24.5.2009
Spilling og mútur
Fyrir kosningar logaði þjóðfélagið vegna upplýsinga um styrki til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Ekki vannst tími fyrir kosningar til að klára þá umræðu og fá botn í styrkjamálin sem vel má flokka sem spillingu og mútur. Við gengum til kosninga án þess að vita fyrir víst hvaða einstaklingar eða flokkar höfðu gerst sekir um að þiggja mútur, hve háar og hvert endurgjaldið var. Mig langar að beina þeim tilmælum til fjölmiðla að taka þessi mál upp aftur og upplýsa það sem á vantaði. Hér er sýnishorn af þeirri umræðu.
Svo hrökk ég við þegar upplýst var um kjör þingmanna fyrir nokkrum dögum. Það sem stakk mig einna mest við ljómandi góða og vel fram setta úttekt Ingólfs Bjarna í fréttum RÚV á kjörum þingmanna var þetta: Þingmenn geta látið Alþingi endurgreiða sér styrki til stjórnmálaflokka. Semsagt - ef t.d. Birgir Ármannsson vill gefa Sjálfstæðisflokknum 100.000 krónur þrisvar á ári, Árni Þór Sigurðsson Vinstri grænum, Kristján Möller Samfylkingu, Birkir Jón Framsóknarflokknum eða Þráinn Bertels Borgarahreyfingunni - þá geta þeir rukkað Alþingi um peningana. Það þýðir einfaldlega að við, skattborgarar, erum látin borga göfuglyndi þingmanna í garð flokkanna sinna. Ef hver einasti þingmaður gefur flokknum sínum t.d. 100.000 krónur á ári gera það 6,3 milljónir úr vasa almennings. Hvað í fjáranum á þetta eiginlega að þýða? Hvað erum við búin að borga háar fjárhæðir til flokkanna samkvæmt þessari Fjallabaksleið? Misskil ég eitthvað hérna? Horfið á fréttina og segið mér endilega að þetta sé rangur skilningur hjá mér.
En kannski var þessi frétt bara árás RÚV - og nú mín - á þingmenn. Það myndi Gunnar Birgisson segja. Allar fréttir um vafasama eða undarlega stjórnunarhætti hans eru árás vinstri manna og fjölmiðla á hann persónulega - og nú dóttur hans. Enda gengur Gunnar á Guðs vegum... ja, eða alltént nafna síns í Krossinum sem styður hann heilshugar í umboði almættisins. Hverjir handhafar sannleikans í heiminum eru hefur alltaf verið umdeilt - og verður um ókomna tíð.
Hitt er svo annað mál að umburðarlyndi þjóðarinnar gagnvart spillingu er að þverra mjög hratt. Í byrjun maí birti Capacent Gallup niðurstöðu úr nýjum Þjóðarpúlsi og þá hafði spillingarbarómeter íslensku þjóðarinnar breyst verulega - og ekki var nú vanþörf á. Munið þið eftir þessu?
Í Krossgötum Hjálmars Sveinssonar í gær var mjög fróðleg umfjöllun um spillingu og mútur. Hjálmar ræddi við Gunnar Helga Kristinsson, stjórnmálafræðing, og Nönnu Helgu Valfells sem skrifaði nýlega BA ritgerð með titlinum Fjárreiður stjórnmálaflokka, spilling, hagsmunir, lög. Í formála vitnar Hjálmar í ummæli úr ritgerðinni sem höfð eru eftir brasilískum hugsuði sem sagði: "Spilling er aldrei verk eins einstaklings. Hún felur alltaf í sér hóp af fólki sem er tengt saman með einni grundvallarreglu - að skiptast á greiðum. Þessi sameinaða spilling er byggð á hefðbundnu siðgæði, vel treystum vináttuböndum og tækifærum sem gefast. Það verður til þess að glæpir geta átt sér stað án refsingar. Aðaleinkenni hennar er óþolandi hroki."
Eflsaust dettur mörgum ýmsir og ýmislegt í hug við lestur þessarar litlu tilvitnunar. Því öll þekkjum við opinber og óopinber dæmi um spillingu á Íslandi. Við höfum verið furðanlega umburðarlynd - en ekki lengur. Ég hengi þennan athyglisverða kafla úr Krossgötum neðst í færsluna. Hlustið vel.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 2.6.2009 kl. 19:04 | Facebook
Athugasemdir
Innlitskvitt og kveðjur....:)
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 24.5.2009 kl. 13:30
Ótrúlegt!!!Vona að alþingismennirnir verði ekki of"gjafmildir" á kostnað minn. Svona glufur verður að lagfæra.
Svo verður að auka eftirlit með lífeyrissjóðum, held að það sé og hafi verið lítið sem ekkert. Mér skilst (skv. góðum heimildum) að hægt sé að gambla með féð í eigin þágu, ef maður er nógu háttsettur og siðblindur, og skila svo höfuðstólnum ósnertum, líta á það sem "ekki þjófnað" en græða vel í eigin þágu ...
Hef séð þá hugmynd víða að við förum írsku leiðina, tökum lán hjá lífeyrissjóðunum, ef það er einhver peningur eftir, og gleymum AGS. Ég treysti ríkinu vel fyrir lífeyri mínum og held að það myndi spara mjög mikið í launum og sporslum ef ríkið tæki lífeyrissjóðina hreinlega yfir.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.5.2009 kl. 13:54
flott takk fyrir kveðja óli
Ólafur Th Skúlason, 24.5.2009 kl. 14:06
Mér finnst alltaf dálítið kostulegt að allir þeir sem ásaka sjálfstæðismenn um spillingu eru alltaf kommar og vinnstri menn. Einmitt vegna slíkra fullyrðinga og ómálefnalegra tilsvara- kýs bróðir minn sér aldrei að merkja við Sjálfstæðisflokkinn þó að hann sé hægri maður.
Þó svo að mér þykir Guðlaugur á sinn hátt ottalega grunnhygginn nýfrjálshyggjuvitleysingur með ekkert nema með froðu á milli eyrnanna og dollarastjörnur í augunum- er ég á þeirri skoðun að hann hafi ekki beinlínis þegið mútur heldur hafi verið um styrk að ræða. Þessir styrkir voru siðlausir en það er allt annað mál. Hitt er að þeir sem styrktu hann völdu að sjálfsögðu Guðlaug þ- því hann talaði fyrir þeirra máli inni á alþingi - eins og t.d einkavæðing í heilbrigðisgeiranum- . í raun var miklu frekar það valdakerfi sem við búum við hafi verið spillt frekar en Guðlaugur endilega. Þá á ég við að ... t.d með frjálsum fjárveitingum til flokka gafst þeim samfélagsöflum sem voru peningalega sterkari - hægari kostur að velja sína fulltrúa inn á alþingi.
Brynjar Jóhannsson, 24.5.2009 kl. 14:13
ef menn veita styrki ætlast þeir ÖRUGGLEGA eftir greiða á móti og þá er að sjálfsögðu orðið um mútur að ræða hvernig sem á málið er litið,en hér virðist eiga að beita gömlum brögðum að þegja allt svona í hel og viðhalda svo hinu klassíska status quo...
zappa (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 14:43
Er búið að fjölga þingmönnunum í 630? Það er nú ofrausn hjá lítilli þjóð. 63 x 100.000 = 6,3 milljónir.
beggi dot com (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 16:01
Auðvitað átti þetta að vera 6,3 milljónir, beggi dot com. Gleymdi kommunni. Takk fyrir að benda á þetta, búin að leiðrétta.
Lára Hanna Einarsdóttir, 24.5.2009 kl. 16:07
er forviða
Hólmdís Hjartardóttir, 24.5.2009 kl. 17:16
Hvers vegna greiðir Alþingi formönnum stjórnmálaflokka 50% álagningu á þingfararkaup? Fá þeir ekki greitt fyrir störf sín í þágu flokkanna frá flokkunum sjálfum? Bara pæling ...
Kári (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 18:37
.. núna er Óli í samskip blásaklaus...
Óskar Þorkelsson, 24.5.2009 kl. 19:45
Þetta er einmitt líka athyglis- og ámælisvert, Kári. Flokkarnir eiga sjálfir að borga formönnum sínum álag ef með þarf, ekki skattgreiðendur.
Lára Hanna Einarsdóttir, 24.5.2009 kl. 19:53
Er ekki rétt að málið verði kannað ofan í kjölinn og fundið út hverslags endurgreiðslur er hér um að ræða og í hvaða mæli þetta er. Ekki gefa í skyn. Það býr til fullyrðingar.
Endilega klára þessa umræðu og fá þetta upp á borðið. Það væri kannski hægt að spyrjast fyrir á skrifstofu alþingis hvort útgjöld vegna flokkanna séu endurgreidd af alþingi.
Hæpið samt að ég treysti fjölmiðlum til þess. Þeirra hlutverk sýnist mér í dag að búa til fréttir en ekki segja frá. Mesta lagi hálfsannleika til að láta þjóðina geta í eyðurnar sem fær þó ekki alltaf með rétta niðurstöðu.
Án þess að ég sé sérstaklega að bera blak af þingmönnum sem slíkum en af hverju er það krafa svo margra að þeir eigi að vera illa launaðir.
Margir sem sjá ofsjónum yfir launum kjörinna fulltrúa okkar eru sumir hverjir mun betur launaðir. Til dæmis álitsgjafar og bloggarar.
Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 23:12
Já skrítið hvernig áhuginn á svona málefnum virðist bara gufa upp á nokkrum vikum. Þarna eru fullt af spurningum sem er ósvarað eins og t.d. hvernig lítur bókhald Sjálfstæðisflokksins út fyrir árið 2003 þegar einkavinavæðingin fór fram?
Valsól (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 23:18
Nú hef ég ekki verið að fylgjast mjög náið með umræðunni um fjármál stjórnmálaflokkanna. Hvernig er það, var búið að endurgreiða ofurstyrkina sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk á sínum tíma eins og þeir töluðu um að gera?
Kjartan Pétur Sigurðsson, 25.5.2009 kl. 10:26
Einmitt, á ekki að fylgja því eftir að Sjálfstæðisflokkurinn endurgreiði þessar 55 milljónir?
Kári (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 17:27
Hmm já hvað varð um alla þessa umræðu?
Arinbjörn Kúld, 26.5.2009 kl. 03:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.