Sofandi að feigðarósi - aftur?

Bók Ólafs Arnarsonar, Sofandi að feigðarósi, hefur verið mjög umtöluð síðan hún kom út fyrir nokkrum vikum. Í gær hitti ég konu sem hefur lesið hana og hún sagði að undiraldan í bókinni - það sem látið er ósagt en lesa megi á milli línanna - væri ekki síður áhugavert en sjálfur texti bókarinnar.

Ólafur var gestur í Silfri Egils 26. apríl sl.

Ólafur skrifaði vægast sagt athyglisverða grein í Pressuna sl. fimmtudag og var auk þess gestur Björns Inga Hrafnssonar í Markaðnum á Stöð 2 sama kvöld. Hann fylgdi greininni eftir með þessu ákalli í gær - Í guðs bænum opnið augun!

Markaðurinn með Birni Inga 14. maí sl.

 

Í kjölfarið skrifaði Jón Baldvin Hannibalsson opið bréf til viðskiptaráðherra í gær sem ráðherrann svarar á sama vettvangi í dag og útilokar ekki skuldaafskriftir. Öll þessi umræða fer fram á Pressunni.

Mér virðist almenningur búinn að skipta um gír og vera hálfdottandi á verðinum. Eftir hamfarir vetrarins er eins og margir hafi lagst í dvala. Þetta gerðist fyrst eftir að minnihlutastjórnin tók við í byrjun febrúar. Þá var eins og mörgum hafi fundist málin leyst, þeir hættu að mæta á mótmæla- og borgarafundi og vísir að fyrra sinnuleysi fannst greinilega. Mánuðinn fyrir kosningar komst lítið annað að en undarlegur, flokkspólitískur skotgrafahernaður og hann hefur haldið áfram eftir kosningar.

Furðuleg, einskis verð mál eins og eignarhald þingflokksherbergja, sykurskattur, hneykslan yfir að nokkrir þingmenn hafi ekki mætt í messu fyrir þingsetningu og fleira í þeim dúr hafa keyrt ýmsa mikilvægari umræðu í kaf. Svo virðist sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur ætli að vera á móti góðum málum á þingi - bara af því þeir eru í stjórnarandstöðu og "hefðin" kveður á um að þá eigi þeir að vera á móti málum stjórnarflokkanna. Þetta er auðvitað algjört rugl. En Borgarahreyfingin virðist ekki ætla að detta í þennan fúla pytt flokkspólitísks skotgrafahernaðar á kostnað þjóðarinnar. Vonandi sjá hinir flokkarnir að sér og styðja góð mál stjórnarinnar. Og öfugt. Stjórnarflokkarnir verða líka að átta sig á því, að ekki er allt alslæmt sem frá stjórnarandstöðuflokkunum kemur og gefa málum þeirra tækifæri - ef þau eru þess virði.

Pólitískar eða persónulegar flokkaerjur, svo ekki sé minnst á siðlausa og gjörspillta hagsmunagæslu örfárra auðmannahópa í samfélaginu er allsendis óviðeigandi eins og ástandið í íslensku þjóðfélagi er um þessar mundir. Við verðum ÖLL að gera þá kröfu til ráðherra og alþingismanna að þeir láti hagsmuni almennings ganga fyrir - alltaf, í öllum málum. Enn og aftur bendi ég á þennan Krossgötuþátt og hvet alla til að hlusta. Ég mæli líka með að fólk rifji upp þennan pistil, horfi og hlusti á viðtölin við Vilhjálm Árnason, heimspeking og prófessor, þar sem hann segir stjórnmálin líða fyrir valdhroka.

Og fjölmiðlarnir verða að standa vaktina. Fréttamenn verða að vera þeir hliðverðir lýðræðisins sem Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, segir þá vera í þessum pistli sínum. Þetta Lykla-Péturshlutverk frétta- og blaðamanna er með mikilvægustu hlutverkum í því þjóðfélagslega leikriti lífsins sem leikið er af íslensku þjóðinni um þessar mundir og þeir mega ekki klikka. Ábyrgð þeirra er slík að frammistaðan getur skipt sköpum fyrir framtíð þjóðarinnar. Við megum ekki fljóta sofandi að feigðarósi - aftur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Mjög fínn pistill kærar þakkir.

Sorgarferlið  sjokk-reiði-dofi-sátt er líklega mislangt hjá einstaklingum.  Út úr pistli þínum má lesa að mjög margir eru e.t.v. komnir í dofann.  Vonandi helst þó góður slatti af málsmetandi gagnrýnisröddum, á reiðistiginu enn um sinn.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 16.5.2009 kl. 14:53

2 identicon

Enn og aftur kærar þakkir fyrir frábæran pistil og að standa vaktina og minna okkur almenning á, þú átt hrós skilið. 

Sammála að skil ekki þann doða sem nú ríkir í þjóðfélaginu, held jafnvel að við séum að vissu leyti enn í sjokk fasanum.  Fullt af fólki áttar sig enn ekki á hversu slæm staðan er, eða vill ekki átta sig á því.  Því að mínu mati höfum við ekki enn séð þá reiði sem óhjákvæmileg verður þegar fólk áttar sig í alvöru á stöðunni.  Næsta skref í ferlinu getur ekki verið sátt, til þess er of mikið búið að ganga á.  Það verður að gera þessi mál upp áður en sátt getur náðst, það mun taka langan tíma.

ASE (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 16:58

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Spillingin í bankakerfinu og víða annarsstaðar í þjóðfélaginu virðist ennþá vera leyfð.  Enginn hefur talað um reglubreytingar, lagabreytingar til að koma í veg fyrir næsta hrun. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 16.5.2009 kl. 18:07

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það er fullt af fólki í afneitun á stöðunni. Ég tala við það á hverjum degi.

Arinbjörn Kúld, 16.5.2009 kl. 18:35

5 identicon

Svona er sorgarferlið.

1. Denial – Refusing to believe what has happened, feeling shocked. “This can’t be happening.”
2. Anger – Accusing others, such as a supreme being or friends, for what has occurred. “How dare you let this happen!”
3. Bargaining – Asking the universe or a supreme being to “cut a deal” with you. “Just let me live to see my daughter get married.”
4. Depression – Experiencing listlessness or exhaustion combined with feelings of helplessness, guilt and lack of interest in life. “I might as well give up.”
5. Acceptance – Facing the loss and moving on, returning to setting goals in your life and focusing your energy more positively. “I’m ready to deal with this now.”

Almenningur er mismunandi stigum eftir því hvernig kreppan hefur komið við hann persónulega.  Ég vil samt meina að ótrúlega margir hafir aldrei farið af fyrsta stiginu og eru í fullkominni afneitun með þetta allt.  Hvernig fjármálakerfið virkar hérna hjálpar til því að Íslendingar eru vanir því að lifa á krít. Það hefur alltaf gengið upp á endanum en nú er svo komið að heimilinn munu ekki geta borgað þær skuldir sem er búið að koma þeim í, framundan er gjaldþrot í massavís.  Og þá fyrst held ég að margir muni fara á stig 2.

Þórður (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 20:14

6 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sammála Þórður, bloggaði um það eftir stutta páskaferð í mars til Íslands að það er klárlega enn til nokkuð stór hópur sem er "enn í afneitun, þoli ekki þessa neikvæðni".

Held samt að það sé huggun harmi gegn að ekki hitta allir sama áfallastigið samtímis, en allir eiga eftir að feta þetta ferli á komandi mánuðum.  Um það erum við pessimismar sammála.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 16.5.2009 kl. 21:12

7 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Best gæti ég trúað að það séu fleiri en ég sem eru langþreyttir, sérstaklega á því að þurfa að mótaka misvísandi upplýsingar um upphæðir sem enginn virðist vita hvað eru háar en eru alltaf svo háar að engin leið er að gera sér grein fyrir þeim.

Hitt sem þreytir mig er að mér sýnist að AGS ráði því sem hann vill og búið sé að svipta okkur sjálfræði í peningamálum, sem gerir allt starf að áætlunum um hvernig eigi að bregðast við illmögulegt.

Sem sagt enn eftir allan þennan tíma allt of mikil óvissa. Allt of mikil sundrung. Allt of mikil einstaklingshyggja og málhöfðanir hrannast upp og ástandið versnar á meðan.

Það þarf fólk eins og þig til að halda okkur við efnið og þegar við getum ekki meira er gott að vita að sumir eru seigari en aðrir.

Bestu þakkir.

Hólmfríður Pétursdóttir, 16.5.2009 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband