Örvænting, örþrifaráð og fórnarlömb græðgi

"Ég er óttaslegin. Það er ekki langt í að ég verði skelfingu lostin. Ekki aðeins vegna óvissrar framtíðar, bæði fjárhagslegrar og annars konar, heldur einnig vegna ókyrrðarinnar, undirtónsins í samfélaginu, undiröldunnar... ...Örvæntingin er skelfileg. Hvað tekur fólk til bragðs sem hefur engu að tapa lengur?"

Þetta skrifaði ég meðal annars í bréfi til allra þingmanna og ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir aðeins 9 dögum. Mig grunaði ekki að svo stuttur tími liði þar til fólk færi að grípa til örþrifaráða. Þessi maður lagði húsið sitt í rúst til að tjá örvæntingu sína og vekja athygli á hvernig farið er með varnarlausar fjölskyldur sem lentu í klónum á siðlausum bankamönnum. Hann, og við öll reyndar, er fórnarlamb græðgi banka- og auðmanna. Hvað tekur sá næsti til bragðs? En þarnæsti... og svo koll af kolli? Ástand og aðstæður þessa manns eru ekkert einsdæmi og táknrænt að láta til skarar skríða á sjálfan þjóðhátíðardaginn þegar Íslendingar halda upp á sjálfstæði þjóðarinnar.

Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 17. júní 2009

 

Í tilefni þessa atviks og umræðunnar um "einkalífeyrissjóð" Sigurjóns Þ. Árnasonar gróf ég upp viðtal við hann í Mannamáli frá 10. febrúar 2008. Þá var farið að þrengja að bönkum. Millibankalán urðu illfáanleg um mitt ár 2007 og lausafjárstaða versnaði. Hálfum öðrum mánuði eftir að þetta viðtal birtist, eða 29. mars 2008, stofnaði Sigurjón Icesave í Hollandi. Græðgi hans voru engin takmörk sett. Takið enda sérstaklega eftir orðum hans um græðgi í viðtalinu.

Mannamál 10. febrúar 2008

 

Hér segir Einar Kárason sögur úr gróðærinu og hvernig bankarnir fóru með spariféð sem þeir ryksuguðu til sín bæði hér heima og erlendis. 

Mannamál 9. nóvember 2008

 

Og hér segir Einar söguna af sölu Íslenskra aðalverktaka, hæstaréttardómnum og sinnuleysi ráðamanna sem frömdu lögbrot og ypptu bara öxlum. Hefði hæstaréttardómur verið hunsaður svona gjörsamlega annars staðar í heiminum? Maður spyr sig...

Mannamál 18. maí 2008

 

Margir hafa furðað sig á því í gegnum tíðina hvernig gat staðið á því að Transparency International mældi alltaf svona litla spillingu á Íslandi. Ísland var gjarnan í fyrsta sæti lista yfir MINNST spilltu ríki veraldar. En við vissum mætavel að spilling var hér meiri en víðast hvar. Við hlógum að þessu og botnuðum ekkert í þessum mælingum.

Stundum, þegar verið er að mæla eitthvað, er það svo lítið að það mælist bara alls ekki. Getur verið að spillingin á Íslandi hafi verið svo gríðarleg að mælingarskalarnir náðu ekki utan um hana? Svo geigvænleg að hún mældist bara alls ekki? Maður spyr sig...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi maður hefur verið mjög örvæntingarfullur svo ekki sé tekið sterkt til orða.

En hann er einnig hugaður. Menn munu grípa til örþrifaráða við þessar aðstæður. Við eigum eftir að sjá fleiri svona fréttir. En vitið þið til á morgun verða fréttirnar varnaðarfréttir frá bönkunum og þessum manni verður fórnað til að vara aðra við.

Þórður Möller (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 22:50

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Einhverjir eiga kannski eftir að fremja sjálfsvíg í þessum sömu aðstæðum. Það mun ekki fara hátt en er enn sorglegra. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.6.2009 kl. 23:12

3 Smámynd: Offari

Ég verð að segja það ég hef áhyggjur af þessu.

Offari, 17.6.2009 kl. 23:15

4 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Ég hef pirrað mig á þessu í vetur. Spillingin og mæling hennar.

Eldri pistlar mínir - Mér fallast hendur og Spilling á Íslandi

Sigurður Ingi Jónsson, 17.6.2009 kl. 23:16

5 identicon

Það er ekki að ástæðulausu að Eva Joly er komin hingað. 

Nýr hópur á Facebook:  SAMEINUMST UM KRÖFUR EVU JOLY!! HRUNIÐ ER ÓLÖGLEGT MUNA ÞAÐ! Í SÓKN NÚNA!!

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 23:24

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þetta er fyrsti stóri bresturinn í samfélagssáttmálanum. Ég óttast framhaldið.

Arinbjörn Kúld, 17.6.2009 kl. 23:49

7 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Ég er alveg hræðilega hrædd núna eftir að hafa séð að í samningunum er ákvæði um að ganga megi að öllum eignum ríkisins ef við getum ekki borgað.  Fallvötn landsins, fiskurinn í sjónum, gufan í jörðinni, allt, ef við getum ekki staðið við afborganir eftir þessi 7 ár.

Hvenær er mæting á Austurvöll á morgun.  Við megum ekki ganga að þessu, getum ekki gengið að þessu!  Þetta eru púra landráð!

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 17.6.2009 kl. 23:56

8 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Miðað við sjúkdómsgreiningar Sigurjóns Árnasonar á ísl. fjármálakerfi í febrúar 2008 hefur sjúklingurinn (fjarmálakerfið) fengið fatal hjartaáfall í september sama ár

Lára Hanna þú sýnir okkur á hverjum degi hvað ísl. fréttamenn standa sig illa.....og við veltum fyrir okkur af hverju það er.

Takk fyrir mig.

Sigrún Jónsdóttir, 18.6.2009 kl. 00:07

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég veit ekki hvort er skelfilegra þegar maður horfir á SER og Sigurjón, slefpólitíkina í spyrlinum eða mikilmennskubrjálæði bankamannsins.

Er það nema von að þetta hafi getað gengið svona langt.

Fréttamenn fengu raðfullnægingar af hrifiningu og gagnrýndu aldrei, leituðu ekki svara heldur ýttu undir ruglið og ósómann.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.6.2009 kl. 00:15

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður Þór Guðjónsson, hver segir að einhverjir hafi ekki þegar framið sjálfsvíg í þessari stöðu á undanförnum mánuðum?

Marinó G. Njálsson, 18.6.2009 kl. 00:49

11 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þegar ég sá fréttina um manninn sem reif húsið og gróf bílinn, hugsaði ég hverju hefur þessi maður að tapa?  Engu, allt hans kannski ævistarf var tekið af honum.  Ég hefði viljað sjá hvaða lán hann tók, og hvernig þau þróuðust.  Hver lánaði honum og hvernig mánaðargreiðslurnar urðu honum ofviða að borga.  Ég vona að hann segi sína sögu fljótlega.  Mér finnst maðurinn vera hetja.  Hvunndagshetja. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.6.2009 kl. 02:24

12 Smámynd: Héðinn Björnsson

Við þurfum að styðja við manninn þegar að bankarnir fara að senda hann fyrir dómstóla. Það bendir margt til að þetta verði eini maðurnn sem fær dóm eftir íslenska efnahagshrunið.

Héðinn Björnsson, 18.6.2009 kl. 02:57

13 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Frábær pistill hjá þér Lára Hanna. Mér fannst fróðlegt að sjá viðtalið við Sigurjón sem var tekið í feb 2008. Ég fór að hugleiða, ég horfði á fréttir í sjónvarpinu á þessum tímum það var talað um milljarða á milljarða ofan varðandi viðskipti þessa útrásarglæpamanna og einhvernveginn var ég eins og fleiri hætt að hlusta eða heyrði ekki. Síðan fór ég að fletta í færslum hjá þér frá þessu tímabili og þær voru flestar um umhverfismál (leiðréttu mig ef rangt er). Ég er ekki að deila á þig, alls ekki en það sem ég er að reyna að segja er vorum við bara ekki öll þjóðin dofin fyrir þessum glæpamönnum?

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 18.6.2009 kl. 03:09

14 Smámynd: Gunnar

Sendu bréf á þingmenn um IceSave: http://kjosa.is/

Gunnar, 18.6.2009 kl. 03:24

15 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Reiðin síður orðið í mér, ég er ekki venjulega orðljót, en núna get ég ekki haldið aftur að mér lengur. Það á að handtaka þessa útrásavíkinga, gera eignir þeirra upptækar ( ALLAR INNANLANDS OG UTAN ) síðan á að taka af þeim ríkisborgararéttinn og senda þá úr landi, og þeir eiga ekki að geta komið til landsins aftur, það er örugglega hægt að finna einhverja eyðieyju undan ströndum Rússlands til að planta þeim á, þessir aumingjar eiga ekki að eiga rétt á einu eða neinu, viðurstyggilega græðgislið.

Þetta fólk sem er farið að örvænta og eyðileggja eignir til að vekja athygli á sér, það er bara hræðilegt, hvernig stendur á því að bankarnir taka ekki ábyrgð á misstökum sem þeir hafa gert, jú, sjáum til, það er viðurkennt nú þegar að þeir gerðu misstök, þeir lánuðu fólki út og suður, það var engin sem neiti bankana að lána fólki, þeir samþykktu lán til fólks, og þá spyr ég af hverju hafa bankar ekki leiðrétt þessi mistök og aðstoða fólk út úr þessum ógöngum sem þeir komu fólki í. þetta á sérstaklega við um erlendu lánin sem bankarnir hvötu fólk frekar til að taka, það veit ég frá fyrstu hendi því ég var hvöt til þess að taka frekar lán í erlendri minnt, þegar ég sóti um lán fyrir 2. árum, ég féll bara ekki fyrir því, sem betur fer. Það sem bankarnir eru að gera í dag er bara gálgafrestur ekki leiðrétting.

Sigurveig Eysteins, 18.6.2009 kl. 03:26

16 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er svo margt sem mig langar til að segja en í raun er þetta bara algjört ógeð! Ég get ekki lýst því hvað ég finn til með þeirri örvæntingu sem fékk manninn til að fara svona með fyrrverandi eigur sínar en í raun get ég ekki annað en skilið hann. Mikið væri gott ef stjórnvöld áttuðu sig á því að nú bara verða þau að snúa við blaðinu og standa með almenningi gegn spillingasvínunum sem leiddu þessa óhæfu yfir þjóðina!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.6.2009 kl. 06:05

17 identicon

Í ljósi þess sem hefur komið í ljós eftir þetta viðtal við Sigurjón er þetta sem hann segir þarna, mesti öfugmælavaðall sem ég hef nokkurn tíma heyrt.

Síðan er það spurning hvaða áhrif það hefur á þjóðarbúið ef fleiri/mjög margir, fara að dæmi mannsins á Álftanesi, að tortíma verðmætum á þennan hátt.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 07:03

18 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þessi "niðurrifs"maður gæti orðið tákn og jafnvel hetja. En gáum þó að einu - áður en kjarkur hans er lofaður um of væri ágætt að fá söguna ögn fyllri. Því kannski fór hann sér óðslega og reisti sér hurðarás algerlega um öxl. Kannski átti hann hálfa sökina á móti græðgis-banka sínum.

Það hefur fullt af fólki tapað á Hruninu - sumt af því vegna eigin ofur-áhættu og græðgi. Vonandi ekki þessi maður - því okkur veitir ekki af kjörkuðum hetjum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 18.6.2009 kl. 08:46

19 identicon

Godann daginn Lara Hanna.

Bestu thakkir fyrir gott blogg, eins og alltaf hja ther.

Lestu emailid thitt hja centrum.is

Bestu kvedjur

Islendingur (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 09:44

20 identicon

Dagblöðin eru farin að  gagnrýna Evu Joly.Lögfræðingar frægir fyrir að vera tengdir við spillingaröflin eru farnir að hrauna yfir Evu Joly.Bankarnir gerðu sig seka um að lána akveðnum mönnum hentuleikalán eftir hrun. Hér er allt að fara til fjandans og stjórnvöld gera ekki neitt. Takk fyrir bloggin þín Lára mín.Þau eru það eina sem halda voninni í Íslendingum.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 11:53

21 Smámynd: Finnur Bárðarson

Ég held að þjóðin sé komin að þanmörkum

Finnur Bárðarson, 18.6.2009 kl. 14:44

22 identicon

Aldrei þessu vant finnst mér Friðrik Þór hafa mikilvægan punkt: Það fjallar um ábyrgð manns á eigin lífi. Það er gefið mál að bankar og ýmis önnur fyrirtæki í eigu fjárglæframanna hafa stundað glæpsamleg viðskipti og hvatt fólk meðal annars til að taka ótrúlega heimskuleg lán í erlendri mynt, en ég held samt að þessi íslenski hugsunarháttur "þetta reddast" hafi allt of lengi riðið húsum hjá þjóðinni - og hreinlega komið í veg fyrir að fólk hafi tekið ábyrgð, bæði fjárhagslega og að öðru leyti. Ég hef aldrei átt neitt, skuldaði íbúð um tíma, en var svo heppin að selja fyrir langalöngu, án taps og án gróða. Ég man vel að mér fannst lífið þungt á Íslandi (þetta var á níunda og tíunda áratug síðustu aldar), og ég gat aldrei sparað eða safnað neinu, því þó ég væri í fullri vinnu (hjá ríkinu) dugði það naumast fyrir býnustu nauðsynjum. Ég veit aðeins meira um fjármál og stjórnmál nú en þá, og geri mér núna grein fyrir því hvað mikið vantaði uppá að stjórnvöld ynnu í þágu almennings í landinu. Þeim var heldur ekki veitt neitt aðhald, heldur var Flokkurinn kosinn aftur og aftur, gagnrýnislaust. Það er líka með eindæmum að upplýsingar um Evrópusambandið hafi aldrei legið á lausu á Íslandi. Það er sagt að Norðmenn séu þeir sem viti almennt mest um það samband - og eru ekki með! Það verður að leyfa Evu Joly að vinna sitt verk, að ná fram einhverju réttlæti, en fólk verður líka að taka ábyrgð á eigin lífi og ákvörðunum.

Ragnheiður Ólafs. (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 16:36

23 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Gott blogg hjá þér eins og vanalega. Ég verð að taka undir með Friðriki og Ragnheiði að kannski hafi maðurinn ekki verið alsaklaus. Í fréttum kom fram að hann hefði verið kominn í þrot áður en bankahrunið reið yfir. Kannski tók hann 100% lán og jafnvel í erlendri mynt. Prófið að gúggla Björn Mikaelsson og sjáið hvað kemur í ljós.

Helga Magnúsdóttir, 18.6.2009 kl. 18:13

24 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, Marinó, það má því miður vel vera að einhverjir hafi þegar framið sjálfsvíg.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.6.2009 kl. 22:35

25 Smámynd: Sævar Helgason

Erum við ekki föst í kviksyndinu sem Landsbankastjóarnir,Bjöggarnir,Kjartan Gunnarsson og útrásarnaglarnir - hafa komið okkur í ?

Annaðhvort borgum við IceSavereikninginn þeirra- til nágranna okkar Breta og Hollendinga  eða við lokumst hér inni á þessu skeri utan alfaraleiðar.

Við eigum þessa tvo kosti. 

Að mæta nú á Austurvöll og mótmæla IceSavesamningunum er að krefjast innilokunnar hér.

Er ekki orðið tímabært að krefjast þess að allir þessir menn sem komu þjóðinni í þetta kviksyndi verði dregnir fyrir dóm og látnir svara til saka- þá mæti ég á Austurvöll...

Sævar Helgason, 18.6.2009 kl. 23:38

26 identicon

Er ég ein um að finnast Sigurjón Þ. Árnason illa máli farinn?
"Hún [krísan] á sér afleiðingar í því . . ."
"Svo jafnar þetta alltaf sig . . . "

Að hlusta á hann tala er eins og að hlusta á ringlaðan mann . . . Og þetta var í febrúar 2008 . . .

Mér finnst fólk sem tók 100% lán og eitthvað í myntkörfu ekki vera óreiðufólk. Bankarnir gáfu grænt ljós og í fólki var element til staðar að treysta bönkunum út yfir gröf og dauða. Allt of margir hafa notað bankana sem fjármálaráðgjafa enda hafa bankarnir gefið sig út fyrir að vera það. Ofskuldsett fólk er ekki sekt, bankarnir eru sekir.

Í Skandinavíu, alla vega í Noregi, eru lánastofnanir gerðar ábyrgar fyrir þvi ef þær lána einstaklingum meira en þeir geta staðið við að greiða af. Þá er lánastofnunum gert að lækka skuldina þannig að skuldarinn geti greitt niður skuldina á ca 5 árum og haldið þokkalegu lífi fyrir sig og fjölskyldu sína á meðan. Hér er ekki og hefur aldrei verið manneskjulegt umhverfi fyrir sauðsvartann almúgann. 

Rósa (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 23:57

27 Smámynd: Harpa Björnsdóttir

Af hverju hefur enginn farið með gröfu á glæsibíla og grobbvillur auðmanna???

Harpa Björnsdóttir, 19.6.2009 kl. 00:42

28 Smámynd: Harpa Björnsdóttir

Nokkrir brandarar......takið eftir dagsetningunum....

Sól tér sortna.......(Kaupþing notaði félagið Black Sunshine til þess að fela afskriftir á töpuðum lánum og fegra þannig bókhald bankans.)

3. okt 2008

http://www.vb.is/frett/1/47978/

15. okt 2008

http://www.visir.is/article/20081015/LIFID01/852707590

http://eyjan.is/blog/2009/01/19/olafur-ser-eftir-thatttoku-i-vidskiptunum-sigurdur-einarsson-ekkert-oedlilegt-ne-ologlegt/

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/03/17/sigurdur_einarsson_telur_ad_trunadargognum_hafi_ver/

http://www.tidarandinn.is/taxonomy/term/156

Harpa Björnsdóttir, 19.6.2009 kl. 00:59

29 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

http://www.visir.is/article/20090619/FRETTIR01/112846184

 Því miður virðast mál eitthvað málum blandin hjá "hetjunni"....

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.6.2009 kl. 12:15

30 identicon

Já Friðrik, eitthvað voru þau málum blandin.   En þetta sýnir líka hvernig bloggheimar og netið virkar. Rokið er upp til handa og fóta að lofsama eða aflífa fólk án þess að spyrja hvað liggur að baki.   Skúrkar og hetjur.  Bankarnir eru skúrkar og það þurfti ekkert að kanna það nánar þegar þessi frétt birtist, auðvitað var maðurinn hetja og bankinn skúrkur.

p.s. Ég er með erlent lán hjá Frjálsa og það dugði mér eitt símtal (í október 2008) og svo undirskrift til þess að létta mína greiðslubyrði.  Auðvitað frestun á vandamálum að láta frysta eða greiðslujafna, en ég get þó búið í húsinu "mínu".   

Þóra Dögg (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 12:33

31 identicon

Það er í raun sama hvort maðurinn var óráðsíumaður eða ekki, hvort hann tók gáfuleg lán og í hve háu hlutfalli.  Þegar bankarnir geta keypt eignir fólks sem metnar eru á 75 milljónir á 5 milljónir og fólkið situr samt eftir með skuldirnar og heldur áfram að greiða af þeim, þá er eitthvað verulega mikið að.  Bankinn á þá eignina og heldur áfram að innheimta af henni.

Svanhildur Steinars

Svanhildur Steinars (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 14:30

32 Smámynd: Einar Karl

Frjálsi var dótturfélag SPRON. SPRON féll, FME tók yfir og lokaði.

Er þá Frjálsi - og allar eigur hans, þ.m.t. hús innleyst á nauðungaruppboði - ekki beint eða óbeint eign ríkisins, okkar skattgreiðenda? Var verið að rústa húsi í eigu ríkisins?

Margir eiga um sárt að binda vegna banka- og gengishruns. Ég held ekki að maðurinn á Álftanesi sé góður fulltrúi þeirra.

Einar Karl, 20.6.2009 kl. 18:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband