12.12.2008
Kona er nefnd...
Ég sá viðtal við hana í sjónvarpinu fyrir tveimur eða þremur árum hjá Evu Maríu. Konan heillaði mig gjörsamlega. Ég man ekki eftir viðlíka upplifun af bláókunnugri manneskju. Persónutöfrar hennar, eðlisgreind, gáfur og heilbrigð skynsemi gneistuðu í gegnum skjáinn og inn á gafl hjá mér. Hún talaði um lífið eins og gestir Evu Maríu gera, barnæsku, unglingsár, námsárin í Bandaríkjunum, störf þar og lífið eftir heimkomuna. Ég hafði aldrei heyrt konunnar getið og mér lék mikil forvitni á að vita hver hún væri.
Í viðtalinu kom fram að hún hafi unnið um tíma hjá fyrirtæki þar sem ég þekki til. Ég spurðist fyrir og það var eins og við manninn mælt - þeir sem ég spurði fengu stjörnur í augun þegar ég minntist á hana. Allir söknuðu hennar þótt hún hafi staldrað stutt við, allir dýrkuðu hana og dáðu, sögurnar af henni voru stórkostlegar. Miðað við áhrifin sem hún hafði á mig eftir eitt sjónvarpsviðtal kom það ekki á óvart.
Nokkru seinna var ég í stóru hófi og var kynnt fyrir þessari konu. Ég hrósaði henni fyrir viðtalið og hafði orð á því að ef hún einhvern tíma stofnaði eigin fyrirtæki myndi ég gjarnan vilja vinna hjá henni. Til að árétta að mér hefði verið alvara sendi ég henni tölvupóst daginn eftir og fékk vingjarnlegt svar. Kannski fór hún hjá sér og þótti þetta óþægilegt, hver veit? Kona þessi stofnaði eigið fyrirtæki eins og ég vissi að hún myndi gera, en hún hefur ekki ennþá boðið mér vinnu og ég ekki sótt um. Ég er ekki viss um að bransinn hennar henti mér.
Mér varð hugsað til þessarar konu í kvöld eftir aulahrollinn sem ég gagntók mig við að hlusta á viðtalið við forstjóra Fjármálaeftirlitsins í Kastljósi og aumt yfirklór hans um spillingar- og krosstengsl banka, skilanefnda og endurskoðenda. Þvílíkur munur væri nú ef þessi kona væri þar við stjórn en ekki þessi flóttalegi, óöruggi, hálfstamandi maður sem er svo gjörsamlega vanhæfur í starfi að manni hrýs hugur við þeim völdum sem hann hefur í krafti embættisins. Þetta er það sem hefst upp úr pólitískum mannaráðningum þar sem flokksskírteini er rétthærra en hæfni og hagsmunir Flokksins látnir ganga fyrir hagsmunum þjóðarinnar.
Hér eru nokkur myndbrot með viðtölum við konuna en því miður á ég ekki áðurnefnt viðtal sem ég sá fyrst. Það var gjörólíkt þeim sem birtast hér að neðan, ekkert rætt um pólitík eða fjármál. En ímyndið ykkur það sama og ég - mynduð þið treysta henni betur fyrir allri þeirri ábyrgð og því valdi sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins hefur? Eða Seðlabankanum? Ég óttast mest að hún hafi engan áhuga á embættum ríkisins.
Konan heitir Halla Tómasdóttir og stofnaði og rekur ásamt fleiri konum fjárfestingarsjóðinn Auður Capital. Hún hefur unnið að því, og fengið viðurkenningar fyrir, að stuðla að jafnrétti og var ein frumkvöðla að verkefninu Auður í krafti kvenna hér um árið. Ég veit ekki hvort Halla er flokkspólitískt þenkjandi eða starfandi í stjórnmálaflokki en mér er alveg sama. Sem einstaklingur er hún geysilega öflug manneskja sem ég myndi treysta. Gott dæmi um ástæður þess að hafa persónukjör í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna - þvert á lista. Hlustið á Höllu í þessum myndböndum.
Hádegisviðtalið á Stöð 2 - 14. mars 2008
Markaðurinn hjá Birni Inga 15. nóvember 2008
Takið sérstaklega eftir hvað Halla segir um stjórn Seðlabankans og varamannssetu sína í henni
Kastljós (ásamt Óla Birni) 18. nóvember 2008
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:47 | Facebook
Athugasemdir
Mæl þú kvenna heilust. Tek undir þetta með Höllu, geislandi persónuleiki, eldklár og með fókusinn á réttum málum. Já það er til nóg af eldkláru, frambærilegu og heiðarlegu fólki á Íslandi til að skipta út spillingaliðinu eins og það leggur sig. Það hefur sýnt sig á þessum stutta tíma síðan hrunið varð og á eftir að koma enn betur í ljós.
Þröstur Ingólfur Víðisson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 00:53
takk fyrir allt þú ert bloggari aldarinnar þó víðar væri leitað.
Stjórn SÍ er rammpólitísk og þessi koma er örugglega fyrir sjálfstæðisflokkinn þar en rekst örugglega illa í flokki því að í sjálfstæðisflokknum er nauðsinlegt að géra allt fyrir flokkinn líka að drepa kjósendur flokksins ef það hentar flokknum
Tryggvi (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 01:12
Áhugaverð kona og hún á lausnir sem gætu bjargað okkur. Uppstokkun, og nýjar stefnumarkanir. Ég gæti treyst þessari konu.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.12.2008 kl. 02:16
Eftir þessi viðtöl við Höllu er ég enná sannfærðari en áður um að setja þarf á neyðarstjórn strax sem situr fram að kosningum í vor. Stjórn sem skipuð er fulltrúum allra flokka á þingi en forsætis- fjármála og viðskiptaráðherrar utanþingsfagmenn. Þarna er kominn verðugur fulltrúi í þá stjórn en það gæti orðið erfitt að fá svona fagmenn í starfið nú - tveimur mánuðum of seint.
Já það er til nóg af eldkláru, frambærilegu og heiðarlegu fólki utan þings en verulegur skortur á svoleiðis innan þess.
sigurvin (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 02:17
Halla talar svo hratt og er svo eldklár, að ég mun þurfa að hlusta á þetta lágmark tvisvar í viðbót til að geta grandskoðað þennan gífurlega fjársjóð sem hún á til í heila og hjarta. Ja, margt hefur fram hjá mér farið öll þessi ár sem ég var að sinna öllum "hinum" verkefnunum. Ég hef þó alltaf næstu líf til að bæta það upp. En,
"HÉR OG NÚ" !
Mannauður okkar er mikill, svo það er ekki vandamálið. Og nú ætla ég að taka algjörlega nýja stefnu. Ég ætla að hætta að segja OF SEINT. Í staðinn - ÞAÐ ER ALDREI OF SEINT. Ég útskýri seinna af hverju. Orðin þreytt. Klukkan orðin korter í fimm að morgni. Uss. En, ALDREI OF SEINT. Góða nótt og góðan dag
ps. takk enn og aftur, Lára Hanna.
Ingibjörg SoS, 12.12.2008 kl. 04:56
Er ekki enn sofnuð. Þurfti að vinda ofan af mér, - var orðin yfir mig þreytt. Búin að fá mér mér flóaða mjólk og brauðsneið með lifrarkæfu - róandi og svæfandi - lifrarkæfan líka, - allavega fyrir mig. Mismælti mig í ofþreytunni. Ætlaði að segja; BETRA ER SEINT EN ALDREI.
Ingibjörg SoS, 12.12.2008 kl. 05:35
Hún er ágætlega þjálfuð í að koma vel fyrir og talar eins og hún hafi vit á hlutunum. Það er síðan spurning hvað það ristir djúpt.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 06:43
Eftir að hafa hlustað á Höllu, hugsar maður "Jáh, kannski getum við gert gott Ísland eftir allt". Það sem hún hefur umfram þá gömlu sem stjórnað hafa, er ferskleiki og framtíðarsýn ásamt bjartsýni. Síðan hefur hún siðferðiskennd en það er kennd sem virðist hverfa eftir nokkurra ára setu í stjórnmálum.
Ég vil sjá Höllu leiða okkur inn í framtíðina.
Anna Einarsdóttir, 12.12.2008 kl. 07:42
Ég er að leita mér að traustum viðskiptabanka, er Auður komin í slaginn?
Berglind Steinsdóttir, 12.12.2008 kl. 07:51
Ég vann með Höllu í HáErr. Ég og konan mín myndum bæði treysta henni í hvað sem hún tekur sér fyrir hendur.
Kári Harðarson, 12.12.2008 kl. 08:37
Hún er óumdeilanlega ein af þeim einstaklingum sem að ætti fullt erindi í þjóðstjórn. Eldklár eins og allir segja og þessutan strangheiðarleg ætla ég að leyfa mér að fullyrða.
Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 08:42
Sæl vertu Lára Hanna.
Það vill þannig til að ég hef haft þá gæfu að vera vinur Jónasar Friðriks Jónssonar sl. 25 ár. Jónas er lögfræðingur frá HÍ, hefur meistaragráðu í lögfræði frá Cambridge og MBA frá háskólanum í Leuven, Belgíu - ef einhver er hæfur til að vera forstjóri Fjármálaeftirlitsins þá er það Jónas. Ég þekki Jónas af engu öðru en að vera grandvar og harðduglegur í sínum störfum.
Satt að segja ofbuðu mér algerlega sleggjudómar þínir í þessu bloggi um mann sem þú þekki örugglega ekkert persónulega, og hefur örugglega aldrei unnið með. Nú fer í gang, og þó fyrr hefði verið, opinber rannsókn á öllu ferlinu er leiddi til hruns bankanna - vonandi verða niðurstöður þeirrar rannsóknar klárar sem allra fyrst.
Hlynur Grímsson
Hlynur Grímsson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 10:12
Viðtalið við Höllu hjá Binga er MÁNAÐAR gamalt. Hún talar um VIKU í viðbót til bjargar. Nánast EKKERT hefur gerst síðan og Íslandi blæðir út...
Ásgeir Kristinn Lárusson, 12.12.2008 kl. 10:14
Ég er þér svo innilega sammála. Hún hreif mig líka upp úr skónum. Auðvitað eigum við fullt af flottu fólki sem því miður velur sér ekki pólitískan vettvang. Enda þá værum við að tala saman um allt aðra hluti. Ég hrífst af Guðfinnu sem að vísu er sjálfstæðiskona en held að ef hennar líkir væri fleiri inni á þingi þá væri þjóðfélagið betra.
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 10:26
Þið verðið að passa ykkur....oflof er háð. Og þá skiptir engu máli hvort verið er að ræða Höllu eða Jónas.
Enn sem komið er hefur ekkert reynt á Auði Capital. Þær fóru í loftið þegar niðursveiflan var vel á veg komin og þær tóku eðlilega mjög varfærna afstöðu og eiga enn eftir að sanna sig við þær aðstæður að vera dæmdar ekki síður af því sem þær gera en því sem þær gera ekki.
Menntun Jónasar segir mér ekkert um hæfi hans í þessu starfi. Hann er lögfræðingur en ekkert þarna sem bendir til þess að hann hafi nokkra þekkingu á fjármálakerfinu eða fjármálamörkuðum. MBA gráða er tekin á einu ári og er fyrst og fremst ,,endurmenntun" fyrir þá sem hafa grunnmenntun á öðru sviði og ætlað til þess að gera þá mellufæra í stjórnun. Ég veit ekki til þess að Jónas hafi nokkra starfsreynslu úr fjármálafyritæki sem er eiginlega eina leiðin til þess að vega upp á móti skorti á menntun á þessu sviði.
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 10:42
Ég vil benda á að ég er að tala um Höllu Tómasdóttur sem manneskju, ekki fyrirtækið sem hún stofnaði og stýrir. Um það veit ég mest lítið og nefndi það aðeins til að benda á hvar Halla vinnur núna. Ef pistillinn er oflof eins og Magnús nefnir þá er hann ekki meintur þannig. Eflaust hefur Halla sína galla eins og við öll og eins og fram kemur í pistlinum þekki ég hana ekki persónulega - aðeins úr fjarlægð og hún virkar vel á mig.
Við Hlyn Grímsson vil ég segja þetta: Þú getur talið upp tuttugu prófgráður í hvaða fögum sem er og skreytt Jónas Friðrik með þeim. Það breytir engu um það að maðurinn hefur staðið sig afspyrnuilla í starfi sínu sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins og á í stökustu vandræðum með að svara fyrir verk sín þar. Það er alveg sama hvar borið hefur niður upp á síðkastið - alls staðar kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi brugðist. Svo einfalt er það. Þetta kemur því ekkert við hvort Jónas er góður drengur eður ei og ég óttast að þessi svokallaða opinbera rannsókn verði í skötulíki og niðurstöður berist allt of seint.
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.12.2008 kl. 12:47
Halla er ein af okkar skærustu vonum, finnst mér, hef dáðst að henni í fjarlægð í langan tíma.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 12.12.2008 kl. 13:44
Við eigum fullt af hæfu fólki.... verst að ekkert þeirra er að finna fremst í víglínunni núna. Halla myndi sóma sér vel í FME
Hér talar Hlynur um sleggjudóma í garð Jónas Friðriks! Það finnst mér óstjórnlega fyndið! Það getur vel verið að það sé gaman að vera vinur hans. Getur líka meira en vel verið að hann sé góður vinur vina sinna. En hann er ótrúlega lélegur sem forstjóri FME
Heiða B. Heiðars, 12.12.2008 kl. 14:03
Halla er ein af MÖRGUM hæfum einstaklingum sem gætu mynda flotta heild.
Heildin skiptir máli.
Jenný Anna Baldursdóttir, 12.12.2008 kl. 16:05
Halla kenndi mér mannauðsstjórnun í HR og hún var frábær kennari, klár, skemmtileg og ein af þessum manneskjum sem á auðvelt með að hrífa aðra með sér. Tek undir með Kára að ég myndi treysta henni í flest og eins og Lára held ég að það hljóti að vera forréttindi að vinna hjá henni.
Svala Jónsdóttir, 12.12.2008 kl. 17:26
Sallafínn viðskiptaráðherra í utanþingsstjórn. En þú ert maður ársins, Lára Hanna.
Rómverji (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 18:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.