1.1.2009
Gleðilegt hugarfarslegt byltingarár!
Sú bylting sem ég vil helst sjá á nýju ári er bylting hugarfarsins. Að Íslendingar haldi áfram þeirri þróun sem örlað hefur á undanfarnar vikur, að þeir hristi af sér velmegunarslenið, hafi skoðanir og tjái þær umbúðalaust. Það er erfitt að gera upp árið 2008 en hér er stutt yfirlit álitsgjafa Kastljóss og Íslands í dag. Mér brá mjög þegar Sölvi kvaddi í Íslandi í dag. Ég skil ekki af hverju hann er látinn fara. Var hann orðinn of beittur? Veit þetta einhver?
Kastljós 29. og 30. desember 2008
Ísland í dag 30. desember 2008
Gamla árið var kvatt með látum eins og hæfir í rauninni. Ég var ekki viðstödd og get því ekki metið aðstæður svo ég vísa í t.d. Salvöru, Birgittu og Heiðu. Frásögn Birgittu er sérlega athyglisverð. Fleiri sem voru þarna hljóta að hafa skrifað um atburðina. Bendið endilega á slík skrif í athugasemdum. Gestir Kryddsíldarinnar virtust órólegir yfir hávaðanum í mótmælendum og satt að segja hefði ég gjarnan viljað hafa þá þannig og láta þáttinn halda áfram. En svo fór sem fór og ég dæmi engan. En mér fannst þessi atburðarás engu að síður ósanngjörn gagnvart starfsfólki Stöðvar 2. Mér segir svo hugur um að það sé i hjarta sínu á okkar bandi og hafi þarna verið sett í mjög óþægilega aðstöðu. Viðbót: Helgi Jóhann Hauksson segir sína sögu hér í máli og myndum. Hans sýn á málið er athyglisverð í meira lagi.
Björn Bjarnason fékk samþykkt nokkurs konar ofsóknaræðisfrumvarp á vorþingi 2008 sem heimilar handtöku fólks við t.d. þessar aðstæður þótt það standi hjá og horfi á - ef það er grunað um að hugsa eitthvað ljótt. Þá verður heldur betur ástæða til að skoða vandlega hvernig fjölmiðlar segja frá, efast og leita heimilda annars staðar líka. Lögin taka gildi í dag.
Kryddsíld Stöðvar 2 - 31. desember 2008
Myndband frá mótmælunum - Stöð 2
Myndband frá mótmælunum - Mbl Sjónvarp
Kvöldið byrjaði með áramótaávarpi forsætisráðherra, ástæðu þess að hann mætti of seint í Kryddsíldina og komst svo ekki inn skv. fréttum. Í nýlegri bloggfærslu hafði ég þau orð um svona ávörp væru í eðli sínu "innihaldslaust, upphafið, staðlað kjaftæði um allt og ekkert" og þetta ávarp var einmitt þannig. Ég gæti tekið næstum hverja setningu og dregið sundur og saman í háði - geri það kannski seinna - en að þessu sinni vitna ég aðeins í eina setningu: "Í Íslendingum býr kraftur, þor, áræði og hugmyndaauðgi," sagði Geir. Hann er greinilega ekki Íslendingur - þorir ekki einu sinni að reka Davíð og Jónas Fr. þrátt fyrir augljós afglöp þeirra og vanhæfi í starfi. Svo ekki sé minnst á alla hina. En síðan komu fréttaannálarnir og af nógu var að taka. Ég hefði ekki viljað vera í sporum fréttamanna að þurfa að velja.
Áramótaávarp Geirs H. Haarde, forsætisráðherra
Fréttaannáll Stöðvar 2 - innlent og erlent
Fréttaannáll RÚV - innlendur
Fréttaannáll RÚV - erlendur
Mig langar að ítreka þá ósk mína að hér verði hugarfarsleg bylting á nýju ári, ekki veitir af. Vonandi kemst fólk að því að okkur kemur öllum við hvað ráðamenn þjóðarinnar eru að bralla. Það varðar lífsafkomu okkar og framtíð barna okkar og barnabarna. Ekki sitja aðgerðarlaus hjá og láta aðra um að móta framtíðina! Tökum öll þátt í þeirri vinnu og ef baráttu þarf til þá heyjum við hana saman!
Gleðilegt hugarfarslegt byltingarár og kærar þakkir til allra lesenda þessarar síðu - ekki síst þeirra sem hafa sent mér tölvupóst í hundraðatali með hvatningarorðum - og ég biðst forláts á að hafa ekki fundið tíma til að svara þeim öllum. Svo vil ég að lokum óska Herði Torfasyni til hamingju með að vera kosinn maður ársins á Rás 2. Ef einhver verðskuldaði það var það hann. Hörður hefur lyft grettistaki, ég er honum mjög þakklát og ber takmarkalausa virðingu fyrir starfi hans og afrekum í þágu þjóðarinnar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:29 | Facebook
Athugasemdir
Ég mun mæta á laugardaginn á vikuleg mótmæli. Mér finnst að mótmælendur, þessir ungu frísku þurfi að skipuleggja sig betur. Ég styð öll friðsöm mótmæli. Það má aldrei skemma eigur okkar skattgreiðendanna mótmælafundir eru haldnir. Gleðilegt ár
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.1.2009 kl. 03:32
Lára Hanna!
Ég hef verið tryggur lesandi þinn lengi
Ekki, ó í guðanna bænum EKKI réttlæta athyglissjúk skemmdarverk!
Ég sá ekki málsstaðinn, ég sá ekki réttlætinguna.
Sá bara athyglissýki, skemmdarfíkn og.... RUGL!!!
Skemmdarverk eru oft réttlætt með því að málstaðurinn sé svo göfugur en þegar mótmælin leysast upp í skemmdarverk og ofbeldi að þá víkur málstaðurinn fyrir aðferðarfræðinni og orðræðan víkur frá því sem skiptir máli!
PLÍS!!!!!
M.B.K.
Þórður Ingi
Þórður Ingi (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 03:37
Gleði og gæfuríkt ár Lára Hanna og takk fyrir allar þínar frábæru bloggfærslur og samantektir á liðnu ári. Hlakka til að hitta þig aftur á nýju ári
Sigrún Jónsdóttir, 1.1.2009 kl. 03:39
Þórður Ingi... ég réttlæti ekkert en dæmi engan heldur. Ég var ekki á staðnum og er því ekki í aðstöðu til þess og sjálf kýs ég friðsamleg mótmæli. Eins og ég segi í pistlinum hefði ég gjarnan viljað sjá Kryddsíldina halda áfram undir taugatrekkjandi hávaðanum frá mótmælendum - og mér fannst starfsfólki Stöðvar 2 vera gert rangt til. Það hafði ekkert gert af sér og var bara að vinna vinnuna sína.
Hitt er svo aftur allt annað mál hvort brotin rúða, ónýtir kaplar eða kvikmyndatökuvélar geta á nokkurn hátt vegið upp á móti þeim skemmdarverkum sem framin hafa verið á íslenskum efnahag, sálarástandi þjóðarinnar, stolti hennar, afkomu einstaklinga, hækkandi lánum og öllu því sem dunið hefur yfir okkur undanfarna mánuði. Hvort ætli sé meira skemmdarverk - það sem yfirvöld, útrásarauðmenn, bankastjórar, Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og fleiri hafa unnið - eða mótmælendur?
Við verðum að íhuga það áður en við dæmum þá sem mótmæla - á hvaða hátt sem þeir kjósa að gera það.
Lára Hanna Einarsdóttir, 1.1.2009 kl. 03:47
Ég vil taka heilshugar undir allar óskir þínar og hugleiðingar, og sérstaklega ósk þína um byltingu hugarfarsins, held reyndar að sú bylting sé þegar komin vel á veg.
Ég hef mætt í allflest laugardagsmótmælin. Miðað við fólksfjöldann í landinu hafa þau verið ótrúlega fjölmenn. En þessi mótmæli hafa verið algjörlega hunsuð af stjórnvöldum. Mótmælendabrandarar eru vinsælir á ríkisstjórnarfundum og þá er mikið hlegið. Nú stefnir í harðari mótmæli og verður það alfarið að skrifast á ábyrgð stjórnvalda, þau hafa einfaldlega beðið um slíkt.
Að afgreiða mótmælendur sem "skríl" "ungmenni" "athyglissjúklinga" eða eitthvað í þeim dúr er afskaplega óréttlátt. Þessir mótmælendur eru vitsmunaverur sem kvíðir framtíðinni og mislíkar spillingin, þeir eiga allan minn stuðning. Við þurfum að eignast nýtt og óspillt Ísland.
Ég óska þér og þínum gleðilegs árs, og þúsund þakkir fyrir elju þína, samantektir og hugleiðingar á þessari mögnuðu bloggsíðu.
sigurvin (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 07:25
Gleðilegt ár Lára Hanna og takk fyrir það liðna.
Ég var við Hótel Borg í gær og allt fór friðsamlega fram, en ég fór þaðan þegar lögreglan hótaði allt i einu yfir hátalarakerfið að hún mundi úða pípargasi ef við færðum okkur ekki yfir á Austurvelli.
Við komumst ekki heim þar sem lögreglan var búin að loka billin okkar inni á stæðinu á Lækjargötunni. Það var lögreglubilum fyrir framan, aftan og allt um kring og við þurftum að biða í hátt í klukkutíma.
Að lokum hitti ég lögregluþjónn sem var að koma með fullt af kylfum.
Heidi Strand, 1.1.2009 kl. 09:11
Gleðilegt byltingarár og takk fyrir árið sem er liðið.
Rut Sumarliðadóttir, 1.1.2009 kl. 10:27
Gleðilegt byltingarár, Lára Hanna, og innilegt þakklæti fyrir frábæru pistlana þína á síðasta ári.
María Kristjánsdóttir, 1.1.2009 kl. 11:06
Ég var að skoða myndir á síðu Helga Haukssonar sem var við Borgina í gær.
Berglind Steinsdóttir, 1.1.2009 kl. 11:32
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla!
Valgerður Sigurðardóttir, 1.1.2009 kl. 15:52
Gleðilegt ár og þakka þér fyrir að halda okkur vel upplýstum um það sem er að gerast.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 16:44
Gleðilegt byltingarár Lára Hanna. Ég er þakklát mótmælendum fyrir að stöðva skrýpaleik valdhafanna á Hótel Borg. Ég mæli ekki með ofbeldi en valdhafar sem koma fram í sparifötunum í létt spjall á gamlársdag í lok þessa hörmungaárs eiga ekki rétt á sér.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.1.2009 kl. 16:53
Gleðilegt ár Lára Hanna. Takk fyrir frábæra frammistöðu á blogginu þínu á liðnu ári. Sjáumst.
Gunnar Skúli Ármannsson, 1.1.2009 kl. 16:55
Gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir allar færslurnar þínar sem hafa verið afar upplýsandi.
Tek heilshugar undir þörfina á hugarfarslegri byltingu.
Kristjana Bjarnadóttir, 1.1.2009 kl. 17:29
Gleðilegt nýtt Ár.
Ég var þarna á þessum mótmælum með "krökkunum"
Það sem ég furða mig mest á er að lögreglan reyndi ekki að tala við fólk, semja við það eða reyna með venjulegum hætti að fá mótmælendur til að koma sér í burt. Það var starx byrjað að öskra og blammera fólk, sem sat á gólfinu og á stéttinni fyrir utan.
Tveir sjúkrabílar voru komnir á staðinn löngu áður en piparúðanum var beitt, sem vekur furðu mína, þýðir það ekki að þeir hafi allan tíman ætlað að beita þessum úða? Er þetta bara orðin lenskan hjá lögreglunni? Einnig finnst mér svakalegt að horfa á myndbönd frá þessum atburðum og sjá hvað þeir úða miklu og bara á allt og alla. Það er eins gott að þeir bera ekki byssur, því að þeir myndu aldrei höndla þá ábyrgð. Afsakið að ég beri byssur og úðann samann, en það er eins og lögreglan þurfi að læra á þetta vopn þeirra og einnig að tala við mótmælendur.
Mér finnst leiðinlegt að snúru hafi verið brendar en, það gerðist allt eftir að löggan var búin að spreyja fólk í kaf. Fólk æstist auðvitað mjög snögglega upp við það.
Mér finnst líka gaman að því, hvað allt í einu Kryddsíldin er vinsæll þáttur. Það mætti halda að fólk komist bara ekki yfir það að fá ekki að horfa á uppáhalds þáttinn sinn, þar sem pólitíkusar rausa um ekki neitt, með rándýr vín og bjór við hönd og glotta út í eitt.
Við skulum vona að fljótlega verði tilkynnt um kosningar í vor, seinasta lagi í sumar!
Takk fyrir öll bloggin! Takk fyrir að standa vörð um náttúruna okkar og að taka svo saman þessi einstöku myndbönd!
Unnsteinn Jóhannsson (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 18:31
Mikið sammála - hugarfarsbreyting á breiðum grundvelli er nauðsýnleg! Ég þakka líka fyrir allar þessar góðu bloggfærslur og óska þér alls góðs á nýju ári.
Petra Mazetti (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 18:33
Ég óska þér gleðilegs árs, Lára Hanna og hafðu þökk fyrir þín góðu fréttayfirlit og færslur hér á blogginu.
Sigmundur Ernir hefði átt að rjúfa útsendinguna fyrr. Hann var að stofna starfsfólki sínu í hættu með því að halda þættinum áfram svona lengi. Það er alvarlegur hlutur.
Theódór Norðkvist, 1.1.2009 kl. 21:33
Gleðilegt ár Lára Hanna, tek undir óskir um breytt hugarfar og aukna virkni hins almenna borgara. Ef marka má niðurstöður kannana bæði Siðfræðistofnunar og Gallup hefur traust almennings til t.d. stjórnmálaflokka og valdhafa reyndar ekki verið beysið lengi. En af einhverjum ástæðum hefur aðhaldið ekki verið mikið, hvorki frá almenningi sem svaf ansi vært (nema með einstaka virðingarverðum undartekningum, sbr. þig sjálfa) né fjölmiðlum, sem gleymdu að spyrja, "hvað, hver, hvar, hvenær og hvers vegna" svo ég vitni í einhverja bestu bók sem ég hef lesið. Þar segir einnig, völd eru verðmæti. Þau verðmæti höfum við afhent gagnrýnislítið á fjögurra ára fresti og gleymt að fylgjast með hvernig var farið með þau. Orðspor, gildin í samfélaginu eftir Gunnar Hersvein er þvílík hugvekja að ég get ekki stillt mig um að hvetja alla til að lesa hana. Tek fram að ég á engra hagsmuna að gæta nema þeirra að ég held að samfélagið okkar yrði betra ef okkur tækist að tileinka okkur og lifa eftir þeim gildum sem þar fjallað um. Með ósk og von um aukið lýðræði, gagnsærri stjórnsýslu og minni spillingu á komandi árum á landinu okkar.
Solveig (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 22:30
Hugarfarsbylting er akkúrat orðið. Gleðilegt ár.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 1.1.2009 kl. 23:45
Eg tók þátt í mótmælunum við Stjórnarráðið og Hótel Borg. Að "klippa" á lygar og þvaður ráðamanna - í stað þess að sitja undir því - var sérlega viðeigandi aðgerð.
Segi og skrifa "lygar og þvaður" eftir að hafa horft á fyrstu mínútur Kryddsíldarinnar. Bullið í Valgerði Sverrisdóttur (við gátum ekkert gert og hér eru bara sömu reglur og í ESB) og ömurleg undanbrögð Ingibjargar (gat engu svarað spurningu Sigmundar um pólitíska á byrgð en fyllti útí með blaðri).
Cut the Crap! Líka þið sem viljið gera brotna rúðu í Fjármálaeftirlitinu og slitna sjónvarpskapla að hinu mikla hneykslunarefni. Það er auðvitað viðráðanlegra en gjaldþrot og skuldaánauð heillar þjóðar, en hvílík hræsni ! Á bíblíumáli heitir það að sía mýfluguna en svelgja úlfaldann.
En auðvitað var verra að valda skemmdum.
Ótýndur forstjóri 365 mætti annars tiltaka nákvæmlega hvaða upphæðir er um að ræða í sambandi við skemmdir á tækjbúnaði Stöðvar2. Það rifjast nefnilega upp fyrir manni "milljóna skemmdirnar" af völdum skyrhryðjuverkanna. Þær milljónir urðu að nokkrum þúsundköllum fyrir rétti. Ótýndur kjöftugur sjónvarpsstjóri mætti tala skýrar.
P. S. Þið sem viljið fá sem besta mynd af því sem gerðist þarna, ættuð að styðjast við framburð sjónarvotta. Þetta voru í aðalatriðum friðsöm mótmæli en hávaðasöm. Sallafín.
Rómverji (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 00:01
Þetta sem skeði inni á Hótel Borg voru ekki mótmæli heldur skrílslæti!
Það er sorglegt að mótmæli gegn stjórnvöldum skuli snúast upp í húsbrot og glæpamennsku gegn þegnum sem sitja alveg eins í súpunni og aðrir.
Það gera starfsmenn Hótelsins sannarlega og sömuleiðis Stöðvar2. Og ef óður skríll sem brýtur og bramlar hluti ryðst inn á vinnustað þess, eru þeir í fullum rétti að varna skrílnum inngöngu. Þó ekki væri nema sjálfum sér til varnar. Þetta er hótel, fullt af erlendum og innlendum gestum, og þessi skríll var með vasa fulla af flugeldum, hnífum og öðru. Fullkomið ábyrgðaleysi.
Það hlýtur að vera æskilegra fyrir mótmælendur alla, að hafa fjölmiðla með sér en ekki á móti. Og að skemma búnað þeirra og tæki takmarkar getu þeirra og vilja í framtíðinni til að fjalla hlutlaust um mótmæli. Gleymum ekki því að ef ekki hefðu fjölmiðlar verið við önnur mótmæli eins og við Norðlingabraut værum við ansi berskjölduð fyrir Lögreglu og stjórnvöldum. Fjölmiðlar eru okkar öryggisventlar. Virðum það og vinnum með þeim til að fella rotin stjórnvöld.
Þeir sem vilja róttæk mótmæli ættu alla vega að hafa vit og þor að beina þeim beint á þær persónur sem eiga það skilið. Farið frekar í Stjórnarráðið eða Ráðherrabústaðinn. Eða sækið Ráðherra heim. Það er bara að skemmta skrattanum að draga aðra þegna í ykkar mótmæli með valdi.
Upp með "Hugarfarslegu byltinguna" annars. Og þökk sé þér og Herði Torfa.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 00:20
Bestu þakkir Lára Hanna fyrir skrif þín og eigðu gæfuríkt ár ásamt þjóðinni allri. Kærar kveðjur ásamt þakklæti. E.
Edda (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 00:40
Uppskrift að friðsömum mótmælum
Stærsti hluti þjóðarinnar sættir sig ekki við ástandið sem skapast hefur í kjölfar bankahrunsins og flestir verða fyrir búsifjum. Fólkið vill sjá valdhafa axla sína ábyrgð sem auðvitað gerist ekki nema með bæði alþingis- og forsetakosningum. Allt annað er og verður froðusnakk sem ekki mettar þjóðina.
Þaulseta stjórnarherrana eftir að hafa gert í buxurnar er sem olía á ófriðarbál sem á sér varla fordæmi á Íslandi. Stífbónaðar nýársræður slökkva ekki eldana. Þegar þúsundir atvinnuleysingja bætast í þann hóp sem geta ekki séð fjölskyldum sínum farborða, er hætt við að fjölskyldan leysist upp á mörgum bæjum, og hundruð ef ekki þúsundir vonleysingja ráfi götur Reykjavíkur með herta sultaról. Fólk í slíku ástandi getur hæglega orðið auðveld bráð klappstýrum ofbeldismótmæla.
Íslendingar er seinteknir til mótmæla. Íslendingar hafa jafnan úthrópað jafnvel friðsömustu mótmælendur hérlendis sem þorpsfífl og vitleysinga. Ég fékk þann skammt óþveginn eftir að nota óhefðbundnar aðferðir í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar reynt var að koma mér í 16 ára fangelsi fyrir þær sakir að mótmæla stuðningi Íslands við innrás Bush í Írak.
En mótmæli byggjast ávallt á óhefðbundnum aðferðum. Þau þurfa að valda einverri truflun til að skila árangri. Hið minnsta sjóntruflun og stinga í stúf við umhverfið. Mótmæli snúast um að ná athygli fjölmiðla nægjanlega oft og lengi til að umfjöllun skapist um málefnið. Fjölmiðlar, sérstaklega ritskoðaðir fjölmiðlar eins og við höfum átt að venjast á Íslandi, hleypa ekki í loftið þeim sem ekki eru eigendum þóknanlegir nema búin sé til frétt dagsins.
Ég notaði jólasveinabúning til myndrænna mótmæla í Héraðsdómi 19.12.2002 þegar koma átti mér í 16 ára fangelsi fyrir andóf gegn stríðsbröltinu í Írak. Ákæran var tekin fyrir í vikunni fyrir jól, ári eftir að utanríkisráðuneytið stöðvaði með lögregluvaldi á Keflavíkurflugvelli flugvél sem komin var í flugtaksstöðu og átti að færa frá Friði 2000 jólagjafir, lyf og matvæli til stríðshrjáðra barna í Írak. Sakirnar á mig voru fjarstæðukenndur tilbúningur, brot á tjáningarfrelsi og réttarfarsreglum. Tilgangur minn með að mæta í búningi jólasveinsins og setja málsgögn sem ég fékk afhent af dómaranum í jólasveinapoka, var að sýna lítisvirðingu þeim stjórnvöldum og dómara sem létu hafa sig í að misnota dómskerfið. Segja á myndrænan hátt að ég tæki hvorki mark á froðuruglinu þeirra fyrir réttinum né fjarstæðukenndri ákærunni.
Málið gegn mér í Héraðsdómi var aftur tekið fyrir 15.04.2003. Þetta bar nákvæmlega uppá þann dag sem loftárásir hófust á Írak. Fjögur þúsund manns, óbreyttir borgarar börn og gamalmenni hlutu blóðugan dauðdaga þennan dag í Írak með flugskeytum sem þau fengu send að himnum ofan með stuðningi Íslendinga. Mér ofbauð svo, að á síðustu stundu áður en ég mætti í réttinn, skipti ég í hvíta skyrtu og ataði hana tómatsósu. Þannig mætti ég fyrir dómarann og ákæruvaldið. Þannig sýndi ég þeim mína lítisvirðingu á stuðningi Íslendinga við morðóðan Bush bandaríkjaforseta. Ég yfirgaf síðan réttinn með því að skella á eftir mér hurðinni og sagðist ekki mæta aftur í þann skrípaleik sem þarna færi fram. Ég stóð við þau orð og mætti aldrei aftur í réttarhaldið.
Eins og ég hef mátt reyna, í þeim óvenjulega skrípaleik ritskoðaðra fjölmiðla og snobbaðra fréttamanna sem hér hefur viðgengist, getur tekið tíma að fá boðskapinn í gegn. Hann kemst sjaldnast óbrenglaður til skila.
Hinsvegar finnst engin lausn í mótmælum byggðum á ofbeldi. Það er bál sem erfitt yrði að slökkva og Ísland má alls ekki þróast í þá átt. Við getum horft til Ísrael þar sem nútíma hryðjuverk hófust. Þótt ofbeldisfull mótmæli og hryðjuverk hafi þar komið einhverjum til valda á síðustu öld, fékk sú nýja þjóð um leið ofbeldið í vöggugjöf. Hvar sem ofbeldi hefur verið notað í andófi, hefur það leitt til meira ofbeldis. Sama myndi gerast hér. Ef knúinn yrði fram árangur með ofbeldi, mun það leiða af sér enn meira ofbeldi. Ofbeldisaldan gæti varað tugi eða hundruð ára og eitrað öll samskipti okkar og lífsmynstur. Við viljum ekki slíkt þjóðfélag.
Hversvegna mæta mótmælendur ekki með skyrið eða tómatsósubrúsana í mótmælin frekar en með hnífa og múrsteina? Mun áhrifameira fyrir myndavélarnar og slasar engan þótt hann fái gusuna yfir sig. Mesta lagi kostar gott bað og fatahreinsun.
Borgaraleg óhlýðni er önnur útfærsla mótmæla. Það að gera ekki eitthvað sem "kerfið" ætlast til getur verið áhrifaríkt. Einnig að gera eitthvað sem er "bannað" en með friðsömum hætti.
Frægasti mótmælandinn, Gandhi, í saltgöngunni frægu, truflaði bæði umferð og þjóðlíf og hóf að vinna salt í trássi við lög sem bönnuðu almenningi slíkt. Ekki ólíkt kvótamáli Íslendinga.
Hér á Íslandi mætti útfæra þetta með þvi að mótmælendur fengju lánaða báta, eða bara tækju ónotaða báta tímabundnu eignarnámi, og færu að fiska án kvóta. Leyfðu síðan lögreglu að handtaka sig við löndum sem hluta af friðsömum mótmælum
Ástþór Magnússon Wium, 2.1.2009 kl. 05:05
Um leið ég og vil þakka þér fyrir enn einn fínan pistilinn langar mig að benda þér á að það voru einmitt starfsmenn Stöðvar tvö sem stukku á mótmælendur en ekki öfugt. Er það ekkert ósanngjarnt? Hvað voru þeir eiginlega að verja? Og kannski fyrir skitnar 1500 hríðfallnar krónur á tímann? Eigur Jóns Ásgeirs? Hvar hefur Stöð 2 verið að verja eigur okkar?
Guggan (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 05:53
Gleðilegt ár. Hiugarfarsbylting er það sem við þurfum.
Hólmdís Hjartardóttir, 2.1.2009 kl. 08:25
"Hversvegna mæta mótmælendur ekki með skyrið eða tómatsósubrúsana í mótmælin frekar en með hnífa og múrsteina?"
Þessi spurning er fullkomlega út í hött.
Mótmælendur á gamlársdag báru hvorki hnífa sem vopn né köstuðu músteinum. Einn mótmælandi er sagður hafa kastað einum múrsteini.
Enn og aftur til þeirra sem vilja komast nær sannleikanum: Styðjist við framburð sjónarvotta sem vilja greina satt og rétt frá:
http://birgitta.blog.is/blog/birgitta/entry/758972/
http://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/758893/
http://skessa.blog.is/blog/skessa/entry/758550/
Rómverji (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 09:10
Takk Lára Hanna mín fyrir að vera til:) Þú hefur verið ómetanleg í að safna saman upplýsingum á einn stað - sér í lagi upplýsingum af ljósvakamiðlum sem tengjast þessari gerspilltu atburðarrás - bæði fyrir og eftir hrunið. Tek undir að hér þurfi að verða hugarfarsleg bylting. Sem betur fer er fullt af fólki að vinna að því að koma með lausnir því einsýnt er að okkar ráðamenn hafa engar slíkar.
Birgitta Jónsdóttir, 2.1.2009 kl. 10:15
Hugarfarsbyltingin - það er nafnið á íslensku lýðræðisbyltingunni - við erum nógu fá til að geta gert það sem þjóð.
Bestu kveðjur og takk fyrir gott og þarft blogg, heimildaskráningu og innlegg.
Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 14:11
Friðardúfa og flokkshestur úr Seðlabankanum:
http://gudruntora.blog.is/blog/gudruntora/entry/760319/
Rómverji (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 21:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.