Litið um öxl á orð, efndir, álit og yfirlýsingar

Lesendur þessarar síðu vita að mér finnst oft fróðlegt að líta um öxl. Rifja upp orð, efndir, álit og yfirlýsingar, bera saman og spá í hver hefur haft rétt fyrir sér og hver rangt - og hvað er á bak við orð manna. Upphaflega ætlaði ég aðeins að birta tvö myndbönd en þetta vatt upp á sig. Ég á svo mikið efni í gullakistunni að erfitt er að velja og hafna.

Lítum til að byrja með á nýársávarp forsætisráðherra frá 31. desember 2007, fyrir næstum ári síðan. Eðli slíkra ávarpa er að vera innihaldslaust, upphafið, staðlað kjaftæði um allt og ekkert og þetta ávarp er engin undantekning. Eftir hálfan mánuð fáum við nýtt ávarp. Það þarf ekki að vera spámannlega vaxinn til að vita hve gjörólíkt það verður. Í þessu nýársávarpi er tæpt á öllu þessu klassíska blaðri = við erum svo góð í náttúruvernd (kanntu annan, Geir?), orkan okkar er svo hrein og endurnýjanleg (meðvituð lygi), efnahagurinn er mjög traustur (W00t), sama, gamla mærðin um tungumálið, rithöfundana sem varðveita það o.s.frv. sem er gleymt um leið og ávarpinu lýkur - sem sagt, allt er í góðu lagi = tómt bull. En... pöpullinn, sem enn lítur upp til valdsins og trúir því, er friðaður.

Hér er aftur á móti "áramótaávarp" Sigurjóns Þ. Árnasonar, þáverandi bankastjóra Landsbankans, frá 28. janúar 2008 - eftir ársuppgjör bankans. Hann lætur þess ekki getið að lokað hafi verið fyrir millibankalán til íslenskra banka um mitt ár 2007 og að þá hafi bankinn sótt eyðslufé í vasa sparifjáreigenda ýmissa landa með góðum árangri. Sigurjón fékk bónusinn sinn og bankinn græddi á pappírunum eins og sést á sjálfumglöðum svipnum á bankastjóranum. Takið sérstaklega eftir annars vegar kröfum Sigurjóns til stjórnvalda hvað "jákvæða umgjörð fjármálastofnana" varðar og hins vegar meðvirkni fréttamannsins og leiðandi spurningum hans. Hlustið líka á orð Sigurjóns um allt eftirlitið sem bankarnir þurfi að sæta sem nú hefur komið í ljós að var nákvæmlega ekkert. Ekki neitt. 

Það er varla hægt að hafa svona yfirlit án innkomu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Hann er fenómen sem, þrátt fyrir andstreymi, gefst aldrei upp. Gengur ekki af trúnni hvað sem á dynur. Fróðlegt væri að fá "einkaviðtal" við Hannes Hólmstein í Kastljósi eða Silfrinu núna og heyra skýringarnar og réttlætingarnar sem frá honum kæmu. Eða kannski uppgjöfina? En VARÚÐ - í Sjálfstæðisflokknum eru fjölmargir lærisveinar hans, þar af þó nokkrir á Alþingi. Þetta viðtal er frá 4. apríl 2008.

Þetta viðtal við viðskiptablaðamann hjá Daily Telegraph, Ambrose Evans-Pritchard, er mjög athyglisvert. Hann hefur bæði rétt og rangt fyrir sér - vitum við núna. En varla er annað hægt en að líta á orð hans sem alvarlega viðvörun. Hver hlustaði? Athugið aftur leiðandi spurningar og hvernig fréttamaðurinn kemur inn með sín prívatinnslög. Viðtalið er frá 27. júní 2008 og hvað var þá að gerast hjá íslenskum stjórnvöldum? Allir á leið í sumarfrí eða...?

Að lokum kemur neyðarlagaávarp Geirs Haarde, forsætisráðherra. Bara svona til upprifjunar. Gríðarlega mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta ávarp var flutt og daglega hefur verið grafinn upp þvílíkur spillingarskítur að það hálfa væri nóg. Lögfræðingar draga neyðarlögin í efa, enda samin undir pressu á örskömmum tíma, en það er alltaf gott að rifja upp - við erum svo fjári fljót að gleyma. Ávarpið er frá 6. október sl., fyrir 2 mánuðum og 9 dögum - og 9 mánuðum og 6 dögum frá nýársávarpinu.

Ég hef aldrei hampað Steingrími J., hugnast hann ekkert sérstaklega þótt ég viðurkenni fúslega að vera stöku sinnum sammála honum. En þegar ég rakst á þetta mátti ég til með að hafa það með sem nokkurs konar  "punchline" eða lokahnykk á færsluna. Eins og sjá má er þetta úr Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aron Ingi Ólason

það mætti raunar alveg bæta við þetta og byrja á frétt og viðvorun frá al ja zerra sem var tekinn upp í mars í fyrra vitnar í ýmsa seðlabankastjóra allt aftur til ársins 2006 en er fyrst byrt í ágúst 2007

Aron Ingi Ólason, 15.12.2008 kl. 06:26

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það er greinilegt að ekki hafa verið settar neinar takmarkanir á hvernig stórfyrirtæki og auðmenn þröngva sér upp á þjóðina.

Geir hefur ekki sýnt tungumálinu og merkingu þess mikla virðingu undanfarið. Kannski að hann ræði meira um tungumálið í næsta áramótaávarpi. Hann á kannski eftir að gefa út orðabók með frösunum sem hann notar svo við getum öll tekið okkur til og stýrt umræðunni af SÓMA.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 15.12.2008 kl. 07:36

3 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Ætli það sé komin ástæða fyrir því að ráðamenn virðast ekki heyra í okkur mótmæla, þeir einfaldlega skilja ekki íslensku?

Rut Sumarliðadóttir, 15.12.2008 kl. 08:17

4 identicon

Þú ert lang flottust. Takk fyrir þetta.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 11:07

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Já þetta eru merkilegar heimildir sem segja ótrúlega mikla sögu.

Nú er svo að skilja að álbræðsluhugsjón ýmissa landa okkar sé að bíða skipbrot: álbræðsluiðnaðurinn er greinilega að draga saman seglin og hefðu íslensk stórnvöld mátt gera það einnig. Nú þegir Landsvirkjun þunnu hljóði, sennilega eru greiðslur fyrir rafmagn jafnvel komnar niður fyrir kostnaðarverð. Og brátt kemur lokareikningurinn frá Imprégíló, það kæmi ekki sérlega á óvart að hann verði mjög vel smurður.

Svona í lokin: Framsóknarflokkurinn býður öllum „heldri“ framsóknarmönnum í kaffi. Hvað er átt við? Eru það þeir sem fylgja spillta genginu í Framsóknarflokknum, sem hefur ausið fé í kosningasjóðinn og síðan mátti helst ekki krefjast þess að stjórnmálaflokkarnir gerðu grein fyrir uppruna og notum þess mikla fjár sem þeir hafa undir höndum. Það gekk ekki hljóðalaust hérna um árið að benda á þessa miklu meinsemd.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.12.2008 kl. 11:31

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Auglýsingin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.12.2008 kl. 11:31

7 Smámynd: Guðmundur Björn

Hefur staðan ekki aðeins breyst síðan áramótaávarpið var flutt??? 

Guðmundur Björn, 15.12.2008 kl. 22:20

8 identicon

Ég held að þessi vefsíða sé sú besta á landinu. Þetta er frábærlega samansett og ótrúlegt að höfundur hennar skuli (ég gef mér það) ekki vera á fullum launum við þetta. Sú blaðamennska og núsagnfræði sem á sér stað hér er afburða. "Barn síns tíma" öðlast nýja merkingu hér, öll ummæli hægrimannanna eru barn síns tíma. Fréttamennskan er hlægileg, það er eins og fréttamaðurinn sé með spurningalista frá viðmælandanum og sé að ganga erinda hans (hvað varðar Sigurjón og Hannes Hólmstein).

Ég hvet þig til að halda áfram á sömu braut, þú verður maður ársins, hetja ársins og hvað þetta heitir allt í mínum huga amk.

Ívar Örn (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 23:02

9 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ehm... jú Guðmundur Björn, eitthvað soldið. Your point?

Lára Hanna Einarsdóttir...ég hef sagt það áður og ég segi það aftur...þessi bloggsíða þín er ómetanlegur miðill þessa dagana og ég get bara ekki þakkað þér nógu vel og mikið fyrir að standa í þessu

RISAknús :)

Heiða B. Heiðars, 16.12.2008 kl. 01:01

10 identicon

Áfram Lára! Frábært blogg!

Ari (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 02:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband