Björgunarsveitir og flugeldar

Mér er meinilla við flugelda og hvers kyns sprengiefni. Hrekk í kút við hávaðann og finnst fnykurinn af þessum óþverra skelfilegur. En ég stóð mína plikt þegar sonur minn var á barnsaldri og keypti minnsta fjölskyldupakkann - alltaf af björgunarsveitinni næst okkur, Ingólfi. Stráknum fannst þetta geggjað!

Svo kom að því að stráksi var tækur í björgunarsveitina Ingólf og sá eftir það sjálfur um allt sem laut að skytteríi á gamlárskvöld. Ég varð ekkert hrifnari af tiltækinu en lét mig hafa það. En þá og næstu árin fékk ég beint í æð vitneskju og reynslu af starfsemi björgunarsveita og því mikla og óeigingjarna starfi sem þar fer fram - svo ekki sé minnst á kostnaðinn sem einstaklingarnir bera sjálfir. Afmælis- og jólagjafir drengsins árum saman voru alls konar græjur sem snertu björgunarsveitina. Síðan hefur mér fundist að björgunarsveitirnar eða Slysavarnarfélagið eigi að hafa einkarétt á sölu flugelda. Skítt með samkeppni, einkaframtak og hvað sem fólk ber fyrir sig.

Mig langar að skora á fólk sem á annað borð kaupir flugelda eða annað fírverkerí að versla við björgunarsveitirnar. Ég ætla meira að segja að kaupa af þeim stjörnuljós, mér finnst það eiginlega lágmark. Sem betur fer hef ég aldrei þurft að leita á náðir björgunarsveitar - ennþá. En maður veit aldrei, það gæti komið að því. Og - eins og stendur í auglýsingunni hér að neðan:

Hvað er þinn flugeldasali tilbúinn til að leggja á sig fyrir þig?

Hvað er þinn flugeldasali tilbúinn til að leggja á sig fyrir þig?

Hér er yfirlit yfir útköll einnar björgunarsveitar - Ársæls - sem varð til við samruna Ingólfs og björgunarsveitarinnar á Seltjarnarnesi sem ég man ekki hvað hét forðum. Hugsið ykkur bara ef við nytum ekki þessa öryggisnets sem björgunarsveitirnar eru!

Útköll - Ársæll - 2008


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Við höfðum samskot í gær, ég og börnin mín.  Við öngluðum saman 20.000 krónum og frumburðurinn og sonurinn fóru og keyptu flugelda fyrir upphæðina hjá björgunarsveitinni hérna á Nesinu.  Flest sem keypt var var með hávaðaviðvörunum, við kaupum eingöngu háværar kökur og flugelda.     Her er mottóið því háværara, því betra.   PS:  Öll börnin mín eru sprengjuóð, það er ættgengt úr föðurættinni.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 31.12.2008 kl. 03:02

2 Smámynd: Guðrún Ágústa Einarsdóttir

Gleðilegt ár vona að þú eigir góð og ljúf áramót.

Takk fyrir bloggvináttuna.

Áramótakveðja. Gunna.

Guðrún Ágústa Einarsdóttir, 31.12.2008 kl. 03:29

3 identicon

Gleðilegt nýtt ár, Lára Hanna.

Þakka þér fyrir bloggið þitt á árinu. Það er fróðlegra og betur fram sett en flest önnur blogg og hefur vakið mig til umhugsunar um mörg mál sem annars hefðu farið framhjá mér. Vona að þú eflist með hækkandi sól og bloggið á næsta ári verði ennþá magnaðra.

Kærar þakkir.

Þráinn Bertelsson (IP-tala skráð) 31.12.2008 kl. 03:48

4 Smámynd: Víðir Benediktsson

Búinn að kaupa slatta. Það er með mig eins og þig ekkert að kafna úr hrifningu af þessu sprengjurusli frekar en tíkin mín sem hatar þetta. En þetta er kross sem hver forráðamaður þarf að bera. Að sjálfssögðu versla ég við björgunarsveitirnar. hef aldrei svo mikið sem látið mér detta í hug að versla annarsstaðar. Sjómenn standa í mikilli þakkarskuld við björgunarsveitir og  þeim verður seint fullþakkað þau þrekvirki sem þær hafa unnið sjómönnum til handa í gengum tíðina.

Hinn frjálsi markaður bjargar ekki fólki nema geta grætt á því.

Víðir Benediktsson, 31.12.2008 kl. 09:56

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

„Björgum áramótunum“ eins og þeir segja hjá Björgunarsveitunum, en farðu bara varlega með stjörnuljósin. Sjálfur er ég meira fyrir ljósagang heldur en hávaðann.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.12.2008 kl. 10:30

6 identicon

Segi eins og Lára Hanna, þoli ekki hávaðann en hvarflar ekki að mér að kaupa ekki  af björgunarsveitunum. Flestir hafa gaman af þessu og á meðan ekki finnst önnur hentugri leið til að fjármagna starf sveitanna ENDILEGA KAUPIÐ FLUGELDA AF BJÖRGUNARSVEITUNUM ef þið getið það.

Dagný (IP-tala skráð) 31.12.2008 kl. 11:12

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég kaupi aldrei af björgunarsveitunum.. hef ekki gert í áraraðir og mun ekki gera.. Ef flugeldasala er það sem heldur þessum sveitum uppi þá er fjáröflun þeirra á miklum villigötum og ættu þeir að leita annara leiða en bara flugeldasölu til þess að fjármagna sig.  Hvar er hið opinbera ? 

hér virðist það vera lenska að félagasamtök selji varning til þess að stunda starfsemi sína, HI er með fjárplógsstarfemi í háspennunni og einhentu ræningjunum sínum og gerir fólk að spilafíflum.. í nafni menntunar

Björgunarsveitirnar selja flugelda sem valda skaða á hverju einasta ári..  í nafni björgunar.. 

eitthvað er ekki alveg að gera sig hérna..  

Óskar Þorkelsson, 31.12.2008 kl. 11:44

8 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ég er í flestu sammála Óskari...en hvað um það Gleðilegt ár og takk fyrir góða pistla á árinu sem er að líða.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 31.12.2008 kl. 13:32

9 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Gleðilegt ár - Ég kveiki í hæsta lagi á stjörnuljósi í kvöld en er annars sammála þér að ef  maður á annað borð kaupir flugelda ætti maður að versla það við björgunarsveitirnar.

Anna Karlsdóttir, 31.12.2008 kl. 13:36

10 Smámynd: Einar Indriðason

Búinn að gera mitt, hjá Björgunarsveitunum.

(Miðað við hvernig Ríkið hefur staðið sig að undanförnu..... þá er kannski eins gott að það styður ekki meira við bakið á björgunarsveitunum......) 

Gleðilegt nýtt ár!

Einar Indriðason, 31.12.2008 kl. 14:27

11 Smámynd: Himmalingur

Sammála þér 200%! Sonur minn sem er björgunarsveitarmaður sagði mér að eldra fólk væri að koma á sölustaði og gefa þeim peninga, því eins og það sagði sjálft:" Við höfum ekkert við þessar blessuðu sprengjur að gera, en þið hafið svo sannanlega þörf  fyrir peninga elsku hetjurnar okkar"!

Gleðilegt nýtt ár Lára Hanna! Kveðja: Hilmar 







Himmalingur, 31.12.2008 kl. 14:50

12 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Ég kaupi ekki einu sinni stjörnuljós enda á móti þessum flugeldum. Bara hávaði, mengun  og  slysahætta. En ég er til að leggja inn á björgunarsveitirnar einhverjar upphæðir. Þökk sé þeim fyrir óeigingjörn störf.

Úrsúla Jünemann, 31.12.2008 kl. 16:50

13 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér fannst þú glæsileg í sjónvarpinu í gærkvöldi.

Kæri bloggvinur, ég óska þér gleðilegs nýs árs og þakka fyrir skemmtileg kynni á árinu megi nýja árið færa þér hamingju og gleði. Kær kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 31.12.2008 kl. 18:15

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gleðilegt ár, Lára mín Hanna!

Vonandi verður þér ekki bjargað af öllum björgunarsveitunum á nýja árinu.

Þorsteinn Briem, 31.12.2008 kl. 19:28

15 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Gleðilegt ár, elsku Lára Hanna mín. Það eru forréttindi að eiga þig sem góða vinkonu. Takk fyrir frábært blogg og góða og trygga vináttu í gegnum árin.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 1.1.2009 kl. 01:24

16 identicon

Ég hafði ekki því miður efni á því að styrkja einhverja Björgunarsveitina eða hjálparsveit Skáta um þessi áramót en vonandi mun ég geta það um næstu áramót.                       

Gleðilegt nýtt ár og þakkir fyrir fræðandi og upprifjandi bloggfærslur þínar á því liðna.

Bjarni Hallsson (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 03:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband