem eru nokkur ár - og borholurnar fjölmargar. Og hann sagði líka að alltaf yrði að bora nýjar holur og/eða láta nokkrar holur "blása" og brennisteinsvetnið úr þeim verður ALDREI hreinsað.

Fulltrúi OR viðurkenndi líka fúslega að aðferðin sem OR hyggst nota til að hreinsa brennisteinsvetnið er ennþá á tilraunastigi, enda er það ekki hreinsað í Hellisheiðarvirkjun. Þetta finnst mér algjörlega óviðunandi - að ætla að ana út í allar þessar virkjanir á þessum litla bletti án þess að vera með skothelda áætlun um öryggi tveggja þriðju hluta þjóðarinnar! Þér er alveg óhætt að slást í okkar hóp varðandi Bitruvirkjun, því þetta er haft eftir fulltrúa OR. Velkominn í hópinn!

Og þetta er fyrir utan þá firru að láta framkvæmdaraðilann sjálfan (OR) sjá um mat á umhverfisáhrifum sem honum er auðvitað mikið í mun að sé sjálfum sér í hag. Síðan tekur OR við þeim athugasemdum sem berast, vegur þær og metur og leggur mat á þær. Hann dæmir semsagt í eigin máli. Slík vinnubrögð eiga ekki að viðgangast í sæmilega siðmenntuðu þjóðfélagi.

Svo er það hálfi milljarðurinn sem OR borgar Ölfusi fyrir að breyta unaðsreit á náttúruminjaskrá í iðnaðarsvæði... Eigum við nokkuð að fara út í það núna? Klukkan er orðin svo margt...

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.4.2008 kl. 23:46

25 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það getur vel verið að hann Gunnar Th. sé sæmilega greindur piltur. Hins vegar leynir hann því vel af skrifum hans hér að dæma. Hann leggur að jöfnu að vera ekki menntaður líffræðingur og að hafa ekki hundsvit á því sem hér er til umræðu. Sjálfur er Gunnar skrúðgarðyrkjufræðingur og leigubílstjóri algjörlega ófeiminn við að gera lítið úr "hræðsluáróðri" allra þeirra "ofstækisfullu" náttúruverndarsinna sem hér leggja orð í belg.

Annars heyrði ég í dag að verið væri að teikna upp öll fyrirhuguð mannvirki á virkjanasvæðinu við Bitru. Það er m.ö.o. ekki verið að tvínóna við hlutina, enda búið að ákveða þetta fyrir löngu. Svo er fólki gefinn kostur á að eyða tíma sínum til ónýtis við að senda inn athugasemdir...

Sigurður Hrellir, 27.4.2008 kl. 23:55

26 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Einmitt, kíki á þetta á morgunn.

Bara varðandi umhverfismat, þá er það allstaðar í lögum að framkvæmdaraðili ber kostnaðinn af umhverismatinu, en framkvæmir það ekki í sjálfu sér. Til þess fær framkvæmdaaðilinn viðurkennda sérfræðinga sem vinna svo út frá fyrirfram ákveðnu verklagi, útgefnu, að ég held, frá umhverfisstofnun. Sú forskrift er eftir erlendum fyrirmyndum. Yfir umhverfismatið fara svo aðrir óháðir sérfræðingar og meta hvort framkvæmdin standist matið. Hvernig viltu hafa þetta öðruvísi?

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.4.2008 kl. 23:56

27 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Gunnar... Þú ættir að lesa í gegnum alla pistlana mína - og athugasemdir við þá. Ég byrjaði að fjalla um þetta mál - og reyndar önnur svipuð - að mig minnir 1. nóvember í fyrra. Það er ekki svo langur tími svo þú verður fljótur að þræla þér í gegnum þetta og hefðir örugglega bæði gott og gaman af. Svo gætirðu fræðst um ýmislegt í leiðinni og það er alltaf ánægjulegt.

En ég held að Ármann Ægir hafi ekki verið að tala um sjónrænan skaða heldur þann skaða sem lífríkið verður fyrir - að frátöldu mannfólkinu.

Það er ekki rétt hjá þér að "við" stjórnum umræðunni. Það gerir frekar Orkuveitan sem hefur fólk á launum við að tala máli virkjananna og reyna að mýkja ásýnd þeirra í augum almennings. Ég fæ til dæmis ekki greiddan eyri fyrir þá vinnu sem ég hef lagt í að kynna mér þessi mál og skrifa um þau. Það er vonlaust að ég geti stjórnað neinni umræðu hér á mínu lítt þekkta bloggi, en samvisku minnar vegna verð ég að gera það sem í mínu valdi stendur.

Í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 105/2006 segir orðrétt: "Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið, sem vísað er til í lið 2i í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2002."

Í tilskipuninni sem vísað er í finn ég hvergi ákvæði um hver á að bera kostnaðinn af umhverfismatinu eða framkvæma það. Þess er hins vegar getið í íslensku lögunum að framkvæmdaraðlinn sjálfur sjái um umhverfisskýrslu og mat á umhverfisáhrifum - sem getur fyrir vikið aldrei verið hlutlaust. Í tilskipuninni er hins vegar lögð rík áhersla á aðkomu almennings, kynningu á framkvæmdum og að almenningi sé gefinn nægur tími til að gera athugasemdir. Hér eru það 6 vikur. Það er ýmislegt í tilskipuninni sem ver náttúruna og rétt almennings margfalt betur en lögin sem sögð eru byggja á henni.  Þessi lög eru ólög sem þarf að breyta.

Ég vona að þetta sé rangt með teikningu Bitru. En það kæmi mér samt ekki á óvart. Valdníðsla í íslensku þjóðfélagi er með ólíkindum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.4.2008 kl. 00:30

28 identicon

Tek undir þessa athugasemd hjá þér Lára Hanna um að umhverfismat getur aldrei orðið hlutlaust þegar það er á ábyrgð framkvæmdaraðila. Það eru örfá stór ráðgjafar og hönnunarfyrirtæki sem sjá að mestu um gerð umverfismats fyrir flestar stórframkvæmdirnar og þau eru jafnframt að vinna samhliða að hönnun mannvirkja í tengslum við þá sömu framkvæmd. Það er þvi mikið í húfi að umhverfismat sé hagstætt fyrir þessi fyrirtæki þannig fá þau jú krónur í kassann. Hér er markaðurinn lítill og því hörð samkeppni milli þessara fyrirtækja. Það er því mikilvægt fyrir þau að fá ekki á sig "umhverfisöfgastimpil" Við höfum heyrt dæmi um að skýrslum sem eru framkvæmdaraðila óhagstæðar sé stungið undir stól eða innihald þeirra tónað niður allt til að þóknast kúnnanum.

Bendi líka á grein Stefáns Thors " Ríkið og sveitarfélögin" í Morgunblaðinu á Laugardaginn. Þar bendir hann á að skipulagsstofnun er fyrst og fremst eftirlitsaðili með að form og efni skipulagsáætlana sveitarfélaganna sé samkvæmt samþykktum viðkomandi sveitarfélaga. Skipulagsstofnun hefur nánast ekkert um það að segja hvort framkvæmd sem líkleg er til að valda verulegum umhverfisáhrifum verði að veruleika eða ekki. Sveitarfélag getur kosið að fara gegn niðustöðu skipulagsstofnunar ef þeim sýnist svo ef þeir rökstyðja hvers vegna þeir ganga gegn niðustöðunni. Þar fyrir utan eru engin viðurlög við því að brjóta lög um mat á umhverfisáhrifum þannig að lögin sjálf eru ekkert annað en ólög og tek því undir með þér að þeim þarf að breyta.

Hvað varðar punkt Gunnars Th. um að umhverfismat sé unnið eftir forskrift þá er það rétt en skiptir litlu ef þú ferð eftir forskriftinni en segir bara hálfan sannleikann og vona að fólk eins og þú og fleiri sem láta sér annt um náttúruperlur okkar Íslendinga reki ekki augun í þetta.

Það vantar óháðan hóp umsagnaraðila sem hægt er að leita til og þá er líklega eini raunhæfi kosturinn að það sé í gegnum Háskóla Íslands þar sem mögulega mætti rengja álit frá öðrum háskólum sem eru styrktir af framkvæmdaraðilum.

Nóg í bili en vil gera orð Stefáns Thors að mínum þegar hann segir" Land er takmörkuð auðlind og nýting og notkun þess verður að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi" og bæta við frá mér sjálfum "um alla framtið".

Gunnar Jónasson (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 01:16

29 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fyrir nokkrum árum var aðal málið hjá umhverfissamtökum að framkvæmdir væru settar í umhverfismat. Nú er aðal málið að gera umhverfismöt tortryggileg og bendla þau við spillingu. Eitt helsta tromp þeirra sem óánægðir eru ef umhverfismatið er ekki í samræmi við verndunarsjónarmið þeirra, er að benda á að framkvæmdaaðilinn geri sjálft umhverfis og áhættumatið.

Í lögum um umhverfismat áætlana er eftirfarandi:

Sá sem ábyrgð ber á áætlanagerð er fellur undir lög þessi ber ábyrgð á umhverfismati áætlunarinnar og kostnaði af gerð þess. Hann skal vinna umhverfisskýrslu þar sem gerð er grein fyrir mati á áhrifum áætlunar á umhverfið og annast kynningu og samráð í þvís kyni.

Og í lögum um umhverfismat segir:

 [i. ]1) Matsskýrsla: [Skýrsla framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir ásamt tillögum um mótvægisaðgerðir eftir því sem við á.]1) Framkvæmdaraðili ber ábyrgð á gerð matsskýrslu.

Ég hygg að þessi lög séu með sama sniði hér eins og annarsstaðar. Þegar umhverfismatið liggur fyrir, þá er einhver kærufrestur. Umhverfisráðherra fer yfir skýrsluna í samráði við þá sérfræðinga sem hann kýs og samþykkir eða ekki. Stundum er samþykkt með ákvæðum um breytingar á framkvæmdinni, líkt og í tilfelli Kárahnjúka.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.4.2008 kl. 10:45

30 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Takk fyrir þetta Lára og Ármann.

Kveðja frá Hveragerði

Soffía Valdimarsdóttir, 28.4.2008 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband