Frekjan, hrokinn og firringin

Þessi frétt var á mbl.is í gær undir fyrirsögninni: "Frekja og hroki aðgangsorð íslenska helvítisins". Meðal þeirra sem tengdu bloggfærslu við hana var Dofri og rifjaði hann þar upp frétt og viðtal frá september 2007. Viðtalið sem Dofri benti á var við Hannes Hólmstein Gissurarson og það er hreinlega dæmalaust.

Í viðtalinu við Hannes Hólmstein kemur fram að honum finnst mjög æskilegt að sem flest sé í einkaeigu eins og nýfrjálshyggjutrúin býður, meira að segja orkufyrirtækin okkar. Hann mærir útrásarvíkingana og vill bara selja allt klabbið. Skömmu eftir að viðtalið var tekið fór REI-málið að koma upp á yfirborðið. Og hvað er ekki að gerast með Hitaveitu Suðurnesja þessa dagana? Hún var einmitt einkavædd að hluta og Hannes Friðriksson fylgist með því sem nú er í farvatninu þar og hverjir standa þar að baki.

Hér er þetta magnaða viðtal við Hannes Hólmstein frá 13. september 2007. Hann ræður sér ekki fyrir hrifningu á því hve mikið og hratt bankakerfið stækkaði. Hvernig sem á því stendur situr hann ennþá í stjórn Seðlabankans, besti vinur hans er aðalbankastjórinn og margir trúbræður hans og lærlingar eru valdamiklir í stjórnkerfinu, t.d. þingmenn, ráðherrar og borgarfulltrúar. Hafa þeir nokkuð gengið af trúnni? Ég hef ekki orðið vör við það.

Þessar fréttir eru frá sama tíma, 13. og 15. september 2007. Hér getum við rifjað upp sýnishorn af því sem bankarnir eyddu loftbólupeningunum í, sem og sparifé Íslendinga og útlendinga. Það mun hafa verið um mitt árið 2007 að erlend millibankalán fengust ekki lengur og þá tóku bankasnillingarnir upp á því að draga sparifjáreigendur m.a. í Bretlandi, Hollandi, Belgíu og Þýskalandi á asnaeyrunum og hirða af þeim aurana þeirra. Lagt var að íslenskum sparifjáreigendum að millifæra sparnað sinn í ýmiss konar sjóði sem frægt er orðið og þeir rýrnuðu verulega. Í fréttinni er bara eitt sýnishorn af því hve hátt var lifað fyrir annarra manna peninga. Það er dýrt að temja sér svona lífsstíl. Þetta var ein af mörgum hliðum á íslenska efnahagsundrinu sem Hannes Hólmsteinn var svo hrifinn af. Ætli hann sé það ennþá?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Nýfrjálshyggan er trú, það þarf ansi mikið að ganga á til þess að fólk glati trúnni.  Þegar rústir einar verða eftir sjá þeir kannski að sér. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.12.2008 kl. 01:58

2 identicon

Skemmtileg þessi pæling að kalla það efnahagsundur að veðsetja kvótann og skuldsetja sjávarútveginn.

Hrafnkell (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 02:09

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Hvaða snillingur var það nú aftur sem sagði "Helvíti er annað fólk" ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 4.12.2008 kl. 03:15

4 identicon

Það var Jean-Paul Sartre sem sagði: "l'enfer, c'est les autres", eða orðrétt "helvíti, það eru hinir".

Illugi Jökulsson (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 09:22

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Aulahrollur, er vægt til orða tekið, til að lýsa líðan minni meðan ég horfði á viðtalið við Hannes.

Brjánn Guðjónsson, 4.12.2008 kl. 10:49

6 identicon

Leyfi mér að setja grein mína hér inn til upplýsinga. Lára það væri gott ef þú getur komist yfir Kastljós þáttinn þar sem oddvitar framboðanna í Reykjanesbæ til sveitarstjórnarkosninganna 2006 komu fram. Í þessum þætti fullyrti Árni Sgfússon að hann og Sjáflstæðisflokkurinn ætluðu að standa vörð um Hitaveitu Suðurnesja. Ég man að ég svaraði því í þessum þætti að það væri gott að heyra að allir hérna inni væru komnir á þá línu sem ég hafði skrifað um fyrir ári í Víkurfréttum að það verði að standa vörð um HS. Þá sagði Árni eins vel og ég man það ,,það eru við sem ætlum að standa vörð um Hitaveitu Suðurnesja''.                                                               

                                                                   Stöndum vörð um Hitaveitu Suðurnesja

Þorsteinn Erlingsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ skrifaði grein í Víkurfréttir 9. júní sl. um Hitaveitu Suðurnesja (HS) og það fóru um mig ónot að sjá glitta í hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar um einkavinavæðinguna og að sjá að nú væri hún farin að sá sér innandyra hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Þorsteinn segir m.a. að virði hlutabréfa í HS hafi tvöfaldast á fjórum árum og að hlutur Reykjanesbæjar sem er um 40% og hafi aukið eignir Reykjanesbæjar um 2,4 milljónir króna á dag eða 876 milljónir króna á ári síðustu fjögur árin þ.e.a.s. síðan HS var breytt í hlutafélag.

Þorsteinn byggir sína útreikninga á nýju verðmati hlutafjárs HS sem reiknast nú á um 18 - 20 milljarða króna og að hlutur Reykjanesbæjar sé því 7,2 - 8 milljarðar en sé hins vegar bókfært mun lægri eða um 5,1 milljarður króna við síðustu áramót.

Í ársreikningi fyrir árið 2004 kom fram að að eigið fé bæjarsjóðs Reykjanesbæjar væri 3,5 milljarðar í árslok.

Hér er að sjá þegar stuðst er við eigið fé bæjarins í ársreikningi annars vegar og svo eigið fé hans vegna HS hins vegar í hlutabréfum upp á 5,1 milljarð króna, komi í ljós 1,6 milljarða skekkja í útreikningum sem þýðir að hlutabréf bæjarins í HS sem nemur þessum mismuni a.m.k. er veðsettur vegna lána frá fjármálastofnunum sem hefur þá eftir kokkabókum Þorsteins ríflegt veð fyrir þeim skuldum.

Nú er lag að fá okkur bæjarbúa til að trúa því að best væri fyrir okkur að selja hlutabréf Reykjanesbæjar í HS á nýja verðmatinu því, jú, þá myndum við græða 2,1 - 2,9 milljarða króna svona auka en fyrst verða Sjálfstæðismenn auðvitað að tryggja sér áframhaldandi völd á næsta kjörtímabili áður en farið væri að ræða þetta opinberlega. Þeir munu því trúlega nota nýja verðmatið í næsta ársreikningi til að sýna fram á betri stöðu í bókhaldi um eigið fé bæjarsjóðs.

Hér er ekki reiknað með að hr. Árni Sigfússon bæjarstjóri verði sérstaklega sendur út af örkinni af Sjálfstæðismönnum í kosningaferðalag með peningana sem yrðu þá teknir að láni út á þetta verðgildi.

Hér má því áætla að þetta svokallaða nýja verðmat sé í raun hálfvirði eða minna miðað við það verð sem einkavinir Sjálfstæðisflokksins myndu vilja sjálfir fá fyrir hlutabréfin í HS þegar þeir væru búnir að komast yfir þau. Í hvaða hæðum yrðu orkureikningarnir okkar þá?

Vegna þessa sem lýst er hér að ofan þurfum við að hafa vara á hvað meirihluti Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ ætli sér með hlut okkar bæjarbúa í HS.

Bæjarmálafélag Frjálslynda flokksins í Reykjanesbæ mun standa vörð um hagsmuni Reykjanesbæjar og að óskabarn okkar allra Suðurnesjamanna lendi ekki í gini hákarlanna sem nú þegar eru farnir að bíða eftir bráð sinni.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

Var oddviti Reykjanesbæjarlistans í Reykjanesbæ í sveitarstjórnarkosningunum 2006

Grein þessi birtist í Víkurfréttum 16. júní 2005

B.N. (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 12:13

7 identicon

Það er rétt að það komi fram að ég er ekki í Frjálsynda flokkinum. Forusta Frjáslynda flokksins vildi mig ekki í fyrsta sætið fyrir Frjálslynda í Reykjanesbæ þrátt fyrir að stjórn bæjarmálafélagsins ákvað svo. Þess vegna  fór í framboð fyrir Reykjanesbæjarlistann. Bæði þessi framboð náðu ekki árangri Sjálfstæðisflokkurinn fékk mjög góðan meirihluta eftir þessar kosningar Árni Sigfússon bæjarstjóri er kóngurinn á Suðurnesjum þar sem núna eru um 1200 manns atvinnulausir sem er hvergi meira á landinu.  

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 12:24

8 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Æ hann Hannes er svo mikið krútt og svo framsýnn. Og svo er hann svo mikið Nostradam. Ég er búinn að ráða hann í framtíðarstjórn eyríkisins. Hann verður PR og auðvitað sérslegur talsmaður Dabba þegar hann skellir á eftir sér í Seðlabankanum. Þaðan fer hann samt ekki fyrr en búið er að ganga endalega frá málum þar.

bra

Pálmi Gunnarsson, 4.12.2008 kl. 13:06

9 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég er með útskrift á viðtalinu á blogginu mínu. Þetta er stórmerk heimild.

http://gorgeir.blog.is/blog/gorgeir/

Hjálmtýr V Heiðdal, 4.12.2008 kl. 17:40

10 identicon

Komdu sæl Lára og kærar þakkir fyrir frábært blogg sem ég les reglulega! Tek undir með þér að Hannes hefur látið út úr sér alls kyns ,,vitleysu'' undanfarin ár og hann á ekkert erindi í bankaráð Seðlabankans enda hvorki hlutlaus né fagmaður á þessu sviði. Hannes skrifaði t.d. greinina ,,Íslenska efnahagsundrið'' í NY Times. 

Á hinn bóginn þá verðum við að passa okkur að kenna frjálshyggju um vandræðin á Íslandi - það má jafnvel halda hinu andstæða fram. Í mínum bókum eru hvorki framsóknar- né sjálfstæðisflokkur hægri flokkar, sjálfstæðisfl. er kannski rétt örlítið hægra megin við miðjuna.

Að mínu mati var siðleysi og kunnáttuleysi stjórnmálamanna (allra flokka, nema kannski síst vinstri grænna) sem olli því hve lélegt eftirlit var með fyrirtækjum og regluverk slakt á Íslandi. Og mikil handstýring stjórnmálafólks á hagkerfinu með ríkisstofnunum (s.s. Landsvirkjun, Íbúðalánasjóður, Orkuveitan, Vegagerðin o.s.frv.) olli hinni miklu þenslu sem er stærsti þátturinn í því hve há verðbólga sligar nú almenning og fyrirtæki. Ekki má gleyma slakri fjármálastjórn fjármálaráðherra í þenslusögunni. 

Ef hið opinbera á allar þessar stofnanir áfram, sem og bankana, þá munu rússibana hagsveiflur halda áfram á Íslandi enda eru stjórnmálafólk og enginn mannlegur máttur þess megnugur að geta handstýrt hagkerfi með þessum hætti. Þegar ofan á leggst slæmt siðferði, fjögurra ára kjörtímabil og slök vinnubrögð þá lendum við í vandræðum. 

Við skulum því ekki fella sleggjudóma gegn einkareknum fyrirtækjum, því ekki viljum við hengja bakara fyrir smið.  Í flestum tilfellum er farsælast að láta fyrirtækjum eftir að skapa hagnað í stað þess að beita þeim í stjórnmálalegum tilgangi.

björn hauksson (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 19:47

11 Smámynd: Runólfur Jónatan Hauksson

Nennti ekki að lesa færsluna en sá að þú leitar rjúpna.

Stæðsti svartamarkaðs síðan á netinu er víst barnaland. Þar hefi ég séð auglýstar rjúpur, framhjálandaðan humar og margt annað. Prófaðu að auglýsa eftir hvítum hænsfuglum þar, en mig grunar að stykkið seljist á svona 3000-7000 krónur.

Runólfur Jónatan Hauksson, 4.12.2008 kl. 21:09

12 Smámynd: Sigurður Hrellir

Mikið er ég feginn að hvorki Landsbankinn né Kaupþing buðu mér með í þessar fínu veislur. Ég er hræddur um að eftirbragðið hafi orðið heldur rammt þegar leið fram á hausið 2008.

Ekki sá Háskóli Íslands ástæðu til að veita Hannesi Hólmsteini áminningu fyrir ritstuld sem hann þó klárlega varð uppvís að. Trúlega hefur hann notað svipaðar aðferðir í ritum sínum um frjálshyggju og einkavæðingu án takmarkana án þess að upp hefði komist. Það er hreinlega spurning hvort að maður geti verið slíkum manni reiður fyrir að hafa mengað heilt stjórnkerfi og komið þjóð sinni á kaldan klaka.

Sigurður Hrellir, 4.12.2008 kl. 21:44

13 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég átti við að mengað stjórnkerfið hefði komið þjóðinni á kaldan klaka.

Sigurður Hrellir, 4.12.2008 kl. 21:46

14 identicon

Eftir Scala-heimsóknina var ég alltaf á leiðinni að skipta um banka. Hefði átt að láta telja peningana mína yfir borðið eins og sumir, og barið mér á brjóst. En endaði hins vegar í því hjá þjónustufulltrúanum í að hann fékk mig til að eyða frekar meir í sparnað, hvað ég gerði, en allir vita hvernig það endaði. Er ekki geðluðra tískuorðið í dag. Ég líka geðluðra að hafa látið þetta allt yfir mig ganga, ég er ekki saklaus frekar en aðrir.

Hermann (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 22:02

15 Smámynd: Víðir Benediktsson

þvílíkur grasasni sem maðurinn er. Svo var þetta frjálshyggjulið gapandi af undrun yfir því að venjulegt fólk kokgleypti ekki boðskapinn.

Víðir Benediktsson, 4.12.2008 kl. 23:14

16 identicon

Hannes Kiljan Gissurarson, dýrasta djásn Háskóla Íslands, er svo gjörsamlega utangátta, að hann verðskuldar ráðherraembætti í utangáttaríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Áfram Hannes ! 

Rómverji (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 23:30

17 identicon

"Kom on" Hver tekur mark á Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni? Ég er af þeirri kynslóð að ef ég þarf nauðsynlega að rekast á viðtal við Hannes eða reka augun í greinar sem hann skrifar og svo framvegis, þá nenni ég ekki að lesa bullið í honum, hugsa bara ok hann er enn að. Mér finnst leiðinlegt að hugsa svona, því Hannes er jú manneskja og hefur rétt á að tjá sig. En að taka mark á því sem hann segir. Ó, nei, aldrei í lífinu. Svo - hvað er málið með það þó hann tali og tali og tali? Eða skrifi og skrifi og skrifi?  Hann getur það mín vegna. En að fara að básúna eða þyrla upp ryki yfir því, það er ferlegt. Allavega hef ég valið að hunsa það allt. Leyfum honum bara að gaspra og gapa, það er hans réttur. "Kom on" eins og sagt er á "góðri" íslensku.

Nína S (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 23:33

18 Smámynd: Víðir Benediktsson

Það er samt alveg með ólíkindum hvað fjölmiðlar hafa mikinn áhuga á honum. hann er greinilega athyglissjúkur og virðist komast í alla umræðuþætti sem hann kærir sig um.

Víðir Benediktsson, 4.12.2008 kl. 23:47

19 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Mér finnst nokkuð gott að boðið var á áhorf á Don Kíkóta í Skala óperunni....og svo að Babette kokkurinn kom af krókódíla veitingastað.

Anna Karlsdóttir, 5.12.2008 kl. 00:17

20 identicon

Auðlindirnar, lífeyrissjóðirnir, allt gert VEÐHÆFT og  FÆRT Í HENDUR Á EIGENDUM, þá fóru að „myndast“ peningar. „Svo fóru víkingarnir með þetta fjármagn út“. „Höldum áfram, gefum í“. „Gerum þetta ekki að trúaratriði“. Oft ratast kjöftugum satt á munn. Svo talar þetta um lýðræði, lítilmagna og mannréttindi. Mig langar til að gráta.

Solveig (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 01:05

21 identicon

Ég er sammála Birni Hauksyni um getuleysi ríkisstjórnar okkar. Er núna stödd í Frakklandi og var svo lánsöm að hitta konu í kvöld sem er öldungardeildarþingmaður (socialist) og átti hún ekki orð yfir því ástandi sem ríkir hér á landi og spurði mig : Hvar ætlar þetta að enda? Ég tek fram að hún var mjög reið Bretum fyrir óréttlætanlegar aðgerðir í garð okkar Íslendinga en helst var hún gáttuð á því hvernig þetta gat farið svona.

Er til eitthvað ráð ? Getum við gert eitthvað til þess að rétta kjölinn ? Eigum við að láta ríkisstjórnina selja bankana erlendum aðilum án þess að fá að vita hvað þeir fá með í kaupbæti ? Eigum við að láta þá halda áfram að hreinsa öll gögn þannig að ekki verði hægt að rannsaka neitt ? Eigum við að láta þá halda áfram að hugsa um sína eigin hagsmuni og gleyma almenningi í leiðinni ?

Svona gæti ég haldið áfram endalaust en ég hef trú á fólkinu og er þess viss að við látum þetta ekki gerast án þess að mótmæla. Ef þessir óhæfu menn halda áfram tel ég að við munum ganga lengra til þess að sína þeim að ekki er hægt að bjóða okkur meiri leðju til að festa okkur í. Því fyrr því betra því þegar við verðum orðin föst í leðju þeirra getur verið erfitt að rífa sig laus aftur !

Lilja (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 01:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband