8.7.2009
Hagur lands og þjóðar
Aftur ætla ég að rifja upp áður en lengra er haldið. Í þetta sinn er það pistill í pistli sem ég birti 11. ágúst í fyrra undir heitinu Máttur athugasemdanna - einlægur pistill ungrar konu. Að gefnu tilefni. Pistillinn í pistlinum er verðugt umhugsunarefni þegar við íhugum hvort við kærum okkur um að láta auðlindir okkar eða nýtingu þeirra af hendi til misviturra, gráðugra einkaaðila eða óþekktra, erlendra fyrirtækja og auðhringa sem eru á höttunum eftir gróða - engu öðru. Náttúran og auðlindirnar eru aleiga okkar. Viljum við fórna þeim þjóðargersemum um ókomna tíð á altari græðgi og skammtímahagsmuna? Ekki ég.
Kjarni pistilsins í pistlinum er hagur lands og þjóðar. Ég fæ ekki séð að einkavæðing t.d. bankanna hafi skilað landi og þjóð öðru en tæknilegu gjaldþroti, versnandi lífskjörum, skömm og svívirðu. Eða hvað? Ég hef ekki heldur orðið vör við að einkavæðing hafi lækkað verð eða bætt kjör neinna annarra en gráðugra manna sem svífast einskis í ásókn sinni í peninga, sjálfum sér til handa. Skítt með hag lands og þjóðar. En hér er pistillinn í pistlinum eins og hann var birtur í ágúst 2008.
Á þessum níu mánuðum sem ég hef bloggað hafa verið skrifaðar ótalmargar, stórkostlegar athugasemdir við pistlana mína. Sumar langar, aðrar stuttar en svo innihaldsríkar margar hverjar að þær ættu heima sem sjálfstæðir pistlar. Svo dettur maður stundum inn á pistla annarra sem skrifa athugasemdir við manns eigin - og þannig var það í þessu tilfelli.
Þann 28. júní sl. skrifaði ég pistilinn Var "Fagra Ísland" tálvon eða blekking? og birti þar myndband sem ég hafði klippt saman. Örstutt athugasemd við hann leiddi mig áfram að þessum sem ég birti hér. Ég ætlaði að birta hann fyrir löngu og fékk leyfi höfundar, en tíminn hefur hlaupið ansi hratt í sumar og annir verið miklar svo ég er núna fyrst að drífa í þessu.
Höfundur pistilsins er ung kona, Dagný Reykjalín. Í tölvupósti sem hún sendi mér þegar ég bað um leyfi til að birta pistilinn sagði hún m.a.: "Þessi grein er reyndar skrifuð út frá sjálfri mér og minni túlkun á þessari kynslóð og því hvernig ég þekkti afa minn. Ég er ekki að reyna að leggja honum orð í munn og ég vona að enginn túlki það þannig. Það er hins vegar hollt að hugsa til þess hvernig kynslóðin sem byggði landið hugsaði um framtíðina og horfa svo á það hvernig við erum að fara með hana."
En pistill Dagnýjar, sem eins og sjá má er skrifaður daginn eftir náttúrutónleika Bjarkar og Sigur Rósar, hljóðaði svona:
Framtíðin sem byggir á fortíðinni
Ég vaknaði eldsnemma í býtið, allt var með kyrrum kjörum hérna heima en ég gat ekki sofnað aftur. Tónleikarnir í gærkvöldi voru í fersku minni, ég fylgdist með þeim á netinu. Tónlistin var frábær, stemmningin greinilega skemmtileg en mér fannst samt pínulítið vanta uppá að þau segðu milli laga hver áherslan í baráttunni væri. Kannski var nægur áróður á staðnum sem skilaði sér ekki yfir netið, og líklega voru þessi 30.000 manns nokkuð viss á málstaðnum. En árla morguns fór ég eitthvað að hugsa, og setti saman þessa færslu:
Afi minn var Haraldur Guðmundsson, rafvirki á Dalvík. Hann var maður síðustu aldar, einna mestu tæknibreytinga og framfara í Íslandssögunni. Hann var fæddur í Skagafirði þann 28. apríl 1920, menntaður í Iðnskólanum á Akureyri og var um tíma kallaður Halli Edison fyrir færni sína við að gera við ýmis rafmagnstæki.
Hann var samtímamaður Halldórs Laxness og um tíma herbergisfélagi Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Hann var sjálfstæðismaður í gegn enda sjálfstæðisbarátta Íslendinga í algleymi á mótunarárum hans. Sjálfstæðisbaráttan snerist um að vera óháður skilningssljóu yfirvaldi og það að nýta krafta einstaklingsins í þágu allrar þjóðarinnar. Í þá daga var þjóðernishyggjan nauðsynleg í baráttunni fyrir sjálfstæði.
Í sjálfstæðisbaráttunni endurspeglaðist stolt yfir náttúrunni og auðmýkt yfir kröftum hennar. Þegar við náðum að tendra rafmagnsljós komumst við út úr vetrarmyrkrinu og þar var einn sigur á náttúrunni unninn. Margir sigrar fylgdu í kjölfarið; heita vatnið úr jörðinni kynti húsin okkar og betri farartæki gerðu okkur kleift að klífa fjöll og sigla firði. Maðurinn vann sífellt nýja sigra á annars ógnarvaldi náttúrunnar. Þetta ógnarvald bar með sér óttablandna virðingu.
Halli afi var virkjunarsinni af gamla skólanum. Á ferðum sínum um landið mat hann ár og vatnsföll í megavöttum, sama hversu litlar sprænurnar væru. Hann starfaði m.a. við að reisa Blönduvirkjun á sínum tíma og virkjaði einnig bæjarlækinn sem enn í dag veitir æskuheimili hans orku til daglegra starfa. Öll nýting á landsins gæðum átti hins vegar að fela í sér virðingu fyrir náttúrunni og öflum hennar. Þess vegna var hann ekki síður ákaflega mikið og einlægt náttúrubarn, og jafnvægi í náttúrunni var honum mikilvægt. Það fól í sér hógværa nýtingu. Hann var veiðimaður, sem lá bæði á greni í marga sólarhringa til að vernda fuglavarpið og veiddi hæfilegt magn af rjúpu í jólamatinn.
Ég er sannfærð um að þrátt fyrir að Halli afi hafi verið hlynntur því að nýta náttúrunnar gæði fyrir fólkið í landinu þá gæti hann í engu móti samþykkt svo gerræðislegar framkvæmdir sem framundan eru.
Í fyrsta lagi vegna þess að þær hafa ekki þjóðarhag að leiðarljósi heldur þjóna fyrst og fremst fjárhagslegum hvötum alþjóðlegra stórfyrirtækja sem í eðli sínu leita þangað sem orkan er ódýrust. Það þýðir að íslenska þjóðin fær eins lítið og mögulegt er fyrir orkuna en fórnar því sem er henni verðmætast af öllu, því sem mótaði sjálfsmynd hennar.
Í öðru lagi vegna þess að þær sýna hvorki hógværð né virðingu fyrir íslenskri náttúru eða landslagi. Frá hinu stærsta til hins smæsta.
Í þriðja lagi vegna þess að þær rýra framtíðarmöguleika komandi kynslóða og binda þær til þjónustu við alþjóðleg stórfyrirtæki sem eru ekki þekkt fyrir að aumka sig yfir litla manninn ef það þjónar ekki hagsmunum þeirra. Hvers vegna ættum við að vera eitthvað öðruvísi í þeirra augum en aðrir, annarsstaðar í heiminum.
Þegar ég hugsa um öll þau ferðalög um landið sem ég fór með afa og ömmu, þar sem afi þekkti nærri hverja þúfu, skil ég betur hvernig 20. aldar þjóðin hugsaði. Við í nútímanum erum hins vegar komin langt úr takti við þennan hugsunarhátt og erum að missa tengslin við það sem mótaði okkur.
Kannski er náttúruvernd of rómantískt hugtak fyrir okkur nútímafólkið sem erum knúin áfram af efnislegum gæðum, þrátt fyrir að það hafi verið helsti drifkraftur sjálfstæðisbaráttunnar á síðustu öld og gerði okkur að því sem við erum í dag.
Halli afi lést á þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2000, daginn sem íslensk jörð skalf undir fótum okkar.
--------------------------------------------------------------------
Í seinni athugasemd sinni, þegar ég var búin að svara henni, segir Dagný m.a.: "... ég er ekki í nokkrum vafa um hvað 20. aldar sjálfstæðismaðurinn hefði valið stæði hann frammi fyrir þessum spurningum núna. Hann hefði hugsað laaaangt fram í tímann, miklu lengra en það sem er verið að gera núna, og hefði hugsað um hag afkomenda sinna langt framar síns eigin.
En þetta væri samt sem áður erfitt vegna þess að krafan um praktískar skyndilausnir er svo rík. Glópagullinu er veifað framan í okkur. En við eigum ekki að hlusta á vælið í þeim sem halda því fram að allt falli hérna í eymd og volæði ef við förgum ekki Íslandi. Þeir sem hafa sterka sjálfsmynd, hafa val og kunna að forgangsraða ná að bjarga sér sjálfir. Ef við virkjum allt sem hægt er að virkja fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki sem senda gróðann úr landi, höfum við ekki aðeins misst þetta val heldur líka fórnað því sem býr til sjálfsmyndina. Hvar verðum við þá?
Við höfum alltaf verið rík af því stoltið yfir landinu og fólkinu okkar höfum við ekki getað metið til fjár, og sennilega ekki kært okkur um það fyrr en núna. Þetta eru allt siðferðilegar spurningar eins og Stefán segir í viðtalinu góða."
Þarna í lokin er Dagný að vísa í Spegilsviðtalið við Stefán Arnórsson (sjá tónspilara) sem ég nefndi meðal annars í síðasta pistli. Á meðan við eigum ungt fólk sem hugsar og skrifar eins og Dagný er enn von.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:45 | Facebook
Athugasemdir
"Á meðan við eigum ungt fólk sem hugsar og skrifar eins og Dagný er enn von."
Svo sannarlega, þarna fer saman þrennan heilaga "virðing, trúnaður og heilindi", megum við eignast margar slíkar Dagnýjar á þessari öld.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 8.7.2009 kl. 08:02
Við svona lesningu finnur maður hvað er gott að hvíla sig á öllu froðusnakkinu öðru hvoru.
Takk fyrir frábæra pistla Lára Hanna og Dagný fyrir framúrskarandi skrif.
Ragnar Þór Ingólfsson, 8.7.2009 kl. 11:15
Mjög þarft innlegg hjá þér Lára Hanna að vanda.
Um þetta snýst sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar í dag og 20. aldar hugsunarháttur afa Dagnýjar á fullt erindi við okkur í dag. Landið, sagan, náttúran og tungan og síðast en ekki síst að standa vörð um sjálfstæði lands og þjóðar. Við verðum að hætta að eltast við glópagull, eins og Dagný nefnir réttilega, og hætta hugsunarhættinum ,,Þetta reddast".
Útrásin var glópagull gærdagsins. Ég hef haldið því fram að glópagullið, sem sumir stjórnmálamenn vilja að við eltumst við í dag, sé aðildin að ESB. Enda eru núna flestir af þeim sem voru talsmenn útrásarinnar og einkavæðingarinnar, talsmenn ESB aðildar.
Fá draumaraddir Norðursins áfram að hljóma?
Látum stjórnmálaelítuna um að klára málið.
Nýfrjálshyggjubandalagið ESB.
Þjóðin er beygð en má ekki brotna.
Jón Baldur Lorange, 8.7.2009 kl. 12:10
Jón Frímann, ég spyr á móti. Hvað er að því að láta þjóðina taka sjálfa ákvörðun um hvort sækja eigi um aðild að ESB og hefja aðildarviðræður? Látum þjóðina kjósa um framtíð sína. Ég tek undir með þér þegar þú segir: ,,Enginn hefur rétt á því að taka valdið og valdið (innskot mitt) af íslensku þjóðinni." Höfum þess vegna tvölfalda atkvæðagreiðslu!
Jón Baldur Lorange, 9.7.2009 kl. 10:19
Átti að sjálfsögðu að vera ,, .... að tak valið og valdið ...."
Jón Baldur Lorange, 9.7.2009 kl. 10:20
Jón Frímann. Þetta lýsir svo miklum grundvallarmisskilningi og ranghugmynd að ekki er nú von á góðu úr þessari átt. Fyrri atkvæðagreiðslan um ESB snýst um það að láta ÞJÓÐINA ákveða hvort HÚN vilji gerast aðili að ESB með þeim kostum og göllum, sem fylgir aðild. Það er 27 ríki í ESB í dag og við vitum þess vegna hvað það þýðir að vera aðili að sambandinu. Grundvallarlögin eru þekkt, sameiginlegar stefnur eru þekktar og regluverk ESB er þekkt. Atkvæðagreiðslan gæti síðan snúist um það að vera einföld þ.e. JÁ eða NEI, eða að viðhafa svonefnd raðval, sem prófessor Björn Stefánsson hefur útfært og fært rök fyrir. Þar yrði hægt að setja upp kosti sem þjóðin kýs um varðandi áherslur eða skilyrði í aðildarviðræðum. Þessum skilyrðum þyrfti síðan samninganefnd Íslands að halda á lofti í samningaviðræðum, sem gæfi henni skýrara umboð, en t.d. Icesave samninganefndinni, sem ég tel að hafa mistekist ætlunarverk sitt, einmitt vegna þess að hún hafði ekki óskorað umboð frá þjóðinni og kom heim með samning sem þjóðin mun aldrei samþykkja. Þá er betra heima setið en af stað farið.
Seinni atkvæðagreiðslan snýst síðan um að ÞJÓÐIN hafi síðasta orðið þegar aðildarsamningur liggur fyrir með ákvæðum um aðlögun Íslands að grunnregluverki ESB með hugsanlega 1-3 ákvæðum um sérlausnir sem fengust fram með samningum við ESB.
Jón Frímann, viðurkenndu það bara að þið ESB sinnar þorið ekki að spyrja þjóðina. Þið hræðist lýðræðið eins og aðrir heitir ESB sinnar um alla Evrópu, sem ítrekað hafa fært valdið frá fólkinu til stjórnmálaelítunnar til að koma í veg fyrir að Evrópusamruninn stöðvist.
Jón Baldur Lorange, 9.7.2009 kl. 17:00
Veit einhver hvenær Silfur Egils og Kastljós byrjar aftur? Ef einhvern tíma var þörf fyrir umræður um stjórnmál þá er það núna áður en kosið er um iceslave. Þetta er ansi hentugt fyrir ríkisstjórnina að ríkisfjölmiðlar fjalli ekki rækilega um þessi mál núna.
Arnbjörn (IP-tala skráð) 9.7.2009 kl. 20:08
Silfur Egils og Kast ljós verða ekki aftur á dagskrá. Þegar mesta vesenið er búið verður fræðsluefnum hvernig við eigum að koma okkur að verki. og þar verða allir með!!
Wolfang
Eyjólfur Jónsson, 10.7.2009 kl. 02:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.