19.2.2009
Ég stenst ekki mátið...
Nú dynja á okkur fréttir um nýja frambjóðendur í öllum flokkum sem og um þingmenn og ráðherra sem ætla að hætta og fara að gera eitthvað annað. Einar Mar heldur utan um hverjir ætla að hætta eða reyna aftur. Mér líst misvel á nýja frambjóðendur flokkanna, sumum fagna ég en öðrum vantreysti ég. Enn aðra þekki ég ekki neitt og get engan veginn metið. Ekkert bólar enn á nýjum framboðum, enda er tíminn naumur og ekki víst að það náist að koma neinu saman. Ég vona það samt, ekki veitir af.
Mér leist ekkert á blikuna þegar Þráinn Bertelsson lýsti yfir framboði fyrir Framsókn í Reykjavík og ég hafði á orði einhvers staðar að þar færi góður biti í hundskjaft. Samt var leiðinlegt að lesa þetta í gær þótt það hafi ekki komið mér neitt sérlega á óvart. Einkum hlýtur þetta að vera skítt fyrir reykvíska framsóknarmenn og varla verða svona vinnubrögð flokknum til framdráttar.
Nú sakna ég þess að tillaga Vilmundar Gylfasonar og Bandalags jafnaðarmanna frá 1983 um persónukjör þvert á lista sé ekki enn orðin að veruleika. Sú tillaga var á þá leið að kjósendur gætu valið frambjóðendur af öllum listum - X marga alls - sama hvar á listunum þeir væru. Ég gæti nefnilega alveg hugsað mér að kjósa einhverja af öllum listum því alls staðar leynist gott fólk - en líka síðra. Svo raðast fólk ekkert endilega í þau sæti sem manni finnst að það ætti að gera.
Ekki ætla ég að kynna sérstaklega frambjóðendur neinna flokka á þessari síðu - með einni undantekningu þó. Ég hef kynnst Bergi Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Landverndar, í gegnum baráttuna gegn Bitruvirkjun og ég hoppaði hæð mína í loft upp þegar ég heyrði að hann ætlaði í framboð. Mér hefði verið slétt sama fyrir hvaða flokk þótt þetta val hans komi samt ekki á óvart. Bergur er heiðarlegur og heilsteyptur maður sem ég treysti mjög vel til góðra verka fyrir land og þjóð auk þess sem hann er einlægur umhverfis- og náttúruverndarsinni. Bergur býður sig fram í Suðurkjördæmi og ég skora á kjósendur að velja hann. Takið eftir því að ekki þarf að vera búsettur eða eiga lögheimili í kjördæminu til að geta tekið þátt í prófkjörinu - það þarf bara að skrá sig í VG félag í Suðurkjördæmi fyrir klukkan 17 föstudaginn 20. febrúar - semsagt strax.
Ég óska Bergi Sigurðssyni alls hins besta í prófkjörinu og vona innilega að hann nái árangri.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 23:30 | Facebook
Athugasemdir
fínn kosningaáróður hjá þér.
ég tek heilshugar undir hugmyndir Vilmundar heitins.
kannski er þessi Bergur góður gæi, en ég fer ekki að skrá mig í VG til að taka þátt í prófkjöri. reyndar ætla ég ekki að skrá mig í neinn flokk.
ég vil vera utan flokka, en samt fá að hafa áhrif. Ég er þegn þessa lands. égm á heimtinguná að hafa áhrif. ég vil áhrif mín sem mest og ekki tengd flokksáskrift neinsstaðar.
Brjánn Guðjónsson, 19.2.2009 kl. 01:10
Já flottur áróður en ég gleðst yfir því þegar að heilsteypt baráttufólk bíður sig fram. Ekki veitir af að fá fólk inn á þing sem hugsar um annað en rassinn á sjálfu sér. Ég óska Bergi velfarnaðar.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 19.2.2009 kl. 01:19
X getur líka þýtt „fyrrverandi“. Ef þjóðin fær ekki að kjósa persónukosningu í næstu kosningum, þá einfaldlega mætir hún ekki í kjörklefana. Stjórnvöld verða að virða vilja fólksins í landinu. Annars verða þau „fyrrvaerandi“...
Ásgeir Kristinn Lárusson, 19.2.2009 kl. 08:53
Bergur er vel menntaður og með góða reynslu. Hann er málefnalegur en getur verið nokkuð harður í horn að taka sérstaklega þegar hann finnur að andstæðingur hans hefur ekki sérlega góðan málstað að verja og að honum og sjónarmiðum hans um náttúru landsins er vegið. Bergur væri mjög góður þingmaður við hlið Atla Gíslasonar sem er mjög varfærinn og einn málefnalegati þingmaðurinn sem nú situr á þingi.
Atli hefði verið mjög góður dómsmálaráðherra að öðrum prýðisgóðum dómsmalaráðherrum ólöstuðum. Hann hefur mjög sjaldgæfa reynslu sem opinber saksóknari sem er ótvíræður kostur um þessar mundir. Hann var settur saksóknari um tíma í sérstaklega erfiðu máli og gegndi því starfi óaðfinnanlega.
Það er mjög mikið mannval fyrir þessar kosningar. Þú Lára Hanna ættir t.d. að gaumgæfa hvort þú ættir ekki erindi á þing og bjóða þig fram. Alltaf er þörf fyrir reynslu og þekkingu góðs fólks. Myndi ábyggilega velja þig ásamt fleiri leiðsögumönnum.
En þetta er hörku starf og alltaf má búast við ómálefnalegri árás jafnvel þegar verst stendur á með jafnvel óvæga fjölmiðlana að baki. Það þarf því bæði sterkbyggð bök og gott úthald á þessum krefjandi vinnustað sem sumir vilja nefna háðuglega, kannski „afgreiðslustofnun andskotans“ því lítið fer fyrir eigið frumkvæði að þingmálum. Þau falla yfirleitt í grýttan jarðveg og verða sjaldan meira en þingskjal með einhverjum tilfallandi umræðum sem vilja falla undrafljótt í gleymsku og dá. Endurtekning framlagningar þingmála sýnir það og er það dapurlegt hvernig oft góðar hugmyndir eru nánast kveðnar niður með mætti þingmeirihlutans.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 19.2.2009 kl. 10:39
Ásgeir ... Það að mæta ekki í kjörklefana er ekki val. Afhverju? Jú, þeir sem enn kjósa D munu mæta, sama hvað gengur og tautar, sama hvort það er ljósastaur í framboði eða ekki. Og. Við hin þurfum að koma í veg fyrir það með ÖLLUM tiltækum ráðum (þar með talið að mæta á kjörstað), að D komist í stjórnunarstöður aftur.
(Við þurfum að blokka B líka.)
Einar Indriðason, 19.2.2009 kl. 11:19
Lára. Ég er sammála Einari. Þú ættir að bjóða þig fram. Ef við eigum að breyta her þjóðfélaginu þurfum við heiðarlegt fólk við stjórnvöldin.
Anna , 19.2.2009 kl. 13:03
Mér lýst rosalega vel á Berg í þriðja sætið hjá VG enda er VG með hefð fyrir fléttulista og munu tvö efstu sætin ekki geta bæði verið skipuð körlum. Því vil ég sérstaklega kynna Jórunni Einarsdóttur sem býður sig fram í annað sætið í forval fyrir VG í Suðurkjördæmi.
Nú í gjörbreyttu samfélagi og í aðdraganda kosninga hefur ungt fólk í auknum mæli sýnt það og sannað að það eigi fullt erindi í það verkefni sem framundan er hjá nýrri ríkisstjórn. Þess vegna og hefur Jórunn ákveðið að bjóða sig fram í 2. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í forvali í Suðurkjördæmi til Alþingiskosninga 2009. Jórunn er 34 ára og er dóttir Einars Friðþjófssonar og Katrínar Freysdóttur.
Jórunn hefur búið í Vestmannaeyjum nær alla sína tíð en býr nú í Kópavogi þar sem þau hjónin eru í námsleyfi. Hún er kennari að mennt en stunda mastersnám í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands. Samhliða því kennir hún í Hvammshúsi í Kópavogi sem er sérúrræði fyrir unglinga í 9. og 10.bekk.
Jórunn gekk í flokkinn haustið 2006 og skipaði 6.sæti listans í Alþingiskosningunum árið 2007. Þar kviknaði neistinn og áhugi hennar á pólitísku starfi fyrir alvöru. Jórunn hefur þá trú að nú sem aldrei fyrr sé þörf fyrir ný gildi og nýja stefnu í íslensku þjóðfélagi þar sem jöfnuður manna á milli muni stuðla að aukinni farsæld til handa okkur öllum, ungum sem öldnum.
Jöfnuður sem stuðlar að auknu frelsi einstaklinga til athafna hvar sem þeir eru staddir hverju sinni. Maki Jórunnar er Ágúst Óskar Gústafsson, 34 ára læknir og saman eigum þau tvö börn, Eyþór 7 ára og Katrínu Söru bráðum 5 ára.
Aldís Gunnarsdóttir, 19.2.2009 kl. 13:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.