Reyni að komast til himna...

...áður en dyrunum verður lokað.

Ég hef ekki haft geð í mér til að koma nálægt tölvunni í mestallan dag enda orðin svo langþreytt að ég held varla höfði. Svo settist ég niður áðan eftir góðan lúr fyrir framan sjónvarpið og skoðaði fjölmiðla, bloggfærslur og athugasemdir. Ég fylltist sorg og vonleysi. Sorg yfir því hvað fólk er alltaf ósammála, sumir svo öfgafullir, ofsafengnir og orðljótir... og skyndilega helltust yfir mig atburðir síðustu þriggja mánaða, aðdragandans, afleiðinganna, ábyrgðarleysis stjórnvalda og vonleysið varð yfirþyrmandi. Reyndar ekki í fyrsta sinn í vetur en þetta var skelfileg upplifun.

Mótmæli 3. janúar 2009Við erum lítil og fámenn örþjóð sem eigum að geta rekið þetta þjóðfélag í sæmilegri sátt og einbeitt okkur að því sem skiptir máli. Sniðið okkur stakk eftir vexti sem hefur sárlega skort undanfarin ár og áratugi. Þess í stað erum við að þrátta um smáatriði sem engu máli skipta - eins og hvort 8 ára gömul stúlka geti borið skaða af því að tala í nokkrar mínútur á mótmælafundi. Ég sem hélt að það væri foreldranna að meta slíkt. Alræmdur friðarspillir, sem allir fengu yfir sig nóg af fyrir fjölmörgum árum, geysist um netheima, límir eigin bloggfærslur inn í athugasemdakerfi annarra bloggara með vægast sagt ógeðfelldum myndum af vopnuðum börnum og hótar að kæra hægri og vinstri eins og ævinlega.

Þreytupirringurinn olli því að ég fór að glugga í fjárlögin - sem ég hefði betur látið ógert. Ekki lagast hugarástandið við það. 

Steingrímur J. segist vilja rauðgræna ríkisstjórn með Samfylkingu. Hver segir að hann eða Samfylkingin verði kosin til nokkurra verka? Hver veit nema fram komi breiðfylking fólks sem hefur aðrar hugmyndir um framtíðina en Steingrímur J. og Samfylkingin, sem virðist bara líða bærilega, takk, í hjónasænginni með Sjálfstæðisflokkinn ofan á alveg eins og Framsókn forðum. Gallinn er bara sá að ný stjórnmálaöfl eru fyrirfram dauðadæmd af flokkunum sem fyrir eru. Þeir eru búnir að koma hlutunum þannig fyrir með lagasetningu að eingöngu flokkar sem fyrir eru á þingi fá fjárframlög frá ríkinu (okkur). Og áður en þingmenn fóru í mánaðarlangt kreppujólafrí hækkuðu þeir framlagið til flokkanna sinna úr 310 milljónum í 371,5 milljónir á meðan allt annað var skorið niður. Sem dæmi má nefna voru lögð innritunargjöld á þá sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús og eru líklega síst í stakk búnir til að borga slíkt og ýmis gjöld voru hækkuð sem hafa bein áhrif á verðbólgu og verðbætur lána.

Í gær kom fram að hinn umhyggjusami einkavæðingarheilbrigðisráðherra ákvað að innritunargjald á sjúkrahús yrði litlar 6.000 krónur. Formaður ASÍ sagðist vera "hissa". Upphæðin sem fer til stjórnmálaflokkanna nægir fyrir innritunargjöldum 61.917 sjúklinga. Mér skilst að atvinnuleysisbætur séu um 130.000 á Seðlarmánuði sem gera 1.560.000 á ári. Framlagið til flokkanna nægði fyrir atvinnuleysisbótum 238 manns í heilt ár. Svokallað skúffufé ráðherra er 81 milljón alls. Því geta þeir ráðstafað að eigin geðþótta. Þetta eru innritunargjöld fyrir 13.500 sjúklinga - eða 324.000 skólamáltíðir fyrir börnin okkar ef hver máltíð kostar 250 krónur.

En flokkafjárframlögin fá aðeins þau stjórnmálaöfl sem fyrir eru á þingi til að auglýsa sig og sína í prófkjörum og kosningum. Aðrir eiga ekki séns. Við borgum rekstrarkostnað þeirra, auglýsingaskrum, ferðalög og annað - á vegum flokkanna. En við hin eigum ekki möguleika á að bjóða okkur fram sem stjórnmálaafl og etja kappi við fólk með slíkt fjármagn til afnota sem sótt er í okkar eigin vasa. Jafnræði í reynd þar sem sumir eru svo sannarlega jafnari en aðrir. Þetta er fyrir utan tæplega 3,8 milljarða - 3.800 milljónir - sem það kostar okkur að reka "Æðstu stjórn ríkisins" eins og það heitir í fjárlögum. Ég vitna í hinn margkveðna Megasarfrasa: Afsakið á meðan ég æli.

Svo er það 5% ákvæðið sem kveður á um að stjórnmálaflokkur sem fær undir 5% í kosningum fær engan mann á þing - nema hann sé þar fyrir, þá gefa 5% honum 2 þingmenn. Það fer þó líkast til eftir því hvar á landinu atkvæðin falla, því atkvæðavægið er svo misjafnt þéttbýlis og dreifbýlis. Flokkarnir sem fyrir eru á þingi eru semsagt búnir að girða jafnrækilega fyrir "samkeppni" og stjórn VR gerði forðum. Það er ekki hægt að endurnýja, sama hve margir vilja það. Okkur er gert að kjósa sama liðið aftur, hvað sem tautar og raular. En ég vil það ekki, ég neita því og ég krefst þess að lögum og reglum verði breytt til að sú hugarfarslega bylting sem nauðsynleg er geti orðið og rotnu, steinrunnu flokkakerfi hent á haugana.

Hverslags andskotans vitleysa og níðingsskapur er þetta eiginlega? Er þetta íslenskt lýðræði í hnotskurn?

En annars ætlaði ég ekki að skrifa svona pirrings- eða reiðiblogg. Ég ætlaði  að vekja athygli á honum Eiríki Guðmundssyni, rithöfundi, pistlahöfundi og Víðsjárpilti. Ég benti á pistlana hans hér undir fyrirsögninni Hvað þarf til að ofbjóða þjóðinni? Síðan þá hefur Eiríkur flutt marga, frábæra pistla í Víðsjá og í gær birtist grein eftir hann í Fréttablaðinu sem fylgir hér með. Smellið þar til læsileg stærð fæst að venju. Eiríkur flutti líka fyrsta pistil sinn á nýju ári í Víðsjá í fyrradag. Hann er næstum neðst í tónspilaranum ofarlega vinstra megin á síðunni merktur: Víðsjá - Nýtt ár, mótmæli og þjóðin. (Ég bíð spennt eftir að geta sett útvarpsefni beint inn í færslur og þurfa ekki að vísa í þennan óaðgengilega spilara.) Það er úr þeim pistli sem ég tók fyrirsögnina - Trying to get to heaven before they close the door - Bob Dylan.

Eiríkur Guðmundsson - Fréttablaðið 3. janúar 2009

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Það er nú nákvæmlega engin hætta á að himnaríkisdyrunum verði skellt aftur er fregnast að þú sért á leiðinni Lára Hanna mín, hafi þær á annað borð verið opnaðar!

En þú ert nú svo ungg, hraust þrátt fyrir allt algleymið og baráttufús, að ég hef enga trú á að þú farir neitt að kveðja í bráð, ekki þannig.Eiríkur er ansi snjall já, hef hlustað á hann undanfarin ár, en ljóðrænan í pistlunum á stundum, hefur þó skilst mér ekki öllum verið skiljanleg.

Magnús Geir Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 06:16

2 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Vona annars að í yfirlestrinum þínum hafir þú ekki fundið eitthvað ljótt úr Magnúsarmunni, þá hefur það nú verið ljóta vitleysan úr garminum!?

Magnús Geir Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 06:20

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þú ert æði. ég vil fá þig á þing.

amen

Brjánn Guðjónsson, 4.1.2009 kl. 06:32

4 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Samstaða - samstaða - samstaða:) mikið er ég sammála þér kæra Lára Hanna. Ég skrifaði um áþekka hluti - vegna þess að mér leið örugglega svipað og þér - og var bara ekki viss um hvort að okkur væri viðbjargandi. Annars er ég að spá í að loka moggablogginu mínu og færa mig annað til að mótmæla því hvernig þessi vefur er ritskoðaður. Veit bara ekki alveg hvert - einhverjar hugmyndir?

Birgitta Jónsdóttir, 4.1.2009 kl. 08:02

5 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

-Það gengur næst glæpi að tala um tré- Þannig hefur okkar samfélag verið alltof lengi, spónlögð yfirborðsmennska, græðgisvæðing en ekki gróðursetning ferskra hugmynda um frjálst og betra mannlíf. Þessi grein Eiríks hittir beint í mark og þín tenging við rotna innviði flokkakerfisins. Við þurfum skáldskap og það mikið af honum, lífið á að vera skáldskapur, saminn af okkur fólkinu, en ekki steypt í mót meðalmennsku og heimsku af sérhagsmunum stjórnmálaflokka. Það er rétt, sem Eiríkur segir, við þurfum að sjá hús og bíla brenna, gler verður að láta undan og þoku stjórnmálaflokka verður að létta. Ef við eigum að lifa af, þá þurfum við landsýn.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 4.1.2009 kl. 09:49

6 Smámynd: Víðir Benediktsson

Áfram Lára Hanna. Skil vel að þú sért þreytt enda engin smá vinna sem þú hefur lagt á þig til að halda út þessu frábæra bloggi. Athyglisvert þetta eggjahljóð í VG ekki síst vegna frétta síðustu daga um gjörninga Össurar í Helguvík.

Víðir Benediktsson, 4.1.2009 kl. 09:50

7 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Sammála um það að aðgengi nýrra afla að alþingi er næsta vonlaus. Svo þaeg maður bætir við reglum fjölmiðlanna sem miða að því sama þá fallast manni hendur. Þeir úthluta nefninlega framboðstíma eftir stærð flokka og lítil eða ný framboð fá yfirleitt minni tíma til kynninga ef þeir eru hreinlega ekki bara skildir útundan. Vladaöflin hafa nefninlega þó furðulegt megi virðast eftir allt vanhæfið sem við hefur blasað og blossað upp undanfarið..verið með mjög skýra setfnu og lagasetningar til að halda og auka vald sitt. Alvald myndi ég kalla það. Þess vegna þarf byltingu..hreinsa út og byrja alveg upp á nýtt. Semja nýjar leikreglur og hafa jafna möguleika fyrir alla. Bara koma þessu liði frá...hvernig í ósköpunum sem það verður gert liggur mér við að segja. Ef einhver er búin að loka sig inn í rammgerðu búri og byggja í kringum sig varnir sem ekkert virkar á...nema sprengiefni. Verðum við þá ekki að búa til fleiri kröfuspjöld bara??

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 4.1.2009 kl. 10:25

8 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég skora á Hörð Torfason að skora á þig að taka til máls á Austurvelli á laugardaginn. Ég veit að þú ert ekki síðri í mæltu máli en skrifuðu. Koma svo, Hörður!

Og, Lára Hanna, ég veit að margir munu leggja við þinghlustir ef þú ákveður að bjóða fram sanngirni þína. Koma svo ...

Berglind Steinsdóttir, 4.1.2009 kl. 10:52

9 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Æ maður verður bara meira og meira pirraður.  Þetta inntökugjald ásjúkrahús er gjörsamlega fráleitt.

Hólmdís Hjartardóttir, 4.1.2009 kl. 12:04

10 Smámynd: Haukur Nikulásson

Eins og áður er Lára Hanna með fingurinn á púlsinum og endurspeglar hug okkar margra með flottri framsetningu.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að stofna þurfi nýjan jafnaðarmannaflokk sem væri á móti aðild að ESB og þeirri spillingu sem hér hefur ríkt allt of lengi. Það er orðið tímabært að koma þessu á koppinn og spurning hvort hægt sé að vinna þessu lið á þessum vettvangi. Ég tel að stóra kosningamálið næst verði ESB. Tilhugsunin um fullveldisafsal er mér hreint ekki að skapi.

Vandamálið við þetta er oft og einatt að þá birtast vitleysingar eins og þessi með undirskálaaugun og gera sitt til að breyta slíkum hugmyndum í brandara í stað þeirra framfara sem við erum að óska eftir. Ég held að það ætti að vera hægt að koma þessu á koppinn með því að tryggja fyrst að mestu vitleysingunum sé haldið utan við það. En hver á dæma það hver sé vitleysingur? (Ég hef verið kallaður það sjálfur

Er vilji til að reyna þetta að nýju? Ég hef allavega þá reynslu frá síðustu kosningum að ég hef hugmyndir um hvað beri að forðast í þessu sambandi.

Fleiri?

Haukur Nikulásson, 4.1.2009 kl. 12:25

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er gott að koma hingað inn og lesa.  Það er eins og út úr mínum huga komið.  Og ég er sammála því að það er sorglegt að horfa upp á smáborgaraskapinn í fólki sem er að gagnrýna mótmælendur á hæpnum forsendum.  Hvar liggur þeirra tryggð, með spillingaröflunum ? Æ svo sorglega niðurdrepandi allt saman.  En við erum samt fleiri sem stöndum saman, við skulum ekki gleyma því.  Og það er skemmtilegt að vita það, að í flestum tilvikum eru frumkvöðlarnir í þessu dæmi þroskaðar konur.  Úr öllum stigum þjóðfélagsins.  Þetta segi ég ekki til að benda á að þetta eru konur, heldur til að leggja áherslu á að hingað til hafa slíkar ekki verið mikið liðtækar í mótmælum.  Þetta gefur því þessum mótmælum meiri þunga og vigt.  Áfram frábæra kona og takk fyrir allt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.1.2009 kl. 13:12

12 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Oh Lára Hanna... ég er svo þakklát fyrir þig kona að ég á barasta ekki orð til að lýsa því.

Og þessi grein hans Eiríks er bara snilld. Nei...bíddu....það er ekki nógu gott orð. Hún er ein sú besta sem ég hef lesið í prentmiðli EVER. 

Heiða B. Heiðars, 4.1.2009 kl. 14:32

13 identicon

Sæl Lára Hanna og gleðiríkan dag. Dyrnar standa alltaf opnar fyrir konur eins og þig

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 14:45

14 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Æ, verð nú að gera eina athugasend vegna málflutnings hins annars um margt ágæta bloggara Hauks N. Menn stofna ekki flokka með fullu viti, sem hafa á stefnusk´ranni "Ekki þetta og ekki hitt" og allra síst nýjan jafnaðarmannaflokk!VG telst að mörgu leiti jafnaðarmannaflokkur og þar kennir margra "Ekki-grasa" m.a. að ganga ekki í ESB., þó eitthvað hafi smá slaknað á andstöðunni reyndar.

Magnús Geir Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 15:24

15 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Frábær pistill og frábær grein í fréttablaðinu sem ég fékk einhverra hluta vegna ekki í gær.

Anna Karlsdóttir, 4.1.2009 kl. 15:25

16 identicon

Frábær færsla hjáþér, Lára Hanna, eins og vanalega. Greinin hans Eiríks Guðmundssonar er góð og hrífandi hugvekja.

Það er örugglega grundvöllur fyrir því að stofna nokkurskonar "eins málefnis flokk" sem hefur það að megin stefu að uppræta spillingu, hagsmunapot og baktjaldamakk. Það er greinilega gríðarstórt verkefni og slík stefna getur gert þjóðinni meira gagn en stefnuskrár, að minnsta kosti, sumra annarra flokka.

Það gekk til dæmis fram af mér að uppgötva að "Bláa höndin" hafi komið fulltrúa fyrir í stjórn Neytendasamtakanna. Sem skýrir kannski þessa ofur áherslu sem þau samtök leggja á að flytja inn útlendar landbúnaðarvörur. Sem er stærra hagsmunamál fyrir Baug heldur en atvinnulíf á landsbyggðinni. Hvernig er staðið að vali á fólki þar?

Ég skil ekki alveg þessa óbeit sem fólk hefur á Ástþóri. Hann hefur þó rekið aðra af tveimur friðarhreyfingum á Íslandi sem hafa staðið undir nafni. Sem er Friður 2000. Hin hreyfingin er Samtök hernaðarandstæðinga. Aðrar friðarhreyfingar eru bara sýndarmennska, því þær útiloka ekki að í þeim séu fólk sem styður stjórmálaflokka sem hafa stuðning við hernað á sinni stefnuskrá, til dæmis NATO, því slíkt er dæmi um spillingu hugarfarsins.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 15:45

17 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Þetta er frábært innlegg hjá þér, Lára Hanna, rétt eins og venjulega. Það er margt sem þarf að taka til endurskoðunar nú sem aldrei fyrr. Það verður samt fróðlegt að sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum í næstu kosningum. Verða róttækar breytingar eða hanga menn enn við sama heygarðshornið?

Helga Magnúsdóttir, 4.1.2009 kl. 16:50

18 identicon

Á mínu heimili var fólk gáttað yfir 60 milljóna aukaframlagi til stjórnmálaflokkanna!  Á meðan boðaður var niðurskurður og auknar álögur á veikt fólk.  Þarna er verið að reyna að útiloka ný framboð en vonandi verður þeim ekki kápan úr því klæðinu, þeir átta sig ekki á að gott fólk getur hæglega komið með framboð með lágmarkskostnaði því nú lifum við nefnilega á netöld.

Blönk (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 16:58

19 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir frábæran pistil Lára Hanna Mér finnst ekki skrýtið að þú finnir til þreytu. Bæði leggur þú greinilega mikla vinnu og alúð í skrif þín og áreitið sem ríkisstjórnin viðheldur með gjörðum sínum er virkilega lýjandi. Frábært að fylgjast með þeim styrk og þolgæði sem skín ávallt af skrifum þínum þrátt fyrir það!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.1.2009 kl. 16:59

20 identicon

Engin einn hefur rás atburða í hendi sér en skrif Láru Hönnu gefa mörgum áræði og von. Ómetanleg.

Páll Skúlason hefur rétt fyrir sér í því, að ekkert getur orðið eins og það var. Þótt dagprísar geti verið á andlegri heilsu manns, þá er engin ástæða til vonleysis. Sannarlega ekki.

Undangengnar tvær vikur hefur verið spurt hvernig búa megi til nýtt og henda því gamla. Fólk vill ekki meira af því sama. Ekki kjósa sama fólkið aftur, sömu flokkana aftur, bara í breyttum hlutföllum. Efla þarf áhrif kjósenda og afnema alræði flokkanna. Það er ein grundvallarkrafa af nokkrum.

Eru flokkarnir líklegir til að breyta kosningalöggjöf til að svo megi verða? Nei, alls ekki. Það er enn verið að slíta eftirlaunaforréttindin útúr skoltinum á þessu liði og það mun ekki gefa eftir ofurvald flokka sinna sinna yfir því hverjir veljast á þing - og hverjir ekki. Ekki ótilneyddir.

Hér þarf breiðfylkingu fólks sem setur á oddinn ákveðnar grundvallarkröfur og hótar framboði þeim til áréttingar. Og stofnar til framboðs ef þörf þykir. 

Rómverji (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 17:02

21 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Lára Hann ég þakka þér fyrir þennan pistil. Dregur vel fram hvernig stjórnmálamenn hafa markvisst verið að brjóta niður lýðræðið í landinu.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.1.2009 kl. 17:06

22 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Já það er ekki niðurskurður á fé til stjórnmálaflokkanna þó að alls staðar annars staðar skuli skorið niður. Þeir hafa 372 milljóna forskot á okkur. Þar af hefur Sjálfstæðisflokkurinn um 123 millur. En það stoppar ekki að ný öfl eiga eftir að ryðja þessum úlfum til hliðar. Við gerum það með sjálfboðaliðastarfi og frjálsum framlögum. Afnemum svo spillinguna og gerum ekki flokkum kleyft aftur að stjórna fyrir flokkana.

Ævar Rafn Kjartansson, 4.1.2009 kl. 17:38

23 Smámynd: Haukur Nikulásson

Magnús Geir, það er því miður svo að í dag er enginn flokkur algerlega á móti aðild að ESB og fyrir mér er þetta stærsta einstaka málið í komandi kosningum.

Það verður að vera hægt að velja flokk sem er treystandi í því að hafa andstöðu við ESB sem fyrsta prinsippmál. Sjálfstæðisflokkurinn (gamli flokkurinn minn) dregur m.a.s. nafn sitt af þessu verkefni er á góðri leið með að svíkja það.

VG er ekki jafnaðarmannaflokkur. Hann gerir út á forréttindi kvenna með því að gera kröfu um jöfn skipti byggt á kynferði fólks en ekki hæfileikum. Femínismi flokksins er því bara öfgastefna fyrir utan andstöðu við nýtingu gæða landsins sem er eiginlega afturhald.

Satt best að segja finnst mér vanta flokk fyrir venjulegt, skynsamt og vel meinandi fólk.

Haukur Nikulásson, 4.1.2009 kl. 19:09

24 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Vá hvað ég er sammála þér Haukur! Flokkurinn sem ég vil kjósa er ekki enn orðinn til..... ég geri mér samt vonir um að það breytist. Vona að einhverjir góðir einstaklingar nenni að leggja á sig þá miklu vinnu þrátt fyrir að hafa allt á móti sér... þær þröngu reglur sem alþingi hefur sett og ójafnan leikvöll peningalega.

Býð mig fram til að safna styrkjum fyrir slíkan flokk

Heiða B. Heiðars, 4.1.2009 kl. 19:44

25 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Það er eitt sem ég hef aldrei skilið og er svo sem ekki að hafna ESB aðild eða mæra hana en það hlýtur að liggja einhver kostur eða markaðstækifæri fyrir okkur í því að vera mitt á milli ESB og Bandaríkjanna. Auglýsi eftir mér gáfaðra fólki til að fjalla um þetta!

Ævar Rafn Kjartansson, 4.1.2009 kl. 19:49

26 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Grein Eiríks Guðmundssonar er gjörsamlega brilliant !

Lára Hanna.  Þú átt þér ótrúlega marga bandamenn í skoðunum.  Við viljum ekki svona spillingu og valdníðslu... höfum reyndar aldrei viljað en nú er mælirinn stútfullur og réttlætiskenndinni algerlega misboðið. 

Vinnum saman !  Stöndum saman !  Með samstöðu getum við - grasrótin - breytt því sem virðist óbreytanlegt. 

Anna Einarsdóttir, 4.1.2009 kl. 19:50

27 identicon

Frekar sjokkerandi fréttir þetta. Ég er stödd í Svíþjóð þessa dagana og þegar maður hlustar á fréttir hér þá dettur engum í hug að vinnubrögðin séu svona, þó að öllum sé ljóst að það eru erfiðir tímar framundan.

Petra Mazetti (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 20:07

28 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Væri ég Dorrit - myndi ég sennilega segja um þig að þú værir ,,stórasta konan á Íslandi" - ég væri sammála Dorrit.  Lára Hanna ég skil þig svo vel - maður er svo þreyttur - skrifar og skrifar - mætir á laugardögum á Austurvöll í mínu tilfelli þegar heilsa leyfir.

Mig langar að styðja þig á allan máta í þínu.  Það þarf að fund, fara í upplýsingaherferð og skipta skrifum niður á okkur hin.

Legg til að við hittumst reglulega á fundum ,,einhvers staðar" til skrafs og ráðagerða og útdeilingu verka.

Sjálfbær þróun er stefna sem samþykkt var að meirihluta þjóða í heiminum í Rio 1992 - Íslendingar samþykktu það.  Á því byggir t.d. löggjöf um mengunarkvóta.

Þar er líka efnahagsstefna.

Hvernig væri að kalla eftir Gro-Harlem Brundtland okkur til hjálpar, en hún stýrði þessu starfi Agenda 21 fyrir heimsbyggðina 1992 og hefur unnið að þessum málum síðan.

Gro-Harlem er norsk kona, var þar forsætisráðherra.  Þessi kona hefur bæði til að bera mikla greind og hreinlyndi.

Við þurfum einnig að kalla til norræna fjölmiðla til að segja frá öllum skítnum og spillunginni hér uppi á hjara og láta umheiminn vita frammi fyrir hverju við stöndum

Spiltustu stjórnvöldum í heimi. 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 4.1.2009 kl. 20:22

29 Smámynd: Egill Jóhannsson

Það er mjög eðlilegt að tilfinning vonleysis komi upp og þá sérstaklega hjá þeim, eins og þér, sem fremstir standa í baráttunni. Ekki síst þegar þeir hinir sömu, eins og þú, þurfa að berjast jafnvel við fólk sem mest ávinnings mun hljóta af þeim breytingum sem þú berst fyrir. Það er lýjandi en það er í eðli mannsins að streitast á móti breytingum. Sérstaklega á þetta við stjórnmálamenn. Þeirra hlutverk í gegnum aldirnar er ávallt að verja kerfið. Það er svo undarlegt að þrátt fyrir að ávinningur breytinga blasi við öllu hugsandi fólki þá streitast menn samt á móti.

Eina sem út úr því kemur er að breytingin verður en bara seinna. Seinkunin er aðeins örfáum sérhagsmunaseggjum til ávinnings en flestum til tjóns. Þetta ferli á við í fyrirtækjum, stjórnmálaflokkum, stofnunum, þjóðfélögum. Allsstaðar. Nú eru þrír mánuðir síðan mótmælin hófust og engar breytingar sjáanlegar. Það er eðlilegt (en auðvitað pirrandi) eins og ég sagði áðan ef litið er á sögu mannsins.

Mannskepnan er óþolinmóð að eðlisfari því auðvitað viljum við breytingar strax. En í sögulegu samhengi má spyrja hvað sé strax? Þegar við lesum Íslandssöguna þá er algengt að breytingar sem taka 50 ár sé líst á tveimur blaðsíðum í sögubókum. En í huga þeirra sem lifðu tímana þá voru nokkrir mánuðir óratími og fáir sem hófu baráttuna sem lifðu að sjá og lifa ávinninginn.

Ég var að klára að lesa Kommúnistaávarpið eftir Marx og Engels. Merkileg lesning og sérstaklega hve Marx las vel í væntanlegar þjóðfélagsbreytingar. Lausnir hans voru aftur á móti margar hörmulegar eins og sagan hefur sýnt þó ýmsar hugmyndir sem í ávarpinu leyndust hafi síðan verið innleiddar í vestræn þjóðfélög með ágætum árangri. Marx var dauður þegar hugmyndir hans voru loks innleiddar með byltingunni í Rússlandi árið 1917.

Þó má auðvitað færa rök fyrir því að breytingar komist hraðar á núna með netinu og öðrum fjölmiðlum nútímans. En gerum okkur þó grein fyrir að við gætum verið að horfa á 3-5 ára baráttu til að koma á þeim breytingum sem barist er um núna. Stjórnmálaöflin í landinu, öll með tölu, hafa t.d. komið á kosningakerfi sem nánast útilokar ný framboð. Það er í raun dæmi um mótþróa við breytingar og hvernig valdaöflin reyna sífellt að viðhalda eigin völdum. Og við létum þau komast upp með það.

Eina leiðin til að fá núverandi öfl til að breyta kosningakerfinu er einmitt með því að hræða þau til hlýðni. Bloggið er ein leið og hún er þegar farin að virka. Að eyða athugasemdum við fréttir eða loka á athugasemdir eins og mbl.is gerði er gott dæmi um birtingarmynd hræðslunnar. Umræða um brotnar rúður, brotin egg og grímur, sem eru allt aukatriði og tilraun til að komast hjá hinni raunverulegu umræðu, er einnig birtingarmynd hræðslunnar.

Þetta eru allt eðlileg viðbrögð í ljósi sögunnar og eingöngu til þess fallin að fresta óumflýjanlegum breytingum. Við hin getum síðan flýtt þeim með því að halda pressunni áfram og ekki gefa þumlung eftir. Með grímu eða án.

Egill Jóhannsson, 4.1.2009 kl. 21:08

30 Smámynd: Einar Indriðason

Lára Hanna, ef þú býður þig fram, þá færðu mitt akvæði.  (Nánast örugglega....)

Einar Indriðason, 4.1.2009 kl. 22:52

31 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég er nú kannski ekki til í nýjan kommúnistaflokk Egill, en ertu til í eitthvað annað? 

Haukur Nikulásson, 4.1.2009 kl. 23:50

32 identicon

Mótmælin hafa þegar skilað árangri. Miklum árangri.

Eg sá kjálkana á Ingibjörgu og Geir síga á borgarafundinum í Háskólabíói. Enn langleitari varð utanríkisráðherra í Kryddsíldarþætti, sem blessunarlega var klippt á. Daginn eftir talaði ráðherrann um kosningar. Og látlaust síðan.

Enginn með fullu viti gerir ráð fyrir öðru en að kosið verði í vor.

Til hamingju, mótmælendur :)

Rómverji (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 23:51

33 Smámynd: Egill Jóhannsson

Auðvitað vil ég ekki Kommúnistaflokk en ég er til í að vinna að breytingum sem miða að því að réttlæti ríki og drifkraftur einstaklingsins fái að njóta sín en þó ekki þannig að það sé gert á kostnað almennings. Ábyrgð verður að fylgja frelsinu. Lestur minn á og tilvitnanir hér að ofan í Kommúnistaávarpið er tilraun til að rifja upp söguna enda gagnlegt til að auka skilning. Eðli mannsins er alltaf eins og nauðsynlegt að skilja það og viðurkenna þegar innleiða á breytingar.

Egill Jóhannsson, 5.1.2009 kl. 00:16

34 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Takk Lára Hanna, fyrir að vekja athygli á 5% reglunni. Fimm prósentin duga að öllu eðlilegu fyrir 3 þingmönnum.  þ.e.a.s. hefði Íslandshreyfingin náð yfir 5% þ þröskuldinn, hefði hún átt þrjá menn á þingi.  Margur hefur nú byrjað með minna.  En því fór sem fór, það þetta atriði fældi fólk frá ("hvað ef þau ná ekki 5% - ÞÁ ERU ATKVÆÐIN MÍN DAUÐ - RÖDD MÍN HEFUR EKKI HEYRST").  Þetta er áróðursmaskínan sem fór í gang nokkrum vikum fyrir kosningar þegar skoðanakannanir bentu til að mögulega næði Íslandshreyfingin fólki á þing.  Þvílík óhæfa að ætla að hleypa þessu liði á þing, þetta gæti breytt valdahlutföllunum.  Þetta þarf að hverfa, enda óhæfa með öllu.  Passar kannski í Þýskalandi, þar sem menn vilja vara sig á þjóðernishreinsunarflokkum eins og Nasistum, eða á Ítalíu, þar sem er svo mikið af svona litlum flokksbrotum og klofningsframboðum, að menn vita ekki í hvora áttina þeir eiga að snúa sér.  En á litla Íslandi er þetta algjör óþarfi, til þess er þjóðfélagið of lítið.

Sigríður Jósefsdóttir, 5.1.2009 kl. 01:24

35 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sitthvað skortir nú á stjórnmálalega þekkingu míns ágæta Hauks Nikulássonar, því hugmyndin um jákvæða mismunun til handa konum til að vinna bug á aldalangri mismunun þeim í óhag, er einmitt sprottin úr jarðvegi jafnaðarmennsku og þá helst í Noregi, þar sem slík stefna hefur verið lengi í framkvæmd með mjög góðum árangri.En kannski ekki nema von að Haukur hafi ekki vitað þetta, D löngum verið kvennafjandsamlegur flokkur eins og sagan sýnir og konur lengst af átt þar erfitt uppdráttar.Á tyllidögum og þegar kosningar eru í na´nd, hafa fulltrúar flokksins reyndar rembst við að slá sér upp með fyrsta borgarstjóranum sem konu úr þeirra röðum, Auði Auðuns, en hún var nú fyrir það fyrsta bara bjargráð í neyð í deilum tveggja afla innan flokksins er börðust um völdin (líkt og löngum síðar hefur einnig verið) og svo bara annar tveggja stjóra í einu, sem var hitt lausnaratriðið svo flokkurinn glataði ekki völdum og klofnaði þarna á þeim tíma í borginni. (man nú ekki nafn hins borgarstjórans)

Svo ekki var nú í reynd mikið jafnrétti þarna á bakvið heldur redding í þágu flokkshagsmuna.(eins og ætíð hjá D flokknum!)

Magnús Geir Guðmundsson, 5.1.2009 kl. 17:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband