30.4.2009
Er hún Gaga alveg gaga?
Hún flutti í götuna mína fyrir nokkrum mánuðum - í haust, minnir mig. Kannski aðeins fyrr. Ég geng mjög oft fram hjá húsinu og gluggarnir hjá henni drógu mig til sín eins og segull. Ég gat varið löngum stundum bara að skoða það sem var í gluggunum. Svo færði ég mig upp á skaftið og kíkti inn. Þar kenndi heldur betur ýmissa grasa. Mér finnst alltaf gaman að skoða fallega hluti án þess að finna hjá mér þörf fyrir að eignast þá. Og hjá henni eru svo sannarlega flottir og frumlegir hlutir, algjör veisla fyrir augað.
Hún heitir Guðrún Gerður og notar listamannsnafnið Gaga Skorrdal. Hún er listræn, bjartsýn, skemmtileg og hefur alveg sérlega góða nærveru. Það er óskaplega gaman að líta inn til hennar, skoða og spjalla. Einu sinni gekk ég út frá Gögu með nýja peysu í poka - peysu sem hún hafði hannað, þessa hér...
Síðast þegar ég leit inn til hennar sagðist hún hafa keypt vefnaðarvöruverslunina Seymu sem var einu sinni á Laugavegi en flutti svo til Hafnarfjarðar. Hún hafði heyrt að það ætti að loka Seymu, fór til að kaupa sér efni á elleftu stundu og endaði með því að kaupa búðina! Á þessum síðustu og verstu lítur þessi kona bjartsýn til framtíðarinnar og gefur bara í. Nei, hún er aldeilis ekki gaga hún Gaga.
Á morgun ætlar Gaga að kynna starfsemi sína og búðina að Vesturgötu 4 - þar sem áður var Blómálfurinn og þar áður Verslun Björns Kristjánssonar, VBK, sem allir Reykvíkingar sem komnir eru "til vits og ára" muna eftir. Ég hvet alla sem leið eiga um miðbæinn á morgun, 1. maí, til að líta inn til Gögu Skorrdal og skoða búðina hennar... eða eiginlega eru þetta 4 búðir í einni. Viðfest neðst í færslunni er viðtal sem Hanna G. Sigurðar tók við Gögu og útvarpað var í þættinum hennar, Víðu og breiðu, miðvikudaginn 29. apríl sl.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll | Breytt 1.5.2009 kl. 01:52 | Facebook
Athugasemdir
Gott að Gaga gengur í verkin -og að hornið góða á Vesturgötunni stendur ekki ónýtt. Mun vissulega líta þar inn þegar pestinni linnir.
Þú tókst þig líka alveg svellandi vel út í peysunni Lára Hanna. Hefði ekki haldið að óreyndu að þessi litur væri sjónvarpsvænn, en hann var það heldur betur á þér.
Hildur Helga Sigurðardóttir, 1.5.2009 kl. 01:35
Ég mun sko fara til Gaga er ég kem næst suður og þetta hús á sér marga anda.
Takk fyrir mig
Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 1.5.2009 kl. 08:33
Kem garanterað við í Seymu, næst þegar ég á leið í borgina.
Harpa J (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 12:41
Peysan er falleg eins og eigandinn. Gamelpink er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Eins og þú..Ég á oft erindi á þessu slóðum. Kem við..
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 14:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.