Áfram Austurvöllur!

Hjálmar SveinssonÉg hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar minnst á Hjálmar Sveinsson og þáttinn hans, Krossgötur, sem mér finnst með þeim albestu í útvarpi nú um stundir. Í Krossgötum fjallar Hjámar um alls konar samfélagsmál og gerir þeim ítarleg skil. Fyrr í vetur fékk Hjámar viðurkenningu frá Skipulagsfræðingafélagi Íslands fyrir sérlega vandaða umfjöllun um skipulagsmál í Krossgötuþáttum sínum og var hann svo sannarlega vel að henni kominn.

En Hjálmari er fleira til lista lagt en að gera frábæra útvarpsþætti. Á síðasta mótmælafundi á Austurvelli hélt hann ræðu ásamt Aðalheiði Ámundadóttur. Það mígrigndi, völlurinn var eitt forarsvað og fáir mættu - en ræður þeirra Aðalheiðar og Hjálmars voru fantagóðar og afleitt að fólk missi af þeim. Aðalheiður birtir sína ræðu á blogginu sínu hér, en ég fékk leyfi til að birta ræðu Hjálmars.

Áfram Austurvöllur!

Í dag eru fjölmiðlar landsins uppfullir af myndum af fólki sem er að biðja okkur að styðja sig í prófkjörum helgarinnar. Helst í eitt af efstu sætunum. Nú er stóra prófkjörshelgin. Frambjóðendur segja að verkefnið sé risavaxið, þeir tala um endurreisn og jafnvel endurnýjun. Sumir þeirra eru meira að segja komnir í lopapeysu. Og það eru víst allir boðnir í kaffi í dag. Í dag vilja frambjóðendur alveg endilega ræða við okkur

Það er gott að fólk vilji bjóða sig fram - að það skuli vilja starfa í Gallup - Traust til stofnanapólitískum flokkum og berjast fyrir pólitískum hugsjónum um gott og réttlátt samfélag. Við skulum ganga út frá því að það sé ástæðan fyrir framboði. Stjórnmál skipta máli, hlutverk þeirra í samfélaginu er mikilvægt. Hin leiðin, þar sem stjórnmál áttu ekki að hafa neitt annað hlutverk en að búa í haginn fyrir fjárfesta, hefur lent í miklu ógöngum. Og þar er kannski að finna ástæðuna fyrir því að samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup ber aðeins 13% þjóðarinnar mikið traust til Alþingis. Aðeins 13%, það er ótrúlega dapurlegt. 80% bera mikið traust til Háskóla Íslands og 79 % til lögreglunnar. En þetta litla traust getur ekki verið neinum öðrum að kenna en þingmönnum sjálfum.

Þess vegna vekur það athygli að 80% sitjandi þingmanna sækjast eftir endurkjöri: Þeir vilja vera áfram á þingi. Það er nokkuð há tala miðað við hið litla traust sem þingið nýtur. Reynslan sýnir að sitjandi þingmenn eiga mun meiri möguleika í prófkjörum en þeir sem koma nýir inn. Það er kannski ekkert skrýtið - en ef þetta verður raunin eftir prófkjörshelgina miklu, ef sáralítið endurnýjun mun hafa átt sér stað - hljóta margir að pæla í því í kosningunum í apríl hvort ekki sé rétt að skila auðu eða að kjósa nýja flokka, sem ætla að bjóða fram.

Gleymum því ekki að þingmennirnir sem við kjósum taka að sér að vera okkar rödd á þingi. Rödd og atkvæði er nánast sama orðið í mörgum evrópskum tungumálum. Það er mikilvægt að minna þingmenn á þetta  reglulega og ekki bara þegar eru kosningar til þings. Það er nefnilega ekki þannig að við borgararnir höfum alfarið afsalað okkur rödd okkar með því að greiða atkvæði. Við höfum rödd til að tjá okkur - heima hjá okkur, út á götu, á internetinu, í fjölmiðlum - já, og hér á Austurvelli fyrir utan þinghúsið. Austurvöllur er ótrúlega mikilvægur staður.

Það er áríðandi að rifja þetta upp vegna þess að hér á landi hefur ríkt sterk tilhneiging til þöggunar. Á góðæristímanum mikla - eða ætti maður kannski Heyri ekki, sé ekki, tala ekkiað tala um blekkingartímann mikla - voru allar gagnrýnisraddir dregnar í dilk sem var merktur nöfnum eins og: "öfgamenn, hælbítar, kverúlantar og afturhaldskommatittir". Svo dæmi sé tekið var fréttaskýringarþátturinn Spegillinn á ríkisútvarpinu kallaður hæðnislega „Hljóð-viljinn" og þáttarstjórnendur sakaðir um linnulausan áróður og vinstrislagsíðu í aðdraganda innrásar Bandaríkjamanna í Írak 2003. Þess var krafist að þeir yrðu settir undir strangari ritstjórn. Síðar kom í ljós að allt var rétt sem kom fram í þættinum, enda höfðu heimildirnar verið mjög áreiðanlegar og í raun öllum aðgengilegar. Engin gjöreyðingarvopn voru í Írak, ekkert úran var flutt frá Nígeríu til Íraks, það voru engin tengsl milli Íraksstjórnar og Al Kaída. Og svo kom líka fram, sem búið var að spá, að innrásin leiddi til glundroða og hræðilegrar borgarastyrjaldar þar sem tugir þúsunda saklausra borgara hafa fallið.

Nú er talað um að allir sem áttu að fylgjast með og gæta hagsmuna almennings hér á landi, hafi brugðist undanfarin ár. Það er alveg rétt. Fjölmiðlar hafa brugðist, á því er ekki nokkur vafi og í raun ætti að koma fram krafa um endurnýjun í heimi fjölmiðla alveg eins á Alþingi. En þegar litið er yfir sviðið má segja að sú endurnýjun sé furðulega lítil. Ritstjórar, fréttastjórar, ritstjórnafulltrúar og útvarpsstjórar eiga ekki að vera undanþegnir gagnrýni. Það er meðal annars þeirra hlutverk að styðja blaðamenn, fréttaskýrendur og dagskrárgerðarfólk sem er tilbúið að leggja á sig að fjalla á vandaðan, málefnalegan en gagnrýninn hátt um samfélagsmál. Tilhneigingin er hins vegar stundum sú, að vilja dempa gangrýna umfjöllun til að hafa gott veður.

Það er líka afar slæm þróun sem hefur aðeins örlað á síGræðgiðustu misserin þegar blaðmenn og valdamikið fólk í samfélaginu, til að mynda bankamenn og aðstoðarmenn ráðherra, virðast komnir í sama liðið. Hér er dæmi. Svokölluð kúlulán hafa verið aðeins til umfjöllunar. Sérstakir útvaldir starfsmenn eða jafnvel aðstoðarmenn ráðherra fengu þau í bönkunum. Það gátu verið 60 milljónir eða 150 milljónir. Viðkomandi gátu notað þessa peninga og látið þá búa til meiri peninga, skilað þeim síðan en hirt ágóðann sem gat jafnvel skipt tugum milljóna. Ég heyrði um daginn í útvarpinu af útvöldum manni sem hafði fengið 150 milljóna kúlulán. Þegar hann varð þess var ekki alls fyrir löngu að stórt blað hér á landi, eins og hann orðaði það, hafi fengið áhuga á málinu, sagðist hann hafa hringt í viðkomandi blaðamann eða ritstjóra og menn hefðu orðið sammála um að þetta væri ekki fréttamál. En hvað er þá fréttamál? Vilhjálmur Bjarnason hefur sagt að mál af þessu tagi eigi sinn þátt í spillingu og hruni = siðlausir viðskiptahættir.

Eitt að lokum. Undanfarin ár var gagnrýni illa séð og að lokum var ástandið orðið þannig að ekki mátti tala um hlutina af ótta við að allt hryndi. Það minnir svolítið á leikritið fræga eftir Max Frisch  - Biedermann og brennuvargana. Brennuvargarnir bera bensíntunnur upp á loft hjá Gottlieb Biedermann, en hann telur sér trú um að allt hljóti þetta að fara vel og það sé best að hafa alla góða og spyrja engra óþægilegra spurninga. Tímabilið í Íslandssögunni sem við höfum nú kvatt var í svipuðum dúr. Það var talin borgaraleg skylda að „tala hlutina upp", þeir sem gerðu það ekki lentu í dilknum sem var nefndur áðan. Nú vitum við hvernig fer þegar ekki má tala um hlutina nema að tala þá upp. Verum því á varðbergi núna og alveg sérstaklega eftir kosningar í vor þegar forstjórar, bankastjórar og ráðherrar fara vara við „neikvæðni" og „niðurrifi" eins og það verður kallað. Slíkar raddir eru þegar farnar að heyrast. Við skulum ekki taka mark á þeim - en leitast alltaf við að vera málefnaleg. Þess vegna segi ég að lokum: ÁFRAM AUSTURVÖLLUR!

Hjálmar Sveinsson

Að lokum hengi ég hér við þrjá síðustu Krossgötuþætti Hjálmars ef fólk vill kynna sér það sem hann fjallar um á þeim vettvangi. Enginn ætti að sjá eftir þeirri hlustun. Þættirnir eru á dagskrá Rásar 1 klukkan 13 á laugardögum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta var flott ræða hjá Hjálmari en dapurlegt hvað fáir voru mættir til að hlýða á mál hans

Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.3.2009 kl. 23:29

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég hef ekki mætt á mótmælafund síðan trommusettin voru fyrir framan Alþingishúsið við upphaf fundarins.  Ég held að ég sé haldin mótmælaþreytu.    Ég sem mætti á alla hina. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.3.2009 kl. 00:58

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Hjálmar er í algjörum sérflokki með umfjöllun sína í þættinum Krossgötur. Hann kafar djúpt í viðfangsefni sín á meðan margir kollegar hans fleyta kerlingar á yfirborðinu. Þessi ræða hans á Austurvelli er líka mjög áhugaverð, ekki síst vegna þess að hann lýsir eftir ábyrð fjölmiðla á ástandinu. Þeir eiga ekki að vera undanskildir þegar ábyrgðar er krafist vegna bankahrunsins. Meðvirkni fjölmiðlafólks og skortur á raunverulegri rannsóknarblaðamennsku er án nokkurns vafa ein af ástæðum þess að svo fór sem fór. Því miður voru fáir kollegar Hjálmars viðstaddir fundinn á Austurvelli. Auk Láru Hönnu sá ég aðeins einn sem nú er orðinn upplýsingafulltrúi hjá Vegagerðinni.

Sigurður Hrellir, 17.3.2009 kl. 01:06

4 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ræða Aðalheiðar var sömuleiðis frábær og mjög athyglisvert hvernig stjórnmálamenn hunsa ákvæði stjórnarskrárinnar ýmist með tilvísun til hefða eða af fullkomnu skeytingarleysi. Ég bind vonir við að Aðalheiður gefi kost á sér fyrir Borgarahreyfinguna í komandi kosningum.

Sigurður Hrellir, 17.3.2009 kl. 01:47

5 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Hjálmar hefur gert vel í því að taka fyrir hin ýmsu -frekar fáránlegu- skipulagsmál,

Og ýmislegt annað líka...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 17.3.2009 kl. 08:09

6 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Takk fyrir hittinginn á Austurvelli. Þó ég hefði viljað sjá fleiri, er ég mjög ánægð að hafa loksins komist á Austurvöll og mér fannst bara betra að standa þar í rigningu og for, það sýnir bara sterkari vilja til að koma saman og mótmæla.

Ég vona að byltingin sé ekki farin í frí, því nú þarf að taka sóðaskapinn í viðskiptalífinu í gegn. Þessi viðbjóður sem viðgengst í sjávarútveginum og hjá sparisjóðunum ofbíður manni svo að mér liggur við uppsölum... 

Aðalheiður Ámundadóttir, 17.3.2009 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband