Þagað í háværum, hljómmiklum kór

Austurvelli 13.12.08Ég þagði í 17 mínútur á Austurvelli í gær og fór létt með það. Ég er nefnilega jafnvíg á hvoru tveggja - að þegja og tala. Ég heyrði lágværar raddir pískra af og til og ég heyrði ekki betur en að það væru allt karlaraddir, þvert á goðsögnina. En andrúmsloftið var alveg einstakt... svolítið rafmagnað og þrungið einhverju sem ég kann ekki að skýra. Samkennd, kannski. Það var að minnsta kosti hávær og og mikill hljómur í þessum þögla kór. Þegar ég kom voru ekki margir mættir en svo dreif fólk að úr öllum áttum rétt fyrir þrjú og ég gæti vel trúað að um 1.500 til 2.000 manns hafi verið á Austurvelli. Mér fannst það fínt - en hvar voruð þið hin?

Það var vel til fundið hjá Herði að lesa upp ártal á mínútufresti, frá 1991 til 2008. Táknrænt fyrir efnahagsstjórn Flokksins sem hefur átt stærstan þátt í að steypa þjóðinni í glötun - en ekki hjálparlaust. Hinn Flokkurinn átti sinn þátt í því og þriðji Flokkurinn blandast æ meira í málið. Eftir að þagnarstundinni lauk var Neyðarstjórn kvenna með uppákomu þar sem þær brenndu ja... feðgaveldið eins og stóð á einu skiltinu þeirra og væntanlega voru þær að vísa í synina (t.d. Árna Mathiesen og Björn Bjarnason) sem þykjast eiga tilkall til valda bara af því þeir eru synir feðra sinna. Eða Bjarna Ben sem nú virðist ætla að gera tilkall til forystu í Flokknum með nafnið eitt að vopni og ættina undir sér. Ég get ekki séð að hann hafi neitt það til að bera sem gerir hann hæfan í valdastól að eigin verðleikum. Ef svo er hefur það farið alveg fram hjá mér. Kannski afsannar hann það ef töggur eru í honum. En eitt má hann eiga - hann hefur þorað að viAusturvelli 13.12.08ðra skoðanir sem eru í andstöðu við borðorð Davíðs. En aldrei einn. Nei, aldrei einn - alltaf í slagtogi við Illuga Gunnarsson, félaga sinn.

Það er fróðlegt að renna yfir skrif fólks um þessa atburði dagsins og mótmælafundina almennt. Sumir eru harðákveðnir í að eitthvert pólitískt afl sé á bak við fundina sem Hörður Torfason hefur skipulagt 10 laugardaga í röð. En ég veit fyrir víst að svo er ekki og er því sallaróleg yfir slíku bulli. Svo virðast aðrir hafa túlkað aðgerðir kvennanna þannig að þær beinist gegn forræðislausum feðrum af því orðið "feðraveldi" var nefnt í fréttum. Ég komst ekki nógu nálægt tunnunni sem kveikt var í til að heyra það sem þar var sagt en nógu nálægt til að sjá orðið "feðgaveldi" sem er auðvitað allt önnur merking. Auðvitað er fráleitt að forræðislausir feður hafi á neinn hátt verið skotspónn þeirra. En svona er fólki stundum mikið í mun að mistúlka alla hluti.

Maður einn fer mikinn þessa dagana og vikurnar, heim kominn úr sjálfskipaðri útlegð og alltaf með fulla vasa fjár sem enginn veit hvaðan kemur. Hann þenur sig á bloggsíðum, vefsíðum og í fjölmiðlum og fárast yfir því að fá ekki að ryðjast inn á fundi eða upp á svið og láta ófriðlega eins og er hans vandi. Hann virðist ekki skilja að fólk almennt vill ekkert með hann hafa, hefur fengið nóg af honum og að hann er hvergi velkominn... í það minnsta óvíða. Hann skilur ekki að hann er óvelkominn en reynir að ryðjast áfram með offorsi, valta yfir allt og alla og eys síðan aur, skít og lygum yfir fólk þegar það tekst ekki. Undarlegur andskoti. Ég held að flestir viti um hvern ræðir og mér finnst furðulegt hvað fjölmiðlar eru viljugir að tala við hann - vitandi allt um manninn.

Hér er umfjöllun sjónvarpsstöðvanna af fundinum í gær. Myndirnar með færslunni finnst mér eiginlega ómögulegar, því ég er ekki nógu há í loftinu til að fá betri yfirsýn yfir fundarmenn. Ég stóð um stund við hlið Geirs Jóns við myndatökuna, sem er með hávaxnari mönnum, og datt í hug að biðja hann að taka mig á háhest - en kunni ekki við það. Veit ekki hvernig hann er í bakinu, blessaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Idda Odds

Þetta er mögnuð aðferð til mótmæla. Það er hægt að segja mikið með fáum orðum en enn meira með engum. hvað er magnaðra en borgarinn sem stendur fyrir framn þinghúsið og lætur í ljós andstöðu sína með þögninni.

Afmáum ósómann

idda

Idda Odds, 14.12.2008 kl. 02:00

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Sá eini sem mér dettur í hug er fyrrverandi friðarpostuli og fyrrverandi forsetaframbjóðandi.  Ég held að manninum sé ekkert heilagt.  Alltaf að reyna að verða mikill maður en það virkar aldrei hjá manngarminum

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.12.2008 kl. 02:00

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þetta var áhrifamikil stund við Alþingishúsið í dag.  Mér fannst mætingin bara þokkaleg miðað við kulda og það að fólk er að nýta helgarnar í jólaundirbúning.

Hólmdís Hjartardóttir, 14.12.2008 kl. 02:31

4 Smámynd: Víðir Benediktsson

Ég var nú bara fyrir norðan að leita að hundinum mínum.

Víðir Benediktsson, 14.12.2008 kl. 02:54

5 Smámynd: Baldvin Jónsson

Tek undir með Iddu, mér fannst þetta sterk stund. Ekkert okkar getur eytt orkunni í að þusa yfir að hafa ekki fílað einhverja ræðumanna eða kvenna meðan að mótmælt er með þögn.

Þessi mótmæli styrktu samstöðu okkar, engin spurning.

Baldvin Jónsson, 14.12.2008 kl. 02:56

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég skal hnippa í þig næst þegar ég sé þig. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.12.2008 kl. 02:56

7 Smámynd: Steingrímur Helgason

Lítilvægt, en verður ekkert um hjalað & öllum er líklega nákvæmilega jafn sama um.   En góð velmeindandi meiníng, efalauzt.

Sterk stund, jamm. einmitt.

Fínt samfó á aðventunni ...

Halló þarf ekki að bjarga einhverjum Hvölum einhverstaðar

Allir í sund !

Steingrímur Helgason, 14.12.2008 kl. 03:12

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Þetta var góð stund og sterk. Mér finnst ég búin að segja allt sem þarf útaf ástandinu í bili og þögnin getur verið öflugt vopn. Fjölbeyttur og góður hópur sem þarna var samankominn og það var næstum hægt að finna ilminn af samstöðunni og innri krafti þessarar þjóðar sem ætlar ekki að láta bugast. Bara alls ekki. Takk öll þið sem vorðuð þarna og hafið sýnt samstöðuna hvernig sem viðrar hvern laugardag. Og þið sem hafið staðið vaktina og séð um skipulag og framkvæmdir. Við eigum ykkur mikið að þakka. það er nefninlega ekkert sjálfgefið að svona fylkingar verði til nema einhver komi þeim af stað eins og Hörður Torfa hefur gert og fleiri. Og Lára Hanna mín..þú ert kona ársins að mínu mati fyrir allt sem þú hefur lagt að mörkum með þessari bloggsíðu þinni og þeirri miklu vinnu sem þú leggur í að koma til okkar hinna upplýsingum sem fara fyrir ofan garð og neðan hjá öðrum.

Eigðu frábæran sunnudag!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 14.12.2008 kl. 08:20

9 Smámynd: Einar Indriðason

Var á svæðinu.  Mögnuð stund.  En skemmdi samt aðeins fyrir að það mættu þarna tveir eða þrír drukknir einstaklingar og voru með hávaða og læti.

Var á stéttinni milli styttunnar af Jóni Sig, og Alþingishúsinu.  Lára Hanna, ég þarf nú að fara að hitta á þig, svo ég geti farið að taka í hendina á þér!

Einar Indriðason, 14.12.2008 kl. 09:35

10 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Það átti sér stað táknrænn atburður í lok Þagnarinnar fyrir framan Hótel Borg. Vökubíll dró af vettvangi „Game-Over bíl, sem lagt hafði verið ólöglega...

Setti mynd af þessu á mína síðu.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 14.12.2008 kl. 10:29

11 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég mætti ásamt Heidi og Matta, þetta var fín stund og vel heppnuð.

áfram Hörður. 

Óskar Þorkelsson, 14.12.2008 kl. 10:46

12 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Mótmæli ? ekki varð ég var við kröftug mótmæli í gær, það var þögn á Austurvelli. Ég held að það skili engu, að standa þar eins og aular, starandi á tærnar á sér. Ef þögnin er mótmæli, eru þá ekki líka þær raddir sem eru þagnaðar vegna landflótta, mótmæli ? Hver verður var við þær ? Eða þá dauðu, því þeim á eftir að fjölga ? Ef þögnin er mótmæli, þá mótmæltu 320.000 manns "hástöfum" í gær ! Þeir voru annars staðar, og ekkert heyrðist í þeim.

Börkur Hrólfsson, 14.12.2008 kl. 12:14

13 Smámynd: Hlédís

Börkur! þú skrifar sjálfur í bloggi að á fundinum hafi verið "ærandi" þögn. Það er þónokkuð!  Ég býst við að fjarvera - og þar af leidd "þögn" landflótta fólks verði einnig merkjanleg.

Hlédís, 14.12.2008 kl. 13:10

14 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

á blaðinu sem manneskjan í gulu úlpunni setur í tunnunna, í fréttinni, stendur skýrum stöfum feðraveldi

Brjánn Guðjónsson, 14.12.2008 kl. 13:11

15 Smámynd: Hlédís

Brjánn!   Feðra-og feðga-veldið hverfur að vísu ekki endanlega on'í eitt lítið olíufat.          Þarna var sett fram táknræn ábending um hvar VALDIÐ heldur sig.  Meðan jafnvel ríkiskirkju-GUÐIÐ hefur typpi og grátt skegg í huga meirihluta fólks - er ærin ástæða til að benda á ösköpin

Hlédís, 14.12.2008 kl. 13:26

16 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir þessa færslu Lára Hanna. Hún setti mig enn betur inn í það hve mögnuð þögnin á Austurvelli hefur verið. Ég tek annars undir það með Katrínu að þú ert tvímælalaust kona ársins. Ég er búin að setja mér það verkefni að nýta jólafríið m.a. til að fara vel og vandlega yfir allar heimildirnar sem þú hefur safnað fyrir okkur hin hingað inn á bloggið þitt. Þetta er ómetanleg vinna sem þú hefur lagt á þig sem við fáum þér seint fullþakkaðar.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.12.2008 kl. 13:27

17 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ég þagði með ykkur hér heima í gær og hugsaði til ykkar allra.

Hlýjar kveðjur héðan úr sveitinni. 

Ía Jóhannsdóttir, 14.12.2008 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband