Mögnuð viðtöl um útrásina

Það er alltaf býsna fróðlegt að líta um öxl og spá í forsögu og framvindu mála eftir allt sem gerst hefur undanfarið. Ég hef gert svolítið af því hér á síðunni og nú kemur enn eitt endurlitið - aftur til sumarsins 2007. Allt efni er úr Íslandi í dag á Stöð 2.

Byrjum 18. júní 2007. Þá tók Sölvi viðtal við annan Bakkavararbróðurinn, Ágúst Guðmundsson, og ræddi um umsvif Bakkavarar í Bretlandi. Voru það ekki þeir bræður sem, rúmu ári seinna, skutust á þyrlu frá laxveiðiá í Borgarfirði til að kaupa sér pylsu í Baulu. Hvernig ætli staðan sé hjá þeim núna?

Næsta myndbrot er frá 25. júlí 2007 og ber yfirskriftina Mestu viðskipti Íslandssögunnar. Þar er verið að vitna í þegar Novator millifærði 182 milljarða króna til fyrrverandi hluthafa í Actavis. Gaman væri að rifja upp hverjir fengu stærsta skerfinn. Í beinu framhaldi af þessari umfjöllun er viðtal við Björgvin G. Sigurðsson, sem var búinn að vera viðskiptaráðherra í tvo mánuði. Það er magnað viðtal, alveg ótrúlegt. Björgvin reynir ekki að leyna fölskvalausri aðdáun sinni á útrásinni og auðmönnunum sem hana stunduðu. Hann er svo barnslega einlægur í trúnni á jólasveinana að maður kemst næstum við. Og hlustið á hvað hann segir um útrásina og orkuauðlindirnar og orkufyrirtækin! Þetta er rétt áður en REI-málið kom upp þar sem næstum var búið að selja auðlindirnar í hendur sömu fjárglæframanna og hann dáist svona einlæglega að. Ég get ekki ímyndað mér að Björgvin hefði gert neitt til að hindra það rán á sameiginlegum auðlindum Íslendinga þótt hann hefði haft tækifæri til. Hefur Björgvin axlað pólitíska eða siðferðilega ábyrgð? Nei.

Hér er svo stórfróðlegt viðtal við Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, frá 1. ágúst 2007. Sigurjón er þarna gríðarlega stoltur af barninu sínu, Icesave, og segir hafa tekið 9 mánuði að hala inn álíka mikla peninga á einstaklingsviðskiptum með Icesave og hefði tekið 120 ár að gera á Íslandi. Eftir þetta heldur Icesave blekkingarleikurinn áfram í rúmt ár, eða 14 mánuði. Þeim tókst að hafa enn meira fé af Bretum sem íslenskir skattborgarar verða að endurgreiða næstu áratugina. Takið eftir að Sigurjón kallar Icesave "vöru".

Skömmu eftir að viðtalið er tekið fara bankarnir að fella gengið fyrir ársfjórðungsuppgjörin sín til að sýna betri stöðu á pappírunum - til að geta haldið leiknum áfram. Er búið að handtaka Sigurjón og félaga fyrir fjársvikin? Nei, merkilegt nokk - og helsti aðstoðarmaður hans við Icesave er nú bankastjóri nýja Landsbankans. Það þarf enginn að segja mér annað en að þetta fólk hafi vitað nákvæmlega hvað það var að gera og hvernig það myndi enda og nú vinnur það hörðum höndum að því að fela slóðina.

Í tengslum við upprifjunina minni ég á þessa færslu frá 26. október sl. þar sem ég tók saman umfjöllun um efnahagsmál fyrstu þrjá mánuði þessa árs. Enn hef ég ekki fundið tíma til að halda þeirri vinnu áfram.

Það er meðal annars þetta sem mótmælt er á Austurvelli á laugardögum kl. 15! Mætum öll í dag á Austurvöll og sýnum með nærveru okkar að við séum ekki sátt við svona vinnubrögð!

Svo mælir Henrý Þór:

Henrý Þór - Jólagjöfin til íslenskra barna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ekki vantar grobbið í þá menn Ágúst og Sigurjón.  Hvar ætli þeir séu núna?  Landflótta?  Eða kannski bara í felum?  Allir saman nú muna mótmælafundinn á Austurvelli á morgun klukkan 15.00.  Burt með spillingarliðið. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.12.2008 kl. 03:35

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hræðilegt að heyra í Viðskiptaráðherra? Ætli hann muni þetta?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 27.12.2008 kl. 03:42

3 identicon

já hvar eru þeir Ágúst og Sigurjón og hinir 28 ? Góð spurning, þeir eru bara hér og þar og allsstaðar og lifa lúxuslífi á þeim peningum sem þeir hafa skotið undan og þeim er fjandans sama um skrílinn, hlægja að okkur alveg big time þeir vita á hvaða aumingjaeyju þeir eru á og eiga.

Enn hafðu þökk fyrir alla þessa ómældu vinnu  Hanna Lára.

ag (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 04:24

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábær samantekt hjá þér Lára Hanna eins og fyrri daginn.  Það er með ólíkindum að horfa á þessi viðtöl í dag.....og ef þetta væri ekki allt svo sorglegt, væri þetta hinn besta uppistaða í áramótaskaupið.

Ég spyr enn og aftur, hvar eru fréttastofurnar?  Af hverju birta þeir ekki svona úrdrætti af gömlum "stjörnuviðtölum"?

Gleðileg Jól, kæra Lára Hanna  Sjáumst í baráttunni.

Sigrún Jónsdóttir, 27.12.2008 kl. 07:29

5 Smámynd: Víðir Benediktsson

Vesalings Björgvin. Nánast allt sem hann sagði á sínum tíma hefur reynst eintóm þvæla.

Víðir Benediktsson, 27.12.2008 kl. 08:36

6 Smámynd: Sævar Helgason

Og hvað á þessi "rannsóknarnefnd" sem alþingi var að stofna undir forystu Páls Hreinssonar- háskólakennara að gera ?Henni er ætlað eitt ár í verkið.

Er henni ætlað nokkuð annað en að hvítþvo stjórnmálamennina-hvar í flokki sem þeir hafa holað sér niður- af allri ábyrgð af þessari geðveikislegu fjármálaútrás ? 

Mesta ábyrgðin er hjá alþingi, hjá því fólki sem þar hefur verið á síðustu 7- 8 árum. Síðan koma bankayfirstjórnendurnir og  fyrrum"eigendur" bankanna

Útrásarvíkingarnir eru síðan verkamennirnir í þessum fyrrum aldingarði sukksins..

Þða þarf enga hvítþvottarnefnd til að sjá að  allt þetta fólk er kviknakið - eins og keisarinn í sögunni hans H C Andersens.

Mætum á Austurvöll í dag kl 15 og heimtum allt þetta spillingarlið BURT - strax

Sævar Helgason, 27.12.2008 kl. 10:35

7 Smámynd: Heidi Strand

Björgvin var á svipinn eins og nýástfanginn maður.

Skrýtið hvernig þessi ICSAVE peninga gufaði bara upp.

Er það rétt að Sigurjón er enn að í Landsbankanum og að KPMG eru búin að koma sér þar fyrir????

Heidi Strand, 27.12.2008 kl. 11:40

8 Smámynd: Offari

ok ég láta syndir mínar ég trúði á þessa þvælu.  Það er greinilega dýrt að vera heimskur.

Offari, 27.12.2008 kl. 12:54

9 identicon

Er ekki full ástæða fyrir því að gefa smantektina þína út?  Skráðu mig allavega fyrir eintaki ef svo verður.

 Gleðilegt! nýtt ár

Haraldur Ingi (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 14:52

10 identicon

Enn og aftur frábær samantekt hjá þér. Athyglisverð ummæli Björgvins að partur af jafnaðarstefnunni sé "raunverulegt viðskiptafrelsi".Þetta ótakmarkaða frelsi, sem við erum að súpa seyðið af, hefur hingað til verið kennt við eitthvað annað en jafnaðarstefnuna.

Fróðleg grein í Fréttablaðinu í dag eftir Stefán Jón Hafstein. Hann gerir því skóna að hrunið hafi verið planað fyrir tveimur árum. Plottið gekk bara ekki upp. Það lukkaðist ekki að henda erlendu skuldunum útum gluggann. Alveg jafn trúleg kenning og hver önnur í öllu ruglinu.

Bestu kveðjur til þín og þakkir fyrir bloggið.

sigurvin (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 15:24

11 identicon

Björgvin  er ekkert meiri kjáni en ég , ég var líka með glýju í augunum.Við dáðumst  mörg að köppunum.

Hörður Halldórsson (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 16:33

12 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hörður hver eru þessi "við"?  Ég var alltaf svo ringluð og gat ALDREI SKILIÐ ÞETTA?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 27.12.2008 kl. 17:40

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvernig væri að gefa þetta út og dreifa því á hvert heimili? Nú vantar bara einhvern "sponsor" til að fjármagna dæmið. Leggur ríkið ekki fé í sprotaverkefni?

Árni Gunnarsson, 27.12.2008 kl. 19:00

14 identicon

Þetta er auðvitað útgefið og aðgengilegt á hverju heimili... það er erfiðari þraut að koma fólki að skjánum til að horfa, og hvað þá að koma því til að nota 3. augað (heilann).

Gullvagninn (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 19:57

15 identicon

Já, einstakrar fréttamennsku hefur verið troðið upp á Íslendinga síðustu árin. Þarna standa þau brosandi út að eyrum, blaðrandi um það sem þau skilja ekki, uppfull af áróðri sem viðmælendur þeirra lögðu upp í hendurnar á þeim: Engin gagnrýningin spurning, engin rökhugsun, engin sjálfstæð ályktun, ekki gerð tilraun til að leita upprunans. Sagan á eftir að meta frammistöðu þessara "fréttamanna"!  Ætli þau finni til ábyrgðar frekar en viðmælendur þeirra og stjórnmálamenn?

Helga (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 20:04

16 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég bíð spenntur eftir fréttaannálum fjölmiðlanna & hvernig þú tekur á þeim á eftir.

Steingrímur Helgason, 27.12.2008 kl. 20:18

17 Smámynd: Heidi Strand

Ég skildi aldrei þetta peningaflæði. Ég hef aldrei áður séð að það verður ekkert verðmæti á heiðarlegan hátt út af engu.
Nú verðum við að fá að víta hverjum hafa stolið ICESAVE peninganna sem við erum ábyrgir fyrir.

Heidi Strand, 27.12.2008 kl. 20:20

18 identicon

Þetta var fróðleg samantekt og margt sem upp í hugann kemur. Margir sem voru á bólakafi í útrásinni hafa líklega trúað að aldrei kæmi bakslag, hversu barnalegt sem manni finnst það nú. Aðeins vottaði fyrir raunsæi hjá Bakkavararmanninum sem sagði að alltaf mætti búast við misjöfnum tímum (eða eitthvað á þá leið) en annars virtist lítið bera á gagnrýnni hugsun eða varkárni. Verst er að ekki örlaði á því hjá ráðherranum. Bara demba sér útí orkuútrás, nógu "risastóra" og "ævintýralega", í fylgd með auðmagninu. Svona kemur óorði á eðlilega, hófsama notkun á því sem óneitanlega er styrkur okkar, orkulindir og þekking okkar á nýtingu þeirra. Nægjusemi er eitt þeirra grunngilda sem vonandi öðlast aftur verðugan sess hjá okkur eftir græðgisvæðinguna miklu. Leyfi mér að setja inn tengil á pistil um það, orð í tíma töluð.
http://www.smugan.is/pistlar/penninn/gunnar-hersveinn/nr/430 

Solveig (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 22:03

19 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég hef eytt tæpum 2 árum í að hugsa hvort ég eigi að flytja aftur til DK! Ekki aðeins eru lífskjörin þar mikið betri, heldur er allt mikið skiljanlegra...en nú fer ég hvergi nema að framtíð sonar míns  sé ógnað (5 ára)?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 27.12.2008 kl. 22:28

20 Smámynd: Óskar Aðalgeir Óskarsson

Þú stendur þig alltaf jafn vel Lára Hanna,og ég segi að mér verður alveg jafn óglatt núna,(jafnvel meira) við að hlusta á þessa hrokafullu og sjálfumglöðu karla,eins og á þeim tíma sem þessi viðtöl voru birt.

Óskar Aðalgeir Óskarsson, 27.12.2008 kl. 22:28

21 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

miðaldra karl með bindi=Rugl

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 27.12.2008 kl. 23:04

22 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þú ert besti fjölmiðillin.  Þú ættir að opna reikning er viss um að margir myndu styðja þig í að halda þessu gangandi.

kveðja....gaman að sjá þig í dag

Hólmdís Hjartardóttir, 27.12.2008 kl. 23:08

23 Smámynd: Vitringur

Manni verður óglatt að horfa á sjálfbirgingshátt þessara vesælmenna!

Vitringur, 28.12.2008 kl. 00:28

24 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

örugglega gaman að sjá ykkur Hólmdísi báðar samankomnar, mikil fegurð!

En, þetta er ekki auðvelt mál né lítur fallega út, En hún Anna b. má þó ekki "Dauðrota" Bjöggan, hann telst nú ekki miðaldra enn strákurinn þótt með bindi sé!

Magnús Geir Guðmundsson, 28.12.2008 kl. 00:56

25 identicon

Ótrúleg umskipti á viðskiptaráðherranum. Í þessu viðtali, ág. 2007, þá veit hann allt um útrásina og þessi fyrirtæki. Fróðleikurinn flæðir út úr honum eins og snjóflóð. En núna, þá veit hann ekkert. Er bara kjaftstopp.

Ég leyfi mér að efast um eina fullyrðingu sem kom fram hjá Björgvin og við höfum svo oft fengið að heira. Það er þetta tal um að hér sé svo mikil þekking og reynsla í orkumálum. Ef við byrjum á vatnsafli, þá koma hverflarnir og rafalarnir frá ASEA og Mitshubishi og í gufuaflsvirkjunum koma hverflarnir frá Mitsubishi og rafalarnir frá til dæmis Siemens og Toshiba. Allt rafkerfi, stýrikerfi og annar búnaður er erlendis frá. Þetta eru þýsk, Japönsk og Skandinavísk fyrirtæki og hafa menn frá þeim löndum í öllum tilfellum séð um uppsetningu á tæknibúnaði og gangsetningu á þessum virkjunum hér á landi. Bortæknin hefur að mestu verið þróuð í olíuiðnaðinum. Allur þessi áróður um þessa miklu þekkingu og reynslu íslendinga í þessum efnum held ég að sé aðeins gerður til að hrífa almenning til stuðnings við öfgafulla virkjanastefnu núverandi ríkisstjórnar.

Mér fannst svolítið heillandi að sjá montið í honum Sigurjóni. Ég vildi að ég væri svona. Það hlýtur að vera gaman. 

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 01:23

26 identicon

Magnús! Ég var á Austurvelli og skimaði mikið í kring um mig og fann hvorki Hólmdísi né Láru Hönnu. Heimurinn er sveimér stór, ennþá.....

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 01:26

27 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

hihihi...Magnús Geir!   ...ég dauðrota engan, sem ekki er án meðvitundar um núið!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.12.2008 kl. 01:31

28 identicon

Björgólfarnir eiga ekki nema fimm prósent að veseninu ,,Jón Ásgeir  á restina en hann er svo góður leyfir okkur að versla ódýrt í Bónus , og gefur poka sjóð til góðra mála sem við höfum borgað og nú borgum við bullið hans mér telst til að það hafi verið ódýrari að að borða á Holtinu þessi ár en að versla í Bónus miða við það sem við þurfum að borga fyrir þennan Mann,

ADOLF (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 09:00

29 identicon

Hvar er fyrverandi ráðherran sem fór til Glitnis í orkuverkefni, og eða er ríkið með þessa orkudeild en í gangi hjá Glitni ?.

Dóri (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 17:33

30 identicon

það eru um 30 Landráðamenn sem ættu ALDREI að fá að búa á Islandi, útskúfum þeim sem fyrst frá Islandi.

Vilhjálmur Bjarnason (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband