Michael Hudson - spurningar og svör á íslensku

Ég lagði nú ekki í að þýða spurningarnar til Michaels Hudson og svör hans, en í dag fékk ég sendingu frá Vinna. Hann hafði snarað þessu öllu og veitti mér leyfi til að birta hér. Ef einhver kemur auga á ranga notkun hugtaka eða orða er viðkomandi vinsamlegast beðinn að láta þess getið í athugasemd með nánari skýringum. Ég ber það undir Vinna og leiðrétti með hans samþykki. Við viljum endilega hafa þetta sem allra best úr garði gert.

______________________________

Spurning 1)
- Getur þú stungið upp á leið sem við getum farið (stjórnmálamenn okkar þurfa alla hjálp sem þeir geta fengið) ef við ákveðum að borga til baka AGS lánið og losa okkur undan aðgerðaplani þeirra. Þyrftum við ekki að treysta á velvild nágrannaríkja til þess að fá lán til þess að styrkja gjaldmiðilinn og fjármagna/aðlaga efnahagslífið upp á nýtt.

Svar:

- Mér skilst að ekki sé búið að nota neitt af þessum fjármunum þannig að það er ekkert að endurgreiða (til AGS). Hvað varðar velvilja nágrannaríkjanna. Hliðstæðan hér er skólastúlka sem öðlast vinsældir með því að láta piltana nota sig. Að sjálfsögðu verður hún "vinsæl" og þeir vilja fara út með henni. En virða þeir hana?
Michael Hudson- Aðferðin sem lánadrottnar nota er að planta sektarkennd hjá skuldurum þannig að þeim líði eins og að þeir séu að fremja félagslega synd með því að greiða ekki. Sjálfir reyna þeir að forðast að greiða sín á milli. Það er tvöfaldur standard í gangi. Flest fólk er tilbúið að sýna velvild ef það heldur að þú sért sanngjarn. Og ef við erum að tala um hvað er sanngjarnt, þá er staðreyndin sú að hér í New York, eru skilmálar AGS og annarra erlendra lána ekki taldir sanngjarnir og í raun taldir sviksamlegir. Skilgreiningin á sviksamlegum lánum (samkvæmt lögum New York ríkis) eru lán sem skuldari getur ekki greitt án þess að breyta eðlilegum háttum daglegs lífs og viðskiptum.
- Skilyrði AGS krefjast þess að þeim sé breytt. Að nota slík lán til að borga erlendar skuldir einkageirans er della. Það færir ókeypis hádegisverð til ábyrgðarlausra lánadrottna sem veittu þessi lán eða tókust á þessar gervi-fjárfestingar. Að sjálfsögðu vilja ÞEIR að þið afhendið þeim fjármuni sem ríki eins og Bandaríkin hafa þverneitað að gera fyrir töp vegna bandarískra undirmáls- og fasteignalána. En af hverju ættuð þið að vilja njóta velvildar þeirra undir þessum kringumstæðum?

Spurning 2)
- Mig langar að vita af hverju enginn vill skoða möguleikana á því að taka upp Bandaríkjadal eða nota svipað myntfyrirkomulag og Hong Kong og vera áfram í EES utan ESB og tengjast NAFTA líka, hafandi í huga stöðu Íslands í miðju Atlantshafinu milli Ameríku og Evrópu? Gæti Ísland ekki virkað vel sem risastór toll-fríhöfn þar sem innflutningur er unnin frekar og fluttur áfram með auknum virðisauka?

Svar:
- Sérhvert ríki ætti að búa til sína peninga sjálft, af því að það gerir ríkisstjórnin ókeypis. Ef þú notar dollar eða aðra gjaldmiðla þá þarftu að flytja út afurðir vinnuafls og náttúruauðlinda til að fá þessa peninga. Ríkisstjórnin getur einfaldlega búið þá til. Því til viðbótar getur hún einnig ákvarðað vextina og hvert hinum nýju peningum og lánum er beint. Ekkert af þessu er mögulegt þegar erlendar ríkisstjórnir búa til peningana. Til viðbótar, ef einkabankar skaffa dollarana eða annan erlendan gjaldmiðil, þá gera þeir það á þann hátt að hlaða skuldum á efnahagslífið.
- Argentína reyndi að dollaravæða sitt hagkerfi og niðurstaðan varð stórslys erlendra skulda sem leiddu til greiðslufalls.
- Hvað varðar Ísland sem fríverslunarsvæði, þá myndi það glata möguleikunum til að verja sinn landbúnað og iðnað. virðisaukinn sem fengist er hlutfallslega lítill, eins og Bandaríkin sjálf sem verja sig ætti Ísland að notfæra sér sín náttúrulegu gæði og hæft vinnuafl. Vandamálið er að gengið (verðlagið) sem vinnuafl Íslands skiptist á við annarra ríkja verður að vera nægilega hátt til að dekka framfærslu og skuldabirgði sem Ísland nú horfist í augu við vegna "verðmætasköpunar" sinnar sem virðist einungis hafa aukið kostnað við framfærslu og viðskipti.

Spurning 3)
- Spurning mín varðar peninga - og bankakerfi heimsins og Íslands.
- Síðan í seinni heimsstyrjöld hefur peningakerfið verið byggt á skuldum og fiat (byggðum á tiltrú) gjaldmiðlum, sem var komið á af bandamönnum og öll hagkerfi heims hafa tekið upp. Samhliða þessu höfum við haft brot-sjóða bankakerfi (fractional reserve).
- Ísland eins og önnur hagkerfi jarðar hafa tekið upp hvorutveggja og í stuttu máli sitjum við nú í súpunni. Þessi kerfi eru augljóslega ekki ákjósanleg. Við höfum séð traust í gjaldmiðlum þjóða hrynja og áhlaup á banka.
- Bæði þessi kerfi útheimta traust og tiltrú til að virka. Það er aðal málið. Í dag höfum við ekkert af slíku, en það virðist vera að við séum aftur að fara að byggja upp innlent bankakerfi á þessum sömu undirstöðum. Lærum við aldrei?
Spurning mín er: Heldur þú að við ættum einfaldlega að aðhyllast prinsipp um traustan gjaldmiðil, t.d gull eða silfur, og nota 100% sjóðskyldu fyrir bankana.

Svar:

- Það eru góð rök fyrir 100% sjóðskyldu banka - þar sem viðskiptabankar hegða sér eins og sparisjóðir í stað þess að framleiða lán. Vandamálið er ekki kerfið sem slíkt, heldur sú staðreynd að bankar hafa framleitt lán til sem leiða ekki til framleiðslu -aðallega yfirtökulán til að
Michael Hudson kaupa eignir sem þegar eru til staðar, heima og erlendis. Lán hafa verið búin til fjárhættuspils, ekki til að framleiða og þar með þéna fjármuni til að endurgreiða þau til baka með vöxtum.
- Undir 100% sjóðskyldu (frumvarp um slíkt fyrirkomulag liggur nú fyrir bandaríska þinginu sem "American Monetary Act" í boði Dennis Kucinich) myndi ríkissjóður framleiða lán og veita til banka fjármunum til að lána út umfram það sem innistæður í þeim duga til. Það sem máli skiptir er í HVAÐ bankarnir lána og skilyrðin sem þeir setja.
- Gull mætti nota til að greiða alþjóðlegar skuldbindingar en það er óþarflega dýrt til að nota sem gjaldmiðil innanlands. Ríkisstjórnir hafa í dag þann valkost að búa tli lán og peninga ókeypis. Að treysta á gull eða silfur útheimtir tilsvarandi vinnuframlag í hlutfallinu einn á móti einum á móti framleiðslu.  Þannig að ekki er lengur hlustað á þá sem hvetja til upptöku "harðra gjaldmiðla" jafnvel þó að lánadrottnar styðji hugfangnir við hugmyndir af þessu tagi þar sem það hámarkar völd auðs yfir vinnuaflinu.

Spurning 4)
- Nýlega sagðir þú í grein: "Ísland hefur brotið meginreglu alþjóðlegra fjármála: Aldrei að taka lán í erlendum gjaldmiðli þegar þú getur búið til lánin heima ókeypis til sömu nota." Einnig: "Það er ekki nauðsynlegt að sameinast Evrópu, afhenda innherjum hennar fiskveiðiréttinn og bankamönnum hennar réttinn til að framleiða lán (credit) (sem ætti að líta á sem almannaþjónustu) til að ná efnahagslegri heilsu."
- Háværar raddir hér á Íslandi hamra á því að við verðum að endurreisa traust þannig að við fáum aðgang að erlendu lánsfé, aðild að ESB væri stórt skref til þess. Svipað þessu segja þeir að það væri gott að færa erlendum lánadrottnum hlut í nýju íslensku bönkunum.
Tvær spurningar:
1) Umfang, mikilvægi þessa máls fyrir íslenska hagkerfið.
2) Hvernig svarar þú slíkum röddum?

Svar:
- "Traust" endurspeglar tiltrú á greiðslugetu landa. Ef Ísland skuldbindur sig til að borga kúfinn af vondum skuldum, mun það ekki hafa neitt svigrúm til að taka ný lán í mörg ár. Á hinn bóginn, ef það gerir það sem Argentína gerði - hafnaði að greiða erlendar skuldir tvisvar á síðasta áratug- mun það skapa sér svigrúm og auka greiðslugetu sína og þar með tryðu erlendir lánadrottnar því að í þetta sinn væri Ísland að "gera hlutina rétt" í stað þess að leika fjárhættuspil með bankalán eins og hingað til.
- Útlendingar ættu EKKI að fá hluti í nýju bönkunum. Að framleiða lán er ókeypis, það er almannaþjónusta. AF hverju ætti Ísland að vilja afhenda náttúrulega einokunarstöðu ókeypis, hverrar ágóði beinlínis tilheyrir almenningi?
- Til viðbótar, bankar í eigu erlendra aðila mundu gera nákvæmlega það sama og "slæmu bankarnir" gerðu: Lána gegn eignum sem þegar eru til staðar og reyna við skjótfenginn ofurgróða. Þetta er vandamálið við fjármálalífið: Það byggir á skammtímasjónarmiðum. Til að koma langtímahagsmunum Íslands ofar skuldaframleiðslu verður ríkisstjórnin að viðhalda valdi sínu til reglusetninga. Að hleypa inn erlendum bönkum mun valda hagsmunatengdum þrýstingi og spilla og bjaga fjármálakerfið í átt frá því að lána til framleiðslu, yfir til þess að arðráns-lána.

Spurning 5)
- Hr. Hudson í viðtali við Egil Helgason í Silfri Egils nefndir þú að ríkisstjórnir um víða veröld væru að plana, eða hefðu þegar hafið aðgerðir til að lækka skuldahlutfall venjulegs fólks með það markmið að greiðslur næmu 32% af innkomu. Hér á Íslandi hefur ríkisstjórnin neitað að ræða slíkar aðgerðir. Einhverjar athugasemdir eða ráðleggingar um þetta?

Svar:

- Lækki íslenska ríkisstjórnin EKKI skuldabirgði húsnæðislána niður í 32% eins og í Bandaríkjunum mun Ísland lenda í þeirri stöðu að laun þurfa að vera mjög há til að vinnuaflið nái saman endum. Þetta mun verðleggja íslenskt vinnuafl út af heimsmarkaði. Á meðan mun kaupmátturinn sogast inn í bankakerfið og hagkerfið mun skreppa saman, valda þannig enn meira atvinnuleysi og lægri hagnaði fyrir innlend fyrirtæki. Gjaldþrot munu verða og bankar munu taka húsnæði, og íslenskt þjóðareinkenni um séreignarhúsnæði mun glatast. Efnahagslífið mun umpólast og karakter samfélagsins mun breytast þegar brottflutningur fólks eykst frá landinu, sérstaklega meðal yngra fólks. Ég efast um að það sé þetta sem íslendingar vilja.

Spurning 6)

- Stór hluti vandans hér á Íslandi er uppæð innistæðna. Eftir því sem ég best veit eru venjulegar innistæður kringum 10 milljarðar dollara. Að sjálfsögðu hangir þessi stóra upphæð eins og sverð yfir okkur og er ein ástæða þess að við getum ekki losað um gjaldeyrishöftin., í það minnsta ekki í bráð.
- Mín lausn er fremur einföld, ég vil lækka vexti á innistæðum eins mikið og við getum, til að byrja með, einungis á innistæðum.
- Og á meðan við gerum þetta munum við herða enn á gjaldeyrishöftunum. Það sem við náum fram með þessu er eftirfarandi:
- Fyrr eða síðar munu peningar flytjast af innistæðureikningum inn í hagkerfið og að lokum lækka innlendar skuldir aðallega vegna mikils vaxtamunar milli innistæðna og útlána. Plús að við munum fá vítamínsprautu inn í hagkerfið þar sem þessir peningar munu ekki haldast lengi á neikvæðum raunvöxtum og munu því vonandi velta til góðs fyrir okkur öll. Sérstaklega varðandi atvinnuleysið hér á Íslandi. Mín skoðun á bak við þessa hugmynd er að í raun voru það okkar stærstu mistök eftir hrunið í Október að tryggja allar innistæður. Innistæður hverra stærsti hluti var framleiddur í kerfi sem var Ponzi Sceme, þ.e engin raunveruleg tengsl við raunhagkerfið.
Önnur spurning mín er þessi:
- Hvaða skoðun hefur þú á "stock market system" (innskot þýð.- hlutabréfamarkaðskerfi?) sérstaklega fyrir lítil ríki eins og Ísland með einungis 300.000 íbúa og hvað segir þú okkur hér í ljósi hinnar massívu peningaframleiðslu sérstaklega með hjálp þessa sama kerfis?
- Ættum við að halda áfram að leyfa slíkt kerfi og í raun "viðlíka kerfi"?

Svar:

- Lægri vextir eru alltaf ákjósanlegir, Í tilviki Íslands eru þeir nauðsynlegir til að komast af. Óborganlegar innistæður eða áhættufé á háum vöxtum, ætti ekki að ábyrgjast. Vöxtum er gjarnan lýst sem greiðslu fyrir áhættu. Spákaupmenn tóku lán á lágum vöxtum og endurlánuðu til Íslands á háum vöxtum til að fá vaxtamun. Þeir tóku áhættu. Þeir töpuðu. Eins og á veðreiðum, þegar þú tapar peningum er það hluti leiksins.
- Ég er ekki klár á því hvað þú átt við með "stock market system"

Spurning 7)

- Það sem veldur mér áhyggjum varðandi endurreisn íslensks efnahagslífs er hversu lítil þjóðin er. Við erum líkari stórfjölskyldu en "alvöru" þjóð, og að sjálfsögðu leiðir þetta til þeirrar tegundar "kunningjasamfélags" sem þú ræddir stuttlega í viðtali í Silfri Egils. Það sem ég vil spyrja er: Hvernig sérð þú okkur fyrir þér stýra fram hjá kunningjasamfélagi á komandi árum? Hvað eigum við að gera til að tryggja að einungis hæft fólk veljist til starfa, en ekki tengdadætur einhvers eða herbergisfélagar úr menntaskóla? Ég held að þetta sé stórt málefni sem við höfum ekki rætt nægilega mikið um (jæja við höfum tuðað um þetta en hingað til hef ég ekki séð alvarlega umræðu).

Svar:
- Það gerist oft hjá þjóðum - eða einstaklingum - að sterkustu hliðarnar reynast einnig veikleikar. Ísland hefur það forskot að flestar fjölskyldur þekkjast. Fyrir klassískan Grikkja væri þetta án vafa forsenda fyrir lýðræði.
- Vandinn er að náin tengsl leiða til vinargreiðavæðingar. Oft er það þannig, og í tilviki Íslands geri ég ráð fyrir, að límið sem heldur saman slíkri vinargreiðavæðingu er arfgengur fjölskylduauður. Flest lönd (t.d England eftir 1945) brugðust við þessu með því að leggja á erfðaskatta til að "jafna stöðu leikmanna" og til að tryggja að auður fólks byggðist raunverulega á því sem það bjó til, en væri ekki ókeypis hádegisverður. Eignaskattar gætu hjálpað - og mundu í leiðinni stýra sparnaði inn í framleiðslutengdar fjárfestingar, bæði einkafjárfestingar og opinbera innviði til að lækka kostnaðarstrúktúr Íslands.
- Hvað varðar grundvallaratriðið um að koma í veg fyrir ósanngjarnar stöðuveitingar; Bandaríkin skipuðu umboðsmann almennings fyrir öld síðan og það er ávallt stjórnarandstaðan sem skiptar hann.

Spurning 8)

- Margir líta svo á að aðal uppspretta aðsteðjandi vanda liggi í svokölluðum "ábyrgum-fiskveiðum" og útdeilingu "kvóta", eða réttinum til að veiða til fárra einstaklinga, sem hegðuðu sér eins og hverjir aðrir (ó)skynsamir menn, innleystu hagnaðinn og settust í helgan stein. Fá stór útgerðarfyrirtæki keyptu upp þennan kvóta og eru nú á barmi gjaldþrots þar sem fyrirtæki þeirra eru skuldsett á móti óveiddum fiski.
Spurning: Að þínu áliti , hver er áhrifaríkasta leiðin til að snúa við þessari stöðu, og færa réttinn til að veiða fisk þar sem hann á heima (til íslensku þjóðarinnar)?

Svar:

- Auðvitað á íslenska þjóðin að stjórna fiskveiðunum. Það sem væri einfaldast að gera væri að afleggja þessi leyfi og taka upp kvótakerfi. Þetta er það sem ég mælti með fyrir leigubílana í New York, þar er fjöldi leyfa takmarkaður og hefur því hækkað í verði. Þeir sem hagnast á þessu eru einkaeigendur leyfanna, ekki borgin. Nýir leigubílstjórar eru skuldbundnir því að vinna gegn lágum launum fyrir eigendur leyfanna - sem fá ókeypis hádegisverð.
- Besta lausnin fyrir Ísland og útgerðirnar, utan frá séð, hefði verið að bjóða upp fiskikvóta á hverju ári. Að kaupa kvóta réttindi var einskonar spákaupmennska - að treysta á að rétturinn að gerast hliðvörður inn á íslensk fiskimið hækkaði í verði. Hvað snertir að kvótaleyfin hækkuðu í verði, er það tap fyrir ríkið á því sem ætti að vera greiðsla til almennings. Hvað varðar að tap varð vegna þess að ekki fékkst upp í kvóta, eru það ekki tíðindi fyrir mér. Ef satt er, þá þýðir það að spákaupmennirnir sáu ekki fyrir minnkandi fiskistofna sakir ofveiði.
- En ég skil það þannig að kvótarétturinn hækkaði í raun í verði, en útgerðirnar notuðu þessi réttindi sem veð til að taka lán og áhættu. Þau töpuðu. Það er það sem gerist þegar þú tapar heimili eða eignum í fjárhættuspili.
- Hvað er til ráða? Augljóslega að firna út þessi leyfi, eða einfaldlega ógilda þau. Ég hef ekki séð skýrslur um hver á þessi leyfi eða hvernig þau skiptast milli innlendra fyrirtækja og útlendinga. Undir alþjóðlegum lögum, er leiðin til að endurheimta gæðin án "upptöku"  að nota auðlindaskatt - 100% (eða lægri) skatt á efnahagslegan arð. Þetta er það sem Yevgeny Promakov lagði til að Rússland gerði til að endurheimta náttúruauðlindir sínar sem Yeltsin-Harvard sjálftökustjórnmálamen stálu. - skattur á leigutekjur fyrir að nýta Rússneskar námuauðlindir.
- Módelið myndi vera land-skattur hannaður til að fá tekjur til hins opinbera af nýtingu náttúrugæða, en ekki fyrir vinnu eða einkaframtak. Þetta er það sem franskir, Adam Smith, John Stuart Mill, Henry George og síðari tíma umbótasinnar hvöttu til, þannig að þetta hefur fína klassíska skírskotun.

Spurning 9)
- Hvað myndi gerast ef allir íslenskir bankar mundu afnema verðtryggingu á morgun, á öllum húsnæðislánum, og á sama tíma lækka vexti á öllum sparnaðarreikningum sem bankinn borgar niður á sama stig og t.d er í USA.
- Síðan á sama tíma einnig gefa eftir ÖLL lán til heimila fólk með lágar tekjur.
- Á þetta er jafnvel minnst á mörgum stöðum í Biblíunni, sem að byrja með hreint borð -- sjá neðar.
- 5. Mósebók 15: 1-16
1 Sjöunda hvert ár skaltu fella niður skuldir.
2 Eftir þessum reglum skaltu fella niður skuldir: Sérhver lánadrottinn skal falla frá kröfum vegna láns sem hann hefur veitt náunga sínum...

Svar:
Ef Ísland hætti við verðtryggingu þyrfti að greiða mun minna af innkomu til
Michael Hudsonfasteignaskulda, sem gerði fólki fremur kleyft að hafa efni á lífinu og myndi endurreisa verð á vinnu miðað við fasteignum. Sama myndi gerast með lægri vöxtum.
-Af hverju einungis að fella niður húsnæðislán til þeirra tekjulægstu? Lánadrottnar kæmu í veg fyrir þetta með því að segja öðrum að þeir hefðu erfiðað mikið, en nú högnuðust hinir meira (þeir sem minna gerðu) Hreint borð þyrfti að vera um allt hagkerfið, ekki takmarkað við einn hóp. Biblíuversið sem skiptir hér mestu er 3. Mósebók 25. Það var byggt á aðferðum Babylóníumanna - jafnvel Hebreska orðið
(deror) er skylt babýlónska andurarum. Þessar gerðir voru framkvæmdar án verulegra undantekninga í Austurlöndum nær í yfir 2000 ár. Þær héldu fólkinu frjálsu undan skuldaánauð. En megnið af skuldunum var til hofa og konungshalla þannig að sá sem fór með valdið var að fella niður skuldir til síns sjálfs. Í vissum skilningi væri Ísland að fella niður skuldir til "sjálfs sín", þ.e til bankanna og lífeyrissjóðanna. Svona verknaður myndi lækka húsnæðiskostnað, og ríkisstjórnin gæti endurheimt leiguverð húsa og fasteigna með land-skatti - þannig losað þjóðina undan því að borga tekju og söluskatt. Þetta gæfi Íslandi mikið alþjóðlegt samkeppnishæfi - eins og fyrrum Sovét löndin hefðu geta fengið ef þau hefðu ekki fylgt vondum Washington Consensus ráðleggingum í fjármálum frá Alþjóðabankanum, Harvard og fleirum.

Spurning 10)
- Saga íslensku krónunnar er, almennt séð, saga verðbólgu og gengisfalls. Sumir hagfræðingar segja að hún sé óstöðug og þess vegna til vandræða (jafnvel ónothæf) fyrir nútíma efnahagslíf, hækkar viðskiptakostnað, lán til heimila o.s.frv. vegna hárra vaxta. Íslenska "lausnin" hingað til hefur verið háir vextir til að forðast verðbólgu og vísitölubinding lána.
- Þar sem umræðan á Íslandi um þessi mál skilur hinn almenna hlustanda eftir algerlega í lausu lofti - gætir þú útskýrt hvað veldur verðbólgu og gengisfellingum krónunnar. Er til lausn?

Svar:
- Vandamálið er ekki lítill gjaldmiðill heldur hvernig fjármála- og hagkerfinu er stjórnað. Háir vextir hækka verðlag og kostnað við framfærslu - og innifela hærri skuldir til að laða að fjármuni. Ef það er of mikill kaupmáttur er hægt að höndla það með forsjálli skattheimtu.
- Það sem veldur verðbólgu og verðhjöðnun er aðallega verð á innflutningi - og hvaða skilmálar eru á viðskiptum með íslenska vinnu og  tekjur afnáttúruauðlindum fyrir innflutning. Gengisfall á sér stað þegar lönd reyna að gera innflutning dýrari til þess að draga úr honum. En Ísland er háð innflutningi, þannig að valkvæm tollstefna er nauðsynleg.
- Ein lausn væri að Ísland fengi meira fyrir náttúruauðlindir sínar og tæki til sín ýmis form af "ókeypis-hádegisverðar" (auðlindagjald eða einokunargróða) sem á sér stað. Erlendar lántökur ættu einungis að eiga sér stað þegar tímabundinn halli er á viðskiptum við útlönd, en ekki koma í stað góðar innlendar stjórnunar fjármála- og hagkerfis til lengri tíma.

Spurning 11)
- Mig langar að spyrja þig um IceSave, Er ekki rétt að við þurfum einungis að taka á okkur 70% þessara skulda. Það eru til reglur um þetta, en er 100" að þær eigi við um IceSave?
-Og að þínu mati, gætum við ekki samið þetta niður í 50%, eða jafnvel 40%? Og gætum við ekki síðan haldið áfram og samið um hverjar aðrar skuldir okkar um víða veröld?
-Hvað með mögulegt samstarf við lönd í því að elta uppi peninga til útlandseyja eins og Tortóla?
-Loks heldur þú að ríkisstjórnin sé að meðhöndla þetta rétt? Lítur út fyrir að þeir muni finna þessa peninga (eða er einhver vilji til þess?) Gæti ríkisstjórnin gert mikið meira til að finna þessa peninga og gert þessa menn ábyrga fyrir gerðum sínum. Lítur það út fyrir að vera sanngjarnt að láta fólk sem hefur enga raunverulega þekkingu á efnahagsmálum taka allar þessar skuldir? Það eina sem það hefur um málið að segja eru kosningar á fjögurra ára fresti? Þeir hafa þessa þekkingu. Þeir lána ekki fólki blindandi, er það? Það virðist vera sem þeir hafi gert það! Lánadrottnarnir bera ábyrgð á því að lána ekki óviturlega til fólks og ef þeir gera þá eiga þeir að taka fjárhagslega ábyrgð gerða sinna. Ekki heilt land í Atlantshafi.

Svar:
- Mér skilst að til séu eignir fyrir IceSave sem dekka nærri því skuldirnar - kannski í nágrenni við 85%. Það væri ábyrgt af Íslandi að bjóða Bretum að taka þær í stað þess að bíða uppgjörs - sérstaklega vegna klaufalegrar hegðunar Breta sem átti verulegan þátt í að eignir glötuðust sem ella hefðu komið á móti þessum innistæðum.
- Hvað varðar aðrar skuldir íslensku bankanna þá hafa þær verið settar í "slæma-banka" (gömlu bankana) Þannig að Ísland (það sem þú kallar "við") skuldar þær ekki. Þær tilheyra einkageiranum og hans gömlu bönkunum, og það er lítið þar. Í eintaki dagsins af Wall Street Journal er ritstjórnargrein sem lýsir erlendum spákaupmönnum sem: "mönnum sem veittu bönkunum ríflega áfengi áður en þeir fóru akandi út á þjóðveg" Það þarf ekkert að semja þær niður. Erlendir fjárfestar eiga kröfur á banka sem hafa notað lánsfé í fjárhættuspil, og tapað. Þá munu þeirra erlendu lánadrottnar tapa líka. Það er þannig sem fjármálamarkaðir virka - rétt eins og Þýskir, Spænskir, og aðrir Evrópskir bankar töpuðu gríðarlega á bandarískum undirmáls-húsnæðislánum.
- Auðvitað á að rekja skattflótta fé til útlandseyja. Tortóla (Anguilla) mun annað hvort veita samstarf eða verða sett á svartan lista hjá íslensku ríkisstjórninni.
- Ríkisstjórnin getur ekki komið í veg fyrir að bjánar taki lán. Það á að vera hlutverk lánadrottna að veita ekki lán til bjána. Lánadrottnum varð herfilega á í messunni og hafa því tapað fjármunum. Það lítur virkilega út fyrir að þeir hafi lánað blint!

Spurning 12)

[Er umorðun, ítrekun á spurningu nr. 6 sem snýr að lækkun innlánsvaxta, herslu gjaldeyrishafta o.s.frv. Auk spurningar um hlutabréfamarkað.]

Svar:

- Lægri vextir á innistæðureikninga héldist að sjálfsögðu í hendur við lækkun álags með vísitölutengingu (verðtrygging). Fjármálakerfið mundi verða tekið af vísitölutengingum, ella fengju gætu bankarnir fengið ósanngjarnt högg.
- Hlutabréfamarkaðir eiga að vera leið til að afla fjár. Ef ekki væru markaðir þyrfti að afla þessa fjár á eigin vegum, líklegast á verri kjörum (dýrara) og minna gagnsæi, minni upplýsingar til almennings. Slíkir markaðir eru ekki slæmir sem slíkir, og að deila hagnaði með bakhjörlum á rætur að rekja minnsta kosti aftur 2500 ár fyrir Krist í Mesópótamíu. Þannig að stærð Íslands er ekki vandamál.

Spurning 13)
- Margt fólk telur að eina meðalið séu stórfelld afskriftaleið til að glíma við stöðuna í efnahagsmálunum. Aðrir hafa haldið því fram að þetta sé ekki hægt vegna þess að "nýju bankarnir" verði að jafna lánadrottnum gömlu bankanna fyrir þær eignir sem teknar eru úr gömlu bönkunum og ríkissjóður er tómur.
- Telur þú vænlegt í raun og veru að koma á nýjum skatti sem beinist að greiðslum til lánadrottna gömlu bankanna til að fjármagna slíkar afksriftir? Er möguleiki að koma slíkum skatti á án þess að valda miklum skaða á öðrum umsvifum í efnahagslífinu?

Svar:

- Spurningin er of víð til að svara henni. Ég þarf ítarlegri upplýsingar um hvað þú ert að leggja til. Mér skilst að nýju bankarnir hafi tekið yfir innistæður/skuldbindingar frá gömlu bönkunum. Yfirtaka á eignum upp að virði innistæða útheimtir ekki frekari bætur til lándrottna gömlu bankanna.

Spurning 14)

- Hér Íslandi er mikið deilt um að lækka lán til fólks, lán sem eru tengd við verðbólguhraðann. Þessi lán hafa hækkað um nærri 20% á síðasta ári einu saman. Telur þú mögulegt fyrir bankana að leiðrétta þetta, það er að veita fólki 20% afslátt á lánin. Telur þú að bankarnir geti gert eitthvað þessu líkt án þess að verða gjaldþrota aftur eða að lífeyrissjóðirnir okkar (sem fjármögnuðu mikið af þessum lánum) skerðist vegna þessa?

Svar:

- Bankarnir og lífeyrissjóðirnir GÆTU gert þetta. En ég held að þetta þyrfti að vera almenn aðgerð, og það er erfitt. Best er að byrja á því að koma fjármálakerfinu á traustari fætur á með aðferðum sem ég hef útlistað ofar (losna við verðtryggingu) og með reglum um að bankar stýri útlánum sínum til arðbærra verkefna í stað spákaupmennsku og arðránslána.

Spurning 15)  
(frh. af 13)
- Nýju bankarnir eru að taka yfir u.þ.b 700 milljarða króna í innistæðum, 2-3000 milljarða af eignum og engar beinar skuldbindingar. Lánadrottnum verður bættur mismunurinn. Ég var að hugsa um eitthvað eins og söluskatt á eignir banka.

Svar:
- Að skattleggja eignir er mjög erfitt og veldur miklum lagalegum álitaefnum. Það er einfaldlega ekki praktískt.

Spurning 16)

- Hr. Hudson, þegar þú talar um að afnema verðtryggingu - sem er lofsvert takmark,en erfitt að ná fram í raun- ertu að vísa til nýrra skulda/skuldbindinga/samninga, eða einnig þeirra sem eru til nú þegar? Mig langar að benda á að húsnæðisskuldir á Íslandi er að mestu í eigu lífeyrissjóða, og einnig í íbúðarlánasjóði sem er baktryggður af ríkinu. Einkafjárfestar (inn- og erlendir) eiga einungis brot af heildarskuldum til húsnæðis.

Svar:

- Ég er að vísa til allra skulda. Hlutverk lífeyrissjóða á að vera að efla hagsmuni verkafólks yfir líftíma þess. Það er fáránlegt að þeir skyldu verða hluti þess kerfis sem veldur fátækt í hagkerfinu og skaða þannig raunverulega hagsmuni verkafólks. Raunverulegi hagsmunaáreksturinn er á milli fjármálavirkni og framleiðsluvirkni. Hin fjárhagslega dínamík með verðtryggingu hefur tekið á sig sjálfstætt líf upp á eigin spýtur og þjónar ekki iðnaði og vinnandi fólki eins og fyrirkomulagið er núna sett upp.

Spurning 17)
-Þú samþykkir að lánadrottnar "slæmu bankanna" munu tapa sínu fé, þar sem bankarnir stefna í gjaldþrot (og í framhjáhlaupi þá eru engin áform frá IMF eða ríkisstjórninni að splæsa á þá). Þú virðist einnig nokkuð bjartsýnn á að megnið af IceSave skuldbindingunum megi semja um á ásættanlega hátt fyrir okkur. Hvaða aðrar skuldir til erlendra fjárfesta eru þá að mæla með að við borgum ekki? Ríkisstjórnin okkar er sem betur fer ekki mjög skuldsett erlendis, ef frá er talin lánalína frá IMF og IceSave skuldbindingar. Vissulega eru orkufyrirtækin og nokkur sveitarfélög sem skulda fjármuni beint til erlendra lánadrottna: ertu að vísa til þeirra?

Svar:
- Ég geri ráð fyrir að það sem sveitarfélög og orkufyrirtæki skuldi sé heiðarlegt og í eðlilegum viðskiptum og ætti því að greiða undir eðlilegum kringumstæðum. Líklegast eru lánin tryggð með skattlagningu orku eða eigna. Hinsvegar, ef orkufyrirtæki í erlendri eigu "skulda" vexti til tengdra aðila erlendis eða bakhjarla, gæti verið um að ræða "fölsk lán" í því skyni að forðast skatta. Ekki ætti að vera heimilt að telja vaxtagreiðslur sem frádráttarbæran kostnað til skatts.

Spurning 18)

- Er íslenska fyrirframgreidda lífeyrissjóðakerfið "traust" hagfræði? Hvernig er mögulegt að varðveita auð á vaxtavöxtum án tillits til framleiðslu í hagkerfinu?

Svar:
- Þú hefur fest fingur á vandamálinu. Sérhvert líkan af "göldrum vaxtavaxta" sýnir án undantekninga að skuldir vaxa mun hraðar en hagkerfið og því er ekki unnt að greiða þær (á vefsíðu minni, www.michael-hudson.com, er ritgerð um vaxtavexti). Þess vegna eru fyrirfram-greidd lífeyriskerfi ekki traust. Eina kerfið sem er traust er gegnumstreymiskerfi eins og er í Þýskalandi.
- Til dæmis: árið 2008 tapaði fyrirframgreidda lífeyrissjóðakerfið í Bandaríkjunum helmingi þess sparnaðarins sem var í hlutabréfum. Þetta fall þvingar atvinnurekendur til að leggja til hliðar mikið af því sem þeir þéna til að endurfjármagna lífeyriskerfið í stað þess að fjárfesta í nýrri verðmætasköpun, eða jafnvel að borga út meiri arð. Þannig að hið fjármálavædda lífeyrissjóðakerfi er að minnka "raun" hagkerfið, í stað þess að fléttast inn í framleiðslu og atvinnusköpun, auka framleiðslu og stuðla þannig að betri möguleikum til að styðja þá sem eru komnir á eftirlaun.

Spurning 19)

- Hvaða skoðun hefur þú á Seðlabanka Bandaríkjanna (U.S. Federal Reserve)? Er lýðræðislega eða siðferðislega réttlætanlegt að hann sé einkastofnun, þ.e ekki í eigu ríkisins?  Er ekki vilji meðal þeirra sem þetta vita að breyta því?
- Einnig langar mig að vita hvort að þú hefur fengið einhver viðbrögð frá stjórnmálamönnum okkur og ef svo, frá hverjum (þar sem ég hef heyrt frá þeim verstu þeirra gagnrýna þig án góðrar undirstöðu)?

Svar:
- U.S. Federal Reserve, hegðar sér eins og lobbýisti fyrir viðskiptabankakerfið, ýtir fram hagsmunum þess. Þó svo að hann sé hluti af stjórnkerfinu, er hann Trójuhestur fjármálageirans og sinnir hagsmunum viðskiptabankakerfisins. Þetta er gert umfram allt með "aðhaldsamri peningamálastefnu" ("að berjast við verðbólgu"), sem þýðir í raun að hámarka vald skuldanna yfir vinnandi fólki. Þetta er einmitt það sem Alan Greenspan gerði, og í splæsingunni 2008-9 keypti Seðlabankinn (FED)$2000 milljarða af rusl-skuldabréfum af bönkunum, sem er langt umfram TARP aðgerðir þingsins sem voru hljóðuðu upp á $750 milljarða.
- Það er hlutverk ríkissjóðs að gæta hagsmuna almennings: Að lækka vexti, og að setja þjóðhagsleg markmið um efnahagsvöxt ofar hagsmunum fjármálageirans. Í þessu tilliti hefur ríkissjóður undir George Bush og Hank Paulson og undir Barack Obama, undir Tim Geithner sogast inn í hlutverk FED, splæsir á Wall Street á kostnað skattgreiðenda.

Spurning 20)

- Hugmyndin um sjálfstæðan Seðlabanka sem ákvarðar vexti, hvaðan kemur hún og er þetta sjálfbært fyrirkomulag til lengri tíma?

Svar:

- Það kemur upphaflega frá ensku ríkisstjórninni sem árið 1794 þarfnaðist fjármuna til að greiða stríðsskuldir sínar, og seldi frá sér einkaréttinn á því að prenta peninga fyrir 1.2 milljónir punda til Englandsbanka og síðar, vegna ákvörðunar 1914 um að taka stefnu peningamála úr höndum
Michael Hudsonríkissjóðs og færa hana í hendur bankamanna sem hafa óhjákvæmilega öndverða hagsmuni við ríkisstjórnina með því að vilja háa vexti en ekki lága vexti, og með því að krefjast þess að einkaréttur á lánaframleiðslu (credit) sé í höndum einkaaðila sem gera það sem þeim sýnist, án reglna, án þess að unnt sé að sækja þá til saka, jafnvel að taka þátt í hreinu svindli eins og stærstu bandarísku bankarnir hafa verið að gera síðustu árin.
- Sú ákvörðun að að Seðlabankinn (FED) ákveði vextina sjálfur kemur frá "samningi" frá árinu 1951 milli seðlabankans og ríkissjóðs. Þetta samkomulag veitir seðlabankanum vald til að hækka vexti hvenær sem launastig hækkar, til þess að halda niðri lífskjörum neðstu 90% þjóðarinnar í ágóðaskyni fyrir ríkustu fjölskyldur landsins og þau 10% þjóðarinnar sem eru í hlutverki lánadrottna.
- Kerfið er sjálfbært þar til þeim punkti er náð að hagkerfið er orðið að skulda-þrælabúðum og fjármálakerfið þornar upp eins og gerðist í Róm.

Spurning 21)
- Ertu sammála mér í því að það sé ekki krónan sem valdi efnahagslegum óstöðugleika heldur óstjórn efnahagslífsins og landsins.
- Ísland nýtur forréttinda og ríkidæmis í náttúruperlum sem ekki eru háðar samkeppni (á þann hátt að ómögulegt er að fjölfalda þær og flytja annað) Að mínu mati getur Ísland snúið lukkunni sér í vil á skömmum tíma með því að fókusa á sín eigin auðlindir. Þetta útheimtir ekki mikið af erlendum gjaldeyri en mun á hinn bóginn laða að mikið af erlendum gjaldeyri. Hér er engin stefna í sjónmáli sem fólk getur fylgt til að byggja upp hagkerfið innanfrá. Íslendingar eru mjög duglegir þegar þeir leggjast á árarnar, og tækifærin eru til staðar, sá hluti ferðamannaiðnaðar sem vex hraðast er einmitt markhópurinn sem hefði áhuga á að ferðast um Ísland. Við erum einungis u.þ.b 350.000 og við þurfum ekki stóra % af heildar ferðamannaiðnaðinum til að byggja upp litríkan menningartengdan ferðamannaiðnað sem gæti meira eða minna skaffað öllu landinu nægilegt fjármagn. Telur þú að ég sé of bjartsýn(n) eða höfum við viðskiptatækifæri og verkfæri í okkar höndum nú þegar?

Svar:
- Já, vandamálið er ekki krónan sem slík, heldur stjórn fjármála og tilvist einkavæddra sérréttinda (ókeypis hádegisverður efnahagsrentu) sem ætti með réttu að tilheyra hinu opinbera.
- Í stað þess að laða að erlendan gjaldeyri í formi þess að taka lán skráð í erlendum gjaldeyri ættu lánasamningar á Íslandi einungis að vera skráðir í gjaldmiðli þess. Það myndi styrkja hann.

Spurning 22)

- Ég hef þrjár mjög mikilvægar spurningar:
1. Hvað myndir þú gera ef þú stjórnaðir Íslandi núna? Þú hefur sagt að við ættum ekki að greiða IceSave og að evrópskt ríki þyrði aldrei að gera voldugu ríki eins og Bandaríkjunum það sem það gerði Íslandi Hvernig myndirðu framkvæma þá stefnu að borga ekki IceSave?
2. Það virðist vera að Ísland kunni að vera á hausnum og að vextir af mögulegum skuldum verði stórt vandamál einir og sér, að ekki sé talað um afborganirnar. Telur þú þetta vera tilfellið? Ef já, hvaða valkosti á Ísland? Sumir segja að lönd sem verða gjaldþrota verði að láta frá sér land og náttúruauðlindir. Ertu sammála þessu?
3. Barack Obama hefur talað á jákvæðum nótum um Ísland. Telur þú að það sé einhver möguleiki að endurbyggja hið góða (og ábatasama) samband sem Ísland hafði við Bandaríkin. Ef já, telur þú að það sé raunhæfur valkostur fyrir Ísland að tengjast Bandaríkjunum frekar efnahagslega, t.d sem valmöguleiki í því tilfelli að samningar við ESB reynist ekki hagfelldir?

Svar:

1) Ég myndi semja við Breta um lúkningu IceSave innistæðna með eignunum sem ríkisstjórnin hefur fryst, um 5/6. Ef þeim líkar það ekki, látum þá draga Ísland fyrir dómstóla og útkljá málið þar.
2) "Ísland" er ekki gjaldþrota. Bankamennirnir eru það, og e.t.v ætti ríkisstjórnin að taka fyrirtækin og aðrar eignir sem þeir skulda utan bankanna í því augnmiði að "komast inn fyrir fyrirtækjamúrinn". Það eru engar lagalegar forsendur fyrir því að "Ísland" í merkingunni ríkisstjórnin, þjóðin, eigi að greiða skuldir ábyrgðarlausra bankamanna. Meira að segja fyrrum forsætisráðherra og yfirmaður Seðlabankans, Davíð Oddsson, lagði áherslu á þetta við mig. Hann hefur rétt fyrir sér. Og mér skilst að aðrir séu þessu sammála, þannig að ekki hafa miklar áhyggjur af þessu. Lönd sem fara "á hausinn" við að borga skuldir sínar gera það sjálfviljug og sjálfs-eyðandi.
3) Ég hef ekki fylgst með því hvað Obama forseti hefur sagt um Ísland. En það er engin ástæða fyrir því að Ísland ætti ekki að hafa góð samskipti við Bandaríkin eins og það hefur gert alla tíð. Það er líka engin þörf á því að gera óhagstæða samninga við Evrópu. Ísland er sjálfstætt ríki og getur gert það sem því sýnist.


Spurning 23)

- Ég hef spurningu varðandi verðfall gjaldmiðla. Núna eru Bandaríkin að prenta peninga og kaupa sínar eigin skuldir. Bandaríska ríkisstjórnin er orðin að risavöxnu sníkjudýri, sýgur fjármuni út úr heiminum til að fæða sig. Hún hefur þrjár leiðir til að ná í þessa fjármuni: 1 =  skattar, 2 = taka lán, 3 = prenta peningana.
- Skattar eru út úr myndinni, efnahagslífið er að hrynja. Mótmæli gegn sköttum eru í gangi. Þannig að -gleymum sköttum.
- Að taka lán er ómögulegt þessa dagana. Kína hefur hætt að kaupa bandarísk ríkisskuldabréf. Heimurinn treystir því ekki að Bandaríkin séu fær um að greiða skuldir sínar með jafn verðmætum dollurum og þeim sem upphaflega var lánað með. Þannig að lánaglugginn er lokaður.
- Þá er bara eftir prentun peninga. Enginn getur haldið því fram að bandaríska ríkisstjórnin geti einfaldlega dregið úr útgjöldum. Þetta er ómögulegt fyrir ríkisstjórnina, hún er föst í vinavæðingu, sukki, spillingu og umfangsmikilli sóun. Medicate og almannatryggingar eru nóg ein og sér til að setja alríkið á hausinn. Hvar á að skera? Hver sá stjórnmálamaður sem talar fyrir breytingum nær ekki kjöri. Bandarískir borgarar vilja fá allt ókeypis...
- Þannig að bandaríska ríkisstjórnin verður að halda áfram að spreða, en ekkert fjármagn er fáanlegt. Svar? Bandaríska ríkið gefur út skuldabréf sem Seðlabankinn kaupir. Dollarinn er þynntur út. Bandaríska ríkisstjórnin heldur áfram. Þetta getur einungis virkað þar til fólk um víða veröld verður gripið skelfingu og vill losna við dollarasjóði sína.
- Bandaríkjadalur er sparnaðarmynt heimsins sem þýðir að fólk safnar dollurum til að geyma verðmæti. Þegar það óttast að hann sé að tapa verðgildi sínu þá fer það að selja dollarana sína. Þetta verður eldsneytið á áhlaup á dollarann. Allir um víða veröld fara í hasti í að skipta dollurunum út fyrir raunveruleg verðmæti.
- Því mun allt sem er skráð í dollurum þjóta upp í verði þegar dollarinn hrynur. Óðaverðbólga.
- Loka niðurstaðan verður hrun bandaríska hagkerfisins. Bandaríska ríkisstjórnin mun hætta aðgerðum. Og Bandaríkjadalur verður verðlaus. Öll verkefni alríkisins afleggjast. Almannatryggingar, heilsugæsla, medicare, Medicade - engir peningar þar.
- Það verða ekki bandarískir neytendur sem koma af stað óðaverðbólgunni, það verður bandaríska ríkisstjórnin og restin af heiminum.
- Ef þetta gerist? Hvað væri best fyrir íslensku ríkisstjórnina að gera? Mun íslenska krónan einnig hrynja? Flytja erlendar eignir lífeyrissjóða til landsins. Kaupa gull fyrir IMF lánið?

Svar:
- Í bók minni um Ofur-Heimsvaldastefnu (Super-Imperialism) (ný útgáfa 2002) og öðrum skrifum hef ég útskýrt hvernig Bandaríkin hafa fjármagnað innlend ríkisútgjöld með því að reka viðskiptahalla (aðallega vegna eyðslu til hernaðar) sem dælir dollurum til seðlabanka heimsins. Þessir erlendu seðlabankar eiga ekki aðra kosti en að kaupa fyrir þá bandarísk ríkisskuldabréf. Ef þeir endursenda ekki dollarana með þessum hætti munu þeirra eigin gjaldmiðlar hækka og þannig verðleggja útflutning þeirra út af heimsmarkaði. Þetta er þeirra klemma.
- Lausnin er alþjóðlegt fjármálakerfi án dollars, þar sem halli á greiðslum og halli vegna hernaðarumsvifa er jafnaður með "raunverulegum verðmætum" en ekki lánsloforðum frá bandaríska ríkinu. Vandinn er að helmingur af breytilegum (valkvæmum) útgjöldum bandaríska ríkisins er til hernaðar. Erlendu ríki, í gegnum alþjóða fjármálakerfið, fjármagna því: umsátur Bandaríkjahers kringum sig, leynilegar hernaðarlegar aðgerðir til að berjast gegn og velta úr sessi ríkisstjórnum, "lita byltingar", (afgirðingu fyrrum sovétríkjanna) og jafnvel pólitíska spillingu og stórfengleg manndrápsverkefni  gegn hverju því ríki eða þjóðarleiðtogum sem reyna að losa sig út úr þessari klemmu.
- Þess vegna voru stærstu kaupendur bókarinnar, þegar hún kom fyrst út, bandaríska leyniþjónustan og varnarmálaráðuneytið, sem nota hana sem leiðarvísi um hvernig hægt sé að fá ókeypis far hjá öðrum ríkjum, og þeir gáfu Hudson Stofnuninni stóran styrk til að útskýra fyrir þeim nákvæmlega hvernig þessi ókeypis hádegisverður virkar.
- Þú notar orðið "sníkjudýr" Sníkjudýr fæðir sig ekki einungis á blóði hýsilsins til næringar, heldur tekur það yfir heila hans til að verja afæturnar. Í þessu tilfelli er markmiðið að taka yfir "heila" erlendra seðlabanka og sannfæra þá um að þeir þarfnist dollara og að það séu engir valkostir. Það er að sjálfsögðu fásinna.
- Hvað varðar dæmi þitt, áhrifin af því að Bandaríkin ausi fé á fjármálageirann og keyri fjárlagahalla eru að hækka EIGNA verð, ekki laun eða verðlag á neysluvörum. Verð á þessum þáttum er ekki symmertrískt, jafnvel þó svo að í kennslubókum peningahagfræðinga  sé einungis talað um neysluverðlag, ekki verð auðs. Fyrir bandaríska hagkerfið er útlitið hjöðnun neysluverðs og launa, ekki verðbólga. Þannig að vandamálið sem þú setur fram mun ekki hafa áhrif á Ísland.


24)

- Mig langar til að þakka þér fyrir umhyggjuna og framlagið. Það er svo sorglegt að horfa á fáfræðina halda um stýrishjólið og sjá allt þetta heiðarlega vinnandi fólk sem berst fyrir afkomu sinni hjálparvana og örvæntingarfullt.

Svar:
- Ég hef hitt margt fólk á Íslandi, þar með talið í Fjármálaráðuneytinu, það býr að góðri þekkingu og heiðarleika. Ég vona að komandi ríkisstjórn muni fjölga ábyrgum stjórnendum, og að hún hugleiði að afnema verðtryggingu á skuldir og endurheimti náttúruauðlindir í þágu almannahagsmuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Já, það eru til 'þýðendur' & svo eru líka til 'þíðendur'.

Þeir síðar nefndu er góðir til margz brúkz, einz & til dæmiz að þíða endur.

Flott framtak þarna á ferðinni hjá þér einz & oft áður.

Læt vera að tjá mig um hagfræðínginn, sem & aðra slíka, enda hafa þeirra mizvízandi vízindi í bezta falli fengið falleinkunn.

Steingrímur Helgason, 9.5.2009 kl. 00:27

2 identicon

Thetta er ur DV, og leyfi eg mer her ad endurtaka thad her, sem segir vel fra hvad Lara Hanna er ad gera til ad upplysa

landann um hvad er ad ske og vona eg ad ritstjorn DV hafi ekki neitt vid thad ad athuga, en eg bad ekki um leifi til ad

endurtaka thetta her.

HUDSON SAT FYRIR SVÖRUM

Fimmtudagur 7. maí 2009 kl 08:47

Höfundur: ritstjorn@dv.is

Lára Hanna Einarsdóttir er á meðal öflugustu álitsgjafa landsins. Bloggið hennar er óvenjulegt að því leyti að hún birtir úrklippur og brot úr sjónvarpsþáttum með skýringum. Nú hefur Lára Hanna stigið enn eitt skrefið fram á við með því að nota athugasemdakerfið undir spurningar og svör.

Fyrstur sat fyrir svörum Haraldur Líndal Haraldsson en í gærkvöld var það hagfræðingurinn Michael Hudson sem svaraði í beinni

Islendingur (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 09:52

3 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Smá útskýring á einu svarinu um krónuna og hagstjórn.

Það eina sem fer fyrir ofan garð og neðan í þessu er að verðbólga er price inflation.

Svo er annað sem er monitery inflation.

Verðbólguhugtakið á að vera greint í tvennt og vera annarsvegar verðbóga og svo gjaldmiðilsbólga.

Gjaldmiðilsbólga hefur áhhrif á magn peninga í umferð og hefur áhrif á verðbólgu, vegna aukins peningamagns í umferð hækkar verð.

Þegar Michael er spurður um price Inflation svarar hann eingöngu hvað hefur áhrif á verðbólgu. (price inflation)

Gjaldmiðilsbólga er það sem verður til við útlán.

Þegar talað er um verðbólgu er aldrei talaðum þennan þátt heldur bara talað um hinn sem orsakavald.

Það er ekki alveg nógu gott ef menn ætla að stýra hagkerfi.

Vilhjálmur Árnason, 9.5.2009 kl. 18:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband