Við megum ekki gefast upp!

Ég ætla ekki að skrifa um siðlausa reikninga manna í skilanefndum og jafnsiðlausar lúxusferðir þeirra á kostnað almennings sem á ekki fyrir nauðsynjum og er með kvíðahnút yfir morgundeginum. Ég ætla heldur ekki að skrifa um fleipur forsetans sem hefur valdið þjóðinni ómældu tjóni á erlendri grundu. Ég lít á það mál sem létta smjörklípu, alvarlega þó, en vil taka á því seinna og einbeita mér að því að koma frá manninum sem hefur valdið okkur enn meira tjóni og enginn treystir, hvorki innanlands né utan, hvers rass hvílir enn í mjúkum stól á okkar kostnað í Svörtuloftum.

Ég ætla að skrifa um það sem ég mótmæli á Austurvelli í dag klukkan þrjú. Ég hef alltaf sagt að ég mæti á mótmælafundina á mínum eigin forsendum. Lít þannig á að með nærveru minni þar sé ég að mótmæla því ranglæti sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu undanfarin ár og olli efnahagshruninu og hvernig tekið hefur verið á því - eða bara alls ekki tekið á því. Mikill árangur hefur náðst en ennþá er óralagt í land og margt sem þarf að gera.

Að þessu sinni ætla ég til dæmis að krefjast þess, að tekið verði á málum auðmannanna sem rændu okkur. Þessara "þrjátíumenninga" sem settu heila þjóð á hausinn með fullkomlega siðlausum athöfnum og sérgæsku. Ég ætla að krefjast þess að lagt verði hald á eignir þeirra, þeir handteknir og yfirheyrðir með réttarstöðu grunaðra. Við vitum að rökstuddur grunur er fyrir því að þeir hafi allir haft rangt við og flutt stórar fjárhæðir úr landi og inn á einkareikninga í skattaparadísum úti í heimi. Í því sambandi minni ég á, að einn alræmdasti glæpamaður Bandaríkjanna, Al Capone, var loks dæmdur fyrir skattsvik en ekki morð, sprúttsölu eða aðra glæpi. Sáuð þið þetta?

Segið svo að þeir eigi ekki nægar eignir til að leggja hald á. Ég hlusta ekki á þá rökleysu að ekki megi hrófla við þeim af því það væri brot á mannréttindum þeirra. Brutu þeir ekki á mannréttindum okkar með því að ræna okkur aleigunni, stoltinu og ærunni? Af hverju ættu mannréttindi 30+ auðkýfinga að vega þyngra en mannréttindi, afkoma og framtíð heillar þjóðar - 300.000 manns? Yfirvöld eiga aldrei í neinum vandræðum með að haldleggja alls kyns góss sem þau grunar að sé þýfi eða stinga mönnum inn fyrir "rökstuddan grun" um fíkniefnasmygl eða -sölu, innbrot eða þjófnað á lifrarpylsu úr matvöruverslun. Hvers vegna má ekki snerta við þessum mönnum sem hafa stolið hundruðum ef ekki þúsundum milljarða? Hverjir vernda þá og af hverju? Það vil ég vita.

Ég flokka bankamennina með þessum hópi. Þeir bera gríðarlega ábyrgð á efnahagshruninu og eins og sést á myndbandinu hér að ofan lifðu þeir í vellystingum praktuglega - og gera væntanlega enn. Tortólaþýfið verður að endurheimta og nú hefur stærsti banki Sviss, UBS, ákveðið að aflétta bankaleynd og greiða Bandaríkjastjórn 780 milljónir dollara í bætur fyrir að hafa aðstoðað bandaríska skattgreiðendur við að svíkja undan skatti. Á móti fellur Bandaríkjastjórn frá ákæru fyrir aðstoð við skattsvik. Hlustið hér. Þetta er hægt - er einhver að vinna í þessu máli fyrir íslenskan almenning? Af hverju má ekki aflétta bankaleynd á Íslandi til að upplýsa stórfellda glæpi þegar meira að segja svissneskur banki ætlar að gera það?

Í myndbandinu hér að ofan er minnst á Enron-málið fræga í Bandaríkjunum. Ótrúleg svikamylla sem skaðaði fjölda manns. Þar voru menn handteknir, yfirheyrðir, dæmdir og fangelsaðir. Hvernig í ósköpunum stendur á því að slíkt er ekki gert hér? Heil þjóð sett á hausinn og enginn einu sinni yfirheyrður, hvað þá annað! Ég hlakka til að sjá myndina á RÚV 1. mars með íslenskum texta og hvet alla til að sitja um hana - en þangað til er hún hér í þremur hlutum - ótextuð. Takk, Unnsteinn, fyrir að benda mér á hana um daginn þótt það hafi kostað mig blóð, svita og tár að koma henni hingað inn.

Enron - The Smartest Guys in the Room
Fyrsti hluti

 

Annar hluti

 

Þriðji hluti

 

Annað mál sem ég vil leggja áherslu á og mæti á Austurvöll til að krefjast er kvótinn. Margir halda því fram að upphaf ógæfu Íslands hafi verið að einkavæða auðlindina í hafinu og heimila síðan að veðsetja kvótann og braska með hann á allan hátt. Nú er svo komið að kvótinn er veðsettur mörg ár fram í tímann. Bankarnir eiga hann því í raun og þjóðin á bankana. Ég vil endurheimta kvótann, gera hann aftur að þjóðareign, úthluta honum aftur og dreifa á sanngjarnan hátt um landið. Ég vil að óheimilt verði að framselja hann eða veðsetja. Þessi auðlind á að skapa atvinnu allt í kringum landið og vera í heimabyggð til frambúðar. Munið þið hvað Ingólfur sagði hér?

Ég ætla líka að krefjast þess að eitthvað mikið verði gert í verðtryggingunni. Þegar þjóðarsáttin var gerð í kringum 1990 var talað um að afnema hana þegar verðbólgan hefði lækkað og efnahagurinn kæmist í jafnvægi. Það var þó aldrei gert. Ég er af þeirri kynslóð sem er að lenda í klóm verðtryggingarinnar í annað sinn á ævinni. Neyddist til að selja ofan af mér fyrir um 18 árum vegna verðtryggingar og nú hækkar húsnæðislánið mitt með stjarnfræðilegum hraða - aftur. Ef verðtryggingin tengist beinlínis gjaldmiðlinum okkar vil ég skipta um gjaldmiðil sem fyrst. Hvaða máli skiptir hvað gjaldmiðillinn heitir ef við losnum við verðtrygginguna? Rifjum upp hvað Gunnar Tómasson sagði. Hann byrjar að tala um hana um mitt viðtal. Þar á eftir talar Gunnar um kvótann. Hlustið vel.

Ég mæti á fundinn á Austurvelli í dag á þessum forsendum - meðal annarra. Réttlætiskennd minni hefur verið misboðið árum saman en aldrei sem nú.  Eru fleiri sammála mér? Gerið þið sömu kröfur og ég - og svo margir aðrir? Mætið þá á Austurvöll klukkan þrjú í dag. Stöndum saman og gefumst ekki upp. Við erum að berjast fyrir framtíð okkar, barnanna okkar og barnabarnanna. Það gerir það enginn fyrir okkur. Sjáumst á Austurvelli, við megum ekki gefast upp!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég ætla að mæta á Austurvöll á morgun, oft var þörf nú er nauðsyn.  Ég ætla að mótmæla því að Davíð situr ennþá eins og kóngur í Svörtuloftum, og líka því að alþingismenn fari að vinna fyrir okkur sem borgum þeim launin.  Að alþingismenn fari að hegða sé eins og siðmenntað fólk, en ekki rumpulýður sem enga kurteisi kann.  Þetta fólk er á launum hjá okkur skattgreiðendum, ef ég gæti fengi næstum allt þetta fólk reisupassann frá mér. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.2.2009 kl. 01:33

2 identicon

Eins og talað frá mínu hjarta - það er samhljómur með þinni rödd & rödd Heilbrigðar skynsemi!  Auðvitað á okkur sem þjóð ekki að bregða að "siðblindan sé hér í hæðstu hæðum!" - þegar misvitrir stjórnmálamenn bjóða ÍTREKAÐ upp á þjóðina "svikamyllukerfi" eins og t.d.: "kvótakerfið", "einkavinnavæðingu ríkisfyrirtækja", "einkavinnavæðingu bankanna", "Decode svikamyllan" og þetta "rennur allt í gegn"!Stjórnvöld færa þannig ÞJÓÐAR auðinn í hendur á "réttum fjölskyldum í landinu" - helmingaregla Sjálfstæðisflokksins & Framsóknar" sér um sitt fólk.  Hvar er rödd verkalýðshreyfingarinnar búinn að vera allan þennan tíma?  Allir þessir gjörningar fara í gegn án þess að boðað væri t.d. til "allsherjar verkfalla í landinu".  Af hverju má ekki beita því vopni verkafólks gegn siðblindum ákvörðunum Alþingis?  Hvað þarf að gerast til að verkalýðshreyfingin vakni til lífs og láti rödd sýna heyrast??? Á almenning og fyrirtæki er skelt á "verðtrygging & 18% vexti", þetta er auðvitað ekki í lagi "þetta er bara villimennska & bilun á hæðsta stigi".  Þið ykkar sem hélduð að Jón Ásgeir væri með "geislaBAUG" hafið eitthvað misskilið hans viðskiptastarfsemi.  Nú er verið að líta á ca. 30 útrásar aðila ekki bara sem "óreiðumenn" - heldur einstaklinga sem "ljúga, svíkja & blekkja" alla sem eiga við þá viðskipti bæði "hérlendis & erlendis".  Mér finnst hins vegar mjög sorglegt hversu LÉLEGA viðskiptamenn við eigum!  Flestir af þessum "ungu forstjórum" hafa "rústað öllum þeim fyrirtækjum" sem þeir komu nálagt!  Það er auðvitað "afrek" sorglegt afrek og gefur bara innsýn í þá "bilun" (múgsefjun) sem er búinn að vera í gangi í samfélaginu.  Auðvitað fer illa fyrir þjóð þar sem 4 valdið (fjölmiðlar) virkar ekki af því að auðmenn fá ritstjóra til að "fegra myndina & dansa með útrásinni", svo hoppar Solla stirða & Óli grís á vagninn og gefur þessum aðilum "trúverðugleika".  Er nema vona að útlendingar segi nú um okkur sem þjóð: "Helvítis fokking fokk".

Því miður eru Framsókn, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin svo samtvinnaðir inn í  siðblinduna að ekkert verður hróflað við þessum 30 aðilum, sorglega augljóst!  Flokkarnir vita upp á sig skömmina, þeir "gáfu þessum útvöldu aðilum fyrirtækin & kvótann", þeir gáfu þeim "frelsi & trúverðugleika" og flokkarnir tóku í burt flest allar "reglur & lög" sem hefðu heft þessa spilafíkla!  Svo ætlar 30% af þjóðinni að kjósa "RÁNFUGLINN" aftur til valda...  Ég held að það sé gáfulegra að skrifa bara á kjörseðilinn: "Helvítis fokking fokk!"  Þjóðin, íslenski skuldaþrælinn á betra skilið en þær lausnir sem daprir stjórnmálamenn troða ítrekað upp á okkur.  Því miður hefur Gylfi Zöga hagfræðingur rétt þegar hann bendir á að þetta á bara eftir að "versna".  Það tekur nefnilega tíma að byggja upp TRAUST á erlendri grundu aftur, sérstaklega þegar þessir útrásar víkingar hafa farið þar um með "hroka & lygum".  Þeir skilja eftir sig algjörlega sviðna jörð alstaðar þar sem þeir stíga niður fæti.  Mig minnir að fábjáninn George Bush jr. hafi sagt eitthvað á þá leið: "þú getur blekkt mig einu sinni (then same on you) - en þegar ég læt óreiðumenn plata mig "aftur og aftur" þá (same on me).    Því miður höfum við verið "helsjúkt samfélag", og þið getið þakkað "BLÁSKJÁ" & "Halldór Ásgrímssyni" (guðfaðir kvótakerfisins) fyrir að hafa þeirra styrku hönd í uppbyggingu á þessari "spilaborg sem þeir byggðu" - þessi "sýndarveruleiki" er hrunin, afleiðingarnar eru svo sorglegar að maður getur næstum ekki hugsað um þetta lengur.  Við þessa siðblindu spilafíkla & fjárglæframenn hef ég aðeins eitt að segja:"þið skuluð segja við lögregluna að ykkur hafi orðið á TÆKNILEG misstök."

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 01:58

3 identicon

Lára Hanna,

Þú ert snilld.

Takk fyrir allt sem þú setur á vefinn þinn. Þú átt einn stærsta þáttinn í að halda okkur hinum upplýstum.

Ég er bara búinn að sjá fyrsta hlutann af Enron hneysklinu, sem minnir óneitanlega á okkar ógæfu.

Margt var eftirtektavert, m.a. nastistahugsun, lygar og græðgi. The survival of the fittest og hvernig starfsfólkið var valið eftir aðkomu J. Stilling. Óhugnarlegt á okkar tímum. Mörg nöfnin eru norræn og þýsk og eftirtektavert með gæjann frá Asíu kunni bara að tala um tölur og fáklæddar konur. Hvílíkt pakk!!!!

annag (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 02:23

4 identicon

Lára Hanna, mig langar fyrst að lýsa yfir einlægri aðdáun minni og virðingu á því óeigingjarna starfi sem þú unnið frá hruninu í Október (og í raun enn lengur). Ég tek svo hjartanlega undir með þér, því um mig gildir líka að "réttlætiskennd minni hefur verið misboðið árum saman en aldrei sem nú". En ég (því miður) bý erlendis og get þ.a.l. ekki mætt á laugardagsfundina en er svo sannarlega með ykkur í anda, fyrst og fremst út af ofangreindum forsendum.

Mér finnst svo merkilegt að ég er "heitari" í þessum málum en flestir mínir ættingjar og vinir sem BÚA á Íslandi og eru ALLIR með tölu að verða fyrir einhverjum (og oft miklum) áföllum, hvort sem er peningalegum eða andlegum (oftast þó báðu). Ég hef átt mjög erfitt með að skilja doðann sem ríkir, fyrst skrifaði ég þetta á hreint og beint "sjokk", fólk væri bara ekki búið að átta sig á breyttum aðstæðum. En andsk.... hafi það, það getur varla átt við lengur!!! Eina skýringin sem kann nú er að um einhverja innbyggða spéhræðslu okkar Íslendinga sé að ræða. Við viljum öll falla inn í hópinn, ekki standa út úr. Getur verið að þjóðin líti svo á að með því að mæta á Austurvöll þá sé hún að viðurkenna að eitthvað ekki í lagi "heima hjá þeim". Slíkt gerum við ekki, er það? Eða enn verra, að einhver gæti haldið að við vinstri sinnuð, það má náttúrulega alls ekki gerast! Alveg sama þó þjóðin okkar sé farin á hausinn, við verðum að halda “koolinu” út á við!

En samt sáu þúsundir Íslendinga þörf hjá sér að rífa þennan þagnarmúr og mæta niður á Austurvöll. Tölum bar ekki saman, á bilinu 5-10 þúsund heyrðust þegar mest var. Og af því vér Íslendingar höfum gaman af því að bera okkur höfðatölulega saman við aðrar þjóðir, þá er best að vinda sér aðeins í það þjóðkunna sport ;-) Ef berum okkur t.d. saman við Breta þá lítur samanburðurinn svona út í töfluformi (fólksfjöldatölur skv. netinu - áætlanir 2007):

Iceland UK

Fólksfjöldi alls 309,605 60,975,000

Mótmælendur MIN 5,000 984,722

Hlutfall á landsvísu 1.6%

Mótmælendur MAX 10,000 1,969,445

Hlutfall á landsvísu 3.2%

M.ö.o. miðað við að 5-10 þúsund Íslendingar hafi mætt niður á Austurvöll, þá myndi það þýða að á bilinu 1-2 milljónir Breta myndu mæta fyrir framan Westminster (þ.e. 5 þúsund Íslendingar eru 1.6% þjóðarinnar sem væri sama sem 985 þúsund Bretar, o.s.frv.)

Ef maður „googlar“ „biggest demonstration uk“ þá fær maður eftirfarandi (http://news.bbc.co.uk/1/hi/uk/2765041.stm)

Sunday, 16 February, 2003, 04:10 GMT

'Million' march against Iraq war

Some marchers took hours to reach Hyde Park

Hundreds of thousands of people have taken to the streets of

London to voice their opposition to military action against

Iraq.

Police said it was the UK's biggest ever demonstration with at

least 750,000 taking part, although organisers put the figure

closer to two million.

Svo „þið eruð ekki þjóðin“ náði (m.v. höfðatölu) að slá út erkifjendur okkar Breta í mótmælum. Eins og við vissum, Ísland er stórasta land í heimi, líka í mótmælum. Eða hvað!!!!

Því miður hrædd um að ástandið eigi eftir að versna það mikið á komandi vikum/mánuðum að mun stærra hlutfall þjóðarinnar eigi eftir að finna sig knúna til að brjóta odd af oflæti sínu og "mótmæla". Ég vil reyndar ekki kalla þetta endilega mótmæli, þetta er aðhald, þetta er áminning, þetta er að halda réttum aðilum á tánnum. Og það virkar, ekki spurning.

Svo mínar bestu baráttukveðjur.

ASE (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 02:35

5 Smámynd: Samstaða - bandalag grasrótarhópa

Við mætum og mótmælum landráðum í skjóli flokksræðis. Svo mótmælum við því líka að siðlausir þrasarar á Alþingi geti sett fótinn fyrir lýðræðið í landinu með fullar hendur fjár. Búsáhaldabyltinguna í gang!

Samstaða - bandalag grasrótarhópa, 21.2.2009 kl. 02:47

6 identicon

Fjölmennum a Austurvöll.

Endurvekjum busahaldabyltinguna.

Kolla (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 03:47

7 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir þetta Lára Hanna, snilldarfærsla að venju.  Ég kemst því miður ekki í dag, verð að vinna til kl. 16:00 fyrir mínum þrælalaunum.

Sigrún Jónsdóttir, 21.2.2009 kl. 06:29

8 identicon

Verð þarna í anda og í eigin persónu ef ég ætti þess kost. (Er annars e-r endurvörpun frá fundinum e-s staðar?).

Marlene Dietrich sagði Þjóðverja seinþreytta til vandræða. Þeir VILDU láta einhvern leiða sig, skipa fyrir og stjórna. Á endanum fengu þeir sinn Foringja, en hún tók strax afstöðu gegn og lagði sitt lóð á vogarskálar og baráttunni lið (gegn fósturjörð sinni) í verki. Margir landsmanna hennar fyrirgáfu henni það aldrei, þrátt fyrir allt!

Margt er líkt með skyldum germönskum þjóðum. Vona að Íslendingar séu ekki þessari sömu þrælslund gæddir, en stundum hefur maður efast.

Mætið á Völlinn, þið sem eigið þess kost. Siðan verður mikilvægi þess sem í kassana fer aldrei meir en þess sem upp úr þeim kemur. Þú tyggur ekki eftirá!

Oft var þörf en nú er nauðsyn. Nýtið kosningaréttin. Vandið valið, því sporin hræða!

Góðar stundir.

SH

Sigurður Hauksson (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 07:06

9 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Frægir bankastjórar og jafnvel Nóbelsverðlaunahafar segjast ekki hafa haft hugmynd um að allt hefði verið á niðurleið. Þeir segja að vissulega hafi allt gengið á afturfótunum vestan hafs og ýmislegt hafi verið aðfinnsluvert. En að slík holskefla af vandamálum, gengishruni, skuldakröfum og síðan fjárhagslegu hruni hafi verið óhugsandi. Ég segi það og segi enn á ný fyrir þá sem ekki náðu því í fyrra skiptið skúringarkonan sem þrífur flottar skrifstofurnar í ráðuneytunum og í fjármálastofnununum fyrir skammarleg laun, hún vissi að þetta hlyti að fara illa. Í raun ekki bara hún, heldur ALLIR sem ekki áttu neina peninga í líkingu við fyrrum Kaupþings bankastjóra, Bónusfólkið og Landsbankafólkið - allir vissu að þetta veldi allt ætti ekki við nein rök að styðjast. Að spilaborgin myndi falla og fallið yrði hátt.

ALLIR VISSU ÞETTA. Það þýðir ekki að koma núna fram með öll fínu MBA eða hvað þessi prófskírteini heita og segja að þeir/þær vissu ekki. Slíkt er LYGI og ÞVÆTTINGUR. Ekkert sem Jón og Gunna - fulltrúar almennings í landinu ekki vissu jafnvel fyrir 2-3 árum síðan. 

Fólkið í landinu sem notar alvöru peninga og þekkir verðmæti þeirra skyldi þegar fyrir 2-3 árum að þetta stæðist ekki til lengdar. Að einn dag yrði veislunni að ljúka og veisluföngin þrytu. 

Ég tel rétt að ríkisvaldið geri það sem það getur til að komast yfir eigur "auðmanna" því það eru þeir ennþá með húseignir í Lundúnum, New York, listisnekkjur og þotur - og að allt þetta verði selt til að geta veitt lágmarks þjónustu í sjúkrahúsum landsmanna, bæta kjör eldri borgara og rétta af lífeyrissjóðina.

Baldur Gautur Baldursson, 21.2.2009 kl. 10:14

10 Smámynd: Einar Indriðason

Amen Lára Hanna!

Einar Indriðason, 21.2.2009 kl. 10:14

11 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Í mínum huga er ekkert að breytast. Ef það á að gerast, þá þurfum við að „aðstoða“ spillingarliðið útum snúningsdyrnar.

Það er nú bara einu sinni þannig að siðblinda ER ólæknandi...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 21.2.2009 kl. 10:24

12 Smámynd: Elinóra Inga Sigurðardóttir

Nýir tímar kalla á nýjar aðferðir.

Elinóra Inga Sigurðardóttir, 21.2.2009 kl. 10:53

13 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Auðvitað mæti ég í dag. Baráttan er rétt að byrja.

Úrsúla Jünemann, 21.2.2009 kl. 10:56

14 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Ég mæti eins og vanalega....ég læt ekki aðra berjast fyrir mig, ég tek svo sannarlega þátt í búsáhaldabyltingunni.

Baráttukveðjur.....

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 21.2.2009 kl. 11:19

15 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

stefni á Austurvöll

Hólmdís Hjartardóttir, 21.2.2009 kl. 11:23

16 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Já, já, já, og já.

Rut Sumarliðadóttir, 21.2.2009 kl. 12:26

17 Smámynd: Anna

Tek undir.... eiga audmenn ekkert ad borga......frista eigur....... 

Anna , 21.2.2009 kl. 13:04

18 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Mótmælum því að lögggjafinn hefur ekki burði til að stöðva ránið? Auðmenn eru enn að ræna almenning? Bílalánin eru í eigu fyrirtækja sem auðmenn eiga. Þeir hirða bílana á slikk, selja þá með afföllum. Fyrsti lántakandi missir bílinn vegna okurvaxta, en heldur áfram að greiða upp í topp með að sjálfsögðu. Ætlar enginn að rannsaka þetta mál? Fjölmiðlar í eigu sömu auðmanna þegja.

Margrét Sigurðardóttir, 21.2.2009 kl. 13:16

19 identicon

Lýsi yfir stuðningi við málflutning þinn. Hugmyndabaráttan er miklu mikilvægari en hin þrönga "stjórnmála" barátta. Heiminum er stjórnað af hugmyndum. Því fleiri baráttumenn sem fara á þing, því minni kraftur í hugmyndabaráttu og því minni kraftur í lýðræðinu.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 13:45

20 identicon

Sæl Lára.

Mig langar til að hvetja þig til að gefa kost á þér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Þ.e.a.s. ef þér hugnast sá flokkur á annað borð . . . Í öllu falli, Láru Hönnu á þing. Þú ert frábær!

Hrafnkell (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 14:06

21 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Eitt af því sem þú vekur athygli á Lára Hanna er hin undirliggjandi mannlega heimska og græðgi valdhafa og auðmanna sem ber uppi atburðarrás hruns og niðurlægingu (ekki síst þeirra sjálfra)

Þakka þér fyrir frábæran pistil

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 21.2.2009 kl. 14:30

22 identicon

Myndi mæta ef ég byggi ekki í útlöndum, verð með ykkur í anda!!

Það sem mér finnst svo sláandi varðandi Enron er að allir voru farnir að taka þátt í þessu með þeim.  Hvernig er þetta hérna heima? Hver er búinn að vera að borga hverjum?  Það sem er líka svo kaldhæðið er að slagorð Enron er ASK WHY, en það spurði enginn um neitt og þeir sem reyndu voru bara heimskir og vitlausir og skildu ekki neitt.

Lára Hanna, hvenær ætla RÚV að ráða þig til sín?  Getur þú ekki sett upp nýjan Kompásþátt? :D

Takk fyrir allt!

Unnsteinn Jóhannsson (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 15:22

23 Smámynd: Finnur Bárðarson

"Að þessu sinni ætla ég til dæmis að krefjast þess, að tekið verði á málum auðmannanna sem rændu okkur. Þessara "þrjátíumenninga" sem settu heila þjóð á hausinn með fullkomlega siðlausum athöfnum og sérgæsku" Þetta er einmitt það sem ég vildi en þetta eru skilaboð frá Hjálmari Sveinssyni talsmanni Radda Fólksins fólksins (Í bréfi til Egils Helgasonar):

"EH hefur lengi verið með “ólígarkana og kleptókratana sem settu landið á hausinn” á heilanum og viljað stjórna framgöngu mótmæla á þann veg að fyrst yrði ráðist á auðmenn og bankamenn og síðan landsfeður. Í pólitískum barnaskap telur EH að það sé vísasta leiðin til árangurs að fara á svig við landslög. Hann verður að eiga það við sjálfan sig".

Ég treysti mér ekki til að fara í dag

Finnur Bárðarson, 21.2.2009 kl. 16:20

24 identicon

Skrítið að það sé ekki búið að drepa þessi kvikindi. En það er svosum nógur tími til þess að gera það, fyrir þá sem mist hafa allt vegna þeirra.

Alex (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 16:39

25 identicon

Heil og sæl Lára Hanna,

Ég er Íslendingur í útlöndum og rakst inn á vefsíðu þína í sumar og hef verið límd við hana síðan.

Horft, hlustað og lesið hvert orð og hef aldrei rekist á neitt í skrifum þínum sem ég hef ekki verið sammála þér um.

Ég veit að það liggur ómæld vinna að baki bloggi þínu og ljóst er að þú leggur hana ekki á þig þér til framdráttar heldur vegna einlægrar ástar þinnar á landi og þjóð.

Meðan enn finnst fólk eins og þú á Íslandi  þá er von.

Hugur minn er hjá ykkur á Austurvelli.

Bylting er ekki bóla.

Þú ert frábær og átt mikinn heiður skilinn.

kærar kveðjur og þakkir fyrir að halda í mér sönsum í fjarlægðinni,

íslenskur aðdáandi í vestri,

ingad.

ingad (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 16:50

26 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Tek undir hvert orð Lára Hanna og þakka þér enn og aftur fyrir þitt magnaða starf og upplýsingu....og

ég spyr mig hvers vegna eru íslendingar ekki betur vaknaðir og þyrpast út á götur til að mótmæla illum örlögum sínum? Hvar eruð þið fólk sem hafið verið rænd og eignum ykkar ruplað af siðspilltum auðmönnum og valdamönnum?

Hvar er barátta ykkar fyrir réttlæti og framtíð barna ykkar?

Er of kalt, lummó, vinstrislagsíðustimilsímynd að hræða ykkur eða hvað fólk haldi eiginlega ef þið sjáist standa upp fyrir rétti ykkar...eða hvað??? Hvað???

Ég skil þetta ekki.  Stóð þarna í tuttugasta og eitthvað skipti í dag og hugsaði hvort þessi þjóð viti hvað kom fyrir hana og hvers vegna það væri ekki troðfullur miðbærinn af vöskum vakandi íslendingum a' setja strangt og kröftugt aðhald á ráðamenn okkar og standa fastir á kröfunni um réttlæti og sanngirni.

Ef þú gerir það ekki kæri íslendingur..hver á þá að gera það???

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 21.2.2009 kl. 18:38

27 Smámynd: TARA

Aldeilis frábær grein hjá þér Lára Hanna...það þarf enginn að efast um að þú gerir þetta af heilum hug og sýnir umhyggju fyrir samlöndum þínum og þjóð.

 Thank You 





TARA, 21.2.2009 kl. 20:51

28 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Takk fyrir góðan pistil og fyrir að standa vaktina svona vel Lára Hanna, ekki eru allir týndir og tröllum gefnir sem betur fer og mörgum orðið bumbult af óréttlætinu og spillingunni, enda á enginn að sætta sig við arðrán og svikamyllur.

Georg P Sveinbjörnsson, 22.2.2009 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband