Gjaldþrot og upprisa þjóðar

Ástand efnahagsmála á Íslandi yfirskyggir alla aðra umræðu þessa dagana og ekki að ástæðulausu. Við erum skelfingu lostin og dregist hefur úr hömlu að stjórnvöld finni lausn á vandanum sem blasað hefur við alllengi. En við erum líka öskureið út í þá ofurlaunuðu, eigingjörnu gróðapunga og áhættufíkla sem hafa leikið sér með efnahag þjóðarinnar og að því er virðist teflt svo djarft að ekkert mátti út af bregða til að spilaborgin hryndi.

Þegar ástandið jafnar sig, sem það hlýtur að gera um síðir, og óttinn hjaðnar náum við vonandi þeirri sálarró að geta íhugað hverju er um að Línuritkenna, lært af reynslunni og hindrað að slíkt ástand komi upp aftur. Þar á ég við þær aðstæður sem þessum mönnum voru skapaðar til að seðja áhættufíkn sína og græðgi, skort á regluverki, aðhaldi og eftirliti með því hvernig þeir umgengust fjármuni og spiluðu með efnahag og orðstír lítillar þjóðar sem ekki má við miklu hnjaski. Ég fæ ekki betur séð en þar sé við að sakast þá stjórnmálaflokka sem sátu við völd, veittu frelsið mikla, sömdu og samþykktu lögin en hirtu ekki um að hnýta lausa enda. Og létu undan þrýstingi. Meðal annars þess vegna er svo hlægilegt að hlusta á framsóknarforkólfana Guðna, Valgerði, Siv og fleiri sem öll bera ábyrgð á ástandinu eftir langa valdasetu og helmingaskipti, en tala nú af heilagri vandlætingu eins og þeim komi málið ekki við, þau séu alsaklaus og flokkurinn hafi breyst úr maddömu í mey við það eitt að lenda í stjórnarandstöðu.


Eftirsóttustu viðmælendur fjölmiðlanna, fyrir utan ráðherra, eru nú hagfræðingar. Einn segir eitt og sá næsti eitthvað allt annað. Sumir eru bjartsýnir, aðrir svartsýnir. Þeir láta sér um munn fara alls konar orð og hugtök sem enginn skilur nema kollegarnir og kannski þeir sem vinna í fjármálabransanum. Greiningardeildir bankanna, sem nú ku allir standa tæpt, hafa undanfarna daga, vikur og mánuði rutt út úr sér alls konar hagspám og þær eru með sérheimasíður hjá öllum fjármálastofnunum. Bunan stendur út úr talsmönnum þeirra um skortstöður, hagtölur og línurit og þeir spá hinu og þessu næstu vikur og mánuði. Rýnt er í tölur og gröf en það sem gleymist gjarnan er fólkið sem er á bak við tölurnar eða sem tölurnar vísa í, fjárhagur þess, heimili, heill, velferð, viðhorf og hamingja. Tölur eru blóðlausar og skortir alla mennsku og hlýju. Þær taka ekki tillit til raunveruleikans sem maður lifir í og sýna eitthvað allt annað. Enda þótt hagfræði og tölur séu nauðsynleg tæki til vissra hluta eru þau ekki veruleikinn sjálfur og geta ekki náð utan um allar hliðar hans.

Um miðjan ágúst sl. var að venju athyglisverð umfjöllun í Speglinum á RÚV.Hólmfríður GarðarsdóttirÞar var tilefnið gjaldþrot argentínsku þjóðarinnar ekki alls fyrir löngu. Látum Spegilsmenn hafa orðið: "Það var einu sinni talað um argentínska efnahagsundrið en svo varð argentínska ríkið gjaldþrota. Er nokkuð sameiginlegt með Argentínu og Íslandi og hvað segja hagtölur okkur? Við ræðum við Hólmfríði Garðarsdóttur, lektor.

Á tíunda áratugnum voru stofnanir í Argentínu einkavæddar í stórum stíl. Það var meðal annars fyrir tilstilli Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hagtölur voru svo jákvæðar að talað var um "argentínska efnahagsundrið". En svo varð landið gjaldþrota árið 2001 og nú huga stjórnvöld að því að ná aftur til ríkisins flugfélögum sem voru seld alþjóðlegu fyrirtæki. Hefðu Íslendingar átt að læra meira af þeirra reynslu? Hólmfríður Garðarsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, þekkir vel til stjórnmála í Argentínu. Hún spyr í ljósi þess sem þar gerðist hversu raunhæf mælieining hagfræðin sé og hvaða merkingu tölur hennar hafa. Er hún raunveruleg speglun samfélagsins eða er þörf á því að skoða það með fjölbreyttari aðferðum."

ArgentinaÞetta var bara byrjunin á umfjöllun Spegilsins, sem var afskaplega athyglisverð. Hólmfríður segir m.a. um það sem gerðist í kjölfar gjaldþrotsins að Argentínumenn hafi orðið mjög ákveðnir í að bjarga sér sjálfir eftir kaosástandið sem varði í um tvö ár. "Við höfum eitthvað annað til að bera heldur en það sem einhverjir aðrir ætlast til af okkur," sögðu þeir. Argentínumenn öðluðust sjálfsöryggi til að reiða sig á sjálfa sig í kjölfar niðurbrotsins. Þeir hættu að leita að módelum fyrir velgengni og velferð annars staðar og studdust frekar við það sem hentaði þeim við þær aðstæður sem þar ríktu. Þetta var ekki átakalaust og Argentína fór í gegnum hræðilegar hremmingar, náði upprisu en nú eru aftur komnar alvarlegar krísur sem snúast aðallega um atvinnuleysi.

Einkavæðingarferlið í Argentínu er að ganga til baka. Það gekk allt út á hagfræði en tók ekki tillit til annarra hliða á mannlífinu eins og kemur fram í viðtalinu við Hólmfríði. Í ljós kemur að hagtölur hafa enga merkingu fyrir almenning sem lifir í landinu. Hólmfríður segir: "Þú ert annaðhvort bóndi í norðurhluta landsins, suðurhluta þess, eða íbúi í borg. Það er búið að loka bankaútibúinu í þorpinu þínu, búið að loka búðinni, gjaldmiðillinn þinn hefur ekkert vægi, ekkert gildi, enga merkingu... þá skipta hagtölur engu máli." Íbúar hugsa um það eitt að lifa frá degi til dags.

Kannast einhver við þessa lýsingu?

Hólmfríður heldur áfram: "Ég hef svolítið verið að bera þetta saman við það sem hefur verið að gerast á Íslandi og upplýsingarnar sem komu fram í febrúar á þessu ári þar sem við vorum ennþá - okkar fjármálaspekúlantar voru ennþá að segja okkur að þetta væri allt í lagi. Hér væri allt á byljandi blússi og við værum í fínum gír. Svo kemur bara apríl, maí og júní og það er einhver allt annar veruleiki sem blasir við okkur. Hann er að byrja að hafa áhrif á Íslendinga. Þá einhvern veginn blasir kaldhæðnin í hagtölunum við." Virðing almennings fyrir þeim sem réðu og voru kjörnir til að hafa áhrif og fara með völd og peninga hrundi og ekki hvað síst virðing fyrir hagspekingum og fjármálaspekúlöntum.

Efnahagsundrið í Argentínu stóð yfir frá um 1990 til 2000, það er ekki lengra síðan.

Hólmfríður spyr að lokum: "Hversu raunhæf mælieining er hagfræðin? Hvaða merkingu hafa tölurnar? Er það einhver speglun á samfélagið? Eru bókmenntir ekki miklu betri spegill, þar sem lýst er raunverulegum aðstæðum fólks, viðhorfum, sjónarmiðum, vangaveltum og efasemdum, heldur en hagtölur?"

Er það ekki? Ég held það. Viðtalið er í tónspilaranum merkt: Spegillinn - Hólmfríður Garðarsdóttir, lektor, um efnahagsundur og gjaldþrot Argentínu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Það gæti til að byrja með verið mjög mjög holt fyrir alþingismenn að hlusta meira á það sem kjósendur þeirra hafa að segja þó ekki væri nema til að reyna að finna aðeins betur hver púls samfélagsins er.

Nýleg ráðning aðstoðamanna gerir ekkert annað en að fjarlægja þingmenn frá kjósendum sínum. Nýleg skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokka sýnir að almenningur virðist hafa misst trú á stjórnmálamönnum.

Alþingi er í raun mjög þægilegur vinnustaður þegar viðkomandi er á annað borð komin inn og framtíðin björt. Hvar eru t.d. Svavar, Jón Baldvin, Halldór, Sighvatur ... lifa hátt á kostnað hverra? Ekki eru þessir menn að berjast fyrir kjörum Íslendinga í dag!

Kjartan Pétur Sigurðsson, 4.10.2008 kl. 04:08

2 identicon

Sæl Hanna Lára.

Skrýtið fannst mér að rekast á þssa grein,þar sem að þú vitnar í ARGENTÍNU, það undur er búið að vera í huga mér í nokkra mánuði einmitt með tilliti til þess hvað gæti skeð hér hjá okkur!

Já, en við skulum vona að við förum ekki sömu leið!

Góða helgi.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 07:38

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Góð færsla. Góð samantekt.  Margar spurningar vakna.  T.d. hverjir verða gerðir ábyrgir fyrir gjaldþroti Íslands?  Hverjir voru í raun og veru við stjórnvölinn? Undirstaða Íslenska efnahagsundursins var lánsfé og það er komið að skuldadögum og hverjir verða látnir borga þessar skuldir?  Verða það ekki eina ferðina enn, venjulegir íslenskir launamenn?

Hvernig verður uppreisn hins almenna launþega hér á norðurslóðum?  Það er búið að hafa okkur að fíflum en "við erum svo gáfuð þjóð" að við munum seint viðurkenna mistök.  Ég spái landflótta.  Einhverstaðar verður fíflagangurinn að enda.

Sigrún Jónsdóttir, 4.10.2008 kl. 07:52

4 identicon

Hvernig var með kreppuna í Færeyjum upp úr 1990? Rétt fyrir þá kreppu heirði ég ótrúlegar sögur hjá heimamönnum af "Yfirstéttinni" (útgerðaaðlinum) þar. Gaman væri ef einhver færeyingur sem þekkir til geti sagt okkur hvort það tilfelli sé líkt því sem er að gerast hér.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 08:52

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góð upprifjun um að hagfræðitölur og þarfir þjóðar geta verið óskild mál og tveir plús tveir þurfa ekki að vera fjórir frekar en mönnum sýnist.

Magnús Sigurðsson, 4.10.2008 kl. 11:00

6 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Held að Sigrún hafi rétt fyrir sér með að það verði fólksflótti eins og var í kring um ´75. Þá fluttust íslendingar í hundraða ef ekki þúsundatali úr landi, sérstaklega til norðurlandanna. Við verðum nýju pólverjanrnir.!!

Rut Sumarliðadóttir, 4.10.2008 kl. 12:50

7 identicon

Rýnt er í tölur og gröf en það sem gleymist gjarnan er fólkið sem er á bak við tölurnar eða sem tölurnar vísa í, fjárhagur þess, heimili, heill, velferð, viðhorf og hamingja. Tölur eru blóðlausar og skortir alla mennsku og hlýju.

Þegar við pöpullinn og skuldavandi okkar var til umræðu fyrir einhverjum vikum síðan sögðu forsvarsmenn banka, eins og frægt er orðið, "Hver er sinnar gæfu smiður". Það sem þeir hafa aftur á móti gerðu sjálfir var að ryksuga til sín alla fjármuni sem þeim hugkvæmdust (sbr. kaupauka- og ofurlaunasamninga, útsöluprís á keyptum hlutabréfum sem seld voru svo samdægurs með mörg hundruð milljón króna hagnaði) og þessu hafa þeir alveg örugglega komið fyrir á einkareikningum á Cayman Islands. Mín spá er að persónulegt tap einstaklinganna sem hafa stýrt fjármálastofnunum á jafn óábyrgan hátt og nú hefur komið í ljós verði lítið, þeir tryggðu sjálfa sig persónulega, skuldirnar vegna óráðsíu þeirra og græðgi féllu á okkur, pöpulinn.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 12:51

8 Smámynd: Rúnar Sveinbjörnsson

Þakka þér fyrir að minna mig á þetta viðtal við Hólmfríði. Hagfræðinni er ef til vill best líst með gömlum frasa sem hljóðar þannig, að ef maður stendur með annan fótinn í ís og hinn í sjóðandi vatni þá hafi hann það  að meðaltali gott.

Rúnar Sveinbjörnsson, 4.10.2008 kl. 15:34

9 Smámynd: Björn Heiðdal

Full frískt fólk kúkar ekki í buxurnar óvart.  Allt tal um að þetta sé óstjórn og fleira á ekki við rök að styðjast.  Þetta er skipulagt frá A-Ö af mönnum eins og Davíð Oddsyni, Hannesi Smárasyni, Framsóknarflokknum og Hannesi Hólmsteini.   Skipulagt með góðri aðstoð erlendra peningaafla og atvinnuþjófa.  Þjófa sem hika ekki við að stela þjóðarauð s.s. vatni, olíu, landi og öllu því sem verðmætt er í hverju landi fyrir sig.  Á Íslandi eru þetta fallvötnin og raforka.  Eftir nokkra mánuði eða ár verða allar auðlindir Íslendinga komnir í hendur á erlendum fyrirtækjum.  Síðan verðum við látin borga "markaðsverð" fyrir rafmagnið okkar og vatnið. 

Verði ykkur að góðu fólk.

Björn Heiðdal, 4.10.2008 kl. 15:44

10 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þakka þér fyrir þessa færslu. Þetta er athyglisverð og raunsönn greining hjá Hólmfríði. Málið er að fyrir nokkrum áratugum yfirgáfu hagfræðikennarar hugtakið "hagnýt skynsemi" og fóru að byggja fræðin að grunni til á ímyndarstaðreyndum. Þær byggðust á því að ekki var horft á heildaráhrif aðgerðar á hagkerfið eða þjóðarhag, heldur einingis horft á hvort tiltekið verkefni skilaði sjálfu sér hagnaði. Ekkert horft á hvaðan sá hagnaður var tekinn.

Þegar ljóst var, í lok níunda áratugar síðustu aldar, að þessi óvandaði hugsunarháttur var að yfirtaka alla hagfræðiþætti bankakerfisins, þakkaði ég þeim fyrir samfylgdina og sagðist ekki vilja gera svona fýflagang að ævistarfi mínu.

Því miður hafa menn sem hugsað hafa um þjóðarhag verið settir til hliðar, bæði af fjármálakerfinu og stjórnmálaflokkunum, en einblínt á þá sem lagt hafa aðaláherslur á  sína reiknilíkanakunnáttu.  Kannski verður þetta til þess að gömlu reynsluboltarnir verði dregnir fram úr skúmaskotunum  og þeir látnir kenna  "sérfræðingunum" að hugsa fyrst og fremst um þjóðarhag.  Þá gæti skapst skýma út við sjóndeildarhringinn.

Guðbjörn Jónsson, 4.10.2008 kl. 17:29

11 Smámynd: Sverrir Einarsson

Rúnar þetta er haft eftir Ásmundi Stefánssyni, þáverandi verkalýðsforingja, á 1. mai fyrir nokkrum árum þegar allt tal um launamisrétti var falið í "meðal launum" og hann varaði við "meðaltölum" og tók svona til máls " að við skyldum vara okkur á meðaltölum því maður sem stæði með annann fótinn í sjóðandi vatni og hinn í frosnu vatni hefði það að meðaltali gott"..... en það var áður en Bankarnir keyptu hann og hann fór að vinna fyrir Atvinnuveitendur og síðar sem Sáttasemjari.

Fræðigrein sem byggist á tilbúnum líkanagrunni getur ekki verið hagstæð fyrir fólkið bara það líkan sem það á að þjóna.

Eigið svo góðann dag. og takk fyrir greinina.

Sverrir Einarsson, 4.10.2008 kl. 17:47

12 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Man hvað ég var hugsi yfir þessu viðtali við Hólmfríði og eins og fleiri varð hugsað til okkar mál. Takk fyrir færsluna.

Kristín Dýrfjörð, 5.10.2008 kl. 00:13

13 Smámynd: Sylvía

vona að einhverjir verða látnir bera ábyrgð og fái dóma, þó að við því sé ekki að búast.

Sylvía , 5.10.2008 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband