21.10.2008
Þjóð í gíslingu
Það er með ólíkindum hvað forystumenn og -konur þjóðarinnar eru forhert og þagmælsk þessa dagana. Þau tala í gátum, segja sem minnst, svara helst engu. Í besta falli fáum við náðarsamlegast að vita að þessi eða hin sagan sé ósönn. Við lesum um hvað er að gerast á Íslandi í erlendum blöðum, heyrum það á erlendum sjónvarpsstöðvum eða í þýddum greinum eftir útlendinga. Ótal spurninga er spurt en engin fáum við svörin. Okkur hefur verið haldið í óbærilegri spennu síðan Glitnir féll þann 29. september. Á meðan engu er svarað og ekkert gerist er þjóðin í sálrænni og fjárhagslegri gíslingu. Hver er leikstjóri þessarar sýningar?
Vonandi sáu allir Kompás í gærkvöldi. Þetta var mjög athyglisverður þáttur sem fjallaði um útrásina, fólkið, bankareikningana í Karíbahafinu og fleira.
Minnst var á ársgamlan Kompás - nánar til tekið frá 20. nóvember 2007. Þar var fjallað um Seðlabankann, vexti, verðbólgu og fleira. Hann er skylduáhorf til upprifjunar.
Svo var viðtal við Þorvald Gylfason í Íslandi í dag í gærkvöldi. Hann hafði þetta að segja:
Ég klippti tvo magnaða kafla út úr viðtalinu við Jón Baldvin í Silfrinu á sunnudaginn. Það var erfitt að velja, hann var frábær, en þetta varð fyrir valinu núna:
RÚV var með viðtal við Robert Z. Aliber, prófessor við háskóla í Chicago, í tíufréttum í gærkvöldi. Hann kallar stjórnvöld og stjórn Seðlabankans flón og er ekkert að skafa ofan af hlutunum. Ég set spurningamerki við lokaorð Alibers og vil fara miklu lengra aftur í tímann en 2-3 ár.
Að lokum er hér greinin eftir Aliber úr Mogganum í gær sem var fjallað um í flestum fjölmiðlum og vakti gífurlega athygli. Ekki fá stjórnvöld góða einkunn hjá þessum ágæta manni. Smellið til að stækka.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:45 | Facebook
Athugasemdir
Ég horfði á Kompás í kvöld, þar var ýmsilegt áhugavert dregið fram í dagsljósið. En betur má ef duga skal. Þetta er bara byrjunin.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.10.2008 kl. 02:26
Hlustaði á Jón Ásgeir á Hrafnaþingi.....mér fannst hann trúverðugur....þetta er asskoti flókið allt saman
Hólmdís Hjartardóttir, 21.10.2008 kl. 02:53
MJÖG FÍNAR GREINAR HJÁ ÞÉR, TAKK FYRIR.
Einar G. Harðarson, 21.10.2008 kl. 03:05
Við ættum kannski að finna leiðtoga af handahófi og gera félagslega rannsókn. Ótrúleg yfirlýsing frá manni sem er sérfræðingur á þessu sviði. Enn einn áfellisdómurinn yfir íslenskum stjórnvöldum.
Annars fann ég mig loks knúinn í dag til að skoða útflutningstekjur þjóðarinnar 2007 - varð að sjá hvort að allar þessar yfirlýsingar um ál í útflutningi ættu við rök að styðjast. Smellti inn færslu um málið. En í stuttu máli sagt eru allar slíkar yfirlýsingar augljóslega blekkingar.
Baldvin Jónsson, 21.10.2008 kl. 03:16
Já, þetta var mögnuð grein í Mbl. Þarna segir bona fide bandarískur fræðimaður að okkur hafi hreinlega verið "stjórnað af flónum" (-kosnum af hverjum ?)
Hvað varðar þögnina og "ykkur kemur það bara ekkert við" viðhorf stjórnvalda, sem þú ert að setja fyrir þig Lára Hanna, þá er þetta auðvitað bara spurning um það að þig skortir traust á landsfeðrum okkar og -mæðrum.
Oft var þörf, en nú er nauðsyn, að treysta þessum ábyrgu aðilum fyrir lífi okkar, afkomu og mannorði. Er einhver ástæða til annars ?
Hildur Helga Sigurðardóttir, 21.10.2008 kl. 03:18
Merkilegur andskoti að maður þurfi að lesa erlendar fréttir til að fá botn í hvað þeir eru að bauka karlarnir.
Takk fyrir mig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 21.10.2008 kl. 08:24
Klíkurnar stjórna hér öllu, það er hverju orði sannara. Við, fólkið í landinu, erum hrikalega meðvirk. Við héldum með útrásarliðinu okkar eins og landsliðinu í handbolta og firrtumst við ef einhver vogaði sér að benda á brotalamirnar í plottinu.
Íslensk stjórnmál er einhver sú sorglegasta leiksýning sem maður hefur orðið vitni að. Það vantar ekki að ýmsir frambærilegir og hæfir einstaklingar séu í framlínum stjórnmálaflokkanna en það er einkahagsmunagæslan sem alltaf ræður ferðinni, ekki hagur þjóðarinnar. Alþingi skiptir ekki máli - það sést best á atburðum liðinna vikna.
Okkar eina von er að losna við núverandi stjórnvöld og yfirstjórn Seðlabanka og hleypa nýju og þróttmiklu fólki að. Það ætti í sjálfu sér ekki að vera skortur á hæfileikaríku og vel menntuðu fólki hér og nú áður en það gefst upp og finnur sér vinnu erlendis.
Lára Hanna, þú ert ómissandi. Ég er einlægur aðdáandi.
Sigurður Hrellir, 21.10.2008 kl. 10:55
Takk fyrir alla þá vinnu sem þú leggur í pistlana þína Lára Hanna. Vona að sem flestir lesi þá.
Sigrún Jónsdóttir, 21.10.2008 kl. 11:46
Takk enn og aftur Lára Hanna.
Hjó eftir orðum Davíð um stöðuleikann sem var uppáhaldsorð hans til langs tíma. Eini stöðuleikinn sem ég upplifði þá er sá að ég var stöðugt blönk!! Það verður væntanlega ekki mikil breyting á núna nema til hins verra.
Segi eins og Sigrún, vona að sem flestir lesi pistlana þína. Þeir eru vandaðir og þú leggur greinilega mikla vinnu í þá. Áfram Lára Hanna.
Rut Sumarliðadóttir, 21.10.2008 kl. 12:28
Eins var með Davíð, hann átti ekki orð af hrifningu annað en 4fallt húrra, þegar dásemdin stóð sem hæst. Og menn glottu út í annað. Hann var góður þessi: Stjórnað af flónum sem kosnir voru af flónum.
365, 21.10.2008 kl. 14:12
Sæl Lára Hanna. Hér er margt ágætt en finnst tiltölulega lítið unnið með því að vera með hasar og hamagang. Líklega vænlegt að leyfa stjórnvöldum að fá vinnufrið, við verðum að treysta því að það sé verið að gera það besta í stöðunni. Hlutlaus rannsókn (vonandi) með hvernig þetta bar allt til skýrir hlutina væntanlega í náinni framtíð. Aðeins of margir spekingar að úttala sig þessa dagana. Held t.d. að þessi Aiber ætti að skoða stjórnvöld í sínu eigin landi áður en hann úthrópar aðra.
Sigrún (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 15:22
Ég missti af Kompásþættinum og varð heldur súr. En eins og mig grunaði var hægt að ganga að honum vísum hér. Bestu þakkir. Reyndar er maður með óbragð eftir að hafa horft og hann kveikir eiginlega fleiri spurningar en hann svarar. Jú Kristín kannast við eyjuna og reikninga þar en veit ekki til að fé hafi verið flutt þangað, mest stofnað til hans af hefð. Þau systkinin talast líklega ekki við, Jón Ásgeir kannast ekkert við þessa eyju. Í mörg ár hefur af skattyfirvöldum verið kallað eftir löggjöf til að hindra ákveðna tegund skattsvika, löggjöf sem er í gildi í öllum Vestur-Evrópulöndum nema hér. Ekki verið orðið við því, af hverju ekki??? Skv Þorvaldi bregðast stjórnvöld (hluti enn við völd), seðlabankinn ( sami bankastjóri), fjármálaeftirlitið (hefur nú yfirumsjón bankamála). Og nú skoða þeir sjálfa sig í bak og fyrir. Indriði talar varlega en mann i heyrist hann reikna með að stórir fjármunir séu horfnir á „örugga“ staði. „Fámennur hópur hélt á fjöreggi þjóðarinnar „ en líka orðspori hennar, það finnst mér verra. Er þá með aldagamlan sannleika í huga, orðstír deyr aldrei. Hann er dýrmætur, dýrmætari en margt annað. Æ, fyrirgefðu langa færslu, var mikið niðri fyrir. Enn og aftur bestu þakkir fyrir góða síðu, uppsprettu upplýsinga og mikilvægan vettvang skoðanaskipta. Hér er mikilvægt mótvægi við slappa fjölmiðla landsins.
Solveig (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 22:51
Sæl, Lára Hanna
Svona á þetta að vera á blogginu! Hef haft lítinn tíma s.l. daga til að fylgjast með fjölmiðlum. Það er fínt að fá svona innlegg frá þér úr ýmsum áttum. Meira af þessu. Vona að við getum öll lært af þessari erfiðu reynslu semvið erum að ganga í gegnum, þjóðin, stjórnvöld og kjósendur. Einnig tel ég að það mætti vera meira um gagnrýna og rökrétta umfjöllun í fjölmiðlum um stjórnmál, þ.e. meira um rannsóknarblaðamennsku þar sem kafað er ofaní kjölinn á málum. Við kjósendur berum mikla ábyrgð. Við kjósum þá sem stýra þjóðarskútunni. Hvernig væri að byrja á því þegar við vitum hvað við skuldum og hvar við stöndum, að byrja á því að leggja niður alla stjórnmálaflokka á Íslandi og stofna nýja flokka, hafa landið eitt kjördæmi þannig að vægi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins væri 60/40 fyrir landsbyggðina. Var að velta þessu fyrir mér vegna leiða á að hlusta og horfa á þessa sömu landsfeður og -mæður sínkt og heilagt. Bloggsíðan þín er góð. Kveðja. Nína
Nína S (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 23:29
Hæ aftur, Lára Hanna. Gleymdi einu. Ef við gerum ráð fyrir að aðrir (fyrir utan okkur kjósendur) sem hafa undanfarin ár haft völd sem fylgja embættum þeirra, komið að þróun mála með misjöfnum hætti, hvort sem það er ríkisstjórn, þingmenn, bankastjórar, fjölmiðlamenn, seðlabankastjórar, o.s.frv. séu flestir mannlegir þrátt fyrir mikla greind, menntun og vinnu sína, hegðun og þagnir, eftir bestu getu og trú, þá hljóta þessir hópar/manneskjur að þurfa að glíma við ákveðinn móral og eftirsjá. Kannski naga þeir sig í handabökin NÚNA og hugsa; af hverju sagði ég þetta? Gerði þetta? Þegar það hefði verið betra að ég gerði og segði akkúrat annað? Sjá eftir mörgu, naga sig í handabökin, fá "móral" og eiga í baráttu við sína eigin siðfræði og réttlætistilfinningu. Vilja læra af þessu, virkilega. Þá erum við í góðum málum. Slíkt fólk þarf að fá tækifæri til að sýna að það hefur skipt um skoðun og viðhorf, tækifæri til að segja hreint út; Já , ég var svona, sagði þetta, gerði þetta. En í ljósi þess sem hefur gerst undanfarið, þá skammast ég mín vegna trúgirni minnar. Og ég mun sýna þjóðinni að ég hef lært af mistökunum og mig langar að sýna það, öðlast traust á ný. Það er einmitt slíkt fólk sem þjóðin vill halda í og fylgjast með að það segi satt. Við viljum sjá að það hefur breytt um viðhorf til sín og annarra. Þannig að við skynjum að það meini það. Höldum í slíkt fólk sem býr að mikilli reynslu í pólitík og veit mjög margt um hvernig stjórnkerfið starfar. Það gæti orðið bestu stjórnendur okkar. Hinir, sem eru ófærir um að sjá sinn þátt í ástandinu eins og það er, kennir öðrum sífellt um, eru ósáttir vegna reiði út í aðra, jamm, þeir þyrftu bara að taka pokann sinn og læra um hroka. Það sem ég á við, er að gefa þeim tækifæri sem sýna og tala um hvað betur mætti hafa farið hjá þeim, bæði stjórnarfarslega og prívat og persónulega, tjá sig um það , leggja spilin á borðið fyrir kjósendum, þjóðinni, þeir munu öðlast virðingu fólksins.Höfum við ekki öll sagt eitthvað, gert eitthvað í fortíðinni sem við erum ekki sérlega hreykin af, fáum móral og þurfum að viðurkenna mistök okkar, biðjast afsökunar og lofað bót og betrun. Reynsla er til að læra af. Og viðbrögð allra þeirra , jafnvel okkar kjósenda, væri vel fallin til að hreinsa andrúmsloftið. En ég hef enn ekki lesið neitt eða heyrt neitt í þessum dúr, frá þeim hópum manna og kvenna sem öll lögðu hönd á plóginn við að viðhalda blekkingunni. Svo ég spyr sjálfa mig; kusum við ekki örugglega manneskjur í síðustu kosningum? Ekki voru það vélmenni?
Bestu kveðjur aftur. Nína.
Nína S (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 23:53
Þjóð í gíslingu er þvílíkt réttnefni. Gíslingu spilltra valdhafa. Rænd af auðhringum.
Kristjana Bjarnadóttir, 22.10.2008 kl. 08:02
Sigrún, ég held að með því að vera rólegur þessa dagana og láta alla vaða yfir sig á skítugum skónum þá erum við að samþykkja þetta ástand því eins og sagt er þá er þögn sama og samþykki. Stjórnvöld eiga ekki að geta treyst á það að fá að vinna í "friði". Það væri í hæsta máta óeðlilegt að fólk gæti ekki tjáð sig og krafist skýringa á hvað fór úrskeiðis. Það á ekki að vera neitt vonandi með það að hlutlaus rannsókn fari fram. Við sem þjóð eigum að trúa því að við eigum ekki skilið nokkuð minna! Og krefjast þess að þessi rannsókn fari fram! Ekki leyfa þessu mönnum (sem eru bæði konur og karlar nóta bene) að komast upp með neitt hangs varðandi það. Annars, eins og ég sagði, erum við að samþykkja þennan svíðingsskap og samþykkja það að orðspor okkar sé dregið niður í svaðið.
Ekki taka þessu sem persónulegri árás á þig. Mér finnst bara að við eigum að passa okkur á því að vera of róleg því hver veit, kannski verður því komið svo fyrir að það verði aldrei rétti tíminn fyrir rannsókn.
Anna
Anna Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 21:52
Fann mér loksins tíma til að fara yfir þessa samantekt frá þér. Varð ekki fyrir vonbrigðum. Ég er alveg sammála þér að Kompásþættirnir ættu að heyra undir skylduáfhorf. Aliber var svo punkturinn yfir i-ið! Furða mig alltaf meir og meir á þeim sem tala um einelti og öfga þeirra sem krefjast uppstokkunar í stjórn Seðlabankans. Hafa þeir sem tala þannig verið að fylgjast með orðum og gjörðum þessara manna?
Ég verð að segja fyrir mig að sjálfsvirðing mín sem Íslendings mun bíða óbætanlegan hnekki ef enginn þarf að sæta ábyrgð fyrir það að hafa skapað 30 klíkubræðrum/-systkinum kjöraðstæður til að arðræna landið. Þetta lið eru sannkallaðir víkingar en þetta eru engar hetjur. Ég hélt reyndar að mannskepnan hefði þroskast frá tíma víkingaaldarinnar hinnar fyrri.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.10.2008 kl. 00:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.