16.9.2008
Minnið er gloppótt og gisið
Ég er alltaf að gera mér betur og betur grein fyrir því hvað Silfrið hans Egils er góður samtímaspegill. Vissi að fréttirnar væru það. Um daginn var ég að leita að frétt frá sumrinu 2007 og gleymdi mér gjörsamlega yfir upprifjun á ýmsum atburðum og tengingum við daginn í dag. Ég var að gera það sama við Silfur Egils í dag, leita að tilteknum ummælum sem ég mundi eftir - nema hvað ég á ekki marga þætti upp tekna, því miður. Engu að síður er þetta mikill fjársjóður.
Þarna voru stjórnmálamenn, leikmenn, sérfræðingar og álitsgjafar af ýmsu tagi að ræða aðskiljanlegustu mál, sum hreinlega klassísk. Það var skondið að rifja upp réttlætingu sjálfstæðismanna á valdaráninu í Ráðhúsinu í janúar og meinta trú þeirra á Ólafi F. Langt drottningarviðtal við Geir Haarde, forsætisráðherra frá 17. febrúar sem gaman væri að bera saman við sambærilegt viðtal við hann í Silfrinu síðasta sunnudag. Í þáttunum er hin eilífa efnahagsumræða - vextir, verðtrygging, verðbólga, staða bankanna og margt, margt fleira. Sumt verulega áhugavert og annað bara fyndið eftir atvikum.
Það er með ólíkindum hvað maður er fljótur að gleyma. En kveikir þegar maður sér hlutina aftur og verður þá steinhissa á hvað það er langt - eða stutt - síðan þetta eða hitt gerðist eða var sagt. Oft er enn verið að ræða sömu málin og fyrir hálfu ári, níu mánuðum, ári... jafnvel tveimur.
Ég held að það væri verulega sniðugt að hafa eitt aukasilfur í viku með úrklippum úr ýmsum þáttum þar sem málefnin eru tengd frá mánuði til mánaðar - jafnvel ári til árs. Sama mætti gera með fréttirnar. Líklega ætti slíkur þáttur best heima á Netinu. Það veitir einfaldlega ekkert af því að halda fólki við efnið, minna stöðugt á mikilvæg mál, feril þeirra, afdrif og niðurstöðu - ef einhver er.
Hér eru nokkrar úrklippur af handahófi úr Silfrinu frá því fyrr á þessu ári. Byrjum á Agli sjálfum þar sem hann nær ekki upp í nef sér af hneykslan. Ég er ekki sammála þeim sem gagnrýna Egil fyrir að hafa skoðanir og tjá þær. Hans skoðun er bara viðbót við flóruna í þáttunum og ég hef ekki orðið vör við að skoðanir andstæðar hans eigin fái ekki að njóta sín í þáttum hans.
Næstur er Gunnar Smári Egilsson að tjá sig um húsafriðun, Laugaveginn, Þingholtin og þau mál. Ég hef yfirleitt afskaplega gaman af Gunnari Smára og hvernig hann tjáir skoðanir sínar, alveg burtséð frá því hvort ég er sammála honum eða ekki.
Upphaflega var það þetta sem ég var að leita að í tengslum við frétt í síðustu viku um vinnubrögð Alþingis. Mig minnti að Ólöf Nordal hefði látið þessi orð falla, en eftir að hafa rennt í gegnum 11 þætti áttaði ég mig allt í einu á því að það var Guðfinna Bjarnadóttir. Skellti svo fréttinni frá 10. september sl. aftan við. Þetta umfjöllunarefni er mjög alvarlegt og eiginlega hálfgerður skandall og sýnir vel vanþroskað lýðræðið á Íslandi - eða hreinlega algjöran skort á því. Þessi vinnubrögð Alþingis endurspeglast síðan hjá þjóðinni og í allri umræðu.
Að lokum er hér heilt viðtal við Vilhjálm Bjarnason, aðjúnkt og formann Félags fjárfesta. Hlustið á viðtalið í ljósi þess sem kemur fram í þessum myndböndum. Þetta FL Group mál er með ólíkindum og ég skil ekki af hverju enginn er búinn að rannsaka málið og afhjúpa rækilega hvað þarna fór fram á máli sem allir skilja... eða kannski hefur það verið rannsakað á fjölmiðlunum en ekkert hægt að sanna á fullnægjandi hátt og birta. Við hvað er fólk svona hrætt? Er þetta ekki upplagt mál fyrir Kompás? Hvað með Fjármálaeftirlitið? Efnahagsbrotadeildina? Á að láta þetta og fleiri svipuð mál óátalin? Kíkið á þessa litlu bloggfærslu Friðriks Þórs í tengslum við þetta mál.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Sjónvarp, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:13 | Facebook
Athugasemdir
Þú ert fjársjóður.
Jenný Anna Baldursdóttir, 16.9.2008 kl. 16:15
Stjórnmálamönnum er ekki sjálfrátt - því miður!
Kjartan Pétur Sigurðsson, 16.9.2008 kl. 16:24
Ekki hef ég trú á að Kompásmenn fengju slíkan þátt birtan hjá RUV.
Annars ert þú orðin að leiðsögumanni um endalausar gresjur stjórnmála á Íslandi, og hafðu þakkir fyrir.
Haraldur Davíðsson, 16.9.2008 kl. 16:43
Frábær færsla hjá þér.
Þetta er mjög vel gert hjá þér.
Jens Sigurjónsson, 16.9.2008 kl. 20:58
Magnað að horfa á þessa búta og ég verð að segja að mér fannst Egill fj... góður á þingmennina þegar hann nuddaði þeim upp úr bruðlinu með ráðningunum á þessum aðstoðarmönnum á síðustu og verstu. Ég hef eins og þú alltaf haft gaman af Gunnari Smára. Hann er nær því svo oft að vera skemmtilega beittur í knöppum tilsvörum. Takk fyrir mig.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 21:03
Eins og venjulega Lára ertu, The best of the best..
Svanur Gísli Þorkelsson, 16.9.2008 kl. 22:53
Var rétt í þessu að velja besta bloggara landsins. daddaddadaaa:
Lára Hanna Einarsdóttiiir !
Rómverji (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 23:22
Takk fyrir þessa samantekt, hún er frábær.
Sigrún Jónsdóttir, 16.9.2008 kl. 23:52
You are simply the best
Hólmdís Hjartardóttir, 17.9.2008 kl. 01:39
Ég hef oft sagt að í reynd sé ekki lýðræði á Íslandi og alls ekki þingræði. Það er menntað einræði formanna ríkisstjórnarflokkanna. Við kjósum yfir okkur þetta menntaða einræði í þingkosningum, en eftir það lýkur afskiptum annarra en ráðherra að löggjöf á Íslandi. Alþingi hefur varla samþykkt frumvarp, sem samið hefur verið af alþingismönnum, í mörg ár. Nær öll lagafrumvörp, sem Alþingi tekur fyrir, eru samin á vegum ráðuneytanna, ýmist af embættismönnum í ráðuneytunum eða leigupennum utan úr bæ. Þetta er hjákátlegt og fáránlegt í senn. Það sem er verst við þetta, að það skiptir engu máli hverjir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, ástandið breytist ekkert.
Marinó G. Njálsson, 17.9.2008 kl. 12:01
Það er nauðsinlegt að rifja upp ruglið annað slagið. Gott að hafa svona óþreytandi manneskju í því. Endilega halda áfram.
Víðir Benediktsson, 17.9.2008 kl. 22:39
Komdu nú með smá blogg um mannhestana. Þú mansteftirunited er það ekki?
Haraldur Bjarnason, 17.9.2008 kl. 22:56
Þú ert ótrúleg. Takk fyrir mig.
Heimir Eyvindarson, 18.9.2008 kl. 00:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.