Ó, þjóð mín þjóð

Hvar ertu?

Hvar eruð þið, sem skrifið svo fjálglega um ástandið og spillinguna?
Hvar eruð þið, sem ræðið um byltingu í heitu pottunum og á kaffistofunum?
Hvar eruð þið, sem fordæmið bankamenn og útrásarauðmenn?
Hvar eruð þið, sem skammið ríkisstjórn, alþingismenn og embættismenn?
Hvar eruð þið, sem hallmælið gróðærinu og viljið annað siðferði?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við aðgerðir og aðgerðaleysi ráðamanna?
Hvar eruð þið, sem viljið réttlæti öllum til handa, ekki bara sumum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á hlutabréfakaupum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á peningamarkaðssjóðum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað lífeyrinum ykkar?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við að bankarnir afskrifi skuldir auðmanna?
Hvar eruð þið, sem viljið ekki selja þeim fyrirtækin aftur skuldlaus?
Hvar eruð þið, sem horfið á aldraða foreldra flutta hreppaflutningum?
Hvar eruð þið, sem viljið jafnræði?
Hvar eruð þið, sem sjáið húsnæðislánin ykkar rjúka upp?
Hvar eruð þið, sem hafið misst vinnuna?
Hvar eruð þið, sem viljið kosningar og nýja stjórn?
Hvar eruð þið, sem teljið réttlætiskennd ykkar misboðið?
Hvar eruð þið, sem eruð að lenda í heljargreipum verðtryggingar - sumir aftur?
Hvar eruð þið, sem viljið láta frysta eigur auðmanna?
Hvar eruð þið, sem fordæmið leynd og ógegnsæi aðgerða stjórnvalda?
 
Hvar er samviska ykkar?

Hvar eru þessar tugþúsundir sem eru í viðráðanlegri fjarlægð, við sæmilega heilsu og ættu að mæta á Austurvöll klukkan 15 á laugardögum og tjá óánægju sína með nærveru sinni þar? Eruð þið í Kringlunni eða Smáralind? Heima að horfa á enska boltann eða þrífa? Í sundi eða húsdýragarðinum? Hvar eruð þið?

Það eru 168 klukkutímar í einni viku. 8 tíma svefn á nóttu eru 56 tímar. 10 tímar í vinnu og ferðir 5 daga vikunnar eru 50 tímar. Eftir eru 62 tímar í viku. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þið getið ekki séð af 1 klukkutíma til að mæta á Austurvöll og tjá með nærveru ykkar að þið séuð ekki sátt við ástandið í þjóðfélaginu og hvernig er tekið á því?

Ég bara næ þessu ekki.

Hvort ætli sé mikilvægara - hvort Manchester United vinnur Chelsea í dag eða hvort þið eigið þak yfir höfuðið til að horfa á leik eftir nokkra mánuði? Hvaða máli skiptir hvort þið farið í sund klukkan tólf eða þrjú? Eru Kringlan og Smáralind ekki opnar á öðrum tímum en milli þrjú og fjögur á laugardögum? Hvar í andskotanum eruð þið?

Hvernig réttlætið þið það, að láta okkur hin - par þúsund manns eða svo - heyja baráttuna fyrir ykkur? Hvað gerir ykkur svo sérstök að þið séuð undanþegin því að taka þátt í að berjast fyrir framtíð ykkar sjálfra, barnanna ykkar og barnabarnanna? Hvernig í ósköpunum stendur á því að þið berið ekki hönd yfir höfuð ykkar og látið aðra um að mæta á mótmælafundi fyrir ykkur? Hvar er sú gagnrýna hugsun sem ykkur var gefin í vöggugjöf?

Hvað ætlið þið að segja barnabörnunum ykkar þegar mótmæla- og borgarafundirnir eru komnir í sögubækurnar? "-Varst þú þarna, afi? -Nei, ég var heima að horfa á enska boltann. -En þú, amma? -Nei, ég fór alltaf í Kringluna á laugardögum." Eða ætlið þið kannski að ljúga og segjast hafa tekið þátt í mestu hugarfarsbyltingu Íslandssögunnar án þess að hafa lyft litlafingri eða mótmælaspjaldi? Hvar er réttlætiskennd ykkar?

Ég bara skil ykkur ekki.

Eruð þið virkilega ekki búin að fatta hvað er á seyði? Horfið þið ekki eða hlustið á fréttir? Vitið þið ekki að það er búið að arðræna þjóðina, stjórnvöld hylma yfir með sökudólgunum og enginn er látinn sæta ábyrgð? Vitið þið ekki að heilbrigðisráðherra er að leggja heilsugæsluna í rúst til að einkavæða hana og gefa auðmönnum - að hann hefur ekkert lært? Hvar eruð þið, heilbrigðisstéttir þessa lands á frívakt á laugardögum?

Ef einhver er í vafa um hvort tilefni sé til að mæta á Austurvöll klukkan þrjú í dag eru hér þrjú myndbönd til að skerpa sýnina. Þetta eru fréttir Stöðvar 2 og RÚV 8. og 9. janúar - í gær og í fyrradag. Bara tvö kvöld - og bara þarna eru ótal tilefni. Hvað þá í fréttum undanfarinna þriggja mánaða. Og myndband af Sjónvarpi Mbl.is þar sem grunur minn í síðasta pistli er staðfestur - það á að einkavæða heilbrigðisþjónustuna að amerískri fyrirmynd. Ég - fyrir mína parta - mótmæli því af alefli! En þið?

Stöð 2 - 8. og 9. janúar 2009

 

RÚV - 8. og 9. janúar 2009

 

Mbl Sjónvarp - 8. janúar 2009

 

Elskurnar mínar - ef þetta nægir ykkur ekki, ofan á allt sem á undan er gengið - þá veit ég ekki hvað þarf til að vekja ykkur af gróðærismókinu. Sjáumst á Austurvelli í dag og alla laugardaga þar til árangur næst - klukkan þrjú


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Vonandi sjáumst við á morgun, ég ætla í sund með börnum og barnabörnum í hádeginu og á mótmælafundinn klukkan þrjú.  Svo verður eldað fyrir allan skarann eftir mótmælafundinn.    Frábær færsla hjá þér, og tímabær.  Fólk þarf að fara að taka við sér og fjölmenna á fundina okkar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.1.2009 kl. 03:08

2 identicon

Farinn úr landi í vonleysi og bið eftir nýja sáttmála: amk. 4 skip á ári og enga heimastjórn, takk, þannig geta þeir bara stolið meiru af okkur.

Ég var móðgaður, hæddur, svívirtur, kvalinn og kúgaður
Af kumpánum nokkrum, sem allt virtust geta og mega.
Og þótt ég sé maður á sigur sannleikans trúaður,
Sýndist mér stundum því von minni í flestu geiga.

Að endingu sagði ég yfirdrottnunarvaldinu
í alvöru stríð á hendur, án nokkurrar vægðar.
Og styrkur minn liggur allur í undanhaldinu,
Þótt einhvernjum, sýnist það málstaðnum lítið til þægðar.

Og stríð mitt er nútímastríð, en ekki af því taginu,
að standa til lengdar í tvísýnum vopnabrýnum.
Þið vitið að jörðin er líkt og knöttur í laginu.
Og loksins kemst maður aftan að fjandmanni sínum.

-- Steinn Steinarr

Úlfar (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 03:28

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Vona að þessi kraftmikla færsla þín ýti við einhverjum til að mæta á mótmæli á morgun! Nú eru íbúar fleiri bæjarfélaga að fara af stað. Það er a.m.k. dæmi um að fleiri eru að vakna. Heyrði reyndar fréttir af því hér á Akureyri að einhverjir sem styðja mótmælin þori ekki að mæta sjálfir vegna ótta við að það þýddi að þeir skipuðu sér þannig undir niðurskurðarhnífinn ef og þegar kæmi að uppsögnum.

Heyrði þetta fyrst haft eftir velmenntuðu fólki á Fjórðungssjúkrahúsinu hér en það hafa víst einhverjir heyrt þetta eftir starfsfólki fleiri stofnana í bænum. Veit ekki hvort þetta geti verið sérakureyskt fyrirbæri en hörmulegt engu að síður

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.1.2009 kl. 03:31

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæl Lára

Eftir að hafa lesið þetta þá verð ég að viðurkenna að ég held ég hafi aldrei heyrt betri hvatningarorð eða lesið betri hvatningarræðu. Það eina sem mér dettur í hug að jafna þetta við er það sem önnur fróm kona sagði fyrir margt löngu:

Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði.

Þó ekki mæti allir á þessa fundi Lára þá er eigi að síður margt annað í gangi. Eitt af því er að finna á þessari heimasíðu hér.

http://www.simnet.is/ihaldsflokkurinn/

Með kveðju

Friðrik Hansen Guðmundsson, 10.1.2009 kl. 03:37

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég hef nú mætt einu sinni sko, það bara tók öngvinn eftir mér, enda ekki til þess háður hittíngurinn.

Þá þarf ég bara að renna suður dáldið meira snemma í fyrramálið, það er mér enginn ami, er á ágætum GTI, gott kakó í Staðarskála í leiðínni.

Jamm, ég á alveg fínar & flottar úlpur, en ég á líka meiri & verðmætari samkennd.

Steingrímur Helgason, 10.1.2009 kl. 03:42

6 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ég fór úr landi og skildi lyklanna eftir!

Kjartan Pétur Sigurðsson, 10.1.2009 kl. 03:57

7 Smámynd: Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen, 10.1.2009 kl. 04:13

8 Smámynd: Tryggvi Gunnar Hansen

ég er hér!

Tryggvi Gunnar Hansen, 10.1.2009 kl. 04:15

9 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Hæ, alltaf flott, sjáumst á morgun - trúlega verða ansi mörg þúsund sem þarfnast skráningar með myndum og videoi til sönnunar

Helgi Jóhann Hauksson, 10.1.2009 kl. 04:15

10 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Þetta er ágæt brýning. Þú mátt þó ekki gleyma þeim mörgu sem búa fjarri Austurvelli. Við mótmælum mörg í okkar heimabyggðum. Þó Reykjavík sé ágæt er hún samt ekki alveg miðja landsins. Ég sendi ykkur öllum mínar bestu baráttukveðjur. Þessi ríkisstjórn og vinir hennar er bara helvítis fokking fokk.

Sigurður Sveinsson, 10.1.2009 kl. 05:17

11 Smámynd: Ingibjörg SoS

Elsku Lára Hanna mín.

Ég er agndofa. Ekki bara yfir ræðusnilld. Ekki bara yfir málefnalegum skrifum. Ekki bara yfir gígantískum fróðleik þínum. Ekki bara yfir beljandi hjartanötrandi þrumuræðu þinni, - baráttunni fyrir réttlæti og óði þínum til lífsins. Heldur einnig yfir lesningunni í heild, -  hvernig þú byrjar; "Ó Þjóð mín Þjóð - Hvar ertu?" Og ég las áfram. Fyrst hélt ég þú hefðir samið ljóð. Síðan áttaði ég mig á því að þetta er vakningaræða. - Vakningaróður, sem stigmagnast þar til orðinn eins og eitt kröftugasta tónverk okkar mikilhæfustu tónskálda.

HEYR LÁRA HANNA!

Þetta ættirðu að láta alla bloggvini þína setja tengil á um hádegisbilið. Þetta sköpunarverk þitt mundi ég vilja sjá flæða um allan bloggheim þar til fundur hefst. Mundi vilja sjá þetta í formi dreyfibréfa fljúgandi ofan úr háloftunum. 

Þetta er undursamleg gjöf til þjóðarinnar. Ósk mín er að sem flestir fái að njóta.

Þín Ingibjörg

Ingibjörg SoS, 10.1.2009 kl. 07:11

12 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér Lára Hanna hvatninguna. Nú er árið 2009 sem spáð er að verði erfitt. Þetta er ár aðgerðanna. Við mætum öll!

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.1.2009 kl. 07:23

13 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þett hérn er kjarni málsins:
"

Eruð þið virkilega ekki búin að fatta hvað er á seyði? Horfið þið ekki eða hlustið á fréttir? Vitið þið ekki að það er búið að arðræna þjóðina, stjórnvöld hylma yfir með sökudólgunum og enginn er látinn sæta ábyrgð? Vitið þið ekki að heilbrigðisráðherra er að leggja heilsugæsluna í rúst til að einkavæða hana og gefa auðmönnum - að hann hefur ekkert lært? Hvar eruð þið, heilbrigðisstéttir þessa lands á frívakt á laugardögum?"

Vaknið!

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.1.2009 kl. 07:26

14 Smámynd: Ingibjörg SoS

Það er rétt sem Sigurður Sveinsson segir. Þessa "synfóníu þína" þarf stór hópur þeirra sem mótmæla í dag að hafa í höndum sínum til að þruma upp úr um Landsbyggð alla.

Þér er svo sannarlega óhætt, Lára Hanna, að byrja að dreyfa þessu sem fyrst. Láttu boð út ganga.  Biddu okkur öll um hjálp!

Ingibjörg aftur

Ingibjörg SoS, 10.1.2009 kl. 07:55

15 identicon

Ég er n+u ansi hrædd um það elsku Lára Hanna að flestir þeirra sem lesa þetta séu þegar með laugardagsfundina inni í rútínunni en þeir sem þyrfti að ná til séu að lesa eitthvað allt annað. Eða ekkert.

Sjáumst á Austurvelli.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 08:05

16 identicon

Kæra Lára Hanna, Þessi pistill er nákvæmlega það sama og ég hef hugsað lengi.

Þessi myndskeið af fréttatímum eru vægast sagt óhugnanleg. Spurning hvort ég þori lengur að fylgjast með fréttum. 

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 08:11

17 identicon

Sæl.  Þetta er mjög góð skrif, og flestir ættu að finna að að við berum ábyrgð. Við berum ábyrgð til að standa upp úr okkar stól, eða öllu heldur hoppa upp úr okkar stól og öskra. Öskra hátt og skýrt "Mér er ekki sama"  Það er með ólíkundum að það skuli ekki fleiri mæta á Austurvöll og sýna samstöðu í þessum mótmælum. Ég hef heyrt að fólk vilji ekki mæta vegna ýmsa ástæðna, ástæðna sem mér finnst ekki standa. Getur verið að fólk vilji ekki að það sé bendlað við það mótmæla. Að það fái á sig einhvern stimpil sem fer aldrei af þeim aftur. Þessi pistil ætti að fá fólk til að hugsa hvort ekki sé kominn tími til að gera eitthvað. En ég efa að nógu margir muni lesa. Þú átt að fá þennan pistil birtan í blöðunum. Fólk þarf að lesa þetta og hugsa. " það er víst komin timi til að ég taki þátt og hætti að láta aðra mótmæla fyrir mig"  

Þórður Möller (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 09:05

18 Smámynd: Ásgerður

Takk fyrir þess frábæru vakningaræðu,,setti link inn á síðuna mína,,vona að það sé í lagi.

Sjáumst á Austurvelli

Ásgerður , 10.1.2009 kl. 09:09

19 identicon

Já hvar er allt þetta fólk... ætlið þið að sitja heima og láta íslenska aumingjagenið taka völdin... þið vitið vel að það er akkúrat það sem stjórnmálamennirnir eru að bíða eftir, þeir algerlega stóla á að þið sitjið heima og vælið ein með sjálfum ykkur OG GLEYMIÐ SÍÐAN

DoctorE (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 09:14

20 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Gott væri að heyra málefnalegar tillögur að lausnum og hvernig þeim skal náð og hvernig menn ætla sér að ná markiðum... horfum fram á veginn og leitum niðurstöðu...þær finnast vart á útifundum á torgum... skilaboðin eru ljós

Jón Ingi Cæsarsson, 10.1.2009 kl. 09:19

21 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir þetta kæra Lára Hanna.  Búin að linka hjá mér.

Sigrún Jónsdóttir, 10.1.2009 kl. 09:20

22 identicon

Sæl Lára Hanna ég tók mér það leyfi að setja tengingu inn á facebook hjá mér inn á bloggið þitt

Bara takk fyrir  þennan pistil og alla hina sem þú hefur skrifað

Sigurður Hólmar Karlsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 09:41

23 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir fræbæran pistil kæra Lára Hanna. Nú mæta allir sem vettlingi geta valdið og mótmæla ónýtri ríkisstjórn og spilltum bankastjórum. Við göngum á Akureyri. Bestu baráttukveðjur!

Hlynur Hallsson, 10.1.2009 kl. 10:01

24 identicon

Þú ert snillingur Lára Hanna! Þó ég geri það ekki oft að lofa fólk þá geri ég það nú.

Ég hef mætt alloft en þó ekki alltaf sökum vinnu en ég mun svo sannarlega mæta í dag og þessutan reyna að verða virkari að öðru leiti en ég hef verið. Hef engar afsakanir fyrir því að láta aðra siðvæða ísland fyrir mig. Best ég taki þátt í því sjálfur. Ég mæti.

Burt með spillingarliðið.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 10:08

25 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Frábær hvatning. Ég hef mætt á Austurvöll og mun halda áfram að mæta.

Steingerður Steinarsdóttir, 10.1.2009 kl. 10:12

26 identicon

Takk Fyrir Þetta Lára 'eg mæti og Vinir Mínir

Kveðja

Æsir (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 10:20

27 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég birti fyrrihlutan á mínu bloggi .  fín ábending til allra, líka manna eins og Ragnar hér að ofan sem hræðist VG meira en gjaldþrot.. sauðsháttur sem einkennir svo marga íslendinga. 

Óskar Þorkelsson, 10.1.2009 kl. 10:25

28 identicon

Þú ert farin að minna mig á eina af fyrirmyndum mínum, sbr.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 10:29

29 identicon

http://carlos.annall.is/2009-01-10/hvenaer-faerdu-upp-i-kok/

átti að koma þarna rétt áðan

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 10:29

30 Smámynd: Hansína Hafsteinsdóttir

Ég er loksins að vakna, rumskaði fyrir jól en hef verið að blunda af og til síðan. Málið er að allri virðast svo yfirgengilega spilltir og mér finnst ég vera að drukkna í yfirfullu mykjuhúsi og að enginn sé fær um að opna og hleypa drullunni út. Sjáumst

Hansína Hafsteinsdóttir, 10.1.2009 kl. 10:38

31 Smámynd: Einar Indriðason

Lára Hanna, ég hvet þig til að tala á Austurvelli!

(ok, tala við Hörð Torfa, og segja að þú hafir áhuga á að tala á Austurvelli, og sjá hvort þú komist að!)

Einar Indriðason, 10.1.2009 kl. 10:48

32 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ef það gleður þig Lára Hanna mín, þá erum við byrjuð á Ísafirði. Þar mættu á annað hundrað manns í síðustu viku, sem var bara gott miðað við íbúafjölda, færð og fyrirvarann (en fundurinn var eiginlega ákveðinn með nokkurra klst fyrirvara).

Við búumst þó við mun fleirum í dag. Baráttukveðjur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.1.2009 kl. 10:54

33 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ég kem!

Hrönn Sigurðardóttir, 10.1.2009 kl. 10:57

34 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Ég hef mætt á fundi en núna er bíllinn minn ekki ökufær lengur, eitt hjólið snýst eftir geðþótta, þetta er heldur langt fyrir gigtveika konu að ganga.  Það eru bara sjálfstæðismenn hér í Keflavík ( ég er auðvitað að ýkja) svo það er enginn sem ég get snapað far með. Ég nota bloggið til minna mótmæla sem fyrr. Er hins vegar hissa á að það fólk sem á heimangengt mæti ekki í tugþúsundatali af stór Reykjavíkursvæðinu.

Rut Sumarliðadóttir, 10.1.2009 kl. 11:04

35 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Sko Lára.... ég er búin að setja link á þetta á bloggið mitt..senda öllum úr email hópum og posta þessu á Facebook. Og ef fleiri gera það, þá erum við að ná til fullt af fólki sem hefur ekki verið að mæta.

Framvegis ætla ég að reyna að ná amk einni manneskju með mér á Austurvöll sem hefur ekki mætt áður.

Sérstaklega ánægjulegt að það séu önnur bæjarfélög komin í gírinn. Sendi þeim bara öllum baráttukveðjur

Heiða B. Heiðars, 10.1.2009 kl. 11:06

36 Smámynd: Heiða B. Heiðars

OG...

þú þarna "hvaðsemþúheitir-Vinstri Græna-phobíu-náungi" vertu bara heima með þínar ranghugmyndir. Hlakka til að sjá þig þegar þú hefur losað þig við þær

Heiða B. Heiðars, 10.1.2009 kl. 11:21

37 Smámynd: Ólöf de Bont

Sæl Lára, ef ég vissi hvernig ég ætti að linka þá gerði ég það.  Þetta er góð hvatning allri þjóðinni.  Ég er svo afskaplega hrædd um að allt sé að sigla í strand, að það séu bara nokkrir sem safna að sér aurinn á kostnað þeirra sem hafa ekki stjórnina.  Stjórnvöld fljóta vakandi að feigðarósi.  Ég hef heyrt að sumir útrásarvíkingar séu nú að skemmta sér á Suðurskautinu, þeir eru örugglega að kæla samvisku sína.

Ólöf de Bont, 10.1.2009 kl. 11:25

38 Smámynd: Kristlaug M Sigurðardóttir

Við mætum úr Bítlabænum-í fyrsta skipti, svo þessi færsla hefur a.m..k komið tveim á staðinn sem annars hefðu kannski ekki verið þar. Takk Lára Hanna fyrir frábært og upplýsandi blogg. Rut Sumarliðadóttir hér fyrir ofan getur hringt í mig og fengið far í Höfuðborgina ef hún vill!

Kristlaug M Sigurðardóttir, 10.1.2009 kl. 11:26

39 Smámynd: SM

maður spyr sig, flestir virðast láta sér nægja að býsnast yfir þessu í orði en mæta ekki á neinn einasta mótmælafund né gera nokkuð annað... íslendingar eiga kannski ekkert betra ástand skilið, fólk nennir ekki að standa vörð um réttindi sín.

SM, 10.1.2009 kl. 11:29

40 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Jújú Sylvía
Í dag er dagurinn þar sem ég er bjartsýn... og við meigum alls ekki gleyma því að fyrir rúmlega þremur mánuðum hefði tilhugsunin um að fólk hefði úthald í að mæta í 14 vikur á mótmæli algjörlega óhugsandi.
Og sl laugardag var mígandi rigning og fyrsti dagur útsölu................ og það mættu skrilljón manns!

Það tekur bara tíma að ræsa Íslendinga í mótmæli og ég trúi því að þeim muni fjölga. Þurfum bara að vera dugleg að hvetja fólk með okkur

Heiða B. Heiðars, 10.1.2009 kl. 11:34

41 Smámynd: Heidi Strand

Við getum ekkert annað gert en að mótmæla.Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Ég hef mætt í öll 13 skiptin á Austurvelli og hefur mótmælafundirnir haft forgang hjá mér.


Heidi Strand, 10.1.2009 kl. 11:38

42 identicon

Takk fyrir þessa færslu Lára Hanna.

Ég veit að það er fullt af fólki sem þorir ekki að mæta vegna ótta við að lenda á lista yfir óæskilega hjá auðvaldinu.

Við verðum öll að taka þátt, því annars mun auðvaldið ná enn sterkari tökum og ekki víst að annað tækifæri komi til að frelsa þjóðina úr höndum þeirra.

Mætið með andlitshulur ef þið viljið ekki þekkjast, við erum hvort eð er andlitslaus skríll í huga valdsins.

Brynjar (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 11:42

43 identicon

Hundslund Íslendinga gerði Dönum kleift að selja okkur maðkað mjöl og arðræna alþýðuna með fulltingi íslenskra stórbænda. Það var td bannað að veiða sjálfum sér og fjölskyldu til matar værir þú ekki annað hvort Dani eða stórbóndi - alveg til aldamóta 1900. Skipti þá engu hvort þú svalt. Þú máttir veiða FYRIR Dani og stórbændur en ekki fyrir sjálfan þig. Einnig var almúganum bannað að byggja sér hús við sjávarsíðuna. Stórbóndi eða Dani varð að leyfa þér að hrófla upp kofaræksni í hjáleigu. Ekki fer miklum sögum af andófi alþýðunnar.

Þetta er sama ástand núna. Sama hundslundin og sami undirlægjuhátturinn gagnvart yfirvaldinu og efnamönnum.

Við erum þrælar með hundslund í eðli okkar. Um leið og yfirvaldið byrstir sig, leggjumst við niður eins og rakkar.

ÞA (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 11:45

44 identicon

Ég ætla hins vegar að mæta - og vil bæta hér við að ég dáist að þér fyrir baráttuandann.

Mættu fleir taka sér hann til fyrirmyndar.

ÞA (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 11:47

45 Smámynd: Jón Ragnar Björnsson

Frábær hjá þér, Lára Hanna.

Gangi ykkur sem allra best á Austurvelli í dag. Set link á greinina þína.

Dropinn holar steininn!

Jón Ragnar Björnsson, 10.1.2009 kl. 11:53

46 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þú ert mikil og skellegg baráttukona fyrir betra og réttlátara Íslandi!

Mæti á mótmælafundinn í dag með spjald: Davíð er dýr! Gaspur Davíðs Oddssonar átti verulegan þátt í að Gordon Brown beitti okkur hermdarverkalögunum. Sjálfstæðisflokkurinn ber miklu meiri ábyrgð en hann vill kannast við. Því reyna þeir að hanga á þessari síðustu sillu valdanna með þeirri von að þjóðin gleymi og gleymi fljótt. Því miður hefur það allt of oft borið við að fólkið gleymi því hver kvaldi það mest og verst!

Og nú ætlar ríkisstjórnin að afnema siðareglur í fasteignasölu,sjá: http://mosi.blog.is/blog/mosi/entry/766017

Hvað verður næst? Afnám siðareglna lækna, lögfræðinga, presta og annara starfsstétta sem jafnvel má rekja aldir aftur í tímann? Í stað þess að efla siðareglur þ. á m. meðal stjórnmálamanna þá vill Sjálfstæðisflokkurinn hafa allt „frjálst“! Það er að „frjálst“ verði að svíkja og ljúga samborgarann. Frumskógalögmálið vill Sjálfstæðisflokkurinn verði haft í hávegum!

Þeir mega mín vegna hafa frjálst fall beint í glötunina en eg vil ekki vera með í þeirri för.

Grímulausar baráttukveðjur!

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 10.1.2009 kl. 11:57

47 identicon

Ég mæti hvern einasta laugardag og jafnvel oftar þar til árangur næst.

Ég er líka tilbúinn til að taka þátt í öðrum aðgerðum.

Ég veit og skil að við erum að berjast fyrir lífi okkar og barnanna okkar.

Baldvin Björgvinsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 11:58

48 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Orð í tíma töluð hjá þér - vakti athygli á pistlinum á blogginu mínu. Takk fyrir að gefa okkur reglulega á kjaftinn svo doðinn og slenið nái ekki yfirhöndinni.

Jón Þór Bjarnason, 10.1.2009 kl. 11:59

49 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég hitti þig ekki á Austurvelli Hanna Lára mín, en ég verð á Silfurtorgi á Ísafirði þar verður vonandi fjölmenni þrátt fyrir veður.  Ég er að hugsa um að copy peista ræðuna þína inn á bloggið mitt, vona að þú hafir ekki á móti því.  Þetta er aldeilis frábær vakning, einmitt það sem ég var að hugsa í gær.  Hvar er allt fólkið!!!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.1.2009 kl. 12:17

50 Smámynd: Hlédís

Lára Hanna ! Þetta er frábær hvatningarpistill! Við mætum á Kröfufundina á Austurvelli og í aðrar kröfuaðgerðir - og ýtum, persónulega, við eins mörgum og getum. Menn verða að skilja nauðsyn þess að mæta - að það munar um hvern og einn - alveg eins og um atkvæði í kosningum. Það þýðir ekki að reikna með að AÐRIR mæti/kjósi fyrir mann!

Hlédís, 10.1.2009 kl. 12:39

51 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Undarlegt, í fyrsta myndbandinu í þessari færslu, myndbandinu með fréttum Stöðvar 2 frá 8. og 9. janúar, afkynnir Sigmundur Ernir Rúnarsson Róbert Wessman með orðunum: „Sagði Geir Haarde.“

Er Freud mættur til leiks ...?

Berglind Steinsdóttir, 10.1.2009 kl. 12:53

52 identicon

Þetta eru mæt orð og góð. Set þau á bloggið mitt og facebook og vona að það sé í lagi, sé þig svo næsta laugardag á vellinum þar sem ég er veik heima og þarf því að sleppa þessum laugardegi úr.. (alveg tíbýskt að þurfa að vera heima í góða veðrinu eftir að hafa húkt á vellinum í skítakulda og dumbungssúða viku eftir viku.. en svona er þetta bara)

Vælan (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 12:55

53 identicon

Áfram. Við erum hér.

Karlotta

Karlotta Sigríður (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 12:55

54 Smámynd: Björgmundur Örn Guðmundsson

Mótmæli skila engu og hafa aldrei skilað neinu enda er augljóst að með því að safna saman reiði þú býrð þú til meiri reiði.

Því sem menn mótmæla mun aðeins eflast með mótmælum.

Hins vegar má ekki rugla mótmælum saman við göngu þeirra sem berjast fyrir ákveðnum jákvæðum breytingum.

T.d. er kröfuganga samkynhneigðra ekki mótmæli heldur jákvæð krafa um réttlátara umhverfi.

Þeir sem ekki skilja hvað ég er að fara er bent á að horfa á myndina Secret.

Það hafa margir séð þá mynd og eru sammála mörgu því sem þar kemur fram og þess vegna mætum við ekki í mótmæli.

Ég er ekki reiður eins og þú Lára Hanna. Ég tek ábyrgð á kreppunni og geri það sem við ættum öll að gera... byrja á okkur sjálfum.

Það er svo auðvellt að standa með skilti niðri á torgi og bölsótast út í aðra og koma svo heim enþá reiðari og svartsýnni.
Hið erfiða en nauðsynlega er að við lítum í eigin barm og byrjum á að vinna í okkur sjálfum, skapa jákvætt og bjartsýnt umhverfi í kringum okkur sjálf og þannig búa til byglju uppbyggingar í kringum okkur.

Við erum mörg sem betur fer sem höfum tekið þessa afstöðu.

Hins vegar er ekki þar með sagt að við styðjum ríkisstjórnina og við viljum ekki að hlutirnir séu skoðaðir í kjölinn og menn dregnir til ábyrgðar.

Viðbrögð okkar og sýn á hvernig við bætum samfélagið er bara allt annað.

Góðar stundir.

Björgmundur Örn Guðmundsson, 10.1.2009 kl. 12:57

55 identicon

Takk Lára Hanna og svo mikið, mikið meira en það !

Ætla nú að mæta  á minn 13. fund ( segi við börnin mín að ég sé að fara " í vinnu " sem eigi að skila sér vonandi sem fyrst.)

Hörður Torfa og við "skríllinn" eru í grimmri samkeppni við Kringluna, Smáralind, Enska boltann og fl. svo fáranlegt og öfugsnúið sem það  er.

Áskorunin hjá mér í dag  er að fá  5 manns með mér niður á Austurvöll sem ekki hafa komið áður,og mér er að takast það !

ag (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 12:58

56 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Frábær pistill ... ég biðst afsökunar á að hafa ekki mætt í nokkur skipti. Sjáumst á Austurvelli á eftir.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 10.1.2009 kl. 13:07

57 Smámynd: Hlédís

Hárrétt, Björgmundur Örn!      Hér er um KRÖFU-aðgerðir að ræða!  Vissulega getur kröfufundur mótmælt hlutum - rétt eins og samkynhneygðir í kröfugöngu mótmæla ranglæti og fordómum.     Þú veist að samstaðan styrkir fólk og það kemur einmitt hressara og ögn bjartsýnna heim frá réttlátum Kröfu-göngum og -fundum.   

Baráttukveðjur!

Hlédís, 10.1.2009 kl. 13:17

58 identicon

Stórgóð færsla Lára!  Ég leyfði mér þá frekju að búa til PDF skjal með bloggfærslunni í látlausri viðhafnarútgáfu. 

Hvet fólk til að prenta þetta út og festa á veggi sem víðast.

Þú póstar bara á mig, Lára Hanna, ef þú vilt ég taki PDF-ið burtu :-)

baldur mcqueen (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 13:26

59 identicon

Flottur pistill en passaðu þig á að tala ekki niður til þjóðarinnar, við erum vakandi. Það hefur komið fram í commentum að mörg af okkur sem mætum ekki á Austurvöll gerum það eingöngu vegna þeirra sem bera grímu og eyðileggja hluti sem skattgreiðendur þurfa að greiða - VIÐ þjóðin þurfum að greiða.

Þöglu mótmælin voru þau einu sem ég fór á því ég bjóst ekki við skemmdarverkum á þeim, þó voru nokkrir Grímar staðsettir þar sem náðu að trufla þessa dýrmætu stund sem við áttum saman. Grímar sem vita ekki hvað skortur er og mótmæla bara til þess að mótmæla. Komast í fréttirnar. Ég mótmæli ekki með þannig fólki. Ég er tilbúin að mótmæla með þér á þessum forsendum sem þú leggur fram og öðrum þegnum þjóðarinnar sem vita hverju þeir eru að mótmæla.

Fjóla (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 13:29

60 Smámynd: Víðir Benediktsson

Það má kki láta deigan síga. Ef eitthvað er sem stjórnin óttast eru það þessi mótmæli. Enda hamast stjórnarliðar við að gera þau tortryggileg

Víðir Benediktsson, 10.1.2009 kl. 13:39

61 identicon

Fjóla notar hér tækifærið til að dæma og tala niður til þess fjölbreytta hóps sem velur að hylja andlit sín.

Brynjar (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 13:44

62 Smámynd: Ólafur Gunnarsson

Góður pistill Lára Hanna, ég vildi að ég gæti mætt á Austurvöll en þar sem ég bý á Akureyri þá fer ég bara upp á Ráðhústorg í staðinn og legg mitt á vogaskálarnar þar. Hafðu þökk fyrir frábært blogg sem er sett upp á mannamáli  sem allir skilja. Baráttukveðjur að norðan, kv: Óli Gunn.

Ólafur Gunnarsson, 10.1.2009 kl. 13:45

63 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Takk fyrir greinina   Auðvitað mætir maður

Máni Ragnar Svansson, 10.1.2009 kl. 13:47

64 identicon

Fínt Fjóla.

Geri þá ráð fyrir að mótmælendur sem ekki vilja sjá grímuklætt fólk fari að skipuleggja eigin mótmæli...nægar eru klukkustundirnar í vikunni?
Ég fagna því og hlakka til að lesa um friðsamleg mótmæli ykkar.

Bendi þó áhyggjufullum á að þó kraftmiklir mótmælendur myndu valda 4.000.000 (fjórar milljónir) króna tjóni á dag - hvern einasta dag ársins (jól og páskar meðtaldir) - tæki það 700 ár að valda viðlíka skaða og stjórnvöld hafa valdið.

Hér er miðað við þúsund milljarða tjón, sem er lág tala miðað við verstu spár.

baldur mcqueen (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 13:49

65 identicon

Við mætum á Austurvöll og Björgmundur horfir á Secret, og friðar þannig eigin samvisku, hann segist jú bera ábyrgð á kreppunni ! 

ag (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 13:52

66 identicon

Takk Lára Hanna

Ég vona að sem flestir fari að taka við sér núna. Sjálfur er ég námsmaður í Svíþjóð sem lifi á ónýtum íslenskum krónum og fylgist með atgangnum heima með krosslagðar fingur og vona að ég lifi fram á vor.

Baráttu kveðja frá Svíþjóð!

Gísli Jóhann Grétarsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 14:02

67 identicon

Breytingar verða aldrei ef við bíðum eftir öðrum manneskjum eða öðrum tíma

Við erum sjálf þær breytingar sem við höfum beðið eftir.

Við erum sjálf þær breytingarnar sem við leitum eftir.

MÆTUM ÖLL!

SAMSTAÐA - SAMKENND OG SAMHUGUR ER ÞAÐ SEM GILDIR !


Change will not come if we wait for some other person or some other time.

We are the ones we've been waiting for.

We are the change that we seek.

Barack Obama

Cilla (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 14:19

68 identicon

Lára Halla. Virðing og aðdáun!

Þráinn Bertelsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 14:19

69 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er öflugt hjá þér, Lára Hanna, og það er í fullu samræmi við efni og ástæður. Ég fæ ekki betur séð en þetta sé nánast allt laukrétt hjá þér. Það eina, sem ég get ímyndað mér, að haldið geti fólki (þ. á m. mér) frá þessum útifundum, er framkoma minnihlutans, sem kastar eggjum í Alþingishúsið og vill beita ofbeldi, og þeirra sem ganga of langt í herskáu orðbragði í ræðuhöldum sínum. Gættu að því, að mjög margir fylgdust með fyrstu fundunum í beinni útsendingu eða endursýningu, þannig að fólk veit, hvernig þetta fer fram. Sjálfur tel ég líka trúverðugleikann í "atkvæðagreiðslum" (klappi, húrrahrópum) við tillögur Harðar Torfasonar ekki nægan – lýðræðislegur vilji þarf líka að fá að tjá sig með nei-atkvæðum, ef einhver eru (og sjálfur segði ég ekki já við hverri einustu tillögu sem hann ber þar upp til samþykkis). Og anarkistar og öfgafullir byltingarmenn hafa ekkert þar í ræðustól að gera.

Það eru því ekki aðeins stjórnvöld, sem þurfa að endurreisa traust (þau geta það reyndar ekki!), heldur líka aðstandendur fundanna. Svo sannarlega væri það flestum mikið keppikefli, að þetta gætu orðið virkilegir fjöldafundir og að þeir, sem svikið hafa þjóðarhagsmuni, geti tekið afl þeirra og almennan stuðning við málefnabaráttu þeirra sem greinilegt merki um, að ekki seinna en nú ber að stokka upp ríkisstjórnina (geri það að umræðuefni HÉR á VÍSISBLOGGI), helzt í þjóðstjórnarformi.

Gangi ykkur vel í allri réttlátri baráttu fyrir land og þjóð.

Jón Valur Jensson, 10.1.2009 kl. 14:31

70 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk fyrir þennan stórgóða vakningarpistil Lára Hanna. Verst að ég sá hann fyrst núna þegar ég kveikti á tölvunni. Tek mér samt það bessaleyfi að birta pínulítið brot á blogginu mínu á eftir. Það kemur jú annar laugardagur eftir þennan. Bestu kveðjur til ykkar allra sem standið vaktina fyrir sunnan. Við þurfum að vera þrautseig og þolinmóð. Gandhi-aðferðin er það eina sem dugar. "Tökum Gandhi á þetta!"

Stefán Gíslason, 10.1.2009 kl. 14:37

71 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl,

er á Norðfirði í dag, kveðjur í bæinn.

Gunnar Skúli Ármannsson, 10.1.2009 kl. 15:07

72 identicon

Sæl Lára Hanna þetta er frábær vakningarpistill hjá þér eins og allt sem birtist á blogginu þínu. Því miður kemst ég ekki í dag en á næstu vikum verður sko mætt og ég ætla mér að taka þátt í þeirri byltingu sem vonandi er í pípunum. Það er löngu komin tími til að íslenska þjóðin fari að vakna og kíkja í kringum sig áður en það verður of seint. Það er degin um ljósara að frjálshyggjupostularnir er hvergi nærri hættir og ef við stöðvum þetta ekki leggja þeir þetta land endanlega í rúst. Það er verið að fremja stórglæp fyrir framan nefið á okkur og meirhluti þjóðarinnar situr heima og borar í þetta sama nef. Rísum upp og sýnum þessu sjálftöku og forréttindaliði í tvo heimana og látum þá vita hverjir eiga Ísland.

Páll Valur Björnsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 15:20

73 identicon

Fín færsla!

Fjóla! Maður velur sér ekki samferðamenn sína, hvorki í mótmælum né öðru. Kennarar velja sér ekki nemendur, læknar ekki sjúklinga og mótmælendur ekki aðra mótmælendur. Mér finnast þetta ansi miklar kröfur. Maður á bara að vera sjálfum sér til sóma hverju sinni og bera ábyrgð á eigin gjörðum.

kristin (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 17:23

74 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Kæra Lára Hanna þú átt virðingu mína fullkomnlega.  Virðingu mína því þú gefst ekki upp.  Hef lang-oftast mætt á laugardögum og skiptir mig þá engu máli hvort hylur nef og munn - er með loðhúfur, notar varalit á varir eða hvað sem er.

Pössum okkur á því að eyða ekki orku okkar á þá sem í greindarfarslegum skorti benda þessi mótmæli við ákveðinn stjórnmálaflokk.

Það er býsna margir sem eru flokkspólitískir hér á landi - en það tekur ekki frá þeim réttinn til þess að nota þá gagnrýnu hugsun sem manninum einum dýra á jörðinni var gefinn.

Þvíð miður þekki ég of víða til á heimilum þar sem ekki er einu sinni hlustað á kvöldfréttatíma, blogg ekki lesin o.s.frv.

Það fólk er líka upptekið á laugardögum við annað, svo sem útsölur o.fl.

En fólk sem hlustar ekki á fræðslu/fréttir gagnrýnir ekki.  Og það sama fólk er því miður mjög illa haldið af hjarðeðli - gagnrýnislausu hjarðeðli - en er líka oft mjög vammlaust, gott og vandað fólk.

Auglýsingaherferð í öllum fjölmiðlum myndi kalla fleiri til mótmæla, til þess að hlusta á það sem fram fer.  

Hver hefur sjálfsmynd okkar verið og þá um leið ímynd Íslendinga, fram að byltingu útrásarvíkinganna með fulltyngi stjórnmálamanna og forseta Íslands - jú hún er sú að við séum bókmenntaþjóð sem við erum.  Hvað þýðir það alla jafna?  Jú að slík þjóð lesi og sé því vel upplýst alla jafna.

Notum sjálfsmynd okkar sem okkur hefur dugað svo vel, til þess að þrauka í gegnum aldirnar - þ.e. stolt okkar yfir því að þótt við værum fátæk þjóð, þá værum við vel upplýst.

Skorum á okkur Íslendinga í nafni löngunar til þess að vera vel upplýst til þess að hlustaá/lesa fréttir - það er grunnurinn í dag.  

Gefum okkar gagnrýnu hugsun aldrei eftir - Hjarðeðlið hefur sjaldnast verið meira en síðustu 2 áratugi. 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 10.1.2009 kl. 17:27

75 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Kæra Lára takk fyrir þetta. Ég var seint á ferð í dag svo ég var fyrst núna að lesa pistilinn. Sé að fundurinn gekk vel. Kær kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 10.1.2009 kl. 17:28

76 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jón Valur minn ágæti bloggvinur!

Hafa þá menn eins og Gandhi og sjálfur Jesús Kristur kannski gengið of langt með sínum óhefðbundnu framgöngu?

Væri það að þínu mati afsakanleg framkoma í dag að ryðja um söluborðum og skemma verðmæti eins og sá síðarnefndi gerði?

Hann afi minn-svo ég vitni nú í hann enn einu sinni- fordæmdi umbúðalaust þau viðteknu viðhorf hans samtíðar að "vera skikkanlegur og talfár" þegar brjóta þarf upp forneskjulegt hugarfar.

Kjartan: Ég var að lesa blogg frá Hauki nokkrum Gunnarsyni sem var á fundinum áðan og nefndi töluna 1500 !!!! Það er brosleg tilraun coaranna að hætta að telja þegar þeim fer að óa við fjöldanum. En auðvitað vorum við sem þarna stóðum ekki þjóðin! eða fulltrúar hennar að dómi Ingibjargar Sórúnar sem talaði hvatlegast um samræðustjórnmál á sínum tíma. Líklega er þessi vesalings umrædda kona aumasti stjórnmálaleiðtogi á minni tíð.

Árni Gunnarsson, 10.1.2009 kl. 17:30

77 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

þú ert frábær

var lasin í dag og mætti ekki

Hólmdís Hjartardóttir, 10.1.2009 kl. 17:32

78 Smámynd: Solla Guðjóns

Því miður ekki í dag ........En ég hef svo sannarlega mætt áðurá Austurvöll og mun gera þegar ég kemst til R.vík.

Solla Guðjóns, 10.1.2009 kl. 17:33

79 Smámynd: Gerður Pálma

Stórkostlega vel skrifad, eins og beint frá mínu hjarta. Thu kemur í ord thví sem fjoldi fólks er ad reyna ad tjá sig um.  Hafdu thakkir fyrir.

Landsbyggdin og Hofudborgarsvaedid  thurfa ad laera ad finna ad thau eru einn hópur, med somu baráttumál, sama takmark. Allir thurfa ad mótmaela núverandi ástandi á laugardogum hvar svo sem their eru staddir á landinu.  Hver baer/baejarfélag tharf ad finna sér stad til thess ad hittast á,  senda upplýsingar um thattoku til t.d. Hardar Torfa og/eda Borgara samtakanna.

 Íslendingar verda ad vinna hver med odrum í blídu og strídu til thess ad nýta til fullnustu thau taekifaeri sem landid bídur uppá.  Vid erum svo fá og thurfum oll hvert á odru ad halda til thess ad skapa heidarlegt, áhugavert og spennandi atvinnulíf í landinu.

Saman verdum vid ad koma saman rikisstjórn sem ber hag ALLRA landsmanna fyrir brjósti. 

Haettum ad skipta okkur í smáhópa, stydjum hvert annad.  Ísland er audugt og ef vid stondum saman med ábyrga stjórn tha  hofum vid stórkostleg taekifaeri til thess ad snúa daeminu vid. 

Mótmaelendur aettu eiginlega allir ad maeta med lambhúshettu, og helst  gera hana ad hluta ad okkar 'neydar' thjódbúningi thar til vid fáum nýja ásaettanlega stjórn.   Sannleikurinn er sá, THAD THURFA ÍSLENDINGAR AD GERA SÉR GREIN FYRIR ad fólk leggur afkomu sína ad vedi ef thad er í andstodu vid yfirvold  thessa lands, hvorutveggja einstaklingar sem og fyrirtaeki.  Eigendur flestra fyrirtaekja thora ekki, skiljanlega,  opinberlega ad lysa yfir áliti sínu hvad thá ad sýna andstodu vid yfirlýsta stefnu stjórnarinnar.  Vegna thessa hafa fyrirtaeki ekki getad styrkt málefni sem their eru fylgjandi, thví thad myndi mjog svo standa fyrirtaekjunum fyrir thrifum.

Núverandi ríkisstjórn sogar kraftinn úr fólkinu og spýtir vonleysi í aedar thess, fólk getur ekki fengid kraft sér til varnar og uppbyggingar med vanmátt sem naeringu og eldsneyti.  Fólk veit ad ekki er hlustad á neitt sem thad hefur til málanna ad leggja, bara aett áfram á bremsulausum bílnum og ekki haegt ad komast út. 

Ef einhver snefill af sómatilfinningu er eftir hjá sitjandi ríkisstjórn thá á hún ad víkja eigi sídar en nú til thess ekki síst ad gefa fólki von um betri tíma.

Vid verdum ad losna vid thessa stjórn ádur en enn meira áfall rídur yfir thjódina, vid verdum ad vernda heilbrigdiskerfid sem byggst hefur upp í áratugi en hefur í lengri tima verid vanvirt olnbogabarn heildarkerfisins. 

Í stad thess ad skera nidur fjármagn til heilbrigdisgeirans tharf ad byggja hann upp, okkur sjálfum, thjódinni, til framdráttar. Heilbrigisthjónusta er eitt okkar staersta sóknartaekifaeri í atvinnumálum.  Ímynd Íslands erlendis er hreinleiki og menntun.(thessvegna lagdi fólk svo audveldlega sparifé sitt i hendur hinna hreinu Íslendinga)  látum fólk halda ad sú mynd sé rétt, og stefnum sídan ad thví ad hún verdi einmitt thad.  Stefnum ad thvi ad byggja upp sjálfsvirdingu og ad sama skapi endurheima virdingu annarra thjóda. Hérna liggja taekifaeri sem vid thurfum ekki erlent fjármagn til thess ad koma upp, thjódin og kunnáttan sem fyrir hendi er, er sú fjárfesting sem vid thurfum nú ad nýta. 

Med thví ad auka og baeta thjónustuna og adstoda nágrannathjódir sem margar búa vid margra mánada bidlista sjúklinga sem thurfa thjónustu munum vid geta bodid thjónustu. Ísland er orstutt frá meginlandi Evrópu thannig ad fólk sparar sér ad ferdast um hálfan hnottinn til laekninga eins og margir neydast til ad gera í dag.

Í kringum heilbrigdisthjónustu spretta upp alls kyns thjónustuverkefni, hótelrekstur, ferdathjónusta og fleira. Vid erum í flestum tilfellum of fá til thess ad byggja upp ardbaer fyrirtaeki sem krefjast viss fjolda neytenda til thess ad borga sig

Ríkisrekin heilbrigdisthjónusta thar sem algjort virdingarleysi fyrir landsmonnum er reglan og thar sem ríkisstjórnin gefur skít í fólk er ekki vaenleg.  Einkarekin heilbrigdisthjónusta sem byggist á gróda einungis er stórhaettuleg. 

Blandad kerfi  sem vaktar alla thaetti thessarar lífaedar hverrar thjódar er hugsanlegur eini moguleikinn til thess ad hafa adhald og framsýna uppbyggingu.  Til thess ad heidarlega og fagmannlega verdi stadid ad heilbrigiskerfi landsins tharf STRANGAR reglur. Oryggi landsmanna VERDUR ad vera tryggt í heilbrigidmálum. Thad er feigarflan ad lata sidlausar ríkisstjórnir sigla ollu í strand. Einkagródageirinn er á hinn bógin er hradlest til útilokunar jafnraedis í heilbrigdismálum og kemur thvi ekki til greina. 

Enn aftur sannast ad thessi ríkisstjórn er ófaer í hverju máli sem hún á ad varda. Nýja ríkisstjórnin verdur ad skapa fasta heilbrigdisstefnu sem ekki verdur vikid frá thó svo ad ný ríkisstjórn taki vid. Hún hefur einungis yfirumsjón med ad stefnunni sé framfylgt en rekstur verdi einungis í hondum fagmanna sem ríkisstjórnin kemur ekki til med ad skipa. 

Í heilbrigisgeiranum er ad finna úrvals fólk med góda menntun og somuleidist mest megnis fólk sem vinnur af alúd og hugsjón. Vid verdum ad krefjast thess ad thau geti unnid í edlilegu umhverfi og vidsaettanleg launakjor.

Ríkisstjórn landsins er og hefur verid blind á mannaudinn í landinu og gjorsamlega hugmyndasnaud hvad er til rada til thess ad nýta thau audaefi sem og onnur bordliggjandi audaefi í landinu.  

THAD VERDUR AD BREYTA KERFINU OLLU,  NÝ KOSNING, SAMA KERFI ER BARA 'LANGAVITLEYSA' SPILUD UPPÁ NÝ  AFTUR OG AFTUR. SAMA SPILLING MYNDAST, ANNAR KOLKRABBI MED ENDALAUSUM ORMUM SEM UMLYKJA OG LYFTA SUMUM EN UMLYKJA OG KYRKJA  ADRA.

VID VERDUM AD KJÓSA FLOKK MED AD  MARKMIDI AD BREYTA THESSU KERFI og BYGGJA UPP NÝTT THAR SEM THJÓDIN GETUR SAMEINAST Í AD BYGGJA UPP THAD THJÓDFÉLAG SEM THAD Á SKILID.  

Gerður Pálma, 10.1.2009 kl. 17:43

80 identicon

Sæl Lára Hanna,

Ég er ein af þeim sem sat heima fyrir jól og tók ekki þátt í mótmælum.  Ég tók mig taki eftir áramót og ákvað að sitja ekki lengur heima heldur sýna samstöðu og fara niður á Austurvöll, það gerði ég 3. janúar og svo aftur í dag.  Ég get því miður ekki lofað þér því að ég fari aftur næsta laugardag en það er ekki af því ég sé að fara í Smáralind, Kringluna eða horfa á enska boltann.

Ég ber ómælda virðingu fyrir því fólki sem hefur staðið þarna niður frá 14 laugardaga samfellt og því fólki sem leggur á sig þá vinnu að standa fyrir þessum mótmælum.  Því miður hef ég hins vegar ekki getað samsamað mig því sem þarna fer fram nema að afar litlu leyti.

Ef þetta á að vera vettvangur fyrir þjóðina til að koma saman og sameinast og sýna að við séum langt frá því að vera sátt gengur ekki upp það sem þarna fer fram í ræðuhöldum.  Það er kannski ástæðan fyrir því að ekki kemur fleiri fólk en raun ber vitni. Mér finnst þeir sem halda þarna ræður komna of mikið í smáatriði sem geta aldrei sameinað þjóðina.

Tilgangur félagsins Raddar fólksins er skv. heimasíðu þeirra að skipuleggja friðsamleg mótmæli og styðja við almenning í kjölfar efnahagskreppu á Íslandi. Standa að og hvetja til víðsýnnar umræðu og úrbóta á íslensku samfélagi með höfuðáherslu á mannleg gildi.

Mér finnst þarna ekki vera víðsýn umræða og tillögurnar að úrbótum eru fæstar mér að skapi og ég sé ekki að þær leysi þann hnút sem íslensk þjóð er komin í.

Ef ég sé breytingu verða á þessu þá mun ég mæta aftur, það er öruggt.

Margrét (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 17:54

81 identicon

...og um fimm þúsund manns mættu! Fjölmenni Fjölmenni Tímamót í fréttaflutningi að loks séu tilgreindar tvær tölur eins og tíðkast í útlöndum, m.a. í Frakklandi þar sem fólk mótmælir óhikað: Lögreglan telur að mótmælendur hafi verið rúmlega 2.000 en Hörður Torfason að þeir hafi verið um 5.000. Bravó rúv!

en guð hvað ég er þreytt á þessu með "friðsamleg" "friðsöm" um leið og fluttar eru fréttir af mótmælum. Eins og það sé þörf á því að taka það fram.

Græna loppan (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 18:35

82 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Það eru ekki allir sem vilja kosningar strax. Ég virði rétt fólks til að standa fyrir friðsömum mótmælum, en það eru einfaldlega ekki allir sammála forsendum mótmælanna.

Svala Jónsdóttir, 10.1.2009 kl. 18:40

83 Smámynd: Sigurður Hrellir

Takk fyrir þessa mergjuðu hvatningu. Sjálfur hef ég reynt að telja bæði vini og ættingja á að mæta en sé alltaf þá sömu sem þurftu engar hvatningar við. Reyndar sér maður aldrei nema hluta viðstaddra hvort heldur sem þeir eru 2000 eða 5000. Óskiljanlegt er að fjölmiðlar eins og RÚV sem vonandi vill láta taka mark á sér skuli ekki senda ljósmyndara gagngert til að áætla fjöldann. Fyrst sögðu þeir 2000 eins og lögreglan gaf út en síðar breyttu þeir því í yfir 4000. Er eitthvað skrýtið að maður skuli stundum hafa efasemdir um sannleiksgildi þess sem lögreglan segir?

Annars efast ég um að 20000 manns (sem lögreglan teldi vera 8000) myndu duga til þess að fá Geir og Sollu til að slíta samvistum. Það er kominn tími á kröftugari mótmæli sem hafa meiri bein áhrif á spillingaröflin. Þá er ég ekki að tala um ofbeldi eins og lögreglan hefur orðið uppvís að heldur beinum truflunum. Það verður að beita öllum ráðum til að trufla það sem nú á sér stað. Ég sting t.d. upp á því að fólk gangi í Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn til þess eins að geta mætt á landsfundina núna í janúar og truflað þá. Það er þeim að kenna hvernig komið er fyrir okkur!

Sigurður Hrellir, 10.1.2009 kl. 18:58

84 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Góður pistill og þarfur, þú átt mína virðingu.

Þýðir nokkuð að kjósa fyrr en við höfum stokkað upp í flokkakerfinu?

Haraldur Davíðsson, 10.1.2009 kl. 19:08

85 Smámynd: Heidi Strand

Ég er mjög þakklát hverjum og einum sem mættu í dag. Ég er heima með flensu en mæti aftur næst.
Baráttukveðjur

Heidi Strand, 10.1.2009 kl. 19:31

86 identicon

Það er vitamál að lögreglan gefur alltaf lægri tölu og skipuleggjendur hærri, í framhaldi af því er hægt að spá í fjöldann þegar um fjöldamótmæli er að ræða.

Annars held ég að fjölbreytni sé best í mótmælum til hliðar við hefðbundin mótmæli.

Borgarafundur (fréttaskot Þóru Kristínar 9.1.09 Sjónvarp mbl.is)

Stjórnarráðið (fréttaskot Þóru Kristínar 15.12.08 Sjónvarp mbl.is)

Forstöðumenn í fréttabanni (fréttaskot Þóru Kristínar 19.12.08 Sjónvarp mbl.is)

Hanna St. Þorleifsdóttir (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 19:33

87 identicon

Takk kærlega fyrir þennan pistil Lára Hanna. Hreint út sagt frábær.

Það er æðislegt að geta notað síðuna þína til að fá alvöru fréttir. Bý úti í Indonesiu og finnst fréttavefirnir

oft ekkert vera segja frá þessu sem maður svo les á hinum og þessum bloggum, skrítið..

Ég mæti í anda og sendi strauma á ykkur sem standið í mótmælum laugardag eftir laugardag, Húrra fyrir

ykkur

Þetta mun skila árangri

Takk fyrir mig Selma D

Selm DV (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 20:21

88 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Frábær pistill, var að sjá hann núna, öflug mótmæli í dag, talsvert fleiri en síðast. Tengi á þetta hjá mér, kannski öflugra að gera það fyrir næsta laugardag, samt.

Baldur, snilld þetta pdf skjal, ég prenta út og hengi á mína fjölmörgu vinnustaði!

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 10.1.2009 kl. 21:26

89 Smámynd: Offari

Ég þurfti að verja mitt heimili gegn árásum óreiðumanna í dag. En þar sem ég er búsettur á Eskifirði þá er það erfitt fyrir mig að mæta.

Offari, 10.1.2009 kl. 21:34

90 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Knús á þig elskulegust og ljúfar kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 10.1.2009 kl. 22:15

91 Smámynd: Katrín Linda Óskarsdóttir

Þetta er jú frábæralega vel skrifað hjá þér Lára Hanna, en hvernig stendur á því að EF einhver dirfist að andmæla utanumgjörð þessarra laugardagsmótmæla að þá eru þeir bara kallaðir aumingjar og fleiri ljótum nöfnum?  Það er ástæða fyrir að fleiri mæta ekki á þessi mótmæli og ef skipuleggjendur mótmælanna og þeir sem þangað alltaf mæta vilja fá fleiri þátttakendur þá verðið þið að hlusta á skoðanir okkar hinna sem ekki mætum.  Við erum mörg sem ekki höfum mætt á þessa laugardagsmótmælafundi en erum samt reið, sár, hrædd og kvíðin .... við viljum breytingar og við viljum menn dregna til ábyrgðar!   Málið er einfaldlega að þessi mótmæli hafa á sér "vinstri" stimpil og það vilja ekki allir skrifa undir þá yfirlýsingu.  Jú jú, auðvitað getum við hin mótmælt á okkar forsendum og það verður örugglega gert.

Nú geri ég fastlega ráð fyrir að fá yfir mig skammir og fúkyrði vegna þessarra lína, frá "Heiðu" og fleirum hér en það verður bara að hafa það

Katrín Linda Óskarsdóttir, 10.1.2009 kl. 23:06

92 identicon

Kæra Lára Hanna

Þú segir margt fallegt. Ég verð að segja eitthvað í framhaldinu.

Fyrsta krafan er rökrétt hugsun sem byggir á staðreyndum.

Önnur krafan er hleypidómaleysi.

Þriðja krafan og e.t.v. sú mikilvægasta er réttlætiskennd. Hún á að skipa meginmarkmiðið í lífi okkar. En réttlæti getur breyst í ranglæti ef skortir rökrétta hugsun eða hleypidómaleysi.

Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 23:14

93 identicon

Heyr...Heyr.  Ég tek undir með þér að þetta nær ekki nokkurri átt með áhugaleysið hjá fólki almennt. Ég er búinn að mæta þrisvar sinnum á Austurvelli. Mjög góð tilfinning að taka þátt.

Haraldur A. Haraldsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 23:44

94 identicon

Kæra Katrín!

Mótmælin á laugardögum eru ekki flokkspólitísk, en þú finnur að þau hafa "vinstri" slagsíðu, sem er rétt. En ástæðan er einföld: hér var þjóðfélagið keyrt í kaf með öfgafullri hægristefnu. Þess vegna kallar fólk nú eftir þeim gildum sem vinstri menn hafa í hávegum, jafnrétti og velferð. Það er ósköp eðlilegt. Þú vilt breytingar - þá viltu væntanlega hverfa frá þeim hugmyndum sem hafa ráðið ferðinni og leitt okkur í ógöngur. Ekki láta hræðsluáróðurinn gegn "vinstrinu" sem hefur dunið svo lengi á fólki hafa áhrif á þig - skoðaðu hugmyndirnar og mátaðu þær við þína eigin sannfæringu og samvisku.

Ragnheiður Gestsdóttir (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 23:48

95 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Takk fyrir hvatningu..... ég mun mæta eftir viku og reyna að smala með mér. 

Anna Einarsdóttir, 11.1.2009 kl. 00:20

96 identicon

Hvers vegna tala sumir um að það sé einhver "vinstri stimpill" á þessum mótmælum? og hvað er neikvætt við vinstri? Eru þetta einhverjar eftirlegukindur frá kaldastríðsárunum?

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 00:36

97 Smámynd: Baldvin Jónsson

Góður fundur í dag. Mér finnst annars skemmtilegt að sjá þessa umræðu stöðugt um mismunandi tölur lögreglu og svo annarra af mætingunni. Gefum okkur að "aðeins" hafi mætt um 2000 manns.

Í samhengi við t.d. Bandaríkin, sem eru 1000 sinnum stærri en við í fólksfjölda, væri það eins og allir íbúar Seattle hefðu mætt á mótmæla fund þar. Ætli yrði ekki eftir því tekið?

Baldvin Jónsson, 11.1.2009 kl. 02:57

98 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er svo óforskömmuð að ég er búin að auglýsa þetta inni á Facebook, inni á blogginum mínu bæði með krækju og svo með því að birta hvarþátt þessa magnaða hvatningaróðs, eða öllu heldur seiðs, þar líka. En auðvitað hef ég alltaf tekið fram hver á verkið.

Til hamingju Lára Hanna með þessi kraftmiklu og seiðmögnuðu skrif. Ég er sammála þeim mörgu hér að ofan um það að þetta ætti að fara sem víðast. Þennan texta ætti að nota til brýningar og hvatningar. Þessi texti hefur áhrif.

Spurning hvort þeir sem gerðu margmiðlunarlistaverkið Veruleikarof ættu ekki að fá fréttir af þessu listaverki þínu og bæta við það myndum og tónlist. Nei, nú er ég farin að skipta mér af og skipa fyrir en það var ekki ætlunin

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.1.2009 kl. 06:16

99 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gleymdi að setja krækjuna á Veruleikarof þannig að ég bæti henni við r.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.1.2009 kl. 06:17

100 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Váááá hvað ég skammast mín....oj hvað ég skammast mín....

Auðvitað á maður að mæta...og standa með þjóðinni sinni....ég mæti næst...

Takk fyrir að vekja mig...takk fyrir frábæra áminningu...takk fyrir snilldar færslu....

Bergljót Hreinsdóttir, 11.1.2009 kl. 18:12

101 Smámynd: Calvín

Það er ástæða til að benda á þetta viðtal við Naom Chomsky um lýðræðisskortinn í BNA. Eitthvað hljómar þetta kunnuglega, eða hvað? Lára Hanna hafi síðan þökk fyrir að standa vörð um lýðræðið.

http://www.youtube.com/watch?v=LmJv_wf91W8

Calvín, 11.1.2009 kl. 20:08

102 Smámynd: Aldís Gunnarsdóttir

þú ert frábær kona Lára Hanna...takk fyrir pistilinn

Aldís Gunnarsdóttir, 12.1.2009 kl. 01:08

103 Smámynd: Hulla Dan

Nákvæmlega!!!!

Þú ert snillingur...

Hulla Dan, 12.1.2009 kl. 12:39

104 identicon

Sæl Lára

 Ég veit ekkert hver þú ert...... en eftir einhverjum flækjum netsins þá endaði ég við þennan pistil,  hef  haft fordóma í garð fólks sem bloggar,  finnst þetta ótrúlegir nöldrarar sem dreymir um að verða blaðamenn eða skáld.

Ömurlegast hefur mér fundist að vinsældir bloggs fer helst eftir hvursu miklum hörmungum bloggarinn eða fjölskyldan hefur lent í veikindi eru best.

Svolítið nöturlegt en ekki mitt að dæma ef einhverjum líður betur eftir útrás á bloggi þá gott og vel.

Einhvern tíman er allt fyrst og ég er ein af þeim sem ekki hef mætt á Austurvöll, en þessi pistill er eins og blaut tuska og gott ef ég skammast mín ekki pínulítið....þessi snilldarpistill þarf einmitt að fara um landið í einum grænum hvelli því í fljótu bragði get ég ekki betur séð en að flestir sem kommenta eru nú þegar virkir hvern laugardag....

Bara eitt að lokum það sem helst hefur stoppað mig og örugglega fleiri eru grímuklæddir í flestum tilvikum óþroskaðir unglingar með vasahníf úr Brynju og fólk sem eru með eitthvað galdraatriði í gangi mér finnst það gefa þessu svo heimskulegt yfirbragð og langar að vita eru þetta bara undartekningartilfelli eða regla......kannski ég ath. málið á kantinum á laugardag þó við öllu viðbúin.

Takk kærlega

Hlín Íris

Hlín Íris Arnþórsdóttir (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 14:00

105 Smámynd: Halla Rut

Algjörlega sammála þér og ætla að taka þetta til mín.

Halla Rut , 12.1.2009 kl. 14:48

106 Smámynd: Helgi Baldvinsson

Það eru oft skemmtileg video á blogginu hjá þér en ég veit ekki hvort þetta er einhversstaðar. Hannes Hólmsteinn fer á kostum.

http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=&programID=b2fab606-e8f9-4500-a4d9-15008d8978da&mediaSourceID=4b8342d2-6d57-4144-8b62-3d3067588513

Fann þetta hjá Agli á Eyjunni og er skylduáhorf allra hugsandi manna og kvenna. Þarf að dreifa sem víðast og má ekki gleymast.

hb

Helgi Baldvinsson, 15.1.2009 kl. 10:25

107 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Helgi...  Þetta magnaða myndband setti ég inn hjá mér fyrir allöngu hér. Og setti það svo í færslu 4. des. sjá hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.1.2009 kl. 10:37

108 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þetta viðtal við Hannes Hólmstein frá 13. september 2007 er kostulegt. Þar ræður hann um „dautt fé“ og endurlífgun þess í höndum útrásarmanna. Kaþólska kirkjan varðaði við því alla tíð allt frá miðöldum og jafnvel að það væri ekki guði þóknanlegt að taka rentu eða vexti af dauðu fé. Fólkið ætti að framleiða og njóta arðsins af náttúrulegum arði, þ.e. því sem náttúran, akurinn og skepnurnar gefa af sér. Borgaralegur arður var illa séður af kirkjunni og var harðbannað, gott ef ekki jafnvel á Íslandi á 13. öld.

Í dag eru útrásarmennirnir gjarnan líkt við hrægamma og nú síðast heyrði eg hjá kunningja mínum ágætum sem er í stétt lögfræðinga. Meðal lögspekinga er rætt um grafaræningja. Grafaræningjar brutust m.a. inn í píramíta og létu greypar sópa um öll þau verðmæti sem þar mátti finna. Þeir voru gjörsamlega sálarlausir og haldnir gróðafíkninni.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.1.2009 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband