Æmt og skræmt í eldhúsinu

Aparnir þrírÞað er ekki oft að ég nenni að horfa og hlusta á eldhúsdagsumræður - sem ég held að heiti "Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra" á virðulegu þingmáli í messu með hálstau. En það gerði ég í gærkvöldi - frá upphafi til enda. Vaðallinn í sumum fór reyndar inn um annað og út um hitt og mér finnst ótrúlegt að hlusta á fáfengilegt röflið í fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem áttu stærstan þátt í að koma þjóðinni á hausinn. Þeir skjóta eiturörvum út og suður og kvarta sáran yfir að ekki sé búið að moka flórinn sem flokkarnir þeirra sáu um að dreifa í tonnavís í 12 til 18 ár. Eins og það sé hægt á örfáum vikum eða mánuðum.

Þessi tvískinnungur minnir óneitanlega á framferði auðjöfranna og furðulegt nöldrið í þeim um "þjóðnýtingu" og "ríkissósíalisma" eins og Egill bendir á hér. Bjarni Ben var líka fyrirsjáanlegur þegar hann eyddi mestöllum ræðutíma sínum í að tala máli kvótakónganna. Ekkert nýtt þar.

Sigmundur Davíð kom mér á óvart... og þó ekki. Framsókn er Framsókn hvort sem um er að ræða nýja vendi eða gamlar, úr sér gengnar og rispaðar plötur. Hann var fram úr hófi æstur og einkennilega ómálefnalegur miðað við efni og aðstæður. Ef marka má framgöngu og orð Bjarna og Sigmundar Davíðs er lítil von um að allir flokkar taki höndum saman og bjargi þjóðinni. Þeir ætla ekki að vera samvinnufúsir og Bjarni er harðákveðinn í að vernda kvótakóngana sína.

Ég vil annars leiðrétta leiðan misskilning sem víða veður uppi. Margir tala Austurvöllur 25. janúar 2009um að búsáhaldabyltingin hafi breytt öllu. Sagt er að allt hafi gerst 20. janúar fyrir framan Alþingishúsið og síðan fyrir utan Þjóðleikhúsið... var það ekki kvöldið eftir? Að þessir atburðir hafi valdið stjórnarslitunum. Þetta er röng söguskoðun. Frá því í byrjun október stóð Hörður Torfason á hverjum degi á Austurvelli og mótmælti. Þau mótmæli þróuðust síðan í laugardagsfundina sem héldu áfram viku eftir viku, mánuð eftir mánuð.

Hægt er að rekja sögu laugardagsfundanna á blogginu mínu, ég hef skrifað um þá velflesta, held ég. Þessi pistill er frá 17. október og þar furða ég mig á slakri mætingu og viðhorfi til mótmæla. Þennan skrifaði ég 3 dögum seinna og gagnrýni fjölmiðlaumfjöllun og talningu. Hér er pistill um 21. janúar, búsáhaldabyltinguna, og hér skrifa ég um laugardagsfundinn þar á eftir, þann 25. janúar, sem var líklega sá fjölmennasti fram að því.

Kjarni málsins er, að mótmælin byggðust upp og mögnuðust. Róuðust í jólamánuðinum en urðu síðan æ öflugri og náðu hámarki í lok janúar. Samt fannst mér aldrei nógu margir mæta og ég skildi ekki af hverju öll þjóðin kom ekki á Austurvöll. En Búsáhaldabyltingin, Kryddsíldarmótmælin á gamlársdag og Þjóðleikhúsmótmælin voru afleiðing, ekki orsök. Það má ekki gleyma laugardagsfundunum á Austurvelli og hlutverki þeirra - og Harðar Torfasonar - þegar talað er um byltinguna. Svo ekki sé minnst á alla frábæru Borgarafundina sem Gunnar Sigurðsson og félagar stóðu fyrir. Og það var ekki bara fólkið í Borgarahreyfingunni eða kjósendur hennar sem gerðu þessa byltingu. Hreyfingin getur ekki eignað sér hana þótt fólkið innan hennar hafi verið duglegt að mótmæla og tala á fundum. Á mótmæla- og borgarafundina mætti fólk úr flestum flokkum, ef ekki öllum. Ævareiðir Íslendingar sem fannst á sér brotið og kröfðust réttlætis. Sem við höfum reyndar ekki fengið ennþá. En við sem mættum og létum í okkur heyra eigum öll hlutdeild í búsáhaldabyltingunni - hvort sem við erum innan flokka eða utan, hægri-, vinstri- eða miðjusinnuð. Eða bara ópólitísk með öllu.

En hér eru eldhúsdagsumræðurnar - klippt eftir flokkum. Sumir æmta og skræmta, aðrir tala af skynsemi og yfirvegun. Dæmi hver fyrir sig.

Borgarahreyfingin

 

Vinstri hreyfingin - grænt framboð

 

Samfylkingin

 

Framsóknarflokkurinn

 

Sjálfstæðisflokkurinn

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk enn og aftur.  Ég er þer svo sammála.................og þarna stóðum við á Austurvelli alla laugardaga sem við gátum. Ég fór meira að segja fárveik því mér fannst þetta skipta svo miklu máli.

30BEDA55-B2D0-6370-817A-081F7BF5D664
1.02.28

Hólmdís Hjartardóttir, 19.5.2009 kl. 11:48

2 identicon

Sæl Lára Hanna,

Varðandi eftirfarandi orð þín:

„ég vil annars leiðrétta leiðan misskilning sem víða veður uppi. Margir tala um að búsáhaldabyltingin hafi breytt öllu. Sagt er að allt hafi gerst 20. janúar fyrir framan Alþingishúsið og síðan fyrir utan Þjóðleikhúsið... var það ekki kvöldið eftir?“

Þetta man ég frá þessu kvöldi: þegar ég kom í miðbæinn, (kvöldið sem samfylkingin? var með fund í þjóðleikhúsinu) voru flestir mótmælendur farnir upp að Þjóðleikhúsi til að mótmæla (á myndum frá kvöldinu er t.d. einn svartklæddur með fána eins og í frönsku byltingunni). Nokkrir urðu þó eftir og höfðu kveikt eld í ruslafötu við hliðina á alþingishúsinu. Þannig að best er að fá úr því skorið hvaða dag flokksfundur samfylkingarinnar var en þessi tvenn mótmæli áttu sér stað sama kvöldið.

Það rétt hjá þér Lára Hann, ekki má gera lítið úr framlagi Harðar Torfasonar á Austurvelli. Einnig var hann á sínum tíma fyrir utan Seðlabankann. Sjálf hefur þú Lára Hanna opnað nýjar víddir í fréttaflutningi. Reyndar var það svo að þitt blogg var oft eini vettvangurinn þar sem maður gat DAGLEGA fengið yfirsýn yfir það sem var að gerast. Þú rifjaðir líka upp ýmsa hluti fyrir okkur sem aðrir miðlar létu kyrrt liggja. Hinir miðlarnir voru oft áhugaverðir vegna þess sem þeir þögðu yfir eins og Ómar Ragnarson benti á í Silfri Egils. Það er löngu kominn tími til að þú fáir fálkaorðuna fyrir að hafa staðið vaktina meðan aðrir reyndu að láta mótmæli líta út fyrir að vera grunsamlegt athæfi, stunduð aðeins af utangarðsfólki.

Ekki eru öll kurl komin til grafar í því sem gerðist, þó forsprakkar þeirra sem hygluðu örfáum og tróðu á fjöldanum og mismunuðu eins og þeir gátu leggist nú allir á eitt til að fela slóð sína. Auk þess er nú sjálfstæðisflokkurinn farinn í sína hefðbundnu kosningarbaráttu. Hún fer ætíð fram á milli kosninga. Þar nota þeir fjölmiðla til að koma á ósáttum milli fólks og gera framkvæmdir þess grunsamlegar í augum almennings.Oft var þörf en nú er nauðsyn að veita þeim aðhald. Bláa krumlan er kannski svolítið skorpin þessa dagana en hún seilist samt ennþá eftir völdum hér í landi. Það sem er sorglegast er að þrátt fyrir allt fer lítið fyrir gagnrýni á fréttaflutning á Íslandi. Hversu margir treysta ekki fréttastofu ríkisútvarpsins??? Hvað þarf eiginlega að gerast til að fólk átti sig á því að gagnrýni er það aðhald sem skorti og því fór sem fór.

Ætlum við Íslendingar að halda áfram að vera bláeygð þjóð sem horfir bara á júróvisjón og er alltaf sammála síðasta ræðumanni? í hvernig landi viljum við búa? Það nægir ekki að stjórnin reyni að breyta stjórnarháttum ef almenningur fylgir ekki eftir. Ef almenningur lætur forréttindahópa æsa sig upp af því að vinstra liðið er ekki búið að redda málunum 'í gær'. Það þarf almenna hugarfarsbreytingu hér í landi til að hlutirnir breytist. Við sem þjóð þurfum að rísa upp á afturlappirnar og sýna hvað í okkur býr. Kreppan er verkefnið sem hægristjórn færði okkur á silfurfati sem hún var búin að tæma allar kræsingarnar af. Tími skurðagoðanna er liðinn. Nú eru það Jón og Gunna sem munu ráða úrslitunum í því hvernig fer fyrir landi okkar. Látum ekki þetta tækifæri til að skapa mannvænlegt samfélag ganga okkur úr greipum! Sýnum aðhald hægri, vinstri og tökum til í eigin hugarskotum.

Réttlæti fyrir Alla!!

Takk kærlega fyrir þitt framlag Lára Hanna.

Ragnheiður (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 13:55

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þessi málflutningur Borgarahreyfingannar fór ekki vel í mig, þó að öðru leyti hafi ég getað tekið undir flest.

Mér fannst þau standa sig vel en eins og þú er ég gjörsamlega ósammála því að Búsáhaldabyltingin sé þeirra.

Málið er að aðdragandinn var langur.  Byggðist upp frá því í október.

Þjóðin á þessa byltingu, fók kom utan að landi til að taka þátt.

Ég veit um konur sem tóku rútu til og frá heimilum sínum á Suðurlandi.

Ég er eiginlega í nettu sjokki eftir málflutning BB (þá er ég ekki bara að tala um varnarræðu kvótakóngana) með dulbúna hótun um málþóf í ESB málinu, þar sem hann talar um að málið muni hljóta þinglega meðferð (eins og það sé ekki nokkuð ljóst og óþarfi að taka fram).  Þetta tók hann líka sérstaklega fram þegar stjórnarskrárbreytingin komst á dagskrá.  Við vitum hvernig fór.

Sigmundur Davíð: Úff.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.5.2009 kl. 15:24

4 identicon

Takk fyrir bloggið þitt Lára Hanna.

Það verður merkilegt að lesa annála um þessa viðburði þegar frá líður. Ég vona að þú takir afrit af blogginu þínu á reglulegum fresti. Það væri mikill missir ef það "týndist" einn daginn af óviðráðanlegum tæknilegum orsökum.

Annað : Það er mér persónulega óskiljanlegt að landsmenn allir séu ekki mættir um þessar mundir á Austurvöll eða Arnarhól að krefja stjórnvöld tilhlýtandi og óhrekjanleg rök fyrir vaxtastiginu sem hér ríkir - á mannamáli sem allir geta skilið.

Getur verið að raunveruleg ástæða fyrir vaxtastiginu þoli ekki dagsins ljós?

Greppur Torfason (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 15:33

5 identicon

"Og það var ekki bara fólkið í Borgarahreyfingunni eða kjósendur hennar sem gerðu þessa byltingu. Hreyfingin getur ekki eignað sér hana þótt fólkið innan hennar hafi verið duglegt að mótmæla og tala á fundum."

Þetta er alveg rétt hjá þér Lára Hanna. Ég veit líka að fólkið í Borgarahreyfingunni vill ekki eigna sér byltinguna. Alls ekki. En Borgarahreyfingin vill vera talsmaður þeirra sjónarmiða sem komu fram á Austurvelli og á borgarafundunum. Talsmenn gagngerra breytinga á íslensku samfélagi.

Sjálf ert þú byltingarhetja :) Það er HörðurTorfason líka. Enginn hefði gert þetta betur en hann. Þvílíkt happ.

P. S.

Mér fannst Margrét Tryggvadóttir flytja eina bestu ræðuna í gær. Þó fékk ég ekki botn í það sem hún sagði um skemmdarverk og ofbeldi. Sjálfur horfði ég með ánægju á sjónvarpskaplana brenna í sundur á gamlársdag. Mér fannst þjóðþrifaverk að segja ráðamönnum að halda sér saman í stað þess að hlust á þá ropandi og rausandi í kryddsíld Stöðvar 2 eins og ekkert óvanalegt hefði gerst. Eins og þau bæru enga ábyrgð á þessu.

Fólk hneykslast á því sem það nær utanum, eins og brotna rúðu upp í Fjármálaeftirliti og fimm ónýta sjónvarpskapla. Efnahagshrun, risavaxið skemmdarverk er erfiðara að grípa.

Rómverji (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 15:50

6 identicon

Lara Hanna.

Eg thakka kaerlega fyrir thetta, eins og alltaf, goda framlag.

Eg helt ad numer 1 sem tharf ad gera er ad afnema visitolutryggingu a ollum husnaedislanum.

Og svo af afnema kvotakerfid.

En ekkert er gert og ekkert er sagt, ju borgaraflokkurinn taladi best, en hinir, ad minum domi, toludu

bara eins og venjulegir stjornmalamenn, semsagt ekkert nema bull.

Thessir 2 flokkar sem nu eru i stjornar andstodu, virdast ekkert vita hvad thodin vill, eg veit ekki ur hvada heimi their koma.

Islendingur (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 16:03

7 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Eftir stefnuræðu Jóhönnu í gærkvöldi, byrjaði ég að horfa á Bjarna Ben....... en fékk nóg eftir 2 mínútur.  Neikvæðni, niðurrif og leiðindi.   Rétt eins og hann og hans flokkur séu saklaus fjallalömb í hringiðu atburðanna. 

Ef ég brenni hús móður minnar og verð svo brjáluð út í þá sem eru að byggja að nýju fyrir að vera ekki fljótari og gera það ekki öðruvísi osfrv., mætti ég þá ekki skammast mín ?   Maður spyr sig !

Sjálfstæðisflokkurinn breytist aldrei en mér finnst að sumir þeirra mættu skammast sín og það vel og lengi.

Anna Einarsdóttir, 19.5.2009 kl. 16:14

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég segi eins og Rómverji að ég held að Borgarahreyfingin vilji ekki eigna sér Búsáhaldabyltinguna eða önnur mótmæli ein og sér en vissulega varð hún til í jarðvegi þeirra. Miðað við jómfrúarræður þeirra þriggja sem töluðu í gær munu þau standa vörð um þær kröfur sem ég stóð a.m.k. fyrir í þessum mótmælum.

Mér finnst full ástæða til að minna á þátt Harðar Torfasonar og margra bloggara sem voru miklu duglegri en fjölmiðlarnir í að upplýsa þjóðina um gang mótmælanna og borgarafundanna. Að öðrum ólöstuðum fannst mér þú standa þig frábærlega þar og stendur þig enn. Mér finnst bloggið þitt í raun ómetanlegt!

Annað sem mig langar til að nota tækifærið og benda vel og rækilega á er að mótmæli og borgarafundir voru haldin víðar en í Reykjavík. Ég vona að allir séu sammála um að mótmælin fyrir norðan, vestan og austan hafi ekki síður skipt máli en þau sem fóru fram á Austurvelli og að borgarafundirnir á Akureyri hafi ekki síður átt þátt í að viðhalda meðvitund fólks en þeir sem voru haldnir í Iðnó eða Háskólabíói.

Ég myndi líka vilja vilja minnast á Hagsmunasamtök heimilanna og talsmann neytenda sem hafa hvergi dregið af sér við að vekja athygli á ósanngirninni í þeirri þróun sem hefur orðið í lánamálum almennra lántakenda.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.5.2009 kl. 18:21

9 Smámynd: Baldvin Jónsson

Hilmar, mjög mörg okkar í forystusveit Borgarahreyfingarinnar stóðum vaktina í mótmælum vetrarins og erum afar stolt af því að hafa tekið þátt.

Það er hins vegar mikill misskilningur að ætla að við séum einhversstaðar að eigna okkur byltinguna, þó að við höfum vissulega verið þáttakendur. Áherslur þingmannanna minna í sínum ræðum voru á þá staðreynd að þingmenn Borgarahreyfingarinnar ætla sér að vera þjónar fólksins á Alþingi og mér fannst þau minna kröftuglega á það í sínum ræðum.

Flott byrjun - mjög flott.

Tek undir með þér Hilmar hins vegar með það, að það var heldur ekki mín krafa í mótmælum að koma á nýrri ríkisstjórn. Mín krafa, þín að virðist og fjölda fólks, var að koma hér á utanþingsstjórn skipaða sérfræðingum. Þar hefði ég viljað sjá sérfræðinga í krísustjórnun og fjármálastjórnun á meðal æðstu stjórnenda. Það hefði til dæmis líklega sparað okkur þessa rúmu 1.000 milljarða sem að ákvarðanir Seðlabankastjóranna kostuðu okkur á síðustu starfsdgum þeirra.

Baldvin Jónsson, 20.5.2009 kl. 01:44

10 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Ég hef aldrei - hvorki í orði né á borði eignað mér þessi mótmæli sem urðu til sögulegrar afsagnar - hef einmitt bloggað um það og rætt um það hve frábært það var að í mótmælunum sem stigmögnuðust var með sanni þverskurður þjóðarinnar. Ég ásamt fleirum sem síðar ákváðum að taka þátt í að stofna Borgarahreyfinguna komum fyrst saman í endaðan október til að vinna að hugmyndum um neyðarstjórn/utanþingstjórn. Ekkert okkar hafi áhuga á þingstörfum - við vildum sjá, eins og Baldvin segir hér að ofan, stjórn skipaða sérfræðingum sem gætu unnið að því að fyrirbyggja meira hrun og vinna úr þeirri kreppu sem við blasti. Við unnum einnig heilmikla hugmyndavinnu varðandi beint lýðræði sem og neyðarráðstafanir til að hjálpa heimilunum í landinu. Þegar vanhæfa stjórnin féll saman og hrökklaðist frá var ljóst að það yrði að hugsa hlutina upp á nýtt og veita þeim sem á valdastólum myndu sitja stíft aðhald varðandi þær lýðræðisumbætur sem yrðu að verða að veruleika innan veggja þingsins sem utan.

Þó Borgarahreyfingin sé sprottin úr grasrótinni sem var að vinna að lausnum þegar fólkið sem þá fundi sóttu víðsvegar um landið - þá er það fjarri lagi að eitthvert okkar sé að tileinka okkur hana sem okkar verk eða að við séum talsmenn allra sem mótmæltu eða sóttu fundi víðsvegar um landið. Þetta er einhver misskilningur sem mér finnst rétt að leiðrétta hér og nú:) 

Birgitta Jónsdóttir, 20.5.2009 kl. 09:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband