21.12.2008
Hávær þögn
Það er nú meira hvað þögn getur verið hávær. Ærandi. Það var hún svo sannarlega á Austurvelli í gær. Eiginlega háværari en púið að þögn lokinni. Mörg hjón eða pör kannast við það sem kallað er "the silent treatment" sem mun vera verri en nokkurt rifrildi. Ég trúi því alveg.
Eftir þögnina og púið hentu nokkrir skóm að Alþingishúsinu að Arabasið. Þótt það tíðkist ekki í okkar menningarheimi má líta á það sem táknrænt engu að síður. Við Massimo hans Harðar tókum þá skó sem lentu á gangstéttinni og röðuðum þeim snyrtilega á efri tröppur hússins með sólana upp. Svo kom maður með fullan poka af banönum og raðaði þeim álíka snyrtilega á neðri tröppuna. Líka táknrænt.
Skömmu seinna, á heimleiðinni, hitti ég gamlan vin minn og bekkjarbróður sem hefur mætt á alla fundina. Það er orðið ritúal hjá honum og tveimur vinum hans á laugardagseftirmiðdögum. Einn þeirra ber heimatilbúið skilti sem á stendur: "Út með ruslið!" Hann sagði að boð hefðu borist frá öllum bananalýðveldum heims þar sem þau frábiðja sér þá niðurlægingu að vera líkt við Ísland. Mér fannst það mjög skiljanlegt.
Ég er að spá í hvað ég á af mér að gera í dag - það verður ekkert Silfur! Egill er farinn í jólafrí. Kannski gefst loksins tími til að ná í aðventukransinn niður í geymslu og byrja að skreyta og kaupa jólagjafir. Ekki seinna vænna. Gísli bakaði smákökur og afaðist heil ósköp í gær eins og hann segir frá á blogginu sínu. Ég bað hann að selja mér smákökur af því ég hef ekki eldhúsgen, kann hvorki að elda né baka og slasa mig yfirleitt við eldhúsverk. Hann svarar mér kannski með tilboði og samþykkir að vera afi minn líka, enda held ég að hann sé heimsins besti afi.
En hér er sjónvarpsfréttaumfjöllun gærkvöldsins frá fundinum og nokkrar myndir sem ég tók og ein úr vefmogganum, skásta myndin sem ég fann í netmiðli. Annars eru fundirnir á Austurvelli orðnir eins og félagsheimili. Ég hitti alltaf fullt af góðu fólki sem ég ýmist þekki eða þekki ekki og kynnist þá bara. Það er hið jákvæða við þetta.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Samkenndin eykst með hverju fundi....................þetta hefur áhrif. Og nú skulum við jólast.
Hólmdís Hjartardóttir, 21.12.2008 kl. 01:45
Flottar myndir, fundurinn var mjög góður þó ekki væri hann fjölmennur.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.12.2008 kl. 01:49
Ég skal vera amma þín. Bara að hringja.
Jenný Anna Baldursdóttir, 21.12.2008 kl. 02:02
Söfnum orku og hugmyndum um jólin.
Mætum öll 27 des!!!!!
Gleðileg jól!
Heidi Strand, 21.12.2008 kl. 07:11
"Stjórnvöld óskast" - Frábært skilti!!
En já, það er svo sannarlega kominn tími á að snúa sér að jólavafstri núna. Er ekki sérlega afkastamikill í smákökubakstrinum sjálfur, en á árunum þar sem að ég bjó einn komst ég að því að margar þær tegundir sem seldar eru í verslunum eru bara stórfínar
Bara ekki kaupa þær af verslunum Haga
Baldvin Jónsson, 21.12.2008 kl. 09:38
500 manns í kulda rétt fyrir jol er bara nokkuö gott.Detti peningur ofan úr himnum á mig
þá mæti ég 27.des til að sýna samstöðu. Annars er min skoðun sú að leggja niður
flokkakerfið eins og það leggur sig hafa landið eitt kjördæmi og persónukosningar og
meðal frambjóðenda fólk sem hefur reynslu menntun og tillögur varðandi fyrirkomulag
íslensk hagkerfis næstu árin án þess að fjöldinn allur af almenningi missi vinnu,íbúð
verði gjaldþrota. Eins og allt stefnir í núna. Í stað þessa ð setja peninga í framkvæmdir
þá er dregið úr öllum framkvæmdum og með því ýtt stoöum undir alagera niðurlægingu
Íslendinga,:Það er eins og AGS vilji sjá okkur skríða með súpuskálarnar í stagbættum
fötum, menntunina lélega, því ekki má framleiða neitt eða fá nýsköpunarhugmyndir,
eigum við að vera algerir drulluskríðarar? Nei takk.Baráttukveðjur
Nína S (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 09:48
Mæti 27. des. Lára mín, upp með svuntuna (nei ekki þannig), og setja upp öryggisgleraugu og hlífðargalla og skella sér svo í jólatilstandið.
Rut Sumarliðadóttir, 21.12.2008 kl. 11:48
Enn og aftur þarf ég að þakka og fæ aldrei fullþakkað elju þína Lára Hanna.
Matreiðsla þín er í toppi hér á blogginu, svo mann hungrar í meira. Þetta eru ómetanlegar heimildir líðandi stundar á mannamáli og ég stend með þér út í eitt. Hef því miður ekki fengið leyfi til að vera úti í öllum veðrum, þó var ég stödd á Austurvelli á köldustu dögunum, þrátt fyrir bann.
Táknrænt mjög í gær og við öll erum hetjurnar í þögninni, þó sterkast sé að mæta á svæðið!
Með baráttukveðjum óska ég þér gleðilegra jóla, heilsu og hamingju í allri framtíð.
Eva Benjamínsdóttir, 21.12.2008 kl. 13:18
Eg er sammala ter. Eiit kjordaemi og faum ad kjosa folk ekki flokka. Skrapp heim um daginn. Mikid eru margir sarir og reidir. Hitti brodir minn og fekk hann ad ylja ser a hotel herbergi minu. Mikid hefur nu sorgin dunid yfir marga. En vid skulum ekki gefast upp i barattunni. Og sama hvada baratta hver og ein stendur fyrir. Latum Jolagledina hlyja okkur um hjartarraetur. Og bidjum Gud ad blessa okkur og landid okkar.
Anna , 21.12.2008 kl. 14:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.