17.10.2008
Eins og talað út úr mínu hjarta
Stundum er tekið fram fyrir hendurnar á manni, ýmist í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu. Ég var byrjuð að skrifa pistil fyrir nokkrum dögum - í síðustu viku raunar. Byrjuð að klippa saman ummæli úr sjónvarpi pistlinum til stuðnings en ekki komin langt. Svo birtist grein í Morgunblaðinu í dag og ég sá strax að ég þurfti ekki að klára pistilinn minn. Í greininni var næstum allt sem ég vildi sagt hafa til viðbótar við það sem ég sagði hér. Ég hefði líklega ekki orðað þetta svona pent og vel en ég er heldur ekki eðalrithöfundur eins og skríbentinn.
Bestu þakkir fyrir greinina, Jón Kalman. Mæltu manna heilastur!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.10.2008 kl. 11:48 | Facebook
Athugasemdir
Það hlýtur að fara að renna upp fyrir fólki að við erum þjóð í vanda.
Til að geta keypt hluti þurfum við að framleiða verðmæti.
Það fer alveg ágætlega saman að virkja og þykja vænt um landið sitt og fólkið sem í því býr. Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Tryggvi L. Skjaldarson, 17.10.2008 kl. 16:45
Í mínum huga hefur það alltaf verið ljóst að einhverja framleiðslu þurfi til að skapa peninga, hvort sem sú framleiðsla kemur frá landbúnaði, sjávarútvegi eða iðnaði. Allt annað er yfirborðskennt. Ég man að fyrir mörgum árum tók ég útvarpsviðtal við Aðalstein Jónsson á Eskifirði. Ég spurði hann í viðtalinu hvort hann stæði undir gælunafninu Alli ríki. Hann svaraði því til að hann ætti öll hlutabréf í Hraðfrystihúsi Eskifjarðar, sem hann stofnaði. "En það verð ekki peningar úr þeim nema ég selji þau, þau geta orðið einskis virði á morgun, en þau eru ekki til sölu," sagði hann, en bætti svo við: "Ég er samt ríkur". Gervipeningarnir sem útrásargæjarnir hafa verið með eru búnir til af væntingum einhverra gaura sem stýra mörkuðum, persónan "markaður," sem hefur oft verið sögð ráða öllu er dauð. Útförin þarf að fara fram sem fyrst.
Haraldur Bjarnason, 17.10.2008 kl. 17:16
Við erum að framleiða verðmæti og höfum alltaf gert. Eruð þið að gefa í skyn að hérlendis sé engin verðmætasköpun og það vanti fleiri álver í viðbót til að loksins verði hægt að skapa verðmæti? Er þá ekkert gagn af þeim álverum sem þegar eru í starfrækslu hérna?
Ef við erum þjóð í vanda og þurfum að fá sem mest út úr avinnuvegunum þá þá þurfum við að haga málum þannig að við fáum sem mestan hagnað út úr þeim og sem minnstan kostnað, þá held ég að álverin komi ekki vel út í samanburði við aðrar greinar. Að minnsta kosti ekki núna þegar álverð fer lækkandi og þau hafa að auki fengið afslætti á gjöldum og raforkuverði langt umfram aðrar atvinnugreinar. Mér finnst mjög einfeldningsleg þessi blinda trú á aukningu.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 00:18
Það er með ólíkindum að sömu mennirnir sem vara við því að nú sé ekki rétti tíminn til að draga fram sökudólga skuli ætla að nýta sér ástandið sem þeir sköpuðu til að koma virkjunaráætlunum sínum í framkvæmd!
Þeir ætla m.a.s. að gjörnýta ástandið sem réttlætingu þess að ganga framhjá öllu umhverfismati! Þeir hafa hingað til notað aðferðir eins og „stinga undir stól“ til að tefja ekki virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka. Ég er að vísa til skýrslunnar um sprunguna sem liggur undir stíflunni.
Mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja hvernig þessir menn geta ætlast til þess að við treystum þeim! Ég á jafnvel enn erfiðara með að skilja að nokkur kjósandi geti fengið sig til þess því þeir hafa greinilega ekkert lært! Þeir eru að hamast við að ræsa vél sem er búin að bræða svo sóðalega úr sér að þeir sem neita að horfast í augu við það hljóta að vera með vandlega bundið fyrir augun og slökkt á öðrum skilningarvitum.
Ætli þeir hafi aldrei lesið Draumlandið? eða skildu þeir ekki það sem þar stendur? Það er greinilegt að við getum ekki setið aðgerðarlaus hjá á meðan ríkisstjórnin hagar sér á svo óábyrgan hátt eins og umræðurnar um virkjanir á Alþingi síðustu daga bera gleggst vitni.
Ég vona af alhug að þjóðin sameinist í því að mæta niður á Austurvöll til að sýna að henni er misboðið. Við verðum að hætta að haga okkur eins og Bjartur í Sumarhúsum sem gat aldrei fundið samhljóm sinna skoðana með neinum örðum. Hann var svo upptekinn af sínum sérhagsmunum að hann gat aldrei fundið samleið með öðrum heldur var í stöðugri baráttu við allt og alla.
Þess vegna áttaði hann sig aldrei á því hverjir áttu sömu hagsmuna að gæta og hann sjálfur og hverjir voru hinir raunverulegu óvinir þess að hann kæmist af. Þessi afstaða hans varð svo stærsti þátturinn í falli hans og niðurlægingu í bókarlok. Við megum ekki láta það sama henda okkur sem einstaklinga eða þjóð! Virkjum vandlætinguna og sýnum hug okkar í verki. Látum ráðamenn þjóðarinnar vita að okkur stendur ekki á sama.
Það skiptir ekki máli þó okkur greini á í smáatriðum því nú eru það alltof stór aðalatriði sem hafa forgang. Austurvöllur kl. 15:00 á morgun (18.okt).
Es: Biðst afsökunar á þessari löngu athugasemd en ákvað eftir töluverða umhugsun að láta hana standa. Vona að mér verði fyrirgefið.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.10.2008 kl. 01:07
..til að fyrirbyggja allan misskilning....var ekki að tala um álver...
Haraldur Bjarnason, 18.10.2008 kl. 11:49
Kærar þakkir fyrir þessa grein Jón Kalman!
Petra Mazetti (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 19:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.