"Bitruvirkjun er brjálæði" sagði starfsmaður orkufyrirtækis fyrir nokkrum mánuðum við vinkonu mína - að gefnu tilefni. Hann útskýrði það ekkert nánar, því miður. Fyrir 10 dögum birtist frétt á mbl.is þar sem sagt var frá gróðureyðingu í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar. Í fréttinni er rætt við Sigurð H. Magnússon, gróðurvistfræðing hjá Náttúrufræðistofnun, og hann þykist fullviss um að gróðurinn hafi drepist vegna brennisteinsvetnismengunar frá virkjuninni. Mér þóttu þetta mikil tíðindi, þ.e. að vísindamaður fullyrti eitthvað, því þeir eru svo yfirgengilega orðvarir og varkárir. Ég birti frétt mbl.is og fleira tengt efni, m.a. grein um áhrif loftmengunar á heilsuna, í pistli hér. Umfjöllun um málið á vef Náttúrufræðistofnunar er hér.
Ég grennslaðist svolítið fyrir um Sigurð og í tölvupósti sagði annar varkár vísindamaður um hann: "Sigurður Magnússon hjá NÍ sem viðtalið var við hjá mbl var mjög viss í sinni sök um að þetta væri mengun en ekki t.d. út af veðri. Hann er afskaplega hógvær og nákvæmur vísindamaður og það hvað hann var afgerandi fannst mér athyglisvert." Þetta staðfesti reynslu mína af vísindamönnum - sem hefur oft pirrað mig því ég vil gjarnan fá ákveðnari svör og álit frá þeim. Hér er frétt mbl.is aftur til upprifjunar:
Það sem kom mér mest á óvart var að hvorug sjónvarpsstöðin sinnti þessari frétt. Fréttastofa Ríkisútvarpsins var með hana í kvöldfréttum sama dag en síðan ekki söguna meir. Þó er þetta stórfrétt og þarf að setja í samhengi við það, að jarðgufuvirkjanirnar á Hellisheiði og Hengilssvæðinu spúa eitri yfir höfuðborgarsvæðið og Hveragerði. Fréttamenn og fréttastjórar verða að átta sig á því, alveg eins og við hin, að verið er að eitra fyrir þeim, börnunum þeirra og barnabörnunum.
Eitt af aðalmálunum þegar nýjasti meirihlutinn hrifsaði völdin í Reykjavík virtist vera að slengja Bitruvirkjun aftur upp á borðið. Ég hef beðið þolinmóð eftir rökum fyrir því feigðarflani en ekki séð eða heyrt nein rök. Engar skýringar, ekkert. Ekki einu sinni orðróm um hvaða hvatir liggja að baki, hvaða verktakar eiga að fá sneið af þeirri orkuköku. Þetta virðist vera svona "afþvíbara" mál hjá Óskari Bergssyni, sem frá upphafi var mótfallinn því að hætta við Bitruvirkjun og rökstuddi það meðal annars svona: "...það er alveg ljóst að ýmsar háhitavirkjanir og ýmsar virkjanir sem við Íslendingar eigum hafa verið heilmikið aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustuna og ekki færri ferðamenn sem koma til að skoða það hvernig við nýtum okkar hreinu, endurnýjanlegu orku en líka til þess að sjá og upplifa ósnortna náttúru." Þetta gullkorn lét hann út úr sér á fundi borgarstjórnar 20. maí sl. - orðrétt.
Þetta er náttúrulega bara fíflalegt og þolinmæði mín er á þrotum. Ég krefst þess að fá rök og skýringar meirihlutans í borgarstjórn á því, að þrátt fyrir fjölda athugasemda frá almenningi og öðrum, afar neikvætt álit Skipulagsstofnunar á framkvæmdum við Bitruvirkjun og þá staðreynd að jarðgufuvirkjanir valda gríðarlegri og hætturlegri loftmengun (auk annars konar mengunar og náttúruspjalla) - þá vilja þau Óskar og Hanna Birna samt reisa Bitruvirkjun. Það er ekki sannfærandi að Hanna Birna kalli til fjölmiðla og svari alþýðlega í símann hjá borginni á margföldum símadömulaunum með annarri og eitri fyrir borgarbúum með hinni - en haldi því leyndu fyrir fjölmiðlum. Hvort ætli skipti meira máli?
Ég hef skrifað ótal pistla um Bitruvirkjun og fært margvísleg rök fyrir því að ekki eigi að reisa þá virkjun. Bent á spillingu, mútur og annan ósóma sem viðgengst í orku- og virkjanamálunum. Fleiri hafa tjáð sig og mér er minnisstæð athugasemd við mat á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar sem ég fékk leyfi til að birta 7. nóvember sl. Hún er eftir Gunnlaug H. Jónsson, eðlisfræðing, og hljóðaði svona:
"Sem íbúi Árbæjarhverfis geri ég alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæði og sérstaklega Bitruvirkjun með eftirfarandi atriði í huga:1. Loftmengun af völdum brennisteinsvetnis er orðin óásættanleg í Árbæjarhverfi í hægum austlægum áttum vegna athafna Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu. Sem dæmi má taka fimmtudaginn 19. september 2006. Undirritaður fór í ferð austur fyrir fjall um kl 18. Þegar ekið var fram hjá Kolviðarhóli barst áberandi brennisteinslykt inn í bifreiðina. Við heimkomu að Árbæjarkirkju um kl 22 var brennisteinsmengunin það megn að undirritaður fékk óstöðvandi hósta er hann gekk fram hjá Árbæjarskóla og er þó ekki með asma eða annan alvarlegan lungnasjúkdóm. Undirritaður hefur heimsótt margar menguðustu stórborgir heimsins, Peking, Los Angeles, Tokyo og London, vann í síldarverksmiðju og við mælingar á hitastigi borhola Hitaveitu Reykjavíkur og háhitahola í Hveragerði á 7. áratugnum fyrir tíma mengunarvarna en þetta er versta loftmengun sem hann hefur upplifað. Þetta mikil loftmengun er óásættanleg fyrir íbúa Árbæjarhverfis og raunar hvern sem er.
2. Þegar ekið var yfir Hellisheiðina blasa við ryðgaðir burðarstaurar raflína Landsvirkjunar. Þetta er eini staðurinn frá Búrfelli að Geithálsi þar sem veruleg tæring hefur orðið á staurunum. Líklegasta orsökin er brennisteinssýrlingur sem berst frá borholum Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er aðeins ein af mörgum sýnilegum afleiðingum þeirrar mengunar sem fylgir borholum og jarðvarmavinnslu Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu.
3. Undirritaður hefur iðulega farið gangandi um Hengilssvæðið og Hellisheiðina og þá einkum á gönguskíðum að vetri til. Gufur úr borholum á svæðinu valda miklum óþægindum og nauðsynlegt er að forðast þau svæði sem gufa frá borholum leikur um. Þessi svæði hafa stækkað ár frá ári.
4. Orkuvinnslan á Hengilssvæðinu er þegar orðin langt umfram náttúrlegt varmastreymi á svæðinu. Það er því gengið á varmaforðann. Þessu má líkja við olíuvinnslu. Orkan á svæðinu mun minnka jafnt og þétt og eftir tiltölulega fáa áratugi mun aflið minnka þannig að virkjanirnar ganga ekki á fullu afli. Fleiri virkjanir munu flýta fyrir því að orkan og aflið minnki. Verði áformaðar 4 virkjanir allar byggðar á svæðinu í tiltölulega lítilli fjarlægð hver frá annarri, 10 km, munu áhrifasvæði þeirra (áhrif á gufu og jarðvatnsþrýsting) skarast og þær keppa hvor við aðra um jarðhitavökvann. Það leiðir til þess að þrýstingurinn minnkar fyrr en ella. Eftir standa fjórar virkjanir með tilheyrandi umverfisspjöllum sem ekki geta framleitt raforku á fullum afköstum. Það þarf að leiða í lög að lágmarksfjarlægð milli jarðvarmavirkjana til raforkuvinnslu sé um 20 km til þess að tryggja að jarðvarminn, orka og afl, endist lengur. Ekki viljum við sitja uppi með tugi af jarðvarmavirkjanalíkum um allt eldvirka beltið frá Reykjanestá að Kelduhverfi eftir öld eða svo. (Djúpboranir gætu leyft fleiri virkjanir).
5. Með því að framleiða þetta mikla raforku nú þegar verður ekki hægt að nýta lághitann (undir 80°C) nema að (litlum) hluta í hefðbundna hitaveitu. Mestum hluta orkunnar um 90% er því kastað út í loftið með kæliturnum. Þetta er sóun á orku sem að öðrum kosti myndi nýtast höfuðborginni og raunar höfuðborgarsvæðinu öllu næstu aldirnar.
6. Meðan endurnýjanleg vatnsorka rennur ónýtt til sjávar er siðferðilega rangt að sóa jarðhita til raforkuframleiðslu í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins með mikilli mengun og umhverfisáhrifum. Jarðhitann má geyma til betri tíma til nota í hitaveitu vaxandi höfuðborgar með raforkuframleiðslu sem búbót og með margfaldri nýtingu á orkunni (90%).
Niðurstaða: Þar til Orkuveita Reykjavíkur hefur ekki sýnt fram á að fyrirhuguð raforkuvinnsla á Hengilssvæðinu sé endurnýjanleg og sjálfbær og sýnt fram á að hún geti dregið verulega úr brennisteinsmenguninni frá því sem þegar er orðið ber skipulagsyfirvöldum og viðkomandi sveitarfélögum að stöðva frekari virkjun jarðvarma á Hengilssvæðinu til raforkuframleiðslu. Heilsa og velferð íbúa höfuðborgarsvæðisins, einkum þeirra er búi austan Elliðaáa, er í húfi."
Ég hef ekkert heyrt frá Gunnlaugi síðan í haust en við upprifjun á Bitruvirkjunarpistlum mínum datt ég aftur inn á bloggið hans og rakst þá á pistil sem hann skrifaði daginn sem nýi borgarstjórnarmeirihlutinn tók við völdum og skutlaði Bitruvirkjun fyrirvaralaust aftur upp á borðið. Pistill Gunnlaugs 21. ágúst sl. hljóðaði svona:
"Jóhannes Zoëga, fyrrverandi hitaveitustjóri, markaði þá stefnu að virkja Hengilssvæðið fyrir hitaveituna og nýta jafnframt háþrýsta gufu til raforkuframleiðslu sem aukaafurð. Með þessu móti nýtist um 90% af varmanum í hitaveituna og um 10% til raforkuframleiðslu. Lítið fer til spillis.Á síðustu árum hefur Orkuveita Reykjavíkur markað nýja stefnu þar sem raforkuvinnsla er orðin ráðandi þátturinn í virkjun Hengilssvæðisins. Hitaveitan getur því ekki nýtt allan lághitavarmann og hann fer út í andrúmsloftið um kæliturna. Mestur hluti varmaorkunnar, um 90%, fer til spillis.
Með þessu er verið að eyða þeirri orku sem er í Henglinum á nokkrum áratugum. Eftir situr Orkuveitan með fjórar óstarfhæfar raforkuvirkjanir á Hengilssvæðinu sem minnismerki um skammsýni mannanna og græðgi stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur.
Þrýstingur jarðhitasvæðisins á Nesjavöllum hefur þegar fallið sem nemur meira en 100 metrum og kominn niður fyrir sjávarmál. Þrýstingurinn fellur um tvo metra á ári. Við aukna orkuvinnslu Hellisheiðarvirkjunar mun þrýstingurinn falla enn hraðar. Ef Birtuvirkjun verður að veruleika herðir enn á þrýstifallinu. Þessar virkjanir eru aðeins í 5 km fjarlægð hvor frá annarri og því í raun að nýta sama háhitasvæðið.
Með því að stinga fleiri göt á blöðru fær maður meira loft úr blöðrunni en þeim mun fyrr tæmist blaðran. Sama lögmál gildir um háhitasvæði. Orkan í Hengilssvæðinu er takmörkuð og náttúrulegur varmastraumur úr iðrum jarðar aðeins brot af þeirri vinnslu sem ráðgerð er á Hengilssvæðinu. Rónarnir koma óorði á brennivínið. Það á ekki að tæma flöskuna í einum teig.
Vona að núverandi stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hugsi lengur en eitt kjörtímabil og dreifi orkuvinnslunni. Næsta jarðvarmavirkjun þarf að vera góðri fjarlægt frá Henglinum, ekki minna en 15 til 20 km gæti látið nærri.
Orkuveitan mætti huga að vatnsaflsvirkjunum. Þær nýta úrkomuna sem annars rennur ónotuð til sjávar á hverju ári en ekki uppsafnaðan varmaforða síðustu alda. Markmið með þessu bloggi er að stuðla að aukinni en skynsamlegri nýtingu orkulindanna."
Gunnlaugur er greinilega hlynntari vatnsaflsvirkjunum en jarðhitavirkjunum en fer ekki út í umræðuna um fyrir hverja er verið að virkja og í hvaða tilgangi. Það er atriði sem mér finnst skipta mjög miklu máli í allri virkjanaumræðu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:35 | Facebook
Athugasemdir
Við verðum að fá þig á þing
Hólmdís Hjartardóttir, 18.9.2008 kl. 02:47
Ragnar Örn! Hvaða merkingu leggur þú í orðin öfgar, hroki og yfirgangur? Mér sýnist þetta allt skýna út úr þínum málflutningi. (samkvæmt mínum skilningi á þeim orðum). Hvað með það þó að verði "einfaldlega ekkert virkjað"? Er ekki komið nóg af virkjunum? Ég er með sáttatillögu í þessari deilu. Sem sé að þeir sem eru hlynntir virkjana og stóriðjustefnu stjórnvalda njóti góðs af þeim virkjunum og stóriðju sem þegar hefur verið byggð og náttúruverndarsinnar fái að vernda það sem eftir er af óskemmtum vatnsföllum og jarðhitasvæðum landsins. Ég held að stóriðjutrúarfólkið geti vel við unað. Nema þér finnist of erfitt að njóta góðs af stóriðjunni.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 04:24
Ragnar Örn pissaði í skóinn sinn.
Má ég segja mína skoðun ? Ok, Lára Hanna....... þú ert málefnaleg, eldklár og skynsöm, góðviljuð og ákveðin ung kona með skoðanir. Eitthvað sem "litlum" körlum líkar illa.
Anna Einarsdóttir, 18.9.2008 kl. 07:37
Takk.
Annars ætti ekki að vera mál að ná í borgarstýruna núna á þessum símsvörunardögum en undanfarin misseri var eins og allir vita aldrei hægt að ná í hana frekar en hina borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna.
En nú gæti hún átt til að svara sjálf. Þannig að framundan er betri tíð með blóm í haga.
Jenný Anna Baldursdóttir, 18.9.2008 kl. 08:21
Stórgóður pistill hjá þér Lára og er ég þér sammála í því að ef að á að virkja þá þarf að vera skynsamleg rök fyrir virkjuninni og í hvað á að nota rafmagnið. Ég er orðinn andsnúinn stóriðju á síðustu mánuðum og álverðið eitt og sér í dag ætti að vera afkomuviðvörun tul allra stjórnmálamanna og sér í lagi nafna míns sem virðist ekki nota skynsemi frekar en aðrir framsóknarmenn.. það hefur orðið 25 % verðfall á áli sl mánuði.. Svo fyrir hvern ætti Bitruvirkjun að vera ? síðan er svo komið að Río tinto er að eignast öll okkar álver hægt en örugglega og hvað þá ? Hvernig ætla íslendingar að semja við svoleiðis umhverfisglæpafyrirtæki ?
áður en lengra er haldið með Bitru, VERÐUR að fá niðurstöðu úr mengunarmælingum frá borholunum á Hellisheiði.
Óskar Þorkelsson, 18.9.2008 kl. 08:26
Úff Ragnar Örn... Lára biður ekki um fleiri vatnsaflsvirkjanir, hún er hér að vitna í pistla eftir mann sem er fróðari en flestir um þessi mál. Hann biður heldur ekki beinlínis um fleiri vatnsaflsvirkjanir, heldur bendir eingöngu á að þær séu yfirleitt betri kostur þegar litið er til ýmissa umhverfissjónarmiða heldur en jarðvarmavirkjanir til raforkuframleiðslu. Það er enginn að biðja um það að almenningur hætti að nota heitt vatn og rafmagn. Kárahnjúkavirkjun var ekki reist til þess að sjá almenningi fyrir rafmagni og hita, Hellisheiðarvirkjun ekki heldur. Árið 2006 fóru 64% af raforku á Íslandi til stóriðju, eftir Kárahnjúka er þetta hlutfall sjálfsagt komið upp í 75% eða þar um bil.
Það er allt í lagi að staldra aðeins við og íhuga hvort að það sé svo gáfulegt að gjörnýta allar okkar auðlindir sem fyrst til þess að sjá fleiri álverum fyrir orku og setja þar með öll eggin í sömu körfuna. Það er líka í góðu lagi að staldra við varðandi frekari nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu þar sem það virðist vera að koma á daginn að dýrðarljóminn sem umlukið hefur slíka raforkuvinnslu eigi ekki alveg rétt á sér. Loftmengunin er sennilega hættulegri en hefur verið viðurkennt hingað til og henni er spúið yfir þéttbýlasta hluta landsins. Það er einnig álitamál hversu "endurnýjanleg" þessi orka er í rauninni.
Bjarki (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 10:10
"Þá verður einfaldlega ekki virkjað" segir Ragnar Örn. Í fyrsta lagi veit ég ekki betur en að Hverahlíðarvirkjun og jafnvel virkjun í Þrengslunum séu á fullri ferð svo og borun tuga hola fyrir Hellisheiðarvirkjun og Búðarhálsvirkjun að auki fyrir austan fjall.
Í öðru lagi minnir þetta mig á söguna um ugluna sem ætlaði að skipta ostbitanum á milli tveggja dýra, sem ég man nú ekki hver voru og byrjaði skiptinguna alltaf upp á nýtt vegna þess að í hvert skipti var ójafnt skipt.
Þá stakk hún öðrum bitanum upp í sig og byrjaði skipta þeim sem eftir var og síðan koll af kolli þangað til smábrot var eftir.
Þá var uglan beðin um að skipta ekki meira en hún sagðist þurfa laun fyrir vinnu sína og át þann bita líka.
Alltaf er látið eins og að það sé verið að byrja að virkja þegar raunin er sú að búið er að virkja heilmikið. Á Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðinu eru áform uppi um fimm virkjanir og fjórar eru að renna í gegn. Þá ætlar allt að verða vitlaust yfir því að lofa einu af þessum svæðum að vera ósnortnu.
Raunar er það skynsamlegt jafnvel þótt engin umhverfisjónarmið lægju að baki því að ætlunin er að pumpa svo miklu upp úr jörðinni að orkan verði búin eftir nokkra áratugi. Þá gæti kannski verið ágætt að hafa geymt eitt svæði.
Þessi listi yfir virkjanir sem þegar eru risnar er ekki tæmandi, - bara það sem kemur upp í hugann á augnablikinu: Elliðaárvirkjun, Ljósafossvirkjun, Írafossvirkjun, Steingrímsstöð, hitaveituvirkjanir í Mosfellsdal, Andakílsárvirkjun, Múlavirkjun, Mjólkarárvirkjun, Virkjun við Laxárvatn í Húnavatnssýslu, Blönduvirkjun, Skeiðfossvirkjun, Laxárvirkjun, Kröfluvirkjun, Fjarðarárvirkjun, Kárahnjúkavirkjun (Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal, Kringilsá, þrjár Sauðár, Kelduá), Smyrlabjargavirkjun, Búrfellsvirkjun, Sultartangavirkjun, Búðarhálsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Vatnsfellsvirkjun, Svartsengisvirkjun, Reykjanesvirkjun.
Nei, það hefur víst ekkert mátt virkja! En hvaðan kemur þá rafmagnsframleiðslan sem er að verða fimm sinnum meiri en við notum til almennra nota?
Ómar Ragnarsson, 18.9.2008 kl. 11:48
... þetta er einmitt málið sem hann Ómar er að benda á, við höfum verið að virka heilmikið, alltof mikið...
.... Ragnar Örn, að sjálfssögðu viljum við nota rafmagn, en þurfum við virkilega að framleiða fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum með tilheyrandi náttúruspjöllum???
Mér finnst gott að búa í húsi, en það þýðir ekki að ég vilji búa og eiga 10 hús.
Og talandi um hroka, þá ættir þú að lesa færsluna hennar Láru Hönnu aftur og þær athugasemdir sem hafa verið skrifaðar við hana og sjá hvar og hver er með hroka.
Brattur, 18.9.2008 kl. 12:36
Frábærlega vel gert hjá þér Lára Hanna.
Af hverju hlusta þingmenn/konur ekki á menn og eins og þá, Sigurð H. Magnússon og Gunnlaug H. Jónsson?
Stundum þegar að ég hugsa um þær ákvarðanir sem að "okkar" stjórnmálamenn/konur hafa tekið þá dettur mér þetta í hug:
Tvö börn fá nammi poka, annar pokinn er stútfullur en í hinum eru bara tveir molar. Barnið sem fékk stóra pokann hámar í sig, það á jú svo mikið nammi. En barnið sem fékk bara tvo mola tekur einn og sígur, eftir smá stund tekur hann molann út úr sér og nýtur bragðsins sem enn er til staðar í munninum og svoleiðis gengur það koll af kolli.
Á endanum er barnið sem fékk stóra pokann komin með maga pínu og niðurgang. En tveggja molabarnið finnur enn fyrir sætum keim í munninum.
Sporðdrekinn, 18.9.2008 kl. 13:49
Dáist að þér Lára Hanna fyrir þitt framlag til þessara mála. Haltu ótrauð áfram. Það eru sífellt fleiri að átta sig á hvað er í húfi.
Þórir Kjartansson, 18.9.2008 kl. 18:57
Ég skora á fólk að fara uppeftir og skoða svæðið það er hægt að ganga um það að hluta og sjá gróðureyðinguna sem þegar er orðin og finna þessa andstyggilegu lykt sem kemur af gufunni og er örugglega ekki holl þegar til lengdar lætur! Vissulega þurfum við rafmagn og ég er hugsi yfir því hvort ekki er minni mengun af vatnsaflsvirkunum en þessum ósköpun sem komin eru á Hellisheiðina? Ekki meiri virkjanir á Hellsheiðina! Þetta er meira en nóg!
Bergljót Aðalsteinsdóttir, 19.9.2008 kl. 00:16
Eg vil bidja folk ad leida hugann ad thvi hvad thad er sem hitar vatnid? Og hvad gerist thegar vatnid hættir ad kæla thad sem heldur thvi heitu? Um er ad ræda akvedid jafnvægi sem menn thekkja ekki i thaula thratt fyrir margar gagnlegar rannsoknir. Farid varlega i ad hrofla vid hringrasarløgmalum jardarinnar. Røskun leidir jafnan til ojafnvægis sem hefur aldrei godar afleidingar i før med ser. Thad er løgmal.
Thar fyrir utan er ljost ad ekki eru øll kurl komin til grafar i umrædunni um vistvænleika virkjana af thessu tagi. Thannig tel eg rett ad folk fari ser ekki offari og haldi afram ad rannsaka og læra af thessum tilraunavirkjunum sem thegar hefur verid hleypt af stokkunum.
Kæru samlandar, ekki virkja meira i bili.
Gudjon Leifur
Gudjon Gunnarsson (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 16:18
Það er ansi mikil ábyrgð að setja af stað fleiri virkjanir af þessu tagi og á þessu svæði þegar ennþá margt er óvisst um afleiðingar á heilsu þeirra sem búa þar í kring!!!
Petra Mazetti (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 18:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.