Guðspjallamaðurinn Matteus og Stefán Jón Hafstein

Nei, ég er ekki að bera þá saman, Matteus og Stefán Jón. Þekki enda hvorugan og veit ekki hvort þeir eru samanburðarhæfir. Nema hvað vert er að glugga í orð beggja og svo bar til að þeir töluðu til mín báðir í einu í gærkvöldi á mjög svo undarlegan hátt - og af einskærri tilviljun. Held ég.

BiblíaÉg fékk tölvupóst frá Erling vini mínum í gærkvöldi, þar sem hann sagðist vera að lesa bók sem heitir "Outliers" og fjallar um persónur sem standa utan við hið hefðbundna mynstur. Í bókinni er talað um Matteusar-áhrifin (The Matthew Effect) sem hljóða svo: "Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur." (Biblían - Nýja testamentið - Matteusarguðspjall 25:29.)

Ég efast ekki um að hver einasti Íslendingur sem kominn er sæmilega á legg kannist við nákvæmlega það sem guðspjallamaðurinn er að lýsa þarna. Þetta er einmitt það sem er að gerast í íslensku þjóðfélagi þessa dagana. Ekki að það sé neitt nýtt, en undir þeim kringumstæðum sem við búum við nú um stundir er hið hróplega óréttlæti sem í þessu felst alveg sérlega áberandi. Einmitt þeir sem hafa gnægð settu þjóðina á hausinn og þeir sem eigi hafa þurfa að bera byrðarnar á meðan sökudólgarnir sem hafa gnægð fyrir mun gefið verða, hvort sem það heita afskriftir skulda, gömlu fyrirtækin sín skuldlaus og á útsöluverði eða rífleg eftirlaun á kostnað þeirra sem eigi hafa. Þetta sá hann Matteus karlinn allt fyrir því sennilega vissi hann sem er, að mannlegt eðli og breyskleiki breytist aldregi.

Stefán Jón skrifaði grein í Fréttablaðið í gær, mjög góða grein. Það vildi svo ótrúlega til að ég var Stefán Jón Hafsteineinmitt að lesa hana þegar ég fékk póstinn frá Erling. Og Stefán Jón var líka að lesa bók sem heitir "Outliers". Hvort það er sama bókin veit ég ekki, en hann leggur út frá bókinni og segir: "En bókin skýrir með dæmum hvernig flest slys verða til fyrir röð smávægilegra mistaka, tæknilegra og mannlegra, sem smátt og smátt hlaða svo upp á sig að á endanum verður ekki við ráðið. Engin ein mistök gera útslagið: Smávægileg vélarbilun, samskipti óljós, tungumálaörðugleikar, menningarlegt ólæsi og jafnvel hroki í stjórnklefa, leiðbeiningar misskildar, aðstæður versna, álag sljóvgar og allt í einu er stórslys sem auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir. Uppsafnað vanhæfi."

Ég efast heldur ekki um að allir kannist við það ferli sem Stefán Jón á hér við og geti heimfært það upp á íslenskan veruleika nútímans. Aðdraganda efnahagshrunsins og hrokafulla framkomu hlutaðeigandi gerenda allra við þjóðina. Uppsafnað vanhæfi er snilldarlega að orði komist. Ef þessi tilviljun, að fá póstinn á sama tíma og ég var að lesa greinina, með tilvitnunum í bækur (bók?) með sama nafni sem vísa báðar  beint í veruleika nútímans er skilaboð til mín - þá skil ég þau ekki... a.m.k. ekki ennþá. En kannski felast engin skilaboð í þessu frekar en í öðrum tilviljunum - ef tilviljanir eru þá til. En hér er þessi fína grein Stefáns Jóns. Þið fáið ekki að sjá póstinn frá Erling. Hann er prívat en Erling er til vitnis. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Stefán Jón Hafstein - Fréttablaðið 27. desember 2008

Hér er fréttin á Vísi sem Stefán Jón vísar í og vakti, eins og hann nefnir, furðu litla athygli.

 Vísir.is 30. október 2008


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir að birta greinina eftir Stefán Jón, ég fékk ekki fréttablaðið í morgun.  Svo ég var í algjöru myrkri varðandi þessa grein sem ég hef séð marga vitna til. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.12.2008 kl. 03:19

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

athyglisvert lesefni. þú ert besti fréttamiðillinn þessa dagana, Lára Hanna.

væri hér einhver frjáls og óháður fréttamiðill værirðu fyrir löngu búin að fá feitt tilboð.

Brjánn Guðjónsson, 28.12.2008 kl. 05:09

3 identicon

Sennilega er það rétt að keðjuverkun margra atvika á hlut að máli. En oftast er það svo að með því að taka einn hlekk úr keðjunni og tengja framhjá vandræðunum, er keðjan jafn sterk og áður.

Þetta fríar engan veginn aðilja  sem voru veikir hlekkir og brugðust.

Svo sem stjórn okkar í formi þeirra ráðuneyta sem hlut áttu að máli!       Sjálfstæðisflokks og Imbu í Samfylkingunni sem Stefán Jón  hefur tilheyrt og reynir að verja.

Forsætisráðuneyti og samskiptum við seðlabanka og önnur ráðuneyti (eða samskiptaleysi)       Utanríkisráðuneyti fyrir samskiptaleysi við alla.                  Viðskiptaráðuneyti fyrir að vera utan við alt og ekki vita neitt? En samt hafa verið með digrar yfirlýsingar í fjölmiðlum frá valdatöku. Og sannað er að voru involveraðir upp fyrir haus. (sjá viðtöl á þessari bloggsíðu sem allir ærlegir fréttamenn ættu að hafa grafið upp, en við þurfum að stóla á bloggsíður frábærra borgara eins og Láru Hönnu til að lappa upp á gullfiskaminni okkar vegna hlutdrægni þeirra) Og svo mætti lengi telja.

Að ógleymdu hlutverki Fjármálaeftirlits, Seðlabanka  og Bankamanna sjálfra fyrir afglöp í ótrúlega vellaunuðu starfi.

Nei svei! Burt með spillingarliðið! Við kaupum ekki svona afsakanir.

Og þakka þér Lára Hanna fyrir að gera það sem blaðamenn okkar á Stöð 2 og öllum hinum 365 fjölmiðlunum og Mogganum og Fréttablaðinu og Ríkisfjölmiðlunum þora ekki að gera = vinnuna sína.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 05:12

4 Smámynd: Víðir Benediktsson

Landráð  af gáleysi segir Páll Skúlason rektor í þættinum hjá Evu Maríu kl. 18:40 í  kvöld.

Víðir Benediktsson, 28.12.2008 kl. 07:48

5 Smámynd: Víðir Benediktsson

19:40 átti þetta víst að vera.

Víðir Benediktsson, 28.12.2008 kl. 08:26

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk, sá ekki þessa grein Stefáns Jóns.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.12.2008 kl. 09:59

7 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæl Lára Hanna!  Gleðileg jól og hjartans þakkir fyrir þínar afburða góðu þjóðfélagsúttektir.

 Ég tek undir með honum Brjáni, að væri hér ALVÖRU óháður fjölmiðill, sem fjallaði um þjóðfélagið, værir þú búinn að fá feitt tilboð.

Greinin hans Stefáns Jóns er góð punktaúttekt á pólitísku umhverfi síðustu ára. Viðfangsefnið og vandamálið er hins vegar mikið stærra og vel rekjanlegt hvernig ákveðin öfl í þjóðfélaginu hafa rekið stjórnvöld á undan sér, alveg frá upphafi níunda áratugs síðustu aldar.  Undir lok þess áratugar sagði ég upp starfi mínu í hagdeild banka, þar sem ég gat ekki samræmt það samvisku minni. Mér fundust peningar og völd ekki virði þess sem þurfti, til að klifra upp metorðastigann.

Undir lok tíunda áratugsins benti ég á hvernig Flugleiðir hækkuðu eiginfjárstöðu sína í efnahagsreikning um 1.200 milljónir, án þess að ein einasta króna væri greidd inn í félagið. Þetta var gert til að geta fengið erlenda fjármögnun á flugvélakaupum. Þarna varð upphafið að svokölluðum "krosseignatengslum", sem er einn af áhrifavöldum þess að bankarnir hrundu.

Undanfarin ár hef ég iðulega bent á óbeina fölsun á eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja, þar sem yfirverð hlutabréfa og svokölluð "viðskiptavild", hafa verið uppistaða í eiginfé margra þessara fyrirtækja, en engin raunveruleg verðmæti. Óraunhæfar verðmætisskránignar  og hækkanir fyrirtækja í Kauphöllinni er líka einn liðurinn í þessu. Það gat ekki staðist að fyrirtæki væru að hækka hér um 70% og meira, ár eftir ár, þegar hækkanir í heimsumhverfinu voru hverfandi litlar.  Það áttu allir sem kunna sæmilega bókhald, að vita að þarna var alvarleg vitleysa á ferðinni, en múgsefjunin um að við værum svo rík, hún virðist hafa blindað fjöldann.

Takk fyrir afburða góða pistla, vel rökstudda og gagnasetta.

Með kveðju,  Guðbjörn 

Guðbjörn Jónsson, 28.12.2008 kl. 13:02

8 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Takk fyrir þetta Lára Hanna. Þetta er mjög góð grein hjá Stefáni Jóni.

Anna Karlsdóttir, 28.12.2008 kl. 14:02

9 identicon

Má ég taka undir hrósið sem þú færð, Lára Hanna. Enginn blogg/vefstjóri sýnir jafn mikla sanngirni í vali sínu á greinum og þú: þú ert í reynd traustasta merki um hlutleysi sem finna má hér í bloggheimum.

Armór er hér með athugasemd þar sem hann uppnefnir formann Samfylkingarinnar en engan annan. Sennilega á hann erfitt með að þola þann flokk. Það er vandamál hans, ekki okkar.

En hann notfærir sér lítinn hluta úr ágætri grein Stefáns Jóhanns. Þetta byggist á ummælum sem Jón Þór Sturluson kom með að viðskiptaráðuneytið hefði þegar snemmsumars gert sér ákveðna grein fyrir ástandi bankamála að vissu merki og hafi verið með vinnu um viðbrögð í þeim efnum. Mér er tjáð að allt sé þetta satt og rétt. En áður hafa komið fram fréttir um að helsti ráðamaður Seðlabankans, Davíð Oddsson, hafði neitað að ræða við viðskiptaráðherann Björgvin G. Sigurðsson frá upphafi ráðherradóms hans, í maí 2007, þangað til í október 2008 eftir að bankahrunið var orðið staðreynd.

Samt þurftu þessir tveir aðilar að hafa með sér náið samstarf, þótt ekki væri nema vegna Bankaeftirlitsins sem bæði ráðuneytið og Seðlabankinn stjórna lögum samkvæmt. Og svo þurftu þeir auðvitað líka að tala saman um krónuna o.s.frv.

Þetta sambandsleysi verður alfarið að skrifast á Davíð Oddsson að svo miklu leyti sem það skrifast ekki á ráðherra Seðlabankans. Geir Haarde. Hann var og er eini ráðherann sem getur skipt sér af málum þessa banka bankanna. En auk þess er Geir sem forsætisáðherra samræmingaráðherra ríkistjórnarinnar; það var verkefni hans að sjá til þess að aðrir ráðherrar gætu beitt sér í málaflokkum sínum.

Án aðstoðar að minnsta annrs þessara manna, Davíðs eða Geirs, var viðskiptarneytið í reynd valdalaus í bankamálum.       

Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 16:05

10 identicon

Kæra Hanna Lára,

þetta er svo frábær síða hjá þér, uppáhalds síðan mín... dásamlegur vinkill. Ég er ekki alltaf sammála um þær ályktanir sem þú dregur, en vinkillinn þinn er frábær.

Megir þú ganga á guðs vegum á nýju ári. 

ÁFRAM ÍSLAND!

J.

Jónína (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 17:21

11 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Takk Lára Hanna,

frábær síða og uppáhaldssíðan mín. Grein Stefáns er ótrúlega góð. Vonandi hefur hann frelsast þarna í Afríku og er orðinn minni pólitíkus og meiri manneskja. Hver veit. 

Ég vil ekki segja áfram ísland heldur Nýtt Ísland. Hvenær verður byltingin? Eitthvað verður að gera, við verðum að komast í svarta kassann.

Gunnar Skúli Ármannsson, 28.12.2008 kl. 18:27

12 identicon

 Gísli Gunnarsso, þú sagðir:

 ''Mér er tjáð að allt sé þetta satt og rétt. En áður hafa komið fram fréttir um að helsti ráðamaður Seðlabankans, Davíð Oddsson, hafði neitað að ræða við viðskiptaráðherann Björgvin G. Sigurðsson frá upphafi ráðherradóms hans, í maí 2007, þangað til í október 2008 eftir að bankahrunið var orðið staðreynd.

Samt þurftu þessir tveir aðilar að hafa með sér náið samstarf, þótt ekki væri nema vegna Bankaeftirlitsins sem bæði ráðuneytið og Seðlabankinn stjórna lögum samkvæmt. Og svo þurftu þeir auðvitað líka að tala saman um krónuna o.s.frv.

Þetta sambandsleysi verður alfarið að skrifast á Davíð Oddsson að svo miklu leyti sem það skrifast ekki á ráðherra Seðlabankans. Geir Haarde. Hann var og er eini ráðherann sem getur skipt sér af málum þessa banka bankanna. En auk þess er Geir sem forsætisáðherra samræmingaráðherra ríkistjórnarinnar; það var verkefni hans að sjá til þess að aðrir ráðherrar gætu beitt sér í málaflokkum sínum''.

Ég spyr þá?    Hvar var "Imba?       Eins og ég vil meina var alt þetta lið, vanhæft og ætti ef fullyrðingar þínar eru réttar að segja af sér strax!

Ef samskiptin voru svona, hefðu annar hvor leiðtogi flokkana í stjórn átt að taka af skarið, sem þau gerðu ekki!. Og enn sitjum við uppi með þau og þeirra vanhæfni.  Og sem meira er Dabba kóng. Af því að Imba og Geir Gírugi eru aðeins að skara að eigin köku , og vernda eigin skinn. ( Rannsókn strax á hlut stjórnmálamanna og fjölskildum þeirra og þeirra eignum í fyrirtækjum, bönkum og hlutabréfum.)

Og það að ég hafi kallað Imbu, Imbu.  Hefur ekkert með það að gera að ég fyrirlít Framsóknar klíkubatteríið og Sjálfstæðisræningjaflokkinn (þeir eiga jú stærstan þátt, allra flokka í að hafa stolið sjálfstæði okkar) jafn mikið og Samfylkinguna. En sárast þykir mér að fullt af góðum jafnaðarmönnum (ekki ég þó, var búinn að sjá kerlinguna út) ''Sitja nú eftir með súrt ennið og naga sig í handarkrikana'' því þeir trúðu að þeir voru að kjósa jafnrétti með henni.

Þess vegna er okkur eflaust heitar út í Samfylkingu því allir með viti, vissu hvað Framsókn og Sjálfstæðisflokkur stóðu fyrir í síðustu kosningum.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 23:47

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Páll Skúlason sagði ekki að hér hefði verið framið landráð heldur að landráð sem framin væru í gáleysi væru landráð eftir sem áður. Eigi að síður var þetta djarflega mælt en að öðru leyti olli Páll mér vonbrigðum, var venju fremur óskýr og eins og hálf nervös.

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.12.2008 kl. 00:14

14 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þakka þér fyrir að benda á þennan frábæra pistil hans Stefáns Jóns og birta hann hér á síðunni þinni. - En eins og fram kemur í greininni þá voru : Allir ráðandi menn, sér algjörlega meðvitaðir um slæma stöðu bankanna.  Þeir gerðu sér alveg grein fyrir því hverjar afleiðingarnar gætu orðið. - Enginn er undanskilinn, hvorki Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið, ríkisstjórn, Alþingi, og ekki heldur eigendur bankanna. -  Því tek ég undir með Stefáni Jóni: HVERNIG GAT ÞETTA GERST? 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 29.12.2008 kl. 00:47

15 identicon

Kæra Lára Hanna

Þú spyrð: "Hvar var Imba"? Þú veist sennilega að hún lá veik á sjúkrahúsi í New York þegar lögin um Glitni voru sett 29. september, beið þá erfiðs heilauppskurðar og mátti ekkert reyna á sig og var skorin upp og var að jafna sig þegar neyðarlögin voru samin sem tóku gildi með samþykki allra flokka 6.-7. október. Hvað sem segja má um Glitni 29.09. sl. eru allir sérfróðir aðilar sem ég hef rætt um sammála um að yfirtaka bankans á þessum tímapunkti, með IceSavebréf Landsbankans í fullkomnu uppnámi og með málglaðan seðlabankastjóra leikandi lausum hala, hafi verið sú aðgerð sem kom á þeim dómínóáhrium sem settu krónuna og bankana í hrunið mikla.   

Sú spurning leitar á mig hvort Ingibjörg Sólrún hefði með þrýstingi getað strax sl. sumar þrýst á Geir forsætisráðherra til að hann brygðist við ábyrgðarleysi Seðlabankastjóra, t.d. með því að koma sambandi milli viðskiptaráðuneytis og Seðlabankans! Svarið er: Ég veit það ekki!  Það er erfitt að segja til um hve auðvelt samband þeiira Geirs og Ingibjargar var þegar kom að málum Seðlabankans. Einnig vitum við ekki enn þá hvaða vald Geir vildi hafa yfir Davíð Oddsyni. Vald hans gat verið mikið en eitt af því fáa sem liggur í augum uppi er ákveðið viljaleysi forsætisráðherra til að beita sér. En allt á þetta vonandi eftir að koma í ljós við nefndarrannsókn banka- og krónuhrunsins.

Ég hef í grein í vefritinu "this.is/nei" gert grein fyrir aðdraganda bankahrunsins 15. nóvember sl, á google "Hrunið, orsakir og eftirmál". Er þó ekki viss um að orðið "efirmál" séu í titlinum,  ég skrifa hér eftir minni. Ég las þessa grein aftur um daginn og það merkilega er að varla nokkuð nýtt markvert hefur komið fram um málið síðan! Hins vegar hefur mikið verið skrifað um hrunið, nær alltaf í reiðitón, og nær allt er persónugert. Að halda því t.d. fram að aðstæður í útlöndum hafi eitthvað haft með hrunið að gera, kallar nær alltaf á reiðiorð, venjulega með svívirðingum um mig! Þjóðin er reið og margir vilja aðeins fá einfaldar persónubundnar skýringar á hruninu.

En ég rakti í þessari grein minni atburðarásina 25.-29. september um vanda bankanna og byggi hér á margvíslegum heimildum. Forstjóri Glitnis leitaði til Seðlabankans 24.09 og bað um skammtímalán vegna lélegrar eiginfjárstöðu bankans til að greiða erlent lán í næstkomandi viku. Ekkert svar var komið kl. 16 föstudaginn 26 09. En þá hóf seðlabankastjórn undir forystu DO að vinna í málinu. Strax var stefnt að því að yfirtaka bankann nk. mánudag. Laugardagin 27.09 hafði DO samband við ráðherra Seðlabankans, sjálfan forsætisráðherra. Geir samþykkti áætlun Davíðs og undirbjuggu þeir tveir yfirtökuna að mestu leyti. Geir hringdi í Ingibjörgu þar sem hún lá sársjúk í New York. Hún bað hann um að hafa samband við settan utanríkisráherra, Össur, sem gert var daginn eftir, sunnudag. Össur mun hafa samþykkt áætlun þeirra Davíðs og Geirs, vitum þó ekki nóg til að segja hvort hann setti þá einhver skilyrði. ENGINN RÍKSISTJÓRNARFUNDUR VAR HALDINN ÞESSA HELGI. Össuri fannst betra að vera ekki alveg eini ráðherrann úr Samf.  og kallaði á Björgvin viðskiptaráðherra síðla sunnudagskvölds. Hann stóð frammi fyrir gerðum hlut, segist hafa haft efasemdir um aðgerðina og látð þær í ljós, en umfram allt hefði hann verið tortrygginn á vinnubrögðin. Tveimur sögum fer af því hversu skýrt hann lét efasemdir sínar í ljós. 

Ég myndaði mér fljótt þá skoðun að Samfylkingin gæti ekki staðið opinberlega að ríkisstjórnarafglöpunum gagnvart Seðlabankanum allt frá upphafi stjórnarsamvinnunnar og síðan atburðina mánaðarmótin september/október sl. og yrði að slíta því stjórnarsamvinnunni sem fyrst. Vandamálið er að þingrofsrétturinn er aðeins í höndum forsætisráðherra, ef Samfylkingin færi úr ríkisstjórninni gæti það þýtt ríkisstjórn D+B+(hugsanlega F að hluta). Ég tel hins vegar að þetta sé hætta sem sé verðug að taka!

Ég hef reynt eftir fremstu getu að fylgjast með bankahrunsmálinu og mótmælunum þeim tengdum. En ég egt ekki gert annað en beitt skynsemi og rökhyggju í þessu máli, ég get ekki talið nokkurn sekan, hvað þá svívirt hann, nema sekt hans sé sönnuð.  Ég get ekki, með hliðsjón af reynslu minni og lífsstarfi, tekið hugsunarlítið þátt í neinni reiðiöldu. Kæra Lára Hanna! Ég hef vafalaust ekkert sagt sem hefur minnkað reiði þína, t.d. í garð Samfylkingarinnar. En ég hef séð svo marga svívirðu um ævina, og enn þá fleiri mistök, einkum í stjórnmálum og viðskiptamálum, að ég reikna alltaf með því að hvaða flokkur sem er (og hvaða maður sem er) hljóti að gera einhver mistök og ég vel aldrei 100% besta kostinn. því að hann er ekki til, heldur skásta kostinn. Svo er það lögmæt spurning hvernig ég held þetta út. Svarið er einfalt: Hér stend ég (eða sit, ligg) og get ekki annað! Einhvers konar baráttuþrjóska???     

 Með bestu nýárskveðjum     

Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 20:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband