Ritgerð þeirra Gylfa Zoega og Jóns Daníelssonar um skipbrot hagkerfisins er mögnuð og ætti að vera skyldulesning fyrir alla Íslendinga. Í ljósi furðulegs málflutnings sjálfstæðismanna þessa dagana og algjörrar afneitunar þeirra á eigin ábyrgð, flokksins og afleiðingum á stefnu hans ætti að skylda þá til að lesa hana að minnsta kosti tíu sinnum hver. Þeir Gylfi og Jón sýna svo ekki verður um villst - í góðri samantekt á mannamáli - hvað olli efnahagshruni þjóðarinnar, hverju var um að kenna og benda á leiðir til úrbóta.
Í formála að viðtalinu í Kastljósi í gærkvöldi um ritgerðina sagði Gylfi Zoega m.a.: "Tilgangurinn með því að skrifa svona ritgerð var að segja í fyrsta sinn frá því hvað gerðist hér á síðasta ári. Okkur hefur fundist vanta að einhver segði bara hreint og beint hvað gerðist. Af því að mikið af því sem kemur fram kemur fram hjá aðilum sem hafa hagsmuna að gæta í að verja sína stöðu, sinn orðstír, sín völd o.s.frv. Það er eiginlega óþolandi fyrir fólk sem er að verða fyrir verulegu hnjaski... og þetta er verulegt áfall sem þjóðin verður fyrir, þúsundir manna missa vinnuna í hverjum mánuði... að við skulum þurfa að hlusta á upplýsingagjöf frá aðilum sem eru kannski fyrst og fremst að hugsa um eigin hag en eru opinberir starfsmenn og ættu að vera að hugsa bara um okkar hag."
Ritgerðin er 19 síður auk tilvitnana og því helst til viðamikil til að setja inn í bloggfærslu. Hún er hengd við þessa færslu neðst í .pdf skjali, en ég útbjó líka albúm undir hana þar sem hægt er að lesa hana síðu fyrir síðu. Smellið á hverja síðu þar til læsileg stærð fæst. En hér er Kastljósviðtalið við þá félaga.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Búin að lesa skýrsluna og m.a.s. blogga um hana. Sammála, hún ætti að vera skyldulesning og skýrslan staðfestir allt það sem okkur grunaðir svo sterkt.
Arinbjörn Kúld, 10.2.2009 kl. 02:12
Ég las líka alla skýrsluna Vonandi les Davíð hana líka og segir af sér í framhaldinu.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.2.2009 kl. 02:47
Já þetta ætla ég að lesa.
missti nú nokkuð álit á jóni daníels samt þegar hann vildi ekki láta frysta eigur auðmanna og kallaði yfirlýsingar vg lýðskrum.
ari (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 03:08
Ritgerðin er að malla í prentaranum á meðan ég skrifa þessa athugasemd. Langaði bara að nota tækifærið og brosa á móti athugasemd frá þér inni á blogginum mínu fyrir stuttu síðan Athugasemdina sem um ræðir settir þú inn hjá mér þegar við birtum grein eftir GAT á bloggunum okkar á sama tíma.
Þetta er samt ekki í eina skiptið sem mér hefur virst að við séum að hugsa það sama þó við nálgumst það með ólíkum hætti. Það kemst heldur enginn með tærnar þar sem þú ert með hælanna í faglegum vinnubrögðum hér á blogginu þannig að mér dettur ekki í hug að líkja okkur saman hvað það varðar!
Þessi færsla er gott dæmi um það sem ég meina í sambandi við það að virðumst stundum vera uppteknar af því sama og það m.a.s. oft á nánast sama tímanum Það hefur oftar en ekki komið fyrir að mig langar að skrifa um eitthvað en ákveð svo að bíða eftir því hvort þú munir ekki fjalla um það þar sem ég treysti þér miklu betur fyrir því. Mér hefur alltaf orðið að ósk minni í þessum tilvikum
Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.2.2009 kl. 03:36
Já, hún er læsileg. En verður hún mótvægi við einnarlínuspunastorma þeirra stjórnmálamanna sem bera ábyrgð á því sem varð? Þeir eru þegar búnir að ráða auglýsingastofur og ungliða til að fara um héruð internets og fjölmiðla, alþingi og mannamóta til spinna nýjan og fagran blekkingavef eigin dugs og sakleysis. Og við munum kjósa þá, ef mat auglýsenda og reynsla reynist rétt.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 06:59
Ég get bara ekki orða bundist yfir því hvað mér finnst þú, Carlos, orða aðferðir stjórnmálamannanna (a.m.k. þeirra sem nú eru í stjórnarandstöðu) frábærlega vel!!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.2.2009 kl. 07:03
Þakka þér fyrir alla þína vinnu við að taka til efni úr sjónvarpi og moggum. Vonandi ber hún ríkulegan ávöxt í upplýstari almenningi.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 09:06
Fylltu ekki nemendur þeirra og kollegar bankana,kennslan virðist ekki alveg hafa verið í lagi.
Ragnar Gunnlaugsson, 10.2.2009 kl. 10:19
Takk fyrir þetta, ætla mér að prenta hana út og lesa vel.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.2.2009 kl. 13:40
Þessi skýrsla er einhver versti áfellisdómur sem hægt er að hugsa sér um stjórn efnahagsmála á Íslandi. Það verður vitaskuld reynt að beina umræðunni inn á lágt plan í kosningabaráttunni en við megum til með að láta ekki þar við sitja. Minnum sífellt á það hvernig stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa skrumskælt hlutverk sitt og svikið þjóðina. Sýnum fjölmiðlunum aðhald!
Sigurður Hrellir, 10.2.2009 kl. 14:13
Góð skýrsla las hana í morgun.
Ásdís Sigurðardóttir, 10.2.2009 kl. 15:09
Þú stendur þig vel Lára Hanna, takk fyrir mig
Eva Benjamínsdóttir, 10.2.2009 kl. 17:11
Takk Lára. Ég er búinn að krafla mig í gegnum skýrsluna einu sinni. Þá á ég öruggleg eftir að lesa hana oftar og svo einnig í pörtum. Ekki að ég sé svo hræðilega trégáfaður. Heldur er skýrslan þess eðlis að maður skilur bara ekki hvað hagfræðingar í lykilstöðum í stjórnsýslunni sem áttu að vera að vinna vinnuna sína hafa verið að gera síðustu árin - nema þá sennilega ekki neitt. Þá er manni næst að halda að sumir þeirra hafi ekki heldur verið að gera neitt þegar þeir áttu að vera að lesa námsbækurnar.
Atli Hermannsson., 10.2.2009 kl. 22:04
Það er með þessa skýrslu eins og annað í okkar upplýsta samfélagi. Á henni taka allir mark utan sjálfstæðismenn en þeir eru rökheldir eins og allir vita. Nú ætla þeir að taka til hendinni með nýjan leiðtoga og nú skal byggja upp nýtt Ísland. Í fyrramálið ætla þeir að taka Kolbrúnu umhverfisráðherra í bænastund á Alþingi. Þeir hafa nefnilega dustað rykið af draumsýninni inn í framtíðina! Álver skal það vera. Engin þjóð getur hafnað svo metnaðarfullri framtíðarsýn eins og álveri í hverju byggðarlagi. "Skrautbúin skip fyrir landi" sagði skáldið, og nú vilja þeir sjá drekkhlaðna ryðkláfa skipa upp þúsundum tonna af eitraðasta jarðefni sem þekkist og er siglt með hingað frá Jamaicu og Nýju-Gíneu til að bræða úr ál fyrir Íslendinga til að selja þó enginn hafi reyndar lengur áhuga á að kaupa. En verðið skiptir ekki máli ef einhver vill vera svo góður að þiggja af okkur vistvæna orku niðurgreidda af moldríkum skattborgurum þessa lands. Er hægt að komast lengra í steingeldri hugmyndafræði? Eru ekki áreiðanlega þarna endastöðvar heimskunnar á Íslandi?
Svo langt eru þessir vesalingar grafnir inn í myrkustu fortíð hugarfars að næst getum við átt von á að þeir krefjist þess að konur fái kosningarétt á Íslandi!
Afsakið elskurnar mínar, en stundum verður mér þannig innanbrjósts þegar ég hlusta á þessa geldinga með frjálshyggjuglottið á kjaftinum að mig dauðlangar að hlaupa út og drepa mann! Tilgangslaus æsingur að vísu því nú er svo komið að ég er ekki maður til þess lengur vegna líkamlegra vanburða að "hafa mann fyrir mig" áður en ég yrði drepinn sjálfur.
Árni Gunnarsson, 11.2.2009 kl. 01:04
Eins og allir hér inni vita eru allir hagfræðingar heims sammála um alla hluti. Líka Lára hanna, ekki satt ?
Gott, þá eru engin vandamál.
Össi (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 01:26
Skýrsla þeirra Gylfa Zoega og Jóns Daníelssonar um skipbrot hagkerfisins er skrifuð með skýrum hætti þar sem ekki er verið að fara kringum hlutina eins og köttur um hdeitan graut. Hún er tæpitungulaus.
Það er því mjög einkennilegt, að ekki sé dýpra tekið í árina, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn tekur á þessu máli. Á þeim bæ vilja helst allir leiða hjá sér þá miklu ábyrgð á því ástandi sem komið er. Nú er sjálft Morgunblaðið að verða aftur að gamla flokksmálgagninu þar sem ekki má koma með gagnrýni af neinu tagi sem gæti valdið honum atkvæðatapi.
Fyrir mánuði síðan sendi eg grein undir heitinu: „Opið bréf til Sjálfstæðisflokksins frá Guðjóni Jenssyni“ sem ekki hefur enn verið birt. Þar er dregin fram saga einkavæðingar á Íslandi og hvatningu Sjálfstæðisflokksins að almenningur tæki þátt í rekstri fyrirtækja með því að gerast hluthafar. Hagsmunir litla hluthafans voru nákvæmlega þeir sömu og lífeyrissjóðanna: Þessir aðilar greiddu fyrir hlutina með beinhörðum peningum. Með einkavæðingu bankanna sköpuðust góð skilyrði fyrir spillt fjármálaöfl að yfirtaka hvert fyrirtækið af fætur öðru með fé sem engin raunveruleg verðmæt stóðu á bak við. Hagsmunir þessara braskara urðu allt í einu þvílíkir að bæði lífeyrissjóðir og litlir hluthafar hafa bókstaflega glatað öllu því fé sem þeir lögðu í banka og mörg þessara fyrirtækja.
Þessa grein hefi eg borið undir ýmsa aðila, þ. á m. lífeyrissjóðsmenn og enginn skilur hvað þeim á Morgunblaðinu gengur til.
Þingfréttaritari Morgunblaðsins sem hefur verið Halla Gunnarsdóttir, einn langskemmitlegasti blaðamaður Morgunblaðsins, er ekki lengur starfandi á Morgunblaðinu.
Það er því áleitin spurning hvort á Morgunblaðinu hafi verið innleidd ritskoðun, þannig að þar verði helst ekkert birt nema það sem gæti komið flokksnefnu þessari að gagni. Með því er Morgunblaðið að innleiða á Íslandi sömu hugmyndafræði og ritstjórnarstefnu sem var höfð í heiðri á sokkabandsárum rússneska blaðsins Pravda (Sannleikurinn). Svo sem kunnugt er, var Pravda málgagn Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna.
Óskandi er að Morgunblaðið verði keypt af almenningi undir styrkri stjórn Vilhjálms Bjarnasonar lektors í Háskóla Íslands. Sú ritstjórnarstefna Morgunblaðsins sem þeir félagar Matthías Jóhannessen og Styrmir Gunnarsson innleiddu kringum 1980 virðist því miður vera á hallandi fæti en við verðum að breyta þessu. Morgunblaðið á vera málgagn allra Íslendinga en ekki nokkurra þröngsýnna íhaldsmanna.
Mosi
Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins eru gríðarleg.
Guðjón Sigþór Jensson, 11.2.2009 kl. 17:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.