10.3.2009
Umhyggjusami auðmaðurinn
Ég þekki engan sem horfir á Ísland í dag lengur - ekki eftir að þátturinn var Séðogheyrtvæddur og allt kjöt skafið af beinunum. Fólk hefur gefist upp á eilífu, gufukenndu léttmetinu en ég þrjóskast við og athuga alltaf hvað er í boði í þessum áður oft ágæta þætti.
Undanfarið hafa tveir aðilar verið í miklu uppáhaldi hjá Íslandi í dag. Frjálshyggjukonan unga með frasafyllta hríðskotakjaftinn, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, og auðmaðurinn ásjálegi, Róbert Wessman. Ég er ekki nógu vel að mér í Séðogheyrt-fræðum til að vita hvort einhver tengsl eru milli þeirra og 365 miðla, stjórnenda þáttarins eða þeirra yfirmanna. Kannski getur einhver upplýst mig um það, mér til fróðleiksauka.
Í gærkvöldi var viðtal við "umhyggjusama auðmanninn" sem ruddi út úr sér lausnum fyrir þjáða þjóð og var með ráð á færibandi. Hann talaði af mikilli samúð um "vanda heimilanna" en mest þó um vænlega kosti í uppbyggingu efnahagslífsins - að hans mati. En rifjum fyrst upp nokkur atriði.
Auðmaður þessi var fyrsta umfjöllunarefni í Nærmynd Íslands í dag þann 6. janúar sl. Næsta nærmynd var svo um Ólaf Ólafsson hjá Kjalari, Kaupþingi og fleiri fyrirtækjum. (Þennan sem skildi okkur eftir með hundruða milljarða skuld við hrunið, munið þið?)
Svo einkennilega vildi til að einmitt um þessar mundir hugðist þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, loka St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og einkavinavæða skurðstofurnar í Keflavík... Og hver ætlaði að taka við kyndlinum annar en auðmaðurinn úr Nærmyndinni! Maður varð svo aldeilis hissa! Það hvarflaði ekki að mér eitt augnablik að Nærmyndinni hafi verið ætlað að milda og mýkja almenningsálitið á auðmanninum og hryðjuverkum heilbrigðisráðherra. Seiseinei!
Nú líður og bíður og lítið heyrist um auðmanninn annað en deilur við nágranna þangað til þessi frétt kom þar sem fram kemur að téður auðmaður - eða fyrirtæki í hans eigu - hafi fengið verk við Háskólann í Reykjavík sem boðið var í þrátt fyrir að standast ekki kröfur. Úff, spillingin ennþá grasserandi? Sussu nei, auðmaðurinn hafði gefið skólanum milljarð og auðvitað fær hann eitthvað fyrir sinn snúð. Varla gefur fólk peninga af hugsjón einni saman, eða hvað? Fyrirtækið Fasteign ehf. bauð út verkið og tók tilboði auðmannsins. Ég fletti fyrirtækinu upp þegar þessi frétt kom 23. febrúar og fann það - en nú virðist það horfið af yfirborði jarðar og þegar maður gúglar það kemur ýmislegt undarlegt upp úr kafinu. Prófið sjálf. Ætli það séu einhverjir rannsóknarblaðamenn eftir í stéttinni?
Í gærkvöldi var svo einkaviðtal Sindra Sindra við auðmanninn og lausnirnar á öllum vanda Íslendinga voru fundnar. Ekki seinna vænna. Sindri réð sér ekki fyrir hrifningu og ætlar að fá auðmanninn aftur til sín svo hann geti klárað að redda málunum. Ég er svo auðtrúa að mér dettur ekki í hug að eitthvað sé í uppsiglingu. Og ég trúi því líka alveg eins og nýju neti að fyrsta hugsun allra auðmanna þegar þeir vakna á morgnana sé: "Hvað er hægt að gera fyrir heimilin í landinu?" Auk þess hvarflar ekki að mér að auðmenn séu að dæla peningum í prófkjörskandídata á þessum gagnsæju og alltuppáborðinu tímum. Neinei.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Tek undir þessar hugleiðingar Lára Hanna.
Að manni læðist léttur hrollur, um leið og "grunaðir" bjóða fram lausnir og sýna vott af mannlegum kærleik.
Eftir að hafa hlustað á Evu Joly,er einnig staðreynd að:
"Veljum íslenskt" rannsókn verður hvorki fugl né fiskur, því nær sem rannsóknin færist valdinu, því fjandsamlegri verður mótstaðan frá því.
Hættum heimóttarskap og viðurkennum vanmátt okkar gagnvart þessum alþjóðlegu glæpamönnum, og ráðum alþjóðlegan glæpasaksóknara með teymi sem kann að yfirheyra þessi hrök.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 10.3.2009 kl. 05:35
Það eru ár og dagur síðan ég hef nennt að horfa á Ísland í dag. Horfði reyndar um daginn þegar sagt var frá hjónum með fiski búðina í Kópavogi en ekki síðan.
Víðir Benediktsson, 10.3.2009 kl. 06:47
Það sorglegasta af öllu sorglegu er, að „auðmaðurinn ásjálegi“ og hans líkar TRÚA því, sem þeir segja. Það sama á við íslenska pólitíkusa flesta...
Ásgeir Kristinn Lárusson, 10.3.2009 kl. 07:48
Takk kærlega fyrir þetta, horfi að vísu aldrei á stöð2 hvað þá þetta blaður, en ég hefði ekki viljað missa af þessari færslu og þeim hrikalega sannleika sem þú segir okkur hér. Enn og aftur kemurðu með sannleikann eins hráan og ískaldan og þarf til að hrista upp í fólki. Þú ert að vinna ómetanlegt straf við að upplýsa okkur um tvískinnunginn og hræsnina sem tröllríður öllu í dag. Takk kærlega fyrir mig.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.3.2009 kl. 08:14
Bara sorglegt og hrikalegt að Stöð tvö leyfi sér svona móðgandi þáttagerð. Halda þeir að almenningur sé fíbbbbbbl???
Takk fyrir góðar samantektir Lára Hanna..ekki veitir af því að hafa fólk í framvarðalínunni sem hugsar skýrt og lætur ekki glepjast!!!! Stundum missi ég móðinn þegar ég sé hvað sumir íslendingar eru að hugsa um að kjósa yfir okkur ...aftur!!!
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 10.3.2009 kl. 08:31
Hvað eru Vinstri grænir og Samfylking að pæla? Af hverju vilja þeir ekki að þingmönnum sé gert skylt að upplýsa kjósendur um hagsmunatengsl sin og eignastöðu? Af hverju geta ekki einu sinni þeir tekið undir kröfuna um "allt upp á borð" ???
http://www.visir.is/article/20090309/FRETTIR01/295704661
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 08:33
Þakka þér fyrir, Lára Hanna. Ég er eins og fleiri er hætt að horfa á þennan þátt. Hversu lágt geta fréttamenn eiginlega lagst? Auglýsing fyrir auðmann -eða ákall auðmanns að fá að nota "mannauðinn": Lækna og hjúkrunarfólk! Það þarf nú að fara að ræða kjarna málsins. Og þýlyndi fjölmiðla. Var ekki annars fundur um það í gær í Háskólanum í Reykjavík?
María Kristjánsdóttir, 10.3.2009 kl. 08:35
Spot on, er komin með svo víðtæka klígju á fyrirbærinu "Íslandi í dag" að ég er lögnu hætt að horfa.
Reyndar kíki ég á helstið í fréttunum og læt það duga þeim megin.
Metnaðarlaust og yfirborðskennt allt saman.
Já nú er að bíða og sjá hvað kemur í kjölfarið á "nærmyndinni".
Jenný Anna Baldursdóttir, 10.3.2009 kl. 08:38
Hvernig dettur nokkrum í hug að svokallaðir auðmenn, ásjálegir eða ekki, séu að dæla peningum í frambjóðendur! Hvaða frambjóðendur ættu það svo sem að vera?
sexylady (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 08:49
Flott hjá þér Lára Hanna - eins og svo oft áður.
Veitir ekki af að setja samhengi á hlutina þannig að við verðum ekki alltof samdauna , , , nógu margir samt
Takk
Bensi
Benedikt Sigurðarson, 10.3.2009 kl. 08:55
Ísland í dag er orðin vandræðanlegur þáttur. Ég er ekki að fatta þessa stefnu hjá stöð2. Það er einhver veruleikafirring í gangi þarna hjá þeim. Halda þeir virkilega að við séum svo þunn eftir fyllerí síðustu ára að það sé hægt að bjóða okkur uppá þvílíka steypu. Nei hann Sindri er ekki trúverðugur og þessi þáttur er bara orðinn sama grínið og viðtalið hans Sölva við Jón Hannes Smárason áhættufjárfesti (Þorleifur Arnarsson)
Þórður Möller (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 09:04
Leiðindaþáttur orðin þessi Ísland í dag og þá sérstaklega þessi nærmynd af auðmönnum. Ömurlegt. Þessum þætti hefur farið verulega aftur. Nenni ekki lengur að horfa á þessa hörmung.
Arinbjörn Kúld, 10.3.2009 kl. 10:14
Hvernig dettur nokkrum í hug að svokallaðir auðmenn, ásjálegir eða ekki, séu að dæla peningum í frambjóðendur! Hvaða frambjóðendur ættu það svo sem að vera?
Dæmigerð spurning sofandi manns eða þess sem vill ekki sjá sannleikann. Af hverju ætli stórútgerðarmenn hafi dælt peningum í framboð einstakra manna eða flokka mörg undanfarin ár. Það skyldi þó ekki vera til þess að hafa áhrif, sem þeir vissulega hafa fengið eins og sjá má á kvótakerfinu til dæmis. Og verndun og friðun L.Í.Ú í stjórnkerfinu.
Það gæti verið dálítið erfiðara að velja núna hverjum er gott að halda góðum, því það liggur ekki alveg ljóst fyrir hverjir munu ráða eftir kosningar. En þetta hefur verið auðvelt val undanfarin mörg ár, þegar til dæmis sjálfstæðismenn hafa getað gengið að því vísu að vera við völdin.
En svona gerast kaupin á eyrinni, og það er alveg eins gott að fólk átti sig á því, viðurkenni það og jafnvel reyni að berjast gegn slíkri spillingu.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.3.2009 kl. 10:18
Sæl, innilega sammála þér. Nema um eitt; Séð og Heyrt dró ekki taum auðmanna en sýndi þá sannarlega og afhjúpaði kannski í leiðinni menntalítetið þeirra. Oftar en einu sinni reyndu þeir að hafa áhrif á blaðið, sem þeir áttu reyndar ekki, en eiga nú.
Kristján (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 10:32
Ég er löngu hætt að horfa á Ísland í dag. Mér finnst þátturinn tilgerðarlegur og leiðinlegur.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.3.2009 kl. 12:14
Sammála, nenni ekki að horfa á þáttinn.
Rut Sumarliðadóttir, 10.3.2009 kl. 12:19
Takk fyrir að vekja athygli á þessu viðtali, því eins og fleiri hætt að nenna að fylgjast með Íslandi í dag. Er samt aðeins með "mixed feelings" yfir þessu öllu saman. Maður náttúrulega svo reiður, sár og leiður yfir þessu ástandi öllu saman og sér rautt þegar maður sér og heyrir í útrásarvíkingunum svokölluðu. Ekki síst fer í mann að þessir menn virðast ekki skilja ástandið og hvað þá sinn þátt í að skapa það. Að hlusta á þessa menn væla og kvarta yfir að vera fórnarlömb getur alveg sent mann upp á háa C-ið. Hvernig er hægt að fyrirgefa ef enginn biður afsökunar, ef enginn sér að sér, ef ástandið er óbreytt? Þess vegna verður að gera upp málin, svo þjóðin fái "closure" og geti "moved on". En að sama skapi þá þurfum við á viðskiptafólki að halda, fólki sem vill og getur rekið fyrirtæki því án öflugra og vel rekinna fyrirtækja verður engin framtíð í landinu. Hins vegar hafa margir aðilar í viðskiptalífinu gert svo illa í brók að maður vill ekki sjá þá í viðskiptalífinu framar, sama hvað þeir hafa fram að færa, hvort sem peninga eða vilja. Við bara höfum ekkert við menn eins og Finn, Ólaf, Björgólf, Jón Ásgeir, etc að gera aftur. En hvar drögum við mörkin, eru allir sem hafa átt og rekið fyrirtæki á Íslandi óhæfir? Eru allir viðskiptafræðingar skúrkar? Því ef svo er þá erum við í enn verri málum en héldum. En vandamálið er traust, hvernig byggjum við aftur upp traust á viðskiptalífinu? Eina leiðin að mínu mati er með gegnsæji, allt upp á borðið? En gleymum aldrei að heilbrigt viðskiptalíf er nauðsynlegt til að geta byggt aftur upp Ísland. Við verðum að leggja góðan grunn þannig að getum aftur byggt upp traust á viðskiptalífinu og á fólkinu sem þar starfar. Og það traust verður fólkið í viðskiptalífinu að vinna sér inn. Því traust og virðing er ekki eitthvað sem maður kaupir úti í búð, heldur eitthvað sem maður vinnur sér inn með gerðum sínum.Margt af því sem Róbert sagði í þessu viðtali var ágætt, svona ef maður hlustar á innihaldið án þess að pæla í hver segir það. Held flestir séu sammála um að Róbert sé ekki í innsta hring útrásarvíkingana en ekki spurning að var á hliðarlínunni og sennilega dauðlangaði honum inn á völlinn og spila með stóru strákunum. Getur hann notið trausts til að byggja upp viðskipti á Íslandi í framtíðinni? Veit það ekki, og kannski ósennilegt. En við bráðnauðsynlega þurfum fólk sem vill og getur stofnað og rekið fyrirtæki, komið með hugmyndir, hrint þeim í framkvæmd. Kannski væri gott ef einhverjir aðilar með reynslu úr viðskiptalífinu myndu í alvöru iðrast og breytast og vera tilbúnir að leggja þjóðinni lið með því að byggja upp nýtt og heilbrigt viðskiptalíf. En til að það geti orðið þá verða þeir hinu sömu að sanna sig fyrir þjóðinni fyrst. Mun Róbert geta það? Eða er hann að reyna að sælast í eitthvað bakvið tjöldin? Það hræðist þjóðin eðlilega m.v. það sem á undan er gengið og hver getur láð henni.
Bara svona smá hugleiðing sem datt í hug í kjölfar þess að horfa á viðtalið. Gildir náttúrulega ekki bara um Róbert, gildir um allt það fólk í viðskiptalífinu sem með viðskiptareynslu og gæti lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að vilja byggja upp nýtt og HEILBRIGT viðskiptalíf (en ekki dauðvona sjúkling eins og íslenska viðskiptalífið var orðið).
ASE (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 12:51
"Ólaf Ólafsson hjá Kjalari".
Ertu að meina Kjöl? Kjölur um kjöl frá kili til kjalar.Benni (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 14:27
Kristján... ég held alls ekki fram að Séð og heyrt hafi dregið taum auðmanna. Frekar bara fjallað um þá og mér er minnisstæður viðtalsbúturinn úr norska Brennpunkt þættinum við Bjarna - sjá hér: Fyrri hluti, seinni hluti.
Benni... Fyrirtækið heitir Kjalar, ekki Kjölur. Beygist svona: kjalar - kjalar - kjalari - kjalars.
Lára Hanna Einarsdóttir, 10.3.2009 kl. 15:04
Er löngu hægt að horfa á Ísland í dag, en hlusta þó alltaf eftir því hvað mun verða í þættinum. Sé mikð eftir gagnrýnni þjóðfélagsumræðu þar á bæ. Umsjónarmenn Kastljóss eru duglegir að fylgja málum eftir, sem að tengjast bankahruninu. Forvitnilegt hvernig það verður með Ísland í dag, þegar að Svanhildur Hólm kemur úr námsleyfinu, nema að þeir séu búnir að losa sig við hana líka?
En Eva Jolie er komin til starfa til rannsóknar á bankahruni .......... til hamingju Ísland. (bara svona útúrdúr.)
Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 17:16
.
Frábært hugtak: Séðogheyrtvæðing.
Ef maður rennir huganum aftur í tímann, svona nokkur ár, þá kemst maður að þeirri niðurstöðu að þetta er ekkert nýtt sem Stöð2 gerir með þessum þætti.
Þetta hefur verið svona í langan tíma á Stöð2, Kastljósinu, fréttatímum beggja sjónvarpsstöðvanna, dagblöðunum og blogginu.
Pælið bara í því. Stöð2 er bara með græningja í vinnu sem átta sig ekki á því að þetta er búið.
101 (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 17:48
Þakka ASE #18 fyrir fína og einlæga hugleiðingu og mér segir svo hugur að velmeinandi og þenkjandi Íslendingar eru sama sinnis.
Það hefur orðið stökkbreyting hugarfars á Íslandi sem er algjörlega nýr jarðvegur fyrir bætt og heilbrigðara viðskiptalíf. Það er líklega það eina jákvæða sem þessar hörmungar skilja eftir sig.
Hef ekki áhyggjur af skorti á hæfu og vel menntuðu fólki til að taka upp vöndinn.
Er bjartsýn fyrir hönd Íslands, með öllu þessu frábæra fólki sem staðið hefur upp úr sófunum og mótmælt spillingu og aðgerðarleysi. Þurfum samt sífellt að halda vöku okkar og tryggja að gegnsæi og dreift vald (ekki valdaþráseta) sé við lýði á eyjunni okkar bláu.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 10.3.2009 kl. 18:28
Ég biðst velvirðingar. Áttaði mig ekki á að Kjalar er víst fullgilt íslenskt nafn. Það leiðréttist hér með.
Benni (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 19:04
Man einhver annar en ég eftir grein í Fréttablaðinu -og meðfylgjandi skoðanakönnun- "Hvaða auðmann elskum við mest ?" (Ca. -eða svooo- 2007).
Þótti þetta frekar ógeðfellt tímanna tákn þá og bloggaði um löngu fyrir hrun. Enda var ekki vottur af kímnigáfu eða kaldhæðni í téðri grein. Er löt að linka, en færslan mun þó vera til.
--------------------------------------------------------
Svo klikkar þú auðvitað ekki á málfræðinni Lára Hanna. Hélt einhver það ?
Með Kjalarkveðjum,
HHS
Hildur Helga Sigurðardóttir, 13.3.2009 kl. 02:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.