Til hvers er Alþingi?

Frábær grein birtist í Fréttablaðinu í dag. Hún er eftir Njörð P. Njarðvík og er mjög sönn frá upphafi til enda. Þingræðið á Íslandi er fótum troðið, þingmenn eru eins og puntudúkkur sem segja það sem Flokkurinn leyfir, þegja um það sem Flokkurinn vill þagga niður og greiða atkvæði eins og þeim er fyrirskipað. Ákvæði 48. greinar stjórnarskrárinnar um að þingmenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína er hunsað algjörlega. Enda þingsætið í húfi, eða hvað? Þingmenn skirrast ekki við að svíkja bæði eigin sannfæringu og kjósendur sína til að halda þingsætinu í von um að fenni yfir orð, gjörðir og aðgerðaleysi. Þeir beygja sig undir ofurvald flokksforystunnar því aldrei má spyrjast að ólíkar skoðanir um hin ýmsu mál eigi heima undir kúrekahatti flokkanna þótt það sé í hæsta máta eðlilegt.

Til hvers er Alþingi - Njörður P. Njarðvík - Fréttablaðið 21. desember 2008

Hér er svo grein eftir Sverri Jakobsson sem birtist í Fréttablaðinu 29. febrúar sl. og fjallar um sama efni. Takið eftir tölunum sem Sverrir nefnir um að árið 2007 hafi ríflega 90% af samþykktum lögum á Alþingi verið úr smiðju ríkisstjórnar. Þingmannafrumvörp og ályktanir fara beint ofan í skúffu og eiga sér enga lífsvon - frumvörp frá fólkinu sem beinlínis er kosið til þess að semja og setja lög. Hverslags víðáttuvitleysa er þetta eiginlega?

Paradís framkvæmdavaldsins - Sverrir Jakobsson - Fréttablaðið 29. febrúar 2008

Hér er svo samanklippt svolítil umræða um einmitt þetta mál í Silfri Egils 9. mars og fréttum RÚV 10. september sl. Takið eftir tölunum sem Katrín nefnir. Sláandi. Þessu verður að breyta! Er það ekki á valdi þingmanna sjálfra með því að hafna flokksræðinu og ofríki framkvæmdavaldsins og fylgja sannfæringu sinni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Segi það enn og aftur að ein mesta ólukka íslensku þjóðarinnar er hvað margir hafa komist á þing og í sveitastjórnir án þess að eiga þangað erindi!!!

Í allri umræðunni sl. rúmu tvo mánuði hef ég ekki heyrt einn einasta þingmann segja að þjóðin þurfi utanþingsstjórn, skipaða fagmönnum. Nei, allir sem einn (sem á annað borð hafa tjáð sig um kosningar) hafa tala um að endurnýja þurfi umboð ríkisstjórninnar og þingið. Þeir ætla sér sjálfir að kjötkötlunum.

 Nei, nei, og aftur NEI það þarf ekki að endurnýja umboð sitjandi þingmanna. Það þarf að skipta þeim út fyrir utanþingsstjórn sem getur tekið til eftir þá. Hreinsað út.

Helga (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 21:01

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hætt að lesa svona langt mál fram að jólum  Ég verð að fara í jólagírinn......

Hólmdís Hjartardóttir, 21.12.2008 kl. 21:06

3 identicon

Eftirfarandi er lokahluti lengri greinar minnar (Horft til framtíðar) sem hefur beðið birtingar í tíu daga - væntanlega vegna stærðar. 

Hvað er til ráða? 

Í ræðu í Háskóla Íslands 10. des. tilgreindi Göran Persson, fyrrv. forsætisráðherra Svíþjóðar nokkur lykilatriði varðandi tímasetningu og mótun farsællar viðreisnarstefnu fyrir íslenzkt samfélag með hliðsjón af hliðstæðu viðfangsefni í Svíþjóð fyrir rúmum áratug.  „Þið verðið að endurheimta trúverðugleikann, þið verðið að hafa allt bókhald fjármálafyrirtækjanna opið og læsilegt fyrir almenning.  Allt verður að vera upp á borðinu,” sagði Persson.  Hann taldi stjórnvöld mega engan tíma missa við endurskipulagningu ríkisfjármála, en aðgerðaáætlun vegna lántöku Íslands frá IMF gerir ráð fyrir að því verkefni verði frestað til 2010.  Ráðgert er að endurskoðun á aðgerðaáætluninni verði lokið fyrir 25. febrúar 2009. 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar bæði í stjórnmálalegum og efnahagslegum skilningi síðan aðgerðaáætlunin var samin í viðræðum stjórnvalda og IMF sem lauk 23. október 2008.  Þar er fyrst að nefna breytt viðhorf gagnvart hugsanlegri umsókn Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu, sem verður rætt á landsfundum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í næsta mánuði.  Miklu kann að skipta í þessu sambandi að Ísland gæti orðið aðildarríki ESB innan 18 mánaða að sögn Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB.  Eins er minni óvissa en áður um helztu stærðir í bankakerfinu og stöðu Íslands gagnvart erlendum lánardrottnum bankanna.  Síðast en ekki sízt myndi ofangreind breyting á lífeyrissjóðakerfinu gjörbreyta til hins betra öllum forsendum fyrir virkari peningastefnu og skapa svigrúm fyrir það átak í ríkisfjármálum sem Göran Persson vék að og rýmri lánafyrirgreiðslu fyrir atvinnustarfsemi en ráð var fyrir gert í upphaflegu aðgerðaáætluninni. 

Hér er mikið verk að vinna.  Með hliðsjón af fyrirhugaðri – og e.t.v. langdreginni – umræðu stjórnmálaflokka um mögulega aðildarumsókn Íslands að ESB liggur í augum uppi að þetta verk krefst aðkomu nýrra starfskrafta.  Við þessar aðstæður hlýtur skipun utanþingsstjórnar að vera heillavænlegur kostur.  Verkefnaskrá slíkrar stjórnar myndi vera (1) að vinna með IMF að endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar, (2) að hefja könnunarviðræður við ESB um hugsanlega aðildarumsókn Íslands, (3) að kynna niðurstöður viðræðnanna fyrir þjóðinni, og (4) að undirbúa kosningar til Alþingis haustið 2009.

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 21:34

4 identicon

Athugasemd mín að ofan vísar til hugmynda um breytingar á lífeyrissjóðakerfi landsmanna sem ég set fram í umræddri grein minni. 

Hér er sá hluti greinarinnar.

Íslenzka lífeyrissjóðakerfið Hrein eign íslenzku lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris var 1.839 milljarðar kr. í lok september, og jafngilti um 125% af áætlaðri vergri þjóðarframleiðslu 2008.  Innlend verðbréfaeign sjóðanna nam 1.254 milljörðum (68%) og erlend verðbréfaeign 517 milljörðum (28%).  Upplýsingar liggja ekki fyrir um heildartap lífeyrissjóðanna vegna hruns íslenzku bankanna og verðfalls á erlendum hlutabréfamörkuðum.  Lauslegur útreikningur minn bendir til þess að tapið kunni að hafa verið um 400 milljarðar og jafngilda um 25% af hreinni eign sjóðanna í árslok 2007.  Þetta samsvarar heildarkostnaði þriggja Kárahnjúkavirkjana.   Íslenzka lífeyrissjóðirnir eru svokallaðir uppsöfnunarsjóðir, sem innheimta og fjárfesta iðgjöld meðlima sinna á ákveðnu æviskeiði til útborgunar síðar í mynd eftirlauna, örorkubóta og annarra samningsbundinna greiðslna.  Annar valkostur við uppbyggingu íslenzku lífeyrissjóðanna hefði verið svonefnt gegnumstreymiskerfi sem er fjármagnað með skatttekjum á hverjum tíma.  Enginn grundvallarmunur er á valkostunum hvað varðar það markmið að veita lífeyrisþegum hlutdeild í þjóðarframleiðslu án samtíma vinnuframlags til framleiðslunnar. Hins vegar felst sú áhætta í uppsöfnunarsjóðsleiðinni að fjárfestingar í verðbréfum innanlands og utan misfarist eins og nú hefur orðið reyndin.   Í almennri umræðu um lífeyrissjóðsmál á nýliðinni útrásar- og uppgangstíð í íslenzka hagkerfinu hefur kveðið við annan tón um þessa hlið málsins.  „Einkavæðingin leysti úr læðingi mikinn kraft sem lífeyrissjóðirnir nutu góðs af bæði sem hluthafar í bönkunum og jafnframt sem þátttakendur á kröftugum fjármagnsmarkaði,” sagði forstjóri eins stærsta lífeyrissjóðsins í nóvember 2007.  „Ekkert lífeyrissjóðakerfi í heiminum er svo stöndugt sem hið íslenska,” sagði formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands vorið 2006.  „Af þessu leiðir m.a. að framtíðarbyrðar ríkissjóðs Íslands vegna lífeyrisgreiðslna eru hverfandi miðað við það sem gerist með flestum öðrum iðnríkjum,” bætti hann við.  Það má vissulega til sanns vegar færa, en hins vegar orkar mat hans á þýðingu þess tvímælis:  „Auðvitað er þetta gríðarlegur styrkur fyrir íslenskt þjóðarbú og samfélag.”   Í grein tveggja starfsmanna Seðlabanka Íslands um lífeyrissjóðsmál segir t.d. í upphafi:  „Ekki er að sjá að stórfelldur peningasparnaður Íslendinga með lífeyrissjóðum hafi leitt til samsvarandi þjóðhagslegs sparnaðar.”  Lokaorð höfunda eru síðan þessi: „Engin merki sjást um það í þjóðhagsreikningum að peningasöfnun lífeyriskerfis okkar hafi stuðlað að söfnun raunverulegra verðmæta umfram það sem gerist hjá þjóðum sem greiða lífeyri með skattheimtu.”  (Peningamál, des. 2005)  Kröftugur vöxtur lífeyrissjóðanna virðist því ekki hafa aukið sparifjármyndun eða verðmætasköpun í íslenzka hagkerfinu.   Fjárhagslegur styrkur íslenzka lífeyrissjóðakerfisins er engu að síður mikill.  Á örlagastund í íslenzku samfélagi er eðlilegt að hugleiða hvernig virkja megi þann styrk þjóðinni til mestra heilla.  Heimili landsins – eigenda lífeyrissjóðanna – skulduðu innlenda lánakerfinu 1.890 milljarða í septemberlok.  Núverandi skipan lífeyrissjóðsmála okkar miðar að því að tryggja afkomuöryggi þjóðfélagþegna við aðstæður gjörólíkar þeim sem nú endurspeglast í atvinnu- og tekjumissi vinnufærra manna og kvenna og yfirvofandi greiðsluþroti fjölmargra launþega.  Fyrirheit um lífeyrissjóðsgreiðslur eftir 70 ára aldur skiptir engu fyrir ungan fjölskylduföður eða einstæða móður sem geta ekki innleyst lífeyrissjóðseign sína á aðsteðjandi ögurstund.  Gegnumstreymiskerfi hafa reynst öðrum þjóðum vel.  Ef núverandi fyrirkomulagi íslenzkra lífeyrissjóðsmála væri breytt í slíkt kerfi væri þungri byrði létt af þúsundum fjölskyldna án nokkurs fórnarkostnaðar.  Innlausn uppsafnaðs sparnaðar lífeyrissjóðsmeðlima og erlendra eigna lífeyrissjóðanna myndi styrkja erlenda gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins og skapa aukið svigrúm fyrir atvinnuörvandi peningastefnu.

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 21:39

5 Smámynd: Heidi Strand

Það er svo mikið sem þarf að melta um jólin og þá er ég ekki að hugsa um mat.
Nú verður að koma rottækar breytingar til þess að hægt verður að lífa í þessu landi. Það er ekki hægt að bjóða upp á óbreyttu ástandi.
Bestu jólakveðjur.

Heidi Strand, 21.12.2008 kl. 22:47

6 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Flott samantekt að vanda. Njörður hittir naglann á höfuðið í sínum skrifum. Sá að þú hafðir komið inn á grein AGS (IMF) hér á undan um tengsl álversframkvæmda við hrun Íslensks samfélags. Líkleg tengsl sem að ég er lengi búinn að vera að velta fyrir mér.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 21.12.2008 kl. 23:20

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér finnst grein Njarðar alveg frábær, grein Sverris er ekki síðri.  Þessar greinar lýsa kannski vanda okkar Íslendinga í hnotskurn. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.12.2008 kl. 00:59

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Rætt hefur verið um breytingar á kosningafyrirkomulagi með hléum í mörg herrans ár og sú umræða verður örugglega tekin eina ferðina enn. Gallinn hefur að mínu áliti verið sá að áhuga hefur skort meðal hins almenna kjósanda. Nú virðist sem breyting sé að því og þá er um að gera að grípa tækifærið. Skora ég hér með á áhugafólk um þessi mál að kynna sér skipulega fyrirkomulag þessa í nágrannalöndunum og víðar og koma svo með málefnalega umræðu og góðar útskýringar. 

Það væri til dæmis upplagt að halda úti sérstakri bloggsíðu um málið.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 22.12.2008 kl. 01:53

9 identicon

Eftir þennan yfirlestur setur maður hreinlega hljóðan og spyr sig, um hvað er fólk eiginlega að hugsa? Svo dettur manni bara í hug Karl Guðmundsson keikari og settningin,"Íslendingar eru hænsn"

Annars átt þú heiður skilið fyrir þessa síðu þína.

Kolbrun (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 10:15

10 Smámynd: Anna

Sael, eg er sammala flott grein hja Nirdi. Altingismenn bua til sinar eigin leikreglur. Hvenaer koma kosningar??? D - flokkur er a leid ut, tad veit eg med vissu.

Anna , 22.12.2008 kl. 11:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband