9.10.2008
Íslensk þjóðarsál í hnotskurn
Spegill, spegill, herm þú mér...
Íslenska þjóðin er skrýtin skepna. Hún veður áfram í dugnaði; er framsækin, menntuð, nútímaleg, tæknivædd og vinnusöm. Í útlöndum heyrir maður að Íslendingar séu eftirsóttir í vinnu, og það finnst íslensku þjóðinni gott að heyra - eins og allt annað hrós um sjálfa sig.
Það er ekki nóg að fá að vera með hinum þjóðunum í leik og starfi; það er stutt í pirringinn ef Íslendingurinn er ekki bestur í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Íslenska þjóðin stærir sig af landinu sínu; blámanum, hreina vatninu og náttúrufegurðinni, fiskinum og lambinu og öllum framkvæmdunum sem fleyta henni í röð mest velmegandi þjóða heims.
Samt er eitthvað að.
Íslendingar eiga erfitt með að tjá sig og andmæla sjaldan þegar yfir þá er vaðið. Þeir lúffa fyrir valdinu og þora ekki eða nenna ekki að hafa sig í frammi þegar þeim er innst inni misboðið. Þeir trúa því að glæpur sé ekki glæpur segi valdið það. Þeir gapa af undrun þegar einkabankarnir fá óvart gefin listaverkin þeirra - gera samt ekkert. Þeir hneykslast á dómum í dómskerfinu en hafa ekki döngun í sér til að þrýsta á um breytingar. Þeir vinna eins og vitleysingar og undrast svo þegar óuppalin börn þeirra lenda í hremmingum. Þeir hafa ekki neytendavitund, láta okur og óréttmæta viðskiptahætti yfir sig ganga. Þeir fyrtast við þegar lítið er gert úr heimsfrægum listamönnum þeirra og móðgast yfir því að kona í Alaska skuli ekki vita að forseti Íslands er þjóðhöfðingi. Þeir tala fjálglega og fallega um allt jafnréttið, sem lítið er. Þeir bölva, en eru fljótir að gleyma. Sumir skola mannasiðunum niður með áfengi um helgar, fleygja leikreglum samfélagsins á fylleríi í miðbænum, míga utan í hús og eðla sig í görðum, en mæta keikir og brosandi í vinnuna sem þeir elska á mánudagsmorgni. Ókey, svona erum við bara, er eina andsvarið. Þeir agnúast út í stjórnvöld en kjósa sífellt annað eins yfir sig aftur.
Kannski að kreppan bjargi Íslendingum!
Þetta á maður sennilega ekki að segja í alvöru, en víst er að það þarf eitthvað stórt og mikið til að hrista drómann af íslensku þjóðinni. Hún er eins og brjáluð maskína sem er við það að bræða úr sér en enginn getur gert við, því hún fer svo hratt.
Kannski að kreppan bjargi okkur.
Getur verið að við höfum haft það of gott? Getur verið að við séum að missa fótanna í taumlausri neysluhyggju og græðgi sem á endanum gefur okkur ekkert annað en streitu, vanlíðan og sljóleika? "Það er ekki mitt að kvarta, ég hef það svo gott," sagði kona við mig um daginn. Jú, gott og vel, en það að hafa það gott er ekki skiptimynt fyrir heilbrigða gagnrýni og almenna meðvitund.
Smám saman þaggar velmegunin niður í okkur, engin óþægindi, takk, ekkert vesen, nægjusemi hvað? skynsemi hvað? vertu ekki með þetta nöldur, við höfum það svo frábært, og erum svo æðisleg - við Íslendingarnir.
Kannast einhver við þennan pistil? Já, einmitt... þetta er pistill Bergþóru Jónsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 28. september sl. undir fyrirsögninni Íslendingar. Mér fannst hann svo frábær að ég klippti hann út og birti hér. Í síðasta pistli mínum bað ég fólk að lesa þessi skrif Bergþóru aftur... og aftur - og líta svo í spegil. Það gerði ég - bókstaflega. Mér fannst rétt að birta hann í þessu formi líka til vonar og vara - ef einhver skyldi ekki hafa smellt á slóðina og lesið hann - aftur... og aftur.
Hvað erum við tilbúin til að leggja á okkur til að breyta því sem við viljum breyta? Lítum í eigin barm.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er ótrúlega mikill sannleikur í þessari grein. Maður getur alveg séð sjálfan sig í þessu.
Víðir Benediktsson, 9.10.2008 kl. 07:09
Begga er óvitlaus, já!
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 9.10.2008 kl. 09:44
Las þessa grein, þegar þú settir hana inn fyrst og svo aftur og aftur og stend við mitt fyrsta mat: Algerlega sammála hverju orði sem Bergþóra Jónsdóttir skrifar þarna.
Sigrún Jónsdóttir, 9.10.2008 kl. 10:35
já, alveg rosalega gott hjá henni!
alva (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 11:15
já greinin er góð
Hólmdís Hjartardóttir, 9.10.2008 kl. 12:49
Þetta er svo sannarlega umhugsunarefni...
Ása Björg
asabjorg.com
Ása Björg, 9.10.2008 kl. 14:29
Flott grein og góð áminning.
Steingerður Steinarsdóttir, 9.10.2008 kl. 14:46
Verznar ekkert á þriðja lestri, þið eruð alveg ágætar.
Steingrímur Helgason, 9.10.2008 kl. 18:16
já þetta er íslenska þjóðin í hnotskurn
Óskar Þorkelsson, 9.10.2008 kl. 18:30
Það, að manneskja skuli afrita jafnniðurlægjandi texta um heila þjóð athugasemdalaust bara af því það hentar ber merki þess að viðkomandi þekkir lítið þjóðarsálina. Svo, eins og í litlu fallegu teboði þá er þjóðarsálin boðin fram eins og hver önnur pínkulítil snitta: getur verið að við höfum haft það of gott? Spurningunni um velmegun er varpað fram. Skyldum við hafa haft það of gott? Og ég sé í anda hvernig litli puttinn lyftist frá tebollanum. Það getur svo sem vel verið að hluti þjóðarinnar hafi haft það gott. Og jafnvel öldum og öldum saman. Mikið ofboðslega eru hlutirnir vafðir inn í mikla bómull. Ætlar enginn að stíga fram og viðurkenna þjóðareinkenni okkar? Sem hefur bara eitt mottó; okkur er andskotans sama. Og lifum áfram. Basta. Uppgefin. Á loforðum. Á orðum.Við fengum kosningarétt og kjósum. Sömu froðusnakkana aftur og aftur. Allt á að vera svo gott. Við kusum og kjósum. Hvernig komið er fyrir þjóðarskútunni nú er okkar ábyrgð. Við kusum stjórn, aftur og aftur og aftur. Hlustuðum á froðusnakkið og loforðin aftur og aftur. Og kusum og kusum allt heila klabbið yfir okkur. Svo er okkur sagt að við séum dugleg þegar á móti blási og blablabla. Vandamál okkar er froðusnakk og eilífur draumur um að 1% af loforðunum verði efnt. Við erum á hausnum og áfram halda froðusnakkar, við erum þjóð og berum ábyrgðina. Við kusum þetta allt saman yfir okkur. Sama hvað líður teboðum og hjali og rabbi, orðateygjum og orðaskaki. Ábyrgðin er okkar.
Kveðja. Nina
NínaS (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 23:14
Ég átta mig ekki alveg á athugasemdinni þinni, Nína.
Ég held að við þekkjum allar þjóðarsálina nokkuð vel, ég, þú og Bergþóra og ég sé ekki betur en að við séum allar innilega sammála. Ef þú lest pistilinn örlítið betur sérðu væntanlega að hún er að segja nákvæmlega það sama og þú: "Þeir agnúast út í stjórnvöld en kjósa sífellt annað eins yfir sig aftur", skrifar Bergþóra.
Og hún segir í pistlinum alveg það sama og þú - ábyrgðin er okkar. Þannig að við getum alveg sleppt öllum teboðum og snittum, held ég.
Lára Hanna Einarsdóttir, 9.10.2008 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.