14.6.2008
Sínum augum lítur hver silfrið
Mig langar oft að benda á bloggpistla sem mér finnast athyglisverðir - af nógu er að taka á hinum og þessum bloggsetrum. Að þessu sinni bendi ég aðeins á tvo sem ég las og hef síðan verið að fylgjast með umræðum sem skapast hafa í athugasemdum við pistlana.
Fyrstan er að nefna þennan pistil Egils Helgasonar. Þegar Egill skrifar um náttúruvernd gerir hann það yfirleitt á þessum nótum. Hann einfaldlega skilur hana ekki. Hann virðist ekki hafa neina tilfinningu fyrir náttúru landsins, miklu frekar pólitík þess, efnahag, bókmenntum og öðrum andans málum. Mér virðist Egill líta fyrst og fremst á sjálfan sig sem heimsborgara og hann er stöðugt að bera Ísland og Íslendinga saman við útlönd og útlendinga - og oft er samanburðurinn Íslandi í óhag hvort sem það er sanngjarnt eður ei. Nú veit ég ekki hve vel hann hefur kynnt sér náttúruverndarmálin á Íslandi en mig grunar að þekking hans þar sé æði yfirborðskennd. Hann er eflaust afskaplega önnum kafinn maður og mér sýnist að náttúra Íslands komi ekki nálægt áhugasviðum hans, sem þó eru fjölmörg.
Gott og vel, hann er ekki einn um það, en ég hef á tilfinningunni að Egill myndi bregðast ókvæða við hugmyndum um olíuhreinsistöð eða meiriháttar eyðileggingu á uppáhaldseyjunni hans grikkverskri þótt hann láti óátaldar hugmyndir um sams konar stöð og ýmiss konar framkvæmdir á Íslandi, hversu óþarfar og fjarstæðukenndar sem þær eru. En ég umber Agli meira en flestum af ástæðu sem ég fer ekki nánar út í hér. Sínum augum lítur hver silfrið og þeir eru æði margir Íslendingarnir sem kunna ekki að meta það sem þeir hafa í bakgarðinum en mæna aðdáunaraugum á allt í útlöndum og finnst það taka öllu öðru fram. Þetta er alþjóðlegt hugarfar - eða alþjóðleg fötlun - eftir því hvaða augum maður lítur silfrið.
En það er í sjálfu sér ekki pistill Egils sem vakti athygli mína þó að hann hafi valdið mér vonbrigðum. Ég þekki bærilega skoðanir hans eftir að hafa fylgst náið með honum í fjölmiðlum undanfarin ár og lesið eða hlustað á velflest sem frá honum hefur komið. Stundum er ég sammála Agli, stundum ósammála eins og gengur. Það eru öllu heldur fjölmargar athugasemdir við pistilinn sem ég staldra við. Orðbragðið og ofstækið. Úr sumum þeirra virðist skína hreinræktað hatur sem ég á mjög erfitt með að skilja. Það er einmitt orðljótasta og ofstækisfyllsta fólkið sem sakar þá sem eru á annarri skoðun um ofstæki án þess að færa fyrir því nein rök. Mannleg náttúra? Kannski, en takið eftir mismunandi orðbragði eftir því hvaða skoðanir fólk er að tjá. Það er rannsóknarefni út af fyrir sig.
Hinn pistillinn er úr smiðju Ómars Ragnarssonar. Ég ætla ekki að fjalla um Ómar, lífsstarf hans, hugsjónir og hetjudáðir sérstaklega hér, hann verðskuldar sérpistil og gott betur. En í pistli sínum, sem er ekki langur, bendir Ómar á þá fáránlegu fullyrðingu sem fjölmiðlar lepja upp gagnrýnislaust, að álið vegi orðið þyngra en fiskurinn í útflutningsbúskap Íslendinga. Hér er reyndar ekki minnst á ferðaþjónustuna sem er orðin ansi stór hluti af tekjum íslenska þjóðarbúsins þó að reynt sé að grafa undan henni með eyðileggingu á náttúru Íslands í þágu stóriðju í eigu alþjóðlegra auðhringa.
Enn eru það athugasemdirnar sem vekja athygli mína, en þar eru hvorki öfgar né ofstæki á ferðinni þótt sumir séu ansi þröngsýnir og fáránlega óttaslegnir. Ómar fer almennt ekki varhluta af slíkum málflutningi í athugasemdum á sínu bloggi. Oftar en ekki eys hver öfgasinninn á fætur öðrum yfir hann fúkyrðum og skít og ekki er hægt annað en að dást að jafnaðargeði og rósemd Ómars þegar hann svarar þeim af kurteisi og með haldgóðum rökum.
En lesið sjálf og dæmið.
Viðbót: Það vildi svo skemmtilega til að Krossgötuþáttur dagsins fjallaði um ferðamál og ferðaþjónustu á Íslandi. Ýmsar skoðanir og hugmyndir eru uppi um þau mál og gaman að hlusta á þáttinn. Ég setti hann í tónspilarann, hann er þar merktur Krossgötur - Hjálmar Sveinsson - Ferðamál og ferðaþjónusta.
Athugasemdir
Ómar er flottur!
Eins og þú segir Lára, þá verðskuldar Ómar stóran stóran pistil.
Sigurður Þórðarson, 14.6.2008 kl. 08:26
flottur pistill hjá þér. ég verð að viðurkenna að ég er svo eigingjarn og latur að ég nenni ekki að standa í neinni svona baráttu, en ég dáist þeim sem gera það. þeim sem hafa hugsjónir og berjast fyrir þeim.
þú, Ómar, Birgitta og margir margir fleiri.
mig grunar að svipað sé ástatt með Egil eins og mig. hann hefur skoðanir, eins og ég, en sófinn er bara svo sexý.
Brjánn Guðjónsson, 14.6.2008 kl. 09:58
Af hverju er ég alltaf svona sammála þér? Hm... hugs, hugs, jú sennilega af því þú meikar svo ógeslega mikinn sens.
Á ekki að kíkja í heimsókn?
Jenný Anna Baldursdóttir, 14.6.2008 kl. 11:28
Ég finn eiginlega aldrei blogg sem mér finnst athyglisvert. Það er oftast nær bara rugl en einstaka sinnum kommon sens. Og þetta hatur sem einkennir margar athugasemdir er að drepa bloggið. En kannski er þetta bara spegill mannlífsins. Ekki er það nú beysið!
Sigurður Þór Guðjónsson, 14.6.2008 kl. 12:06
Búinn að lesa pistlana og umræðurnar. Margar vondar skoðanir þarna og greinilegt að náttúran er ekki hátt skrifuð hjá sumum eða bara einskins virði. Einhver segir að Egill hafi hitt í mark með pistli sínum, þú Lára hefur líka oft hitt í mark með þínum pistlum - en þá er um að ræða hitt markið. Hér takast nefnilega á andstæð sjónarmið sem speglast í þessum orðum sem ég tók úr einni athugasemdinni: „Auðvitað á fólkið sem býr í landinu að njóta vafans fyrst og síðan náttúran“ – ef það er svo þá verðum við bara að vona að ekki finnist olía á Þingvöllum!
Emil Hannes Valgeirsson, 14.6.2008 kl. 12:06
Flott hjá þér að benda á þetta!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.6.2008 kl. 12:08
Sæl Lára Hanna,
voðalega ertu dugleg að fylgjast með. Þakka þér fyrir samantektina, er sjálfur ekki nóg þólinmóður til að lesa svona langa pistla (en gæti skrifað slíka!).
Ég hugsaði einmitt líka um daginn þegar skirfað var að álið væri orðið þriðja undirstöðuatvinnugrein að enginn talar um ferðaþjónustu. Var hún ekki jafnstór í erlendurm tekjum áli fyrir 6-7 árum? Og þó álið hafi vaxið gríðarlega á þessum tíma hefur ferðamannafjöldin rokið úr 250.000 á ári í um 400.000. Það virðist vera ekki neitt.
Baráttukveðjur úr leiðsögumannastéttinni,
Jens Ruminy
Jens Ruminy, 14.6.2008 kl. 13:24
Verð að benda á þessa grein sem mér finnst mjög fræðandi og fín.
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 14.6.2008 kl. 14:12
Út af orðum Emils: EF finnst olía á Þingvöllum veðrur þeim fórnað. Þegar til kastana kemur eru efnahagsleg rök alltaf þyngri en önnur rök. Sú tíð mun koma, þó við lifum það ekki, að búið verður að virkja allt sem hægt er að virkja á Íslandi og olíuhreinsunarstöðar og þaðan af verra út um allt. Þetta kalla ég raunsæi fremur en svartsýni!
Sigurður Þór Guðjónsson, 14.6.2008 kl. 14:15
Sæl. Lára Hanna.
Greinaskrif bloog og fl, rugludallar.
Mér mislíkar alltaf þegar ég sé að verið er að mála skrattann á vegginn til þess að blekkja fólk til fylgis og segja því hálfan sannleikan eða ósatt. Á sama hátt mislíkar mér þegar svokallaði sjálfskipa umhverfissinnar geysast fram á ritvöllinn til að afleiða fólk um umhverfimálum og þykjast hafa heiminn tekið með visku sinni, í stað þess að hlúa að náttúru landsins og lofthjúpi jarðar og vermdum handa komandi kynslóðum og koma sönnum og réttum sjónarmiðum á framfæri . Í stað þess er ein of jafn vel fleiri þættir að mestu teknir úr samhengi til að afleiða þjóðina og blekkja. Á sama hátt finnst okkur mörgum nóg um niðskrif og fordóma um þá starfsmenn er vinna í orkugeiranum og stóriðju þar okkur er oft og tíðum okkur líkt við Gyðina og Múslíma af þessum öfgahópum líkt og Nasistar gerðu á sínum tíma til að fylgi við sjónarmið sitt. Við sem búum í þessu landi eigum að bindast höndum saman til að ná árangri í þessum málaflokki ekki fara þá leið sem svokallaði sjálfskipa svartir umhverfissinnar sem flestir hafa aldrei gróðursett eitt einasta tré, en hafa rangfærslu að leiðarljósi eins og brennt hefur við hjá t.d. Ómari og því miður hjá þér þar sem heildar myndin er ekki tekin með, heldur það sem öfgafólk tekur sér fyrir til að njóta vinsælda, og síða kemur grátkórinn eftir á já já hópurinn sem skoðar ekki máli til hlítar né skilur ekki hlutina til fullnustu sé aðeins myndskreytta síðu, og lifir í ímynduðum draumaheimi og sér engin mannvirkin né mannaverk í landinu nema virkjanir öll önnur manvirki, jarðrask skemmdir á gróðri eru ekki til í þeirra augum bara draumur og draumur hins blinda manns. Stærsti og mesti mengunar valdurinn á Íslandi hnattrænt er Ferðarmanna iðnaðurinn, er síðan rómaður hvað eftir annað af svörtum umhverfissinnum og mengunarfíklunum. Farþegaflug ferðamannaiðnaður og vöruflug, þ.e. flug frá og til Íslands og innanlands nemur um 4.2 milljónum tonna af CO2, sem er svipuð og losun, 16 álvera á CO2 eins og þau eru hér á landi. Ferðarmanna iðnaður er eins og all þjóð veit að hluta til svört atvinnustarsemi og kennitöluflakk og skilar aðeins um 7% inn í þjóðarbúið. Stærsti mengunar valdurinn og versti er ferðarnanna iðnaður með losun upp á 4.2 milljónum tonna af CO2, og skilur eftir sig sviðna jörð eftir átroðning skemmdir á gróðri, tíndir ferðarmenn, út af keyrslu ferðarmanna á hálendinu.
Er ekki komin tími að fólk bindist höndum saman og taki alla þessa þætti til endurskoðunar og vinni að heilindum Íslandi náttúru og hnattrænu loftslagi til heilla, draumórar skila engum árangri, draumæorar er dóp draumóramannsins.
Kv, Góðar stundir Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 14.6.2008 kl. 14:48
Ég las báða pistlana og svaraði í öðrum þeirra.. báðir hafa mikið til síns máls..
Ég er oft beggja blands þegar kemur að nýtingu orkunnar hér á landi.. en ég er alfarið á móti nýjum álverum..
Óskar Þorkelsson, 14.6.2008 kl. 14:49
Sæll. Óskar.
Máli snýst í raun ekki um ný álver það snýst um sannleikan í umhverfismálum.
Varðandi álver þá sparar hvert framleitt tonn af áli 13 tonn af CO2 , á Íslandi er framleitt 789 þúsund tonn af áli sem sparar 10.25 milljón tonn af CO2 hnattrænt þetta er eitt af þeim atriðum sem Íslenskir svokallaðir umhverfissinnar vilja ekki ræða um eða ljá tals á.
Ábyrgir erlendir og viðurkenn umhverfissamtök benda á þetta atriði og vilja auka framleiðslu til að spara losun á gróðurhúsa loftegundum.
Kv. Sigurjón VigfússonRauða Ljónið, 14.6.2008 kl. 17:26
Sigurjón, aðalkeppinautar Íslendinga um álver var síðast þegar ég vissi Venezúela og þar yrði einnig notuð vatnsorka.
Lestu endilega greinina sem ég benti á í kommenti mínu hér á undan. Þar fer nefnilega ekki bilaður umhverfisverndarsinni...
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 14.6.2008 kl. 18:07
Var nú að lesa yfir bloggið þitt og verð að segja að þú heldur uppi einstaklega vönduðu og góðu bloggi. Þótt ég sé ekki sammála þér í öllu, eins og sjaldnast er, þá er þetta virkilega ánægjulegt að lesa.
Halla Rut , 14.6.2008 kl. 18:46
Þetta er rétt hjá Sigurjóni. Ferðamannaiðnaðurinn er ekki grænn, hvað þá mengunarlaus ef litið er til útblásturs. Ætli fólk gleymi útblæstri og horfi bara til sjónmengunar?
Sigurður Þórðarson, 14.6.2008 kl. 18:47
Sammála Lára Hanna. Íslensk náttúra er orkulind, auðlind og okkar dýrmætasta eign. Hana ber að vernda og engu við það að bæta. Efnahagsleg sjónarmið eiga ekkert erindi inn í þá umræðu. Okkur er trúað fyrir þesssu landi, við eigum það ekki. Okkur ber að skila því til afkomenda okkar eins hreinu og mögulegt er. Líkt og hús þarf landið viðhald og þess vegna græðum við það upp og hlúum að því. Við þurrkum ekki út ár, gröfum burtu fjöll og eyðileggjum vistkerfi sem hafa verið í mörg þúsund ár að þróast. Svoleiðis aðgerðir eiga aldrei að vera inni í myndinni.
Steingerður Steinarsdóttir, 14.6.2008 kl. 19:06
ég verð að taka undir með Rauða ljóninu (aka Bjarni Fel) verðum að horfa á málið hnattrænt, þegar kemur að umhverfismálum.
hinsvegar þegar kemur að náttúruvernd á það ekki við. náttúruverndin er það sem Lára, Ómar og fleiri eru að tala um. megum ekki rugla því saman. nóg gera menn af því nú þegar.
Brjánn Guðjónsson, 14.6.2008 kl. 19:26
Sæl. Hildigunnur hef enga sé sem bloggar eins mikið og þig og hvet fólk til að líta á síðuna þína, hugmyndir það er eins og öll heimeinshöf séu þar, það er undarlegt þegar þú geri mér upp skoðanir og veist þær betur en ég, en þú skilur ekki um hvað máli fjallar, er ræða um umhverfismáli á hnattrænan hátt ekki með fordómum til vissra atvinnuvega, ekki með ósannindum heldu allan pakka, staðreyndin er einfaldlega sú að hvert tonn framleitt af áli sparar heimsbyggðinni 13.0 tonn hnattrænt þetta vita flestir sannir og grænir og heiðalegir umhverfissinnar en sumir kjósa að þegja um það. Þeir vita líka að ferðarmanna iðnaðurinn er smæsti mengunar valdurinn á Íslandi en þegja um það.
Ég er persónulega á móti stjórnafarinu í Venezúlela og sé ekkert gott þaðan koma, þarna er einræði í vissri mynd mannréttindi fótum troðin og á bát með að skilja að þú skulir líta með aðdáun á þetta ríki en verð að virða skoðanir þínar.
Hafðu góða daga kv. Sigurjón Vigfússon.
Rauða Ljónið, 14.6.2008 kl. 19:39
er smæsti mengunar valdurinn á Íslandi en þegja um það.
Rauða Ljónið, 14.6.2008 kl. 19:40
Hnattrænt séð þá skiptir Ísland nánast engu máli í útblæstri gróðurhúsalofttegunda og mun ekki gera, sama hvaða stefnu við tökum. Jafnvel þótt landið sökkvi í sæ með öllum álverum og bílaflotanum yrði hnattræn heildarlosun á CO2 nánast sú sama. Svo er það líka stóra spurning hvort gróðurhúsáhrifin séu eins alvarleg ógn eins og talið hefur verið, en það er önnur saga.
Hinsvegar held ég að besta framlag okkar í umhverfismálum sé það að vernda sem best íslenska náttúru en ég held að allir geri sér ekki grein fyrir hversu merkileg og einstök hún er. Svo er það bara jákvætt að einhverjir nenni að gera sér ferð hingað til að njóta hennar.
Emil Hannes Valgeirsson, 14.6.2008 kl. 21:15
Hver er nú að gera hverjum upp skoðanir? (já, og hvar geri ég þér upp skoðanir, ég bara bendi þér á að lesa ákveðna grein, segi ekki eitt orð um skoðanir). Ég lít engan veginn upp til stjórnarhátta í Venezúela, né heldur lít með aðdáun á það ríki, er bara að benda á að það þarf ekkert að vera að alls staðar annars staðar þar sem er möguleiki á að framleiða ál hljóti það að vera með brennslu olíu eða kola; það er til vatnsorka annars staðar en á Íslandi. Nokkuð sem „gleymist“ iðulega að nefna hjá virkjunarsinnum, það er eins og það verði að framleiða allt ál heimsins hér, annars séum við að bregðast skyldum okkar við umheiminn.
Meinarðu ekki annars stærsti mengunarvaldurinn á Íslandi, ekki smæsti?
Ég er alls ekki á þeirri línu að hér megi hvergi virkja en mér er heldur engan veginn sama um að við setjum alla þessa okkar orku í eina álkörfu. Við erum nú þegar með ótrúlega stóran hlut orku bundinn í þessum eina geira, og verðið á henni bundið álverði á heimsmarkaði. Hvernig væri nú að dreifa áhættunni? Heldur einhver virkilega að álframleiðendur komi hingað til að vera góðir við landið - eða vegna þess að hér sé umhverfisvæn orka? Nei, það er vegna þess að væntanlega fá þeir hvergi í heiminum jafn ódýra orku. (samanber gögnum sem óvart komust í umferð um margfalt orkuverð sem sömu fyrirtæki voru að borga - já, var það ekki einmitt í Venezúela?)
Ferðamenn eru hellings mengunarvaldur, það skal ég vera fyrst allra til að viðurkenna.
Vona að þú eigir sjálfur góða daga og ég skal sannarlega virða þínar skoðanir - þótt ég kunni ekki endilega alltaf að vera sammála þeim :)
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 14.6.2008 kl. 21:30
Búin að skrifa yfir færsluna sem ég var að benda þér á.
Svo hér er hún.
Jenný Anna Baldursdóttir, 14.6.2008 kl. 22:45
Takk fyrir innlit, komment og kveðjur. Alltaf gaman að sjá ný andlit, vertu ævinlega velkomin, Halla Rut.
Ég vil þakka þeim sem hafa tekið að sér að svara Sigurjóni (Rauða ljóninu), því ég hef ekki haft tíma til þess. En ég vil benda fólki á að Sigurjón fer eins og eldibrandur um síður þeirra sem hann er ósammála, afritar og límir sömu rullurnar alls staðar án tillits til þess um hvað er verið að ræða í pistlunum. Yfirleitt botna ég ekkert í hvað hann er að segja. Einhvers staðar las ég að Sigurjón væri starfsmaður álversins í Straumsvík og það skýrir að stærstum hluta málflutning hans. Sigurjón gerir hvorki sjálfum sér né vinnuveitanda sínum neinn greiða með þessum skrifum sínum þótt hann telji sig hafa höndlað stóra sannleikann í umhverfismálum.
Var búin að skrifa miklu meira til Sigurjóns en eyddi því.
Jenný mín... hvaða færslu bentirðu mér á og skrifaðir svo yfir?
Að lokum bendi ég fólki sérstaklega á athugasemd Emils nr. 20. Þetta er einmitt málið.
Lára Hanna Einarsdóttir, 14.6.2008 kl. 23:13
Sæll. Lára Hanna.
Ástæðan fyrir því að því að ég hef notað límt saman er vegna þess er að ég hélt að þið væruð einlæg og heiðarleg í skífum ykkar og vilduð vinna umhverfinu til heilla komandi kynssóðum og bæruð hag þess fyrir brjósti allt þetta límda var sett fram í þeim tilgangi til að fá sannleikan í ljós og sæuð hver ég væri að fara sem er viss veiðimennska en hann er en falinn í sjálfum sér hélt að þið vissuð betur, sér í lagi langskóla gengi mennta fólk, og eins og mig grunaði hefur það ekki gengið eftir þannig að þið gerið ekki greina mun á umhverfissóðum og umhverfisvænum heldu vaðið áfram í blindu, tilgangurinn helgar meðalið, til að sýna að rétt er farið með sendi ég þér og ykkur þessar síður að hluta til vona að þú og þið lesir þær og leiðréttir á heiðalegan hátt, sannleikurinn gefur gott orðspor og er gulls í gildi falsið er rót hins illa.
Kv, Góðar stundir Sigurjón Vigfússon starfsmaður í Straumsvík sem þolir lítt þegar logið er upp á vinnufélaga sína og starfsemi í umhverfismálum.
Heimildir:
http://www.Co2science.org
http://www.world-aluminium.org/Home
http://en.wikipedia.org/wiki/Stern_Review
http://www.world-aluminium.org/
http://www.azom.com/materials.asp
http://www.eaa.net/eaa/index.jsp
http://search.treasury.gov.uk/search?p=Q&ts=treasury&mainresult=mt_mainresult_yes&w=Stern+Review
http://search.unfccc.int/query.html?col=fccc&qt=aluminium
http://search.unfccc.int/query.html?col=fccc&charset=iso-8859-1&ht=0&qp=&qt=IPCC&qs=&qc=&pw=90%25&ws=1&la=en&qm=0&st=1&nh=10&lk=1&rf=2&rq=0&si=0 IPCC
http://www.world-aluminium.org/cache/fl0000107.pdf
http://www.world-aluminium.org/cache/fl0000169.pdf
http://www.germanwatch.org/
http://en.wikipedia.org/wiki/Climate_change_and_agriculture
http://en.wikipedia.org/wiki/Fossil_fuel_power_plant
http://www.newstatesman.com/200712190004
http://www.pmel.noaa.gov/pubs/PDF/feel2899/feel2899.pdf
http://science.nasa.gov/newhome/headlines/ast22jul99_1.htm
http://www.cru.uea.ac.uk/
http://www.globalwarmingart.com/wiki/Category:Galleries
http://climatecare.org/
http://en.wikipedia.org/wiki/Solar_variation
Þetta er aðeins hluti af heimildum.
Rauða Ljónið, 15.6.2008 kl. 00:10
Sæll, Sigurjón,
Fyrst þú kallar mig lygara verð ég að krefjast þess af þér að þú listir nákvæmlega og orðrétt allt það sem ég hef sagt og þú segir lygar.
Takk fyrir.
Lára Hanna Einarsdóttir, 15.6.2008 kl. 00:13
Umræðan er góð.
Jens Guð, 15.6.2008 kl. 00:56
Sæll. Lára Hanna.
Þetta að ég sé að kalla að lygara er ekki meinin mín og er af og frá og verð ég að biðja þig forláts á því, ef þú skilur það svo, eina sem ég fer fram á er að hið rétta komi í ljós í þessum mála flokki oft er svo að þeim sem finnst vænt um náttúru landsins eins og þér og mér og viljum gera gott úr en hjörtum slá ólikt og að nálgast hlutina á ólíkan hátt og þú gerir það á annan hátt en ég það er málið sem um er fjallað ég sendi þér þessa linka og bið þig að lesa þá og svo skoða, það er undir þér komið hvernig þú túlkar þá, þar vill ég ekki hafa áhrif á skoðanir, ef samvinna er gerð og málin upplýst þá næst góður árangur í þessum málum einstrengi veldur skaða umburðarlindi leysa málin.
Með vinsemd kv, Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 15.6.2008 kl. 01:03
Sæl Lára Hanna, Það er bæði virðingarvert og ómetanlega gagnlegt hvað þú og nokkrir aðrir einstaklingar leggja mikla -óborgaða- vinnu í að afla upplýsinga um þessi ofboðslega mikilvægu mál og miðla áfram. Hafðu þökk fyrir.
Síðan er auðvitað með ólíkindum að málefni á borð við verndun náttúru landsins okkar skuli vekja upp heift og hatur í sumum. Þeir telja sig þó kannski vera að þjóna einhverjum sem ekki borgar sig að styggja.
Hildur Helga Sigurðardóttir, 15.6.2008 kl. 02:32
Þetta mjög góð og þörf umræða hér. Við þurfum alltaf að hafa í huga að við erum gestir á þessari Hótel jörð og vera með það á tæru hvernig við ætlum að skilja við hótelherbergið.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.6.2008 kl. 08:31
"Einhvers staðar las ég að Sigurjón væri starfsmaður álversins í Straumsvík og það skýrir að stærstum hluta málflutning hans. Sigurjón gerir hvorki sjálfum sér né vinnuveitanda sínum neinn greiða með þessum skrifum sínum þótt hann telji sig hafa höndlað stóra sannleikann í umhverfismálum."
Smávegis um þetta : Sjálfur er ég einn af frumkvöðlum álvinnslu á Íslandi og þekki því alla sögu áliðnaðar á Íslandi afar vel. Í Straumsvík starfaði ég í 36 ár. Á því tímabil voru tveir eigendur að verksmiðjunni- Alusussie frá Sviss og síðustu árum Alcan í Kanada. Hjá báðum þessum eigendum var gott að starfa- þó var ég ánægðari með öll samskipti við Alusussie , bæði hér í Straumsvík og svo erlendis þar sem ég kynntist þeim vel. Auðvitað skipast á skin og skúrir í áliðnaði sem öðrum atvinnurekstri.
Eitt var það sem var alveg á tæru hjá Alusussie hér í Straumsvík- þeir vildu engar umræður sinna starfsmanna um fyrirtækið í fjölmiðlum. Ef þeir voru í hugleiðingum með framleiðsluaukningu (ar) þá önnuðust þeir þann þátt sjálfir og án fjölmiðlaumræðu. Sama gilti um Alcan allt þar til fyrirhuguð stækkunnarhugmynd sl. ár kom til og síðan. Ég tek undir með þér Lára Hanna mér finnst mitt gamla og ágæta fyrirtæki hafa goldið þessa háttar - því miður.
Þó svo ég hafi starfað öll þessi ár í áliðnaði - þá er ég umhverfissinni og vil fara með mikilli gát að okkar mikilfenglegu náttúru- það hefur því miður ekki verið gert á undanförnum árum og er Kárahnjúkavirkjun og öll þau vinnubrögð skólabókardæmi um það. Virkjanasvæðið á Hellisheiði hefur ekki verið faglega unnið og í sátt við mikilfenglega náttúru þar- alveg öfugt við Nesjavallavirkjun.
Auðvitað verðum við að nýta landsins gögn og gæði - það er bara ekki sama hvernig það er gert. Togveiðar í 100 ár hafa eyðilagt fyrrum gjöfulustu fiskimið á norðurhveli jarðar- sjávarbotninn er orðin útjöfnuð eyðimörk og skjól fyrir ungviðið til uppvaxtar ekkert- síminnkandi afli og aflaheimildir.
Að setja upp risaálver í hvern landsfjórðung hugnast mér ekki né setja öll okkar orkuegg í sömu álverskörfuna. Við eigum svo miklu meiri tækifæri með minni orkusóun og umhverfisvænni rekstri- sem við áttum ekki í upphafi álvinnslu hér .
Síðan eru síauknar líkur á því að við þurfum sjálf á allri okkar orku að halda í viðvarandi kreppu á jarðefnaeldsneyti og verða sjálf okkur næg með orku á fartæki sem húsahitun.
Valið er okkar - vinnum með náttúrunni- þá vegnar okkur vel.
Sævar Helgason, 15.6.2008 kl. 11:04
Óskaplega virðast margir bloggarar eiga erfitt að hemja sig. Mér finnst sá sem nefnir sig Rauða ljónið eiga t.d. heilmikið ólært í mannasiðum sem þó veitir ekki af í heilbrigðri og uppbyggilegri umræðu.
Ótalveilur eru í málflutning flestra sem tjá sig um sum mál t.d. tengdri umhverfismálum. Þeir sem eru fylgjandi álverum og færa þau rök fyrir máli sínu að það sé svo sérstaklega „umhverfisvænt“ að reka álbræðslur og aðra stóriðju hér sé vegna þess að fremur lítil mengandi starfsemi er vegna orkuöflunar. En það virðist þessum ágætu löndum okkar gleymast að flutningar á hrááli eru mjög umhverfisspillandi. Þegar hráál er flutt á stórum skipum jafnvel allar götur frá Ástralíu, þá gleymist að þessi skip eru yfirleitt látin sigla tóm til baka, sem sagt enrar hagkvæmni er unnt að finna til að nýta ferðina.
Svo má ekki gleyma því að ekki verður endalaust unnt að virkja á Íslandi. Nú er orkukreppa að tröllríða heimsbyggðina með mjög hækkandi verði á bensíni og olíum. Við höfum nánast ekki sinnt að koma okkur upp umhverfisvænum almenningssamgöngum eins og það liggur beinast við í landi þar sem þó á að vera svo mikil orka! Hvernig skyldi stada á þessu? Hafa stjórnvöld lítinn sem engann áhuga fyrir þessu verkefni? Kannski aðstóriðjan hafi það mikil áhrif að ráðherrar og bæjarstjórar eru fyrr tilbúnir að hlaupa til með skóflurnar sínar ef fréttist um vilja að reisa álver. Mér hefur því fundist að stóriðjan sé hreinlega með ríkisstjórnina í vasanum og hafi slík hreðjatök á henni að það verður að koma til nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi ef ekki á að fara illa. Við Íslendingar fáum engu ráðið hvernig samið er um rafmagnsverð við þessar álbræðslur. Í reikningum Landsvirkjunar er ekki einu sinni hirt um að sundurliða hvað kemur inn í kassann annars vegar frá almenningsveitum eins og Rarik og Orkuveitu Reykjavíkur og hins vegar stóriðjunni. Nemur velta Landsvirkjunar mjög umtalsverðum fjárhæðum. Bankarnir sundurliða tekjur sínar og er það til mikillrar fyrirmyndar enda eru þeir galopnir með bókhald sitt sem Landsvirkjun er ekki. Þar fáum við ekkert að lesa en sjá. Er ástæða fyrir því? Það er mjög mikil ástæða til þess að gruna um að einhverjir maðkar kunni að leynast í mysunni.
Íslenskur réttur er ákaflega einfaldur á mörgum sviðum og á fyrst og fremst við ástand sem áður ríkti í fámennu og frumstæðu landbúnaðarsamfélagi. Sem betur fer hefur ýmislegt verið bætt úr en annað lítt eð janfvel ekki. Við erum langt á eftir öðrum þjóðum með sitthvað sem snertir t.d. störf stjórnmálaflokka. Þeir eru ekki nefndir í stjórnarskrá lýðveldisins og eru þó meginvettvangur til að móta skoðananmyndun á sviði stjórnmála eins og öllum löndum. Í stað þess að þeim séu settar eðlilegar og skunsamar reglur þá gekk t.d. ekki þrautalaust fyrir nokkrum árum að koma því að hjá ríkisstjórninni að nauðsyn bæri að setja sanngjarnar og skynsamlegar reglur um starfsemi stjórnmalaflokka. Þar sem kæmi fram greinargóð skilgreining um hlutverk þeirra í lýðræðislegu samfélagi, um uppruna, meðferð og not þess fjár sem þeir fá til ráðstöfunar. Hvaða flokkur sýndi einna mestu andstöðu í þessari umræðu? Það var Framsóknarflokkurinn og lenti Mosi í ritdeilu á síðum Morgunblaðsins við þáverandi fjármálaritara Framsóknarflokksins sem kvaðst í fyrstu engrar þörf vera á svona reglum enda allt í besta lagi í þessum málum! En Sjálfstæðisflokkurinn lét eiginlega Framsóknarflokkinn hafa frumkvæði að samningu þessara einföldu reglna um fjármál flokkanna, auðvitað þannig um búið að þær gætun ekki skaða flokkinn! Svona er pólitíkin einslit á Íslandi í dag.
Í öllum löndum eru þessar reglur mun umfangsmeiri og ítarlegri. Þær eru settar til að koma í veg fyrir að hagsmunaaðilar geti keypt sér pólitíska stuðningsmenn og vildarvini sem áhrif hafa í samfélaginu. Í hvaða frjálsu og lýðræðislegu samfélagi vill maður horfa upp á að hagsmunaaðili kaupi sér þingmenn og jafnvel heilu stjórnmálaflokkanna? Á mannamáli er rætt um mútugreiðslur og fyrirgreiðslu en þær hafa tíðkast afarlengi í öllum samfélögum, einnig á Íslnadi þó svo að enginn virðist vilja kannast við það fyrirbæri.
Þjóðverjar minnast þess aðí ársbyrjun 1933, nokkrum vikum fyrir valdatöku Adolfs Hitlers, komu saman helstu samstarfsmenn hans saman við hóp þýskra stóriðjuhölda, nokkra yfirmenn þýska hersins Reichswehr og landeigenda, gömlu júkarana. Allir voru þeir sammála um að vinna saman, með góðum vilja og gagnkvæmu trausti að styðja þennan flokk Adolfs þessa svo hann fengi tækifæri að leiða þjóðina út úr þeim ógöngum sem kreppan í kjölfar efnahagshrunsins í Þýskalandi á sínum tíma hafði. Í dag vilja fæstir vita um þetta afar umdeilda mál en á það reyndi auðvitað í réttarhöldunum í Nürnberg þegar þetta glæpagengi var fyrir rétti og látnir sæta einhverri ábyrgð.
Gott væri að rifja sitthvað af þessu tagi. Vítin eiga jú að vera til að varast þau. Það gæti leitt til óeðlilegs valdamisrétti á Íslandi ef stóiriðjan verður allt of sterk í þessu litla íslenska samfélagi. Eigum við ekki að minnast Einars þveræings þegar hann sagði í frægri ræðu: „þá ætla eg mörgum kotbóndunum þykja verða þröngt fyrir dyrum“.
Ætli lýðræði sem byggir fjárhagslegan grundvöll sinn á tómri stóriðju sé upp á marga fiska, rétt ens og gervilýðræðið hjá Hitler?
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 15.6.2008 kl. 11:35
Þar sem í færslunni hér að ofan eru nokkrar ásláttarvillur þá leyfði eg mér að leiðrétta þær og bæta textann aðeins. þannig breyttur er hann á bloggsíðunni:
http://mosi.blog.is/blog/mosi/entry/568213/
Bestu baráttukveðjur fyrir betra Íslandi en án frekari stóriðju!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 15.6.2008 kl. 12:05
Lára, ég veit ekki hvers vegna, en spamsían mín veiddi kommentin þín, ég sé það núna. Betra að kommenta frá gmail adressunni :)
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 15.6.2008 kl. 23:06
Elsku Lára Hanna mín, af hverju allt þetta ofstæki hjá sumum sem svara? Ég botna bara ekkert í þessu.Með beztu kveðju.
Bumba, 15.6.2008 kl. 23:24
RAUÐA LJÓN: Sæll rugludallur hérna megin eða hinum megin! Æ ég man ekki hvoru megin en það skiptir ekki höfuðmáli. Makalaust hvað þú getur haft mál þitt langt og flókið, þannig að venjulegir rugludallar eins og ég botna ekki neitt í neinu, en það er víst aðaleinkenni virkjunarsinna og þeirra sem aldrei vilja láta náttúruna njóta vafans. Ég ætlaði að segja miklu meira en haus rugludalls eins og minn brann yfir eftir hálfan lestur bókar þinnar hér fyrir ofan!!
Himmalingur, 16.6.2008 kl. 00:08
Kærar þakkir fyrir málefnaleg og góð innlegg í þessa umræðu. Það er ekki amalegt að fá svona frábærar athugasemdir sem hjálpa öllum til að skoða málin frá öllum hliðum.
Lára Hanna Einarsdóttir, 16.6.2008 kl. 15:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.